Áhugaverðar umræður um skipulagsmál – Framsýn stækkar félagssvæðið

Miklar og góðar umræður urðu um skipulagsmál stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands á síðasta stjórnarfundi Framsýnar. Svo virðist sem laganefnd og miðstjórn ASÍ fylgi ekki eftir ákveðinni reglu þegar kemur að því að samþykkja félagssvæði stéttarfélaga. Sum félög eru orðin landsfélög, önnur landshlutafélög sbr. Félag Málmiðnarðmanna á Akureyri sem fékk samþykktar lagabreytingar sem fólu í sér að gera félagssvæðið stærra og það næði yfir félagssvæði annarra iðnaðarmannafélaga á Norðurlandi, þar á meðal félagssvæði Þingiðnar. Þingiðn brást við þessu með því að gera breytingar á sínum félagslögum, þannig að félagssvæðið yrði allt Ísland. Þess ber að geta að landsfélög iðnaðarmanna hafa verið að sækja inn á félagssvæði Þingiðnar sem og FMA sem stækkaði sitt félagssvæði yfir Þingiðn og getið er um hér að framan. Laganefnd og miðstjórn ASÍ ákváðu að hafna Þingiðn um að breyta lögum félagsins sem er ótrúlegt en satt. Þingiðn kallaði eftir fundargerðum vegna afgreiðslu miðstjórnar, annars vegar á lögum Félags málmiðnarmanna á Akureyri og hins vegar á lögum Þingiðnar. Það er athyglisvert að sjá að sömu miðstjórnarmenn standa að þessum ákvörðunum sem eru á skjön og standast því ekki jafnræðisreglur. Lögfræðingar á vegum Þingiðnar hafa skoðað þennan gjörning og gefið út að það sé borðliggjandi að það hafi verið brotið á Þingiðn.   Ljóst er að veruleg gerjun er meðal stéttarfélaga að skoða sín mál, það er sameiningu við önnur félög og að stækka sín félagssvæði. Á fundi stjórnar Framsýnar í vikunni komu þessi mál til umræðu. Samþykkt var að leggjast í vinnu við að skoða hvort stjórnin leggi fram tillögu á næsta aðalfundi félagsins sem haldinn verður eftir nokkrar vikur, það er að félagið stækki félagssvæðið í takt við samþykkt Félags Málmiðnarmanna á Akureyri. Það ætti að vera auðsótt mál enda fordæmi fyrir því hjá laganefnd og miðstjórn ASÍ.

Nýtt landslag í verkalýðshreyfingunni

Á síðasta stjórnarfundi Framsýnar sem haldinn var síðasta þriðjudag, fór formaður Aðalsteinn Árni, nokkrum orðum um breytingarnar sem orðið hafa í verkalýðshreyfingunni með tilkomu nýrra formanna hjá VR og Eflingu. Ljóst væri að framundan væru áhugaverðir tímar með ungu og efnilegu fólki. Atvinnurekendur væru strax byrjaðir að skjálfa og þá væri einnig verulegur skjálfti hjá forystu ASÍ sem hefði ekki alltaf talað í takt við verkafólk í landinu. Þá liggur fyrir að formenn Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar, það er verðandi formaður félagsins hafa myndað með sér bandalag til að berjast fyrir breytingum í íslenskum verkalýðsmálum og á lífeyrissjóðakerfinu. Aðalsteinn spurði stjórnarmenn hvort hann hefði umboð stjórnar til að halda þessari baráttu áfram. Í máli stjórnarmanna kom skýrt fram að formaður Framsýnar hefði fullt umboð frá stjórn félagsins til að taka þátt í þessu áhugaverða samstarfi með þessum þremur formönnum og öðrum þeim sem vildu koma að þessu mikilvæga verkefni. Það væri löngu tímabært að taka til innan hreyfingarinnar með því að leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa og aðkallandi breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Eftir góðar og málefnalegar umræður var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða sem tók mið af umræðunni á fundinum:

