Staff meeting  PCC Bakki – Members of Framsýn

On Monday 8th of January there will be a meeting held for Framsýn members working in PCC Bakki. The meeting is between 15:00 and 16:00, that is during employees working hours. The meeting is at The Unions office, Garðarsbraut 26 in Húsavík.

The meetings agenda is the election of two shop stewards from the ranks of the employees. Also to review in general terms the rights and salary of the employees.

The meeting is held in consultation with PCC Bakki supervisors.

Framsýn labour union

 

Veikindi á meðgöngu

Af og til fáum við fyrirspurnir um fæðingarorlof hingað til okkar á Skrifstofu stéttarfélaganna. Það á sérstaklega við ef um einhverskonar undantekningar er að ræða eins og ef meðganga er erfið og verðandi móðir neyðist til þess að hætta að vinna fyrr en áætlað er. Í slíkum tilfellum er möguleiki á að fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði fyrir fæðingu. Um þessi tilfelli segir á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs:

„Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. (þungaðar konur sem eru að fá greiddar atvinnuleysisbætur) meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar niður frá þeim tíma og hefst þá hið eiginlega fæðingarorlof. Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs þarf að fylgja læknisvottorð sérfræðilæknis sem rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu og staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á, þar sem fram kemur hvenær umsækjandi hætti störfum, hvenær launagreiðslur féllu niður og hvenær veikindaréttur var fullnýttur‟.

Guðrún hættir í stjórn Landsmenntar

Fyrir helgina var haldinn síðasti stjórnarfundurinn á árinu í Fræðslusjóðnum Landsmennt sem Framsýn á aðild að líkt og 15 önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands. Stjórnarformaður sjóðsins er Aðalsteinn Árni Baldursson.  Á fundinum var m.a. samþykkt að gera breytingar á styrkjum til félagsmanna sjóðsins, það er til hækkunar, frá og með næstu áramótum. Það er afar gleðilegt að sterk staða sjóðsins skuli leiða til þess að auka réttindi félagsmanna varðandi endurgreiðslur vegna náms- eða námskeiða sem þeir sækja. Heimasíða stéttarfélaganna mun fjalla sérstaklega um breytingarnar þegar búið verður að útfæra þær frekar.  Í stjórn sjóðsins eru sex fulltrúar, þrír frá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins sem aðild eiga að sjóðnum og þrír frá Samtökum atvinnulífsins. Guðrún Eyjólfsdóttir sem setið hefur í stjórn sjóðsins undanfarin ár lét af störfum á fundinum eftir farsælt og gott starf fyrir sjóðinn. Í hennar stað kemur Bergþóra Halldórsdóttir lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins.  Um leið og Guðrúnu eru þökkuð vel unnin störf í þágu Landsmenntar er Bergþóra boðin velkomin til starfa í stjórn sjóðsins.

 

 

Tvær magnaðar, Kristín Njálsdóttir hefur verið forstöðumaður Fræðslusjóðsins Landsmenntar  frá stofnun hans árið 2000. Með henni er sú frábæra kona ,Guðrún Eyjólfsdóttir,  sem hætti í stjórn sjóðsins í síðustu viku eftir farsælt starf.

Gleði á jólafundi Framsýnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar auk starfsmanna félagsins, trúnaðarmanna á vinnustöðum og stjórna deilda innan félagsins komu saman til fundar á föstudaginn. Auk venjulegra fundarstarfa var boðið upp á heimatilbúin skemmtiatriði og kvöldhressingu frá Fosshótel Húsavík. Fundurinn fór vel fram og var mikið hlegið þegar leið á kvöldið enda gaman saman, sérstaklega þegar félagsmenn Framsýnar eiga í hlut. Sjá myndir frá fundinum:

