Framboðin sem bjóða fram í Norðurþingi í komandi sveitarstjórnarkosningum á laugardaginn hafa síðustu vikurnar staðið fyrir fundum og gefið út bæklinga og blöð með helstu áherslumálum listanna. E -listinn sem býður fram í fyrsta skiptið á Húsavík stóð fyrir fundi um atvinnumál síðasta föstudag. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar sem var sérstakur gestur fundarins fór yfir þróun mála og þær miklu breytingar sem orðið hafa á samsetningu atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum auk þess að svara fjölmörgum spurningum fundarmanna. Varðandi breytingarnar spilar ekki síst inn þær breytingar sem orðið hafa á þjóðerni þeirra sem búa á svæðinu. Í dag eru tæplega 40% félagsmanna Framsýnar með annað þjóðerni en Ísland, það er þeir koma frá 32 löndum. Góðar og miklar umræður urðu um atvinnumál á svæðinu og framtíðarsýn fundarmanna. Formaður Framsýnar ítrekaði vilja félagsins til að eiga gott samstarf við verðandi sveitarstjórn. Samstarf við núverandi sveitarstjórn hefði verið með ágætum.