Ályktun um vorið í íslenskri verkalýðshreyfingu
„Framsýn, stéttarfélag fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu. Með kjöri á nýrri forystu í stærstu stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, er að verða til ný sýn á baráttu verkafólks. Þar er meðal annars talað fyrir löngu tímabærum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu.  Framsýn lýsir sig reiðubúið til að starfa með nýju fólki að málefnum verkafólks, enda hefur félagið lengi kallað eftir breytingum sem þessum innan verkalýðshreyfingarinnar. Sameining  og gagnsæi lífeyrissjóða, reglur um hámarks stjórnarsetu innan þeirra, ásamt siðferði í fjárfestingum lífeyrissjóða eru atriði sem meðal annars hafa verið félaginu hugleikin.  Það er til að mynda siðlaust að forstjóri olíufélags fái greiddar bónusgreiðslur og hagnist með því  persónulega á að halda niðri launum annarra starfsmanna, það gerist í skjóli lífeyrissjóða sem eru í eigu viðkomandi starfsmanna. Sjóða sem eru kjölfestufjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega!

Það verður ekki síst verkefni nýrrar verkalýðshreyfingar að vinna á móti siðleysi af þessu tagi og skera upp lífeyrissjóðakerfið, þá með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.

Framsýn hefur ítrekað ályktað um stöðuna í kjaramálum og kallað eftir öflugri verkalýðsbaráttu. Félagið lagðist á árar með þeim stéttarfélögum innan ASÍ sem vildu að samningunum yrði sagt upp nú í febrúar enda allar forsendur kolfallnar.

 Það er ekki hlutverk verkalýðsfélaga að gelta. Það er einnig tilgangslaust að glefsa með því að álykta um málefni verkafólks ef hugur fylgir ekki máli og menn slái undan þegar taka þarf stórar ákvarðanir eins og að segja upp kjarasamningum.

Samtök atvinnurekenda óttast breytingarnar sem framundan eru með nýju fólki í brúnni hjá öflugustu stéttarfélögum landsins. Það er vel, enda löngu tímabært að íslenska verkalýðshreyfingin hristi af sér doðann og bíti hraustlega frá sér. Látum þá skjálfa!“

 

 

Ályktun- Framsýn fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær og samþykkti að álykta um stöðuna í verkalýðshreyfingunni, lífeyrissjóðsmál og sjálftökuliðið í þjóðfélaginu.  Um er að ræða harðorða ályktun.

 Ályktun
Um vorið í íslenskri verkalýðshreyfingu

„Framsýn, stéttarfélag fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu. Með kjöri á nýrri forystu í stærstu stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, er að verða til ný sýn á baráttu verkafólks. Þar er meðal annars talað fyrir löngu tímabærum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu.

Framsýn lýsir sig reiðubúið til að starfa með nýju fólki að málefnum verkafólks, enda hefur félagið lengi kallað eftir breytingum sem þessum innan verkalýðshreyfingarinnar. Sameining  og gagnsæi lífeyrissjóða, reglur um hámarks stjórnarsetu innan þeirra, ásamt siðferði í fjárfestingum lífeyrissjóða eru atriði sem meðal annars hafa verið félaginu hugleikin. Það er til að mynda siðlaust að forstjóri olíufélags fái greiddar bónusgreiðslur og hagnist með því  persónulega á að halda niðri launum annarra starfsmanna, það gerist í skjóli lífeyrissjóða sem eru í eigu viðkomandi starfsmanna. Sjóða sem eru kjölfestufjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega!

Það verður ekki síst verkefni nýrrar verkalýðshreyfingar að vinna á móti siðleysi af þessu tagi og skera upp lífeyrissjóðakerfið, þá með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.

Framsýn hefur ítrekað ályktað um stöðuna í kjaramálum og kallað eftir öflugri verkalýðsbaráttu. Félagið lagðist á árar með þeim stéttarfélögum innan ASÍ sem vildu að samningunum yrði sagt upp nú í febrúar enda allar forsendur kolfallnar.