Framsýn samþykkir aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu áreiti

Innan Framsýnar hefur verið unnið að því síðustu vikurnar að ljúka vinnu við gerð aðgerðaráætlunar gegn einelti og kynbundnu áreiti. Áætlunin nær til starfsmanna  Framsýnar og allra þeirra sem starfa á vegum félagsins að málefnum sem heyra undir starfsemi Framsýnar. Að vinnunni hafa komið fjölmargir, það er stjórn félagsins, trúnaðarráð, trúnaðarmenn á vinnustöðum og starfsmenn stéttarfélaganna. Fyrirmyndin sem unnið hefur verið eftir er skjal sem Starfsgreinasamband Íslands vann um þetta mikilvæga mál. Sambandið ætlast til þess að stéttarfélögin innan sambandsins sem eru 19 taki upp þessa áætlun sem Framsýn hefur nú samþykkt að gera, það var gert á vinnufundi síðasta föstudag. Aðgerðaráætlunin er meðfylgjandi þessari frétt en verður í framhaldinu aðgengileg á heimasíðu stéttarfélaganna:

Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu áreiti

Stefna 

Öllum einstaklingum sem starfa hjá Framsýn, stéttarfélagi eða taka
með öðrum hætti þátt í starfi þess skal tryggt öruggt umhverfi og virðing. Í
því felst að þurfa ekki að þola einelti eða annars konar ofbeldi. Ábyrgð á öryggi
starfsfólks og þátttakenda í starfinu, aðgerðaráætlun og viðbrögð við málum
er á ábyrgð stjórnenda Framsýnar, stéttarfélags.

Skilgreining á einelti og kynbundnu ofbeldi 

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan
hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Í þessari aðgerðaráætlun er kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni nefnt einu nafni kynbundið ofbeldi.

Samþykkt á fundi stjórnar og trúnaðarráðs 8. desember 2017.

Einelti:

Birtingamyndir eineltis

Einelti er niðurlægjandi og særandi. Það getur bæði falist í því sem gert er og því sem látið

er ógert. Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir t.d:

  • Að starf, hæfni og verk starfsmanns/þátttakanda í starfi eru lítilsvirt.
  • Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum.
  • Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar.
  • Særandi athugasemdir.
  • Rógur eða útilokun frá félagslegum samskiptum.
  • Árásir á starfsmann/þátttakanda í starfi eða gagnrýni á einkalíf hans.
  • Að skamma starfsmann/þátttakanda í starfi eða gera hann að athlægi.
  • Líkamlegar árásir eða hótanir um slíkt.
  • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
  • Móðgandi símtöl.
  • Lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Óþægileg stríðni.
  • Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis eða þjóðernis.
  • Þöggun.

Ef þú verður fyrir einelti 

  • Segðu einhverjum sem þú treystir frá reynslunni.
  • Skráðu niður atburðarrásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var.
  • Hafðu samband við formann Framsýnar, trúnaðarmann félagsins á Skrifstofu stéttarfélaganna eða varaformann Framsýnar allt eftir því hvað þér líður best með og greindu frá því sem gerðist. Sé framkvæmdastjóri félagsins annar en formaður Framsýnar er einnig hægt að tilkynna einelti til hans.
  • Gerðu grein fyrir því hvernig þú óskar eftir því að brugðist verði við.

Ef þú verður vitni að einelti 

  • Ef þú treystir þér til; talaðu við gerandann eða gerendurna og láttu þá vita að þér finnist hegðun hans/þeirra vera einelti eða óviðeigandi.
  • Segðu formanni Framsýnar, trúnaðarmanni félagsins á Skrifstofu stéttarfélaganna eða varaformanni Framsýnar frá því. Sé framkvæmdastjóri félagsins annar en formaður Framsýnar er einnig hægt að tilkynna einelti til hans.
  • Trúnaðarmanni sem fær upplýsingar um einelti ber að tilkynna það til formanns Framsýnar eða framkvæmdastjóra félagsins sé hann annar en formaður félagsins.Velji hann að gera það ekki getur hann vísað málinu til stjórnar Framsýnar, stéttarfélags. 

Trúnaðarmanni, formanni Framsýnar eða varaformanni ber að: 

  • Tala einslega og í trúnaði við þann sem hefur orðið fyrir einelti, viðkomandi þarf að hafa fulla stjórn á því hvernig framhaldið verður.
  • Meta stöðuna í samráði við þolandann, hversu alvarlegt er eineltið, er ástæða til að kalla til ráðgjafa úr hópi samstarfsmanna/félaga sem viðkomandi treystir eða fagaðila sem Framsýn, stéttarfélag hefur tryggt sér aðgang að.
  • Gera gerandanum/gerendunum grein fyrir því að um einelti sé að ræða og breyttrar hegðunar sé krafist.
  • Ef gerandi og þolandi sættast á það má kalla þau saman í ráðgjöf, helst með fagaðila, og ákvarða hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
  • Til að koma í veg fyrir slúður og slæman starfsanda ber að bjóða upp á samtal við félaga sem eru í návígi við geranda og þolanda og setja þau inn í málin. Eins og aðrar aðgerðir ber að gera þetta í samráði við þolanda.

Kynbundið ofbeldi: 

Birtingamyndir kynbundins ofbeldis 

Kynbundið ofbeldi getur birst sem óvelkomið áreiti, andlegt ofbeldi eða hreinlega líkamlegt ofbeldi. Upplifun þess sem fyrir ofbeldi verður getur verið mjög misjöfn og er hún mælikvarðinn á alvarleika ofbeldisins.

Kynbundið ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið, framkomu sem ætlað er að knýja einstaklinga til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni og niðurlægingu fyrir þann sem fyrir áreitninni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans.

Kynbundið ofbeldi getur tekið á sig ýmsar myndir t.d: 

  • Dónalegum bröndurum og kynferðislegum athugasemdum í máli, myndum eða skriflegum athugasemdum.
  • Óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni.
  • Snertingu sem ekki er óskað eftir.
  • Endurteknum beiðnum um kynferðislegt samband sem mæta áhugaleysi eða er hafnað.
  • Hótun um nauðgun.
  • Nauðgun.

Ef þú verður fyrir áreiti eða ofbeldi 

  • Mótmæltu og gefðu skýr skilaboð um að hegðunin sé óæskileg
  • Ef þú átt erfitt með að mótmæla hegðuninni munnlega þá má skrifa bréf. Skráðu niður hvað gerðist og hver upplifun þín var.
  • Skráðu niður atburðarrásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var.
  • Ræddu málið við fólk sem þú treystir, mögulega hafa fleiri sömu reynslu eða hafa lent í svipuðum aðstæðum.
  • Hafðu samband við formann Framsýnar, trúnaðarmann félagsins á Skrifstofu stéttarfélaganna eða varaformann Framsýnar allt eftir því hvað þér líður best með og greindu frá því sem gerðist. Sé framkvæmdastjóri félagsins annar en formaður Framsýnar er einnig hægt að tilkynna áreiti eða ofbeldi til hans.

Trúnaðarmanni, yfirmanni á staðnum eða formanni Framsýnar ber að: 

  • Tala einslega og í trúnaði við þann sem hefur orðið fyrir áreiti eða ofbeldi, viðkomandi þarf að hafa fulla stjórn á því hvernig framhaldið verður.
  • Afla gagna um málsatvik, smáskilaboð, tölvupóstar og vitnisburður annarra o.fl..
  • Meta stöðuna í samráði við þolandann, hversu alvarlegt var atvikið og er ástæða til að kalla til ráðgjafa frá fagaðila eða Framsýn.
  • Tala við gerandann og fá hans útgáfu af því sem gerðist.
  • Ef gerandi og þolandi sættast á það má kalla þau saman í ráðgjöf, helst með fagaðila og ákvarða hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
  • Til að koma í veg fyrir slúður og slæman starfsanda ber að bjóða upp á samtal við félaga sem eru í návígi við geranda og þolanda og setja þau inn í málin. Eins og aðrar aðgerðir ber að gera þetta í samráði við þolanda.
  • Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða ber að styðja þolandann í að leggja fram kæru.
  • Gera öllu starfsfólki/félögum grein fyrir því að kynbundið ofbeldi, áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum/í félaginu.
  • Gera öllu starfsfólki grein fyrir aðgerðaáætluninni og birta hana á vef félagsins.