 Það er ekki hlutverk verkalýðsfélaga að gelta. Það er einnig tilgangslaust að glefsa með því að álykta um málefni verkafólks ef hugur fylgir ekki máli og menn slái undan þegar taka þarf stórar ákvarðanir eins og að segja upp kjarasamningum.

Samtök atvinnurekenda óttast breytingarnar sem framundan eru með nýju fólki í brúnni hjá öflugustu stéttarfélögum landsins. Það er vel, enda löngu tímabært að íslenska verkalýðshreyfingin hristi af sér doðann og bíti hraustlega frá sér.  Látum þá skjálfa!“

 

!

Við minnum á orlofsvefinn – flugkóðakaup möguleg á netinu!

Eins of fram kom hér á síðunni vefsíðu fyrir Páska hefur verið opnaður nýr orlofsvefur fyrir félagsfólk. Notast er við Frímann kerfið sem er vinsælt hjá ýmsum félagasamtökum á landinu og hefur verið um árabil. Slóðin er http://orlof.is/framsyn/

Rétt er að benda félagsfólki á að með þessum nýja vef er mögulegt að kaupa flugmiða á þeim tímum sem skrifstofan er lokuð, það er að segja án þess að þurfa að bíða eftir opnunartíma með endanlega afgreiðslu eins og verið hefur. Ekki er því lengur nauðsynlegt að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna til þess að kaupa flugfar eða margar aðrar vörur sem skrifstofan selur, þó svo að það sé að sjálfsögðu áfram mögulegt.

 

Stjórn Framsýnar fundar á morgun, þriðjudag

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun til að fara yfir þau málefni sem komið hafa upp milli funda en stjórn félagsins fundar að jafnaði einu sinni í hverjum mánuði. Eins og sjá má er dagskrá fundarins nokkuð löng en fundurinn hefst kl. 17:00.

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Sérkjarasamningur við PCC
  4. Nýtt landslag í verkalýðshreyfingunni
  5. Breytingar á kjörum starfsmanna sveitarfélaga
  6. Aðalfundur félagsins
  7. Stækkun á félagssvæði Framsýnar
  8. Kjör trúnaðarmanna
  9. Trúnaðarmannanámskeið
  10. Þakviðgerðir G-26
  11. Afmælishátíð Vonar 28. apríl 2018
  12. Hátíðarhöldin 1. Maí
  13. Lögfræðiþjónusta stéttarfélaganna
  14. Aðalfundur félagsliða
  15. Póllandsferð stjórnar, starfsmanna og trúnaðarráðs
  16. Aðalfundur Húsfélags Þorrasala – 12. apríl
  17. Þeystareykir – Öryggisnefndarfundur
  18. Fræðslu- og samráðsdagur bílstjóra – 18. apríl
  19. Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
  20. Námskeið- Fjármál við starfslok
  21. Erindi Tónsmiðjan
  22. Lög um persónuverndarmál
  23. Nýr orlofsvefur stéttarfélaganna
  24. Önnur mál

 

 

Mikil ánægja með sérkjarasamning PCC BakkiSilikon og stéttarfélaganna – Samþykktur 100%

Atkvæðagreiðslu um sérkjarasamning PCC BakkiSilikon og Framsýnar/Þingiðnar er lokið. Um 111 starfsmenn koma til með að starfa hjá fyrirtækinu og er mikill meirihluti þeirra í Framsýn. Samningurinn sem nær til framleiðslustarfsmanna og iðnaðarstarfsmanna var samþykktur samhljóða. Gildistími samningsins er út árið 2018 en þá losna jafnframt kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum. Starfsmönnum bauðst að fara á tvo kynningarfundi um samninginn áður en þeir greiddu atkvæði um hann.

Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni var þessi:

Framsýn:

Á kjörskrá voru 52 framleiðslustarfsmenn, atkvæði greiddu 38 starfsmenn eða 73% starfsmanna. Gildir seðlar voru 37. Miðað við gild atkvæði samþykktu 100% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samninginn.