 

Fjölmargir hafa komið að því að ganga frá aðgerðaráætlun Framsýnar gegn einelti og kynbundnu einelti sem samþykkt var á fundi félagsins síðasta föstudag.

 

 

Ríkistjórnin hlustaði á Framsýn ef marka má stjórnarsáttmálann

Þegar stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu yfir milli Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og VG kom stjórn Framsýnar skoðunum félagsins á framfæri við formenn flokkanna með netpósti og bað þá að taka tillit til mikilvægra réttindamála verkafólks og stöðu þeirra á íslenskum vinnumarkaði. Einnig var komið inn á mikilvægi þess að halda landinu öllu í byggð ekki síst með öflugri heilbrigðisþjónustu og fjölbreyttu atvinnulífi.
Félagið fylgdi þessum áherslum eftir með ályktunum og auglýsingum í fjölmiðlum fyrir kosningarnar. Þar voru nokkur atriði áréttuð s.s. afnám verðtryggingar, mikilvægi keðjuábyrgðar, efling framhaldsskóla, umhverfismál, vegmál, ljósleiðaravæðing, lækkun tekjuskatts hjá þeim tekjulægstu, hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra og síðast enn ekki síst að tekið yrði á þeim mikla dvalar- og ferðakostnaði sem fólk verður fyrir sem þarf að leita sér læknis- eða sérfræðiþjónustu fjarri heimabyggð.
Þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður er ekki annað að sjá en að stjórnarflokkarnir hafi tekið ábendingum Framsýnar vel og komið þeim fyrir í sáttmálanum sem er til fyrirmyndar.
Í sáttmálanum eru sett fram markmið um velferð, mannréttindi og loftslagsmál, eflingu Alþingis og aukið þverpólitískt samráð, stórsókn í uppbyggingu á innviðum um allt land og eflingu heilbrigðis- og menntakerfa. Um 100 aðgerðir og áherslumál er að finna í sáttmálanum í þágu þessara markmiða og annarra verkefna.
Framsýn mun að sjálfsögðu fylgja því eftir að ríkistjórnin standi við stjórnarsáttmálann er viðkemur ekki síst velferð og málefnum verkafólks í landinu.
Áherslur og aðgerðir í stjórnarsáttmálanum eru meðal annars þessar og snerta skoðanir Framsýnar:

• Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.

• Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.

• Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.

• Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.

• Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.

• Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.

• Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.

• Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.

• Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.

• Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.

• Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.

Smelltu hér til að lesa stjórnarsáttmálann í heild sinni

 

Öflugt stéttarfélag á sterkum grunni – Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar

Ósk Helgadóttir varaformaður fór yfir starf Framsýnar í stuttu máli á jólafundi félagsins um helgina. Stjórn og trúnaðarráð félagsins auk trúnaðarmanna, stjórnum deilda og starfsmanna stéttarfélaganna tóku þátt í fundinum. Hér má lesa ávarp varaformannsins:

Nú þegar árið er senn á enda er við hæfi að staldra aðeins við, líta um öxl yfir  liðna mánuði, en freista þess jafnframt að hvarfla augum til komandi árs.

Árið 2016 kvaddi í skugga sjómannaverkfalls sem teygði langa fingur sína allt fram í febrúarmánuð. Verkfall er nokkuð sem er allra síðasti kostur, neyðarbrauð sem fæstir kjósa. Margir aðrir en sjómenn liðu fyrir ástandið, svo sem fiskvinnslufólk sem víða um land varð fyrir verulegum tekjumissi sökum hráefnisskorts.