Þingiðn:

Á kjörskrá voru 10 iðnaðarmenn, atkvæði greiddu 5 eða 50% starfsmanna. Gildir seðlar voru 5. Já sögðu 5 eða 100% starfsmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sérkjarasamningur Samtaka atvinnulífsins v/ PCC BakkiSilikon hf. annars vegar og Framsýnar/Þingiðnar hins vegar skoðast því samþykktur.

Samningurinn felur í sér að iðnaðarmönnum er raðað í launatöflu samkvæmt kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem Þingiðn á aðild að með 10% álagi á laun. Þá munu iðnaðarmenn fá sérstaka eingreiðslu í desember enda hafi þeir starfað í 20 vikur eða meira á árinu. Eingreiðslan nemur einum mánaðarlaunum. Orlofs- og desemberuppbót verður síðan eftir gildandi kjarasamningum. Í samningnum er einnig tilvísun um að starfsmenn á skrifstofu PCC muni taka kjör eftir persónubundnum samningum sem taka mið af ákvæðum kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl, verslunarmanna sem Framsýn á aðild að.

Framleiðslustarfsmönnum innan Framsýnar verður raðað í 17 launaflokk samkvæmt launatöflu Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Um er að ræða hæsta launaflokk sem störfum er raðað eftir í kjarasamningi SA og SGS fyrir almennt verkafólk á Íslandi. Auk þess munu starfsmenn fá metna 5 ára starfsreynslu til viðbótar sem gera grunnlaun upp á kr. 300.680,-. Til fróðleiks má geta þess að starfsfólk í ferðaþjónustu raðast hæst í 6 launaflokk og fiskvinnslufólk hæst í 11 flokk.  Samningurinn felur einnig í sér að allir starfsmenn fá 45% vaktaálag á alla unna tíma upp að 173,33 tímum. Tími umfram það í hverjum mánuði greiðist sem yfirvinna. Þá munu framleiðslumenn líkt og iðnaðarmenn fá sérstaka eingreiðslu í desember sem nemur einum mánaðarlaunum enda hafi þeir starfað í 20 vikur eða meira á árinu. Orlofs- og desemberuppbót verður síðan eftir gildandi kjarasamningum. Veikindaréttur vegna slysa verða 12 mánuðir á fullum launum í stað 3 mánaða á dagvinnulaunum eins og er í almennum kjarasamningum SA og SGS.

Í samningnum er m.a. tekið á orlofsmálum, fæðismálum, starfsmenntamálum, umhverfismálum, öryggismálum, heilsuvernd starfsmanna, forgangsréttarmálum og  þóknun vegna starfsmannafunda.

Þá liggur fyrir samþykki beggja samningsaðila að hefja viðræður í september um endurnýjaðan samning enda renna kjarasamningar almennt út um næstu áramót. Framsýn og Þingiðn hafa þegar gengið frá samninganefnd félaganna fyrir komandi viðræður, nefndin verður skipuð trúnaðarmönnum og formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni, sem jafnframt verður formaður nefndarinnar f.h. Framsýnar og starfsmanna.

Aðalsteinn segist mjög ánægður með þetta skref, það er að starfsmenn hafi samþykkt samninginn. Þegar verksmiðjan verði kominn í gang eftir nokkrar vikur gefist tími til að þróa nýtt launakerfi í verksmiðjunni sem byggi á ákveðnum grunnlaunum, starfsaldri, vaktaálagi, bónuskerfi og þóknun vegna menntunar.  Mikil vinna sé því framundan að ná þessu fram fyrir hönd starfsmanna.

Meðfylgjandi myndir eru teknar frá kjörfundinum í gær.

 

 

 

 

Garðvík klikkar ekki

Framsýn hefur í gegnum árin átt gott mjög gott samstarf við stjórnendur Garðvíkur á Húsavík um að fræða starfsmenn um réttindi þeirra og skyldur. Um er að ræða sameiginlega fundi þar sem stjórnendur fyrirtækisins fara  yfir áherslur fyrirtækisins og fulltrúar Framsýnar fara yfir helstu atriði kjarasamninga og svara fyrirspurnum starfsmanna sem oftast nær eru fjölmargar um félagið, kjarasamninga og réttindi sem fylgja því að vera fullgildir félagsmenn í stéttarfélagi. Þetta framtak Garðvíkur er til mikillar fyrirmyndar og mættu önnur fyrirtæki á svæðinu taka Garðvík til fyrirmyndar hvað þetta snertir.

Líflegar umræður urðu á fundi starfsmanna Garðvíkur með stjórnendum fyrirtækisins og formanni Framsýnar.

Nýr glæsilegur orlofsvefur opnaður í dag við hátíðlega athöfn

Formenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna, Aðalsteinn Árni, Helga Þuríður og Jónas Kristjánsson opnuðu formlega í dag nýjan orlofsvef stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Vefnum er ætlað að auka þjónustuna enn frekar við félagsmenn og auka skilvirknina. Meðal annars verður boðið upp á fleiri gistimöguleika og afsláttarkjör með Icelandair og Air Iceland Connect. Á orlofsvefnum eru upplýsingar um þá orlofskosti sem í boði eru er varða sumarhús, orlofsíbúðir, flugmiða, veiðikort og gistimiða á hótel og gistiheimili. Bókanir á sumarhúsum og íbúðum verða sem fyrr í gegnum Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík en greiðandi félagsmenn hafa kost á því að kaupa miða í gegnum orlofsvefinn http://orlof.is/framsyn/, annars er haft samband við skrifstofuna.

Sumarúthlutun orlofshúsa og íbúða:
Lokað verður fyrir sumarúthlutun 23. apríl 2018. Bæði er hægt að sækja um í gegnum orlofsvefinn eða á útfylltu meðfylgjandi eyðublaði sem skila þarf á skrifstofuna.

Frá opnun vefsíðunnar í dag, formenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur opnuðu síðuna formlega. Skorað er á félagsmenn að fara inn á síðuna og skoða orlofs- og frístundakostina sem eru í boði á vegum stéttarfélaganna.

 

 

 

Mikil áhugi hjá Solidarnosc að taka á móti Framsýn

Pólsku verkalýðssamtökin Solidarnosc/Samstaða hafa boðist til að taka á móti fulltrúum Framsýnar í haust. Hugmyndin er að aðilar skiptist á skoðunum um vinnumarkaðinn á Íslandi og Póllandi. Eins og kunnugt er hefur töluverður fjöldi pólskra verkamanna starfað á félagssvæði Framsýnar, sérstaklega undanfarinn ár. Þess má geta að Lech Walesa fór fyrir Samstöðu á sínum tíma en hann varð síðar forseti Póllands, það er frá árinu 1990 til 1995. Samstaða vinnur nú að því að setja upp tveggja til þriggja daga kynningu á pólskum vinnumarkaði fyrir væntanlega gesti úr Þingeyjarsýslum. Ferðin er fyrirhuguð í september.

 

Atkvæðagreiðsla í gangi

Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um sérkjarasamning PCC og Framsýnar/Þingiðnar vegna framleiðslustarfsmanna og iðnaðarmanna sem koma til með að starfa í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka.  Félögin standa fyrir tveimur kynningarfundum um samninginn, annar var í gær og sá síðari verður í dag kl. 16:00. Atkvæðagreiðslu um samninginn lýkur eftir fundinn í dag. Talið verður á morgun og mun niðurstaðan birtast hér á síðunni í kjölfarið. Um 111 starfsmenn koma til með að starfa í verksmiðjunni. Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum í gær:

Formenn VR og Framsýnar funda

Formenn Framsýnar og VR funduðu fyrir helgina í Reykjavík. Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðuna í verkalýðshreyfingunni og hugsanlegt samstarf félaganna ásamt Eflingu og Verkalýðsfélagi Akraness að komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Fundurinn var vinsamlegur í alla staði. Formenn VR, VA og Framsýnar ásamt verðandi formanni Eflingar reikna með að funda strax eftir páskanna og skipuleggja framhaldið.