Síðustu ár hefur verið rífandi uppgangur í atvinnulífi víðast hvar í Þingeyjarsýslum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi. Ég gæti vissulega nefnt margt, eins og til dæmis gríðarlegan vöxt ferðaþjónustunnar, ég gæti nefnt hina nýju atvinnustarfsemi, sem er kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka og þau mörgu afleiddu störf sem skapast hafa í kringum það verkefni. Hér hefur staðið yfir mesta iðnaðaruppbygging í sögu Norðurlands og hundruð manna verið störfum á Bakkasvæðinu og í kringum orkuuppbygginguna því samhliða á Þeistareykjum. Verktakar, verkamenn, iðnaðarmenn og sérfræðingar af öllum mögulegum þjóðernum. Álag hefur því verið mikið á starfsmenn skrifstofu stéttarfélaganna, en þau  hafa staðið vaktina hér með miklum sóma, auknum framkvæmdum fylgir eðlilega að í fleiri horn þarf að líta.

Vaðlaheiðargöng munu væntanlega verða tekin í notkun seint á næsta ári, þau koma til með að greiða aðgang fólks á okkar atvinnusvæði að fjölbreyttari vinnumarkaði. Göngin annars vegar og uppbyggingin á Bakka hins vegar munu  efla byggð í Þingeyjarsýslu og stuðla að samfelldu atvinnusvæði frá Eyjafirði og austur um.

En í öllum þessum hamagangi megum við samt ekki gleyma að hlúa að þeim atvinnugreinum sem  hafa verið kjölfestan okkar. Það er sótt að landbúnaði og sjávarútvegi. Við skulum einnig hafa það í huga þó að töluverð fólksfjölgun hafi þegar orðið í kringum aðal atvinnusvæðið á Bakka, þá er staðan ekki þannig í öllum byggðarlögum Þingeyjarsýslna. Og um þau ber okkur að standa vörð.

Eitt af verkefnum okkar á komandi ári verður að minnast 100 ára afmælis verkakvennafélagsins Vonar, en það var stofnað af  konum hér í bæ 28. apríl árið 1918. Við minnumst þessara tímamóta með ýmsum hætti, meðal annars með ljósmyndasýningu af konum við störf, og hugmyndin er að þær myndir sem valdar verða á sýninguna muni að henni lokinni prýða veggi í nýuppgerðu húsnæði okkar hér á efri hæðinni, en húsnæðið er að mestu í útleigu.

Annað verkefni sem komið er á koppinn tengt afmælinu er útgáfu bókar sem hefur að geyma ljóð eftir Björgu Pétursdóttur, en Björg var aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins.

Á stofnfundi Vonar var samþykkt að árstillagið yrði 1kr. og var það stofnfé að svokölluðum sjúkrasjóði sem eingöngu var notaður til að styrkja konur í veikindum. Sjóðurinn var látinn standa óhreyfður á vöxtum þar til hann var orðinn 1000 kr, þá mátti úthluta vöxtunum. Þessi samtryggingarsjóður Vonarkvenna  átti eftir að létta undir á heimilum þar sem veikindi steðjuðu að og styrktu félagskonur sjóðurinn sinn með ýmsum hætti, s.s. tombólum og kartöflurækt.

Ég hóf þennan lestur minn á því að nefna sjómannaverkfallið. Sjómenn innan  Framsýnar stóðu þar keikir sína vakt, 10 vikna verkfall tekur vissulega í pyngjuna, en  okkar menn sóttu bætur í verkfallssjóð félagsins, og voru það almennt hærri greiðslur en önnur félög innan Sjómannasambands Íslands greiddu. Ég nefni þetta af því að  við skulum halda því til haga að sjóðir félagsins hafa ekki orðið til að sjálfu sér. Eins og sjúkrasjóður Vonarkvenna hafa þeir sprottið af litlum efnum forvera okkar sem ávöxtuðu sitt fé með framsýni og dug og fólu okkur það til áframhaldandi varðveislu.

Hvað komandi ár ber í skauti sér veit víst enginn, en skulum horfa bjartsýn fram á veginn. Snemma næsta árs munum við hefja undirbúning að mótun kröfugerðar vegna væntanlegra kjaraviðræðna við okkar viðsemjendur, en kjarasamningar eru lausir á næsta ári.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar gefur gefur meðal annars á að líta fyrirheit um bættar samgöngur, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og styrkingu atvinnu – og byggðamála. Hvort saman fara orð og efndir á eftir að koma í ljós, en það er okkar hlutverk að standa um það vörð og fylgja málum eftir.

Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að félagið okkar sé sterkt félag. Við eigum öfluga sjóði sem við getum sótt í á erfiðum tímum, góðan aðgang að starfsmenntastyrkjum, orlofskosti höfum við góða og samningurinn við flugfélagið Erni er ein mesta kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn sína.

Já, við erum sterk. Framsýn veitir árlega fjölda styrkja beint inn í samfélagið, við erum bakhjarlar í æskulýðs– og íþróttastarfsemi í héraðinu, veitum styrki til menningarmála, stöndum fyrir fundum og viðburðum af ýmsum toga og  ályktum um ýmis málefni. Við látum rödd okkar heyrast, erum stólpi í samfélaginu.

En mannauður er samt okkar mesti styrkur, það er sá styrkur er liggur í þeim öflugu einstaklingum sem vinna fyrir félagið okkar. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf, fórna tíma sínum og sinna því sem það er kosið til eða ráðið til að starfa. Og styrkur okkar til framtíðar er það unga fólk sem kýs að starfa fyrir félagið okkar. Kraftmiklir einstaklingar í Framsýn – ung hafa látið að sér kveða og haldist það starf áfram öflugt er framtíð okkar félags björt.

Kæru vinir. Hafið þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsmanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gleði og hamingja í jólakaffi stéttarfélaganna

Að venju lagði fjölmenni leið sína í jólakaffi stéttarfélaganna í dag, það er fólk á öllum aldri. Hefð er fyrir því að félögin standi fyrir viðburði sem þessum í desember á hverju ári. Mikil ánægja er meðal bæjarbúa og gesta með framtakið, það er að félögin bjóði öllum þeim sem vilja að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og þiggja veitingar og  hlýða á frábær tónlistaratriði frá tónlistarskólanum á Húsavík. Stéttarfélögin þakka fyrir sig. Sjá myndir: 

Nemendur FSH í heimsókn

Í gær, mánudaginn 4. desember komu nokkrir nemendur Framhaldsskólans á Húsavík í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna til þess að fræðast um tilgang og starfsemi stéttarfélaga. Tekið var á móti þeim með stuttri glærusýningu um viðfangsefnið og nemendum svo boðið upp á að spyrja spurninga. Einnig var nemendum boðið upp á hinar sívinsælu Framsýnar-húfur.

Þessar heimsóknir eiga sér langa sögu og eru alltaf jafn ánægjulegar. Eins og oftast áður er það Ingólfur Freysson sem stendur vakt kennara í þessari heimsókn.

Hangikjöt í hádeginu á Garðarsbraut 26

Síðastliðin föstudag, 1. desember gerðu starfsmenn á Garðarsbraut 26 sér dagamun í hádeginu í tilefni að því að stutt er til jóla. Boðið var upp á hangikjöt með jafning og öðru tilheyrandi meðlæti. Í eftirrétt var ís og ávextir upp á gamla mátann. Eftirfarandi myndir eru frá þessari stundu.

3,6% atvinnuleysi í október

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 201.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í október 2017, sem jafngildir 82% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 193.800 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,6%.

Samanburður mælinga fyrir október 2016 og 2017 sýna að atvinnuþátttaka fólks stendur í stað. Þó að starfandi fólki hafi fjölgað um 4.900 lækkaði hlutfall þeirra af mannfjölda um 0,8 prósentustig. Atvinnulausir eru um 2.000 fleiri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra jókst um 0,9 prósentustig. Alls voru 44.300 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 1.700 manns frá því í október 2016 en þá voru þeir 42.600.

Lesa má nánar um framkvæmd og aðferð rannsóknarinnar á vef Hagstofunnar.

Arnór uppfærir vefinn

Arnór Aðalsteinn Ragnarsson hefur tekið að sér viðhald á vef stéttarfélaganna, Framsyn.is. Arnór sem hefur lokið prófi í vefþróun frá Tækniskólanum er nýlega fluttur til Húsavíkur með sína fjölskyldu og hefur hafið sjálfstæðan rekstur í vefhönnun, vefsíðugerð og aðra slíka þjónustu. Arnór kemur til með að þjónusta vefsíðuna eftir þörfum.