Stjórn Framsýnar fundar um væringar og kjaramál

Stjórn Framsýnar hefur verið boðuð saman til fundar þriðjudaginn 3. apríl kl. 17.00. Meðal umræðuefna á fundinum verða viðhaldsmál á húsnæði stéttarfélaganna, aðalfundur félagsins, Póllandsferð félagsins, nýgerður sérkjarasamningur við PCC og væringar í verkalýðshreyfingunni.

 

Verktakar á förum

Á meðan á framkvæmdum á Bakka og Þeistareykjum hefur staðið hefur mikill fjöldi starfsfólks og verktaka komið og farið. Í flokki verktaka er enginn vafi á því að Munck Íslandi er þeirra fyrirferðarmest en verktakinn sá um uppbyggingu flestra bygginga sem tengjast þessum verkefnum, bæði á Bakka og Þeistareykjum.

Á dögunum náðist sá áfangi að Munck kláraði sinn verkþátt á svæðinu. Í tilefni af því komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna yfirmenn og skrifstofufólk Munck á Bakka sem hefur verið hérna frá því að verkið byrjaði. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tilefni.

Við á Skrifstofu stéttarfélaganna þökkum Munck Íslandi fyrir ánægjulegt samstarf síðustu misserin.

Þök – rakaástand og mygla

Hér af ofan má sjá námsskeið um Þök, rakaástand og myglu sem Þekkingarnet Þingeyinga stendur fyrir í samstarfið við Iðuna.

Námskeiðið er sett á miðvikudaginn 11. apríl frá klukkan 10-17 ef þátttaka næst. Klukkutími er gefinn í hádegismat milli kl 12 og 13.

Hægt er að skrá sig hjá Heiðrúnu Óladóttur hjá Þekkingarneti Þingeyinga í síma 464-5100 eða á netfangið heidrun@hac.is

 

Ögrun við launafólk

Í gær var send út ályktunin frá Landssambandi íslenskra verzlunarmanna. Hana má finna hér að neðan:

Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna mótmælir harðlega þeirri sjálftöku launa sem á sér stað meðal stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum. Allt frá því að kjararáð gaf tóninn með hækkun launa til þingmanna og forstöðumanna stofnana hefur orðið til hyldýpi milli þessara aðila og launafólks. Þrátt fyrir að ákvörðunum kjararáðs hafi verið mótmælt harðlega og þrátt fyrir að ríkisstjórninni hafi gefist kostur á að leiðrétta þessa óhæfu, þá reyndist hún ekki hafa þann kjark sem til þurfti þegar að á reyndi. Á sama tíma er því haldið að launafólki að vera hófstillt í launakröfum til þess að viðhalda stöðugleika í samfélaginu. Það ríkir hins vegar ekki stöðugleiki hjá íslensku launafólki sem þarf á sama tíma að takast á við skerðingar barna- og vaxtabóta og raunlækkunar á persónuafslætti sem ekki fylgir almennri launaþróun og hefur ekki gert í áraraðir. Slík ögrun verður ekki liðin og mun valda upplausn á almennum vinnumarkaði verði ekkert að gert.
Stjórn LÍV skorar stjórnvöld og stjórnir lífeyrissjóða að vinda ofan af þessari þróun aukinnar misskiptingar.
Reykjavík, 21. mars 2018
Stjórn LÍV
Guðbrandur Einarsson, formaður LÍV og Verslunarmannafélags Suðurnesja
Kristín M. Björnsdóttir, varaformaður LÍV og formaður deildar verslunarmanna VR á Austurlandi
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Eiður Stefánsson, formaður Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri
Hjörtur Geirmundsson, formaður Verslunarmannafélags Skagafjarðar
Gils Einarsson, formaður deildar verslunarmanna VR á Suðurlandi
Svanhildur Þórsteinsdóttir

PCC- Fundarboð/ A meeting

Framsýn og Þingiðn boða til funda með framleiðslustarfsmönnum og iðnaðarmönnum sem aðild eiga að félögunum. Starfsmönnum verður boðið upp á tvo fundi, allt eftir því hvenær þeir komast á fundina.