Þess má geta að aðrir sem kynnu að hafa áhuga á þjónustu Arnórs geta náð í hann í síma 8669685.

Hér að ofan má sjá Arnór vera búinn að koma sér fyrir á Garðarsbraut 26 ásamt Aðalsteini. J. Halldórssyni, starfsmanni stéttarfélaganna.

Framsýn skorar á ráðamenn að bæta stöðu sjúklinga

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér meðfylgjandi áskorun til ráðamanna þjóðarinnar sem þessa dagana vinna að því að koma saman stjórnarsáttmála fyrir verðandi ríkistjórn, verði hún að veruleika. Áskorunin varðar stöðu fólks á landsbyggðinni þar sem heilbrigðisþjónusta hefur verið skorin niður eða hún skert í skjóli hagræðingar.

Gríðarlegur kostnaður er því fylgjandi fyrir þá fjölmörgu aðila sem þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á sama tíma og borið er við hagræðingu og sparnaði fyrir ríkið er kostnaðinum varpað beint í fangið á sjúklingum og veiku fólki sem þarf á þessari þjónustu að halda búandi fjarri Reykjavík.

Framsýn telur stöðu þessa fólks  óviðunandi með öllu og við hana verði ekki unað lengur.

Ríkistjórn sem vill kenna sig við velferð, getur ekki lokað augunum fyrir þessum mikla vanda fólks á landsbyggðinni.

 

Áskorun

Til nýkjörinna ráðamanna þjóðarinnar

Framsýn stéttarfélag skorar á nýkjörna ráðamenn þjóðarinnar að bregðast við þeim vanda sem fólk í hinum dreifðu byggðum landsins býr við vegna langvarandi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu.

Það er lýðum ljóst að einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um landið allt er góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu.  Þrátt fyrir marg yfirlýstan vilja stjórnvalda um að tryggt verði að heilbrigðisstofnanir landsins haldi lögbundnum hlutverkum sínum og landsmenn njóti jafnra möguleika til heilbrigðisþjónustu er það ekki svo í reynd.

Mörg undanfarin ár hafa íbúar landsbyggðarinnar þurft að láta yfir sig ganga skerðingar á heilbrigðisþjónustu, þar sem hurðum er lokað á hverri sjúkrastofnuninni eftir annarri –  lokað í nafni hagræðingar, og fólki gert að sækja læknisþjónustu um langan veg, oftast til Reykjavíkur. Því fylgir gríðarlega mikill kostnaður, vinnutap og óöryggi, jafnvel fjarvistir frá fjölskyldu um lengri eða skemmri tíma.

Húsnæðisúrræði á vegum ríkisins fyrir þá sem þurfa að dvelja langdvölum fjarri heimili sínu eru af skornum skammti og niðurgreiðslur Tryggingastofnunar Ríkisins vegna ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra duga skammt þegar um langvinn veikindi eða um bið barnshafandi kvenna eftir fæðingu er að ræða. Efnaminna fólk ræður einfaldlega ekki við þennan mikla viðbótarkostnað, enda á það ekki að flokkast undir lúxus þeirra efnameiri að geta leitað eftir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Krafa Framsýnar sem byggir á heilbrigðri skynsemi, er að það komi skýrt fram í stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar að sérstaklega verði tekið á vanda þess  fólks sem þarf að sækja læknisþjónustu um langan veg með auknum framlögum er tengist ekki síst ferða- og dvalarkostnaði sjúklinga. Þá verði tekið á húsnæðisúrræðum fyrir þá aðila sem þurfa að dvelja frá heimili tímabundið vegna heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.

 

Framsýn hvetur lífeyrissjóði til að halda sínu striki

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti nýlega að hvetja lífeyrissjóði á samningssviði ASÍ og Samtaka atvinnulífsins að draga tímabundið til baka valkvæði sjóðsfélaga um að ráðstafa auknu framlagi í tilgreinda séreign.