Fundarstaður: Fundarsalur stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26

Fundartímar:

Mánudaginn 26. mars kl. 15:00

Þriðjudaginn 27. mars kl. 16:00

Tilgangur fundanna er að gera grein fyrir sérkjarasamningi Framsýnar/Þingiðnar og PCC vegna iðnaðarmanna innan Þingiðnar og framleiðslustarfsmanna innan Framsýnar.

Starfsmönnum gefst kostur á að greiða atkvæði um samninginn í lok fundanna, það er framleiðslustarfsmönnum og iðnaðarmönnum innan þessara stéttarfélaga.

 A meeting
regarding a special collective agreement between PCC BakkiSilicon hf and Framsýn/Þingiðn

Framsýn and Þingiðn are holding a meeting with production workers and craftsmen that are members of these two unions. Two meetings will be held and the employees choose the one most suitable.

The meeting place: The hall in the union´s office, Garðarsbraut 26.

When:

Monday 26. March at 15:00

Tuesday 27. march at 16:00

The purpose of these meetings is to explain the special collective agreement between PCC BakkiSilicon hf and Framsýn for production workers and Þingiðn for craftsmen.

At the end of the meetings employees will be asked to vote on the agreement, both Framsýn members and Þingiðn members.

Framsýn labour union
Þingiðn craftsmen union

 

Í skíðagöngu með Tryggva!

Tryggvi Finnson mun halda erindi þriðjudaginn 27. mars klukkan 20:15 í sal stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26.

Tryggvi mun í sínu erindi fara yfir ferðir sínar í Alpana til að stunda skíðagöngu í máli og myndum. Tryggvi fór í sína fyrstu ferð í Alpana árið 2006 og heillaðist af svæðinu. Síðan farið þá á hverju einasta ári. Tryggvi verður með myndir af þremur svæðum, eða Oberstdorf í Þýskalandi og Seefeld og Ramsau í Austurríki. Á öllum þessum svæðum eru 120-170 kílómetrar af troðnum brautum, mismunandi erfið og hægt að finna aðstæður fyrir alla.

Tryggvi segir að að loknum fyrirlestrinum muni fleiri vonandi sjá að möguleika á því að fara í frábært vetrarfrí sem ekki er þó á Kanarí!

Sérkjarasamningur við PCC undirritaður í dag

Rétt í þessu skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar undir sérkjarasamning við PCC BakkiSilicon sem eru góð tíðindi. Gildistími samningsins er til næstu áramóta þegar kjarasamningar renna út á almenna vinnumarkaðinum. Samningurinn nær til um 70 starfsmanna af þeim rúmlega 100 sem koma til með að vinna hjá fyrirtækinu á Bakka. Hafsteinn Viktorsson forstjóri PCC BakkiSilicon skrifaði undir samninginn fh. Samtaka atvinnulífsins sem komið hafa að gerð samningsins við Framsýn og Þingiðn. Frá stéttarfélögum skrifuðu formenn félaganna undir samninginn, þeir Aðalsteinn Árni Baldursson og Jónas Kristjánsson. Aðalsteinn vildi ekki tjá sig sérstaklega um samninginn að svo stöddu þar sem hann verður tekin til kynningar og afgreiðslu á fundum með starfsmönnum í byrjun næstu viku, það er á mánudag og þriðjudag. Hann sagði eðlilegt að ræða samninginn fyrst við starfsmenn áður en innihald samningsins yrði gert opinbert.

Laufey Sigurðardóttir mannauðsstjóri PCC BakkiSilicon kom við á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag þar sem sérkjarasamningurinn var handsalaður formlega. Með henni eru félagarnir frá Þingiðn og Framsýn, Aðalsteinn Árni og Jónas Kristjánsson.