Stjórn Framsýnar er alfarið á móti því að stíga þetta skref til baka. Lífeyrissjóðirnir hafa þegar haldið auka ársfundi til að breyta samþykktum sjóðanna svo þeir geti tekið við auknum framlögum sjóðfélaga í viðkomandi lífeyrissjóði.  Þessi hringlandaháttur ASÍ er með ólíkindum og ekki til þess fallinn að auka tiltrú fólks á lífeyrissjóðakerfinu. Þess vegna hafnar stjórn Framsýnar tilmælum miðstjórnar Alþýðusambands Íslands og hvetur stjórnir lífeyrissjóða  til að fylgja eftir áður samþykktum breytingum á regluverki sjóðanna sem gerir þeim kleift að taka á móti tilgreindri séreign. Þá telur Framsýn mikilvægt að Alþingi afgreiði ný lög um lífeyrissjóði, lög sem voru í undirbúningi áður er ríkistjórnin féll frá.

Fleiri stéttarfélög og sambönd hafa einnig tekið málið fyrir og ályktað, þar á meðal Rafiðnarsamband Íslands. Í ályktun sambandsins kemur fram:

„Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands harmar þá ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að hvetja lífeyrissjóði sem starfa á samningssviði ASÍ og SA að draga tímabundið til baka valkvæði um greiðslur sjóðfélaga í tilgreinda séreign. Félagsmenn hafa samþykkt þann kjarasamning sem tilgreinda séreignin er byggð á og því verður valkvæðið að standa. 

Miðstjórn RSÍ áréttar að mikilvægt er að Alþingi breyti lögum um lífeyrissjóði þar sem félagsmönnum er gert heimilt að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign eins og samið var um á sínum tíma. Þá er lykilatriði að lagabreyting verði í samræmi við ákvæði kjarasamningsins enda starfa lífeyrissjóðir í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA.“

 

Jólafundur Framsýnar

Hinn árlegi jólafundur Framsýnar verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna föstudaginn 8. desember. Dagskrá fundarins hefst kl. 19:30. Þeim sem er boðið að taka þátt í síðasta fundi ársins, eru stjórn og trúnaðarráði félagsins, trúnaðarmönnum á vinnustöðum, stjórnum deilda, stjórn Framsýnar-ung og starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna. Eftir hefðbundin fundarstörf verður boðið upp á kvöldverð og skemmtiatriði sem undirbúningsnefnd fundarins sér um undir stjórn Svövu Árnadóttur. Skráning á fundinn er á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir næstu mánaðamót.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hefð er fyrir því að stjórnendur Framsýnar geri sér glaðan dag eftir síðasta fund ársins.

 

 

Námskeið fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin stóðu fyrir tveimur kvöldnámskeiðum í nóvember fyrir félagsmenn í góðu samráði við Þekkingarnet Þingeyinga og fræðslusjóði sem félagsmenn stéttarfélaganna eiga aðild að. Annars vegar var um að ræða námskeiðið; Trú á eigin getu. Leiðbeinandi á námskeiðinu var, Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur. Námskeiðið var ætlað þeim sem vilja styrkja sig enn frekar auk þess að hafa jákvæð áhrif á aðra. Eins og kunnugt er, er sjálfstraust undirstaða margra færniþátta, svo sem hvernig okkur vegnar í samskiptum við aðra. Hitt námskeiðið nefndist; Betri svefn – Grunnstoð heilsu. Á námskeiðinu var fjallað um mikilvægi svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu með sérstökum áherslum á svefn meðal barna og unglinga. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Dr. Erla Björnsdóttir. Bæði námskeiðin gengu vel og voru þátttakendur ánægðir með setuna á námskeiðunum. Hafi félagsmenn stéttarfélaganna ábendingar um góð námskeið eru þeir beðnir um að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jóhann Ingi Gunnarsson er einn okkar fremsti leiðbeinbandi. Hann var með fyrirlestur á námskeiði á vegum stéttarfélaganna og Þekkingarnets Þingeyinga í síðustu viku.