Þingiðn stofnar fræðslusjóð og hækkar styrki til félagsmanna í gegnum sjúkra- og fræðslusjóð

Ár 2018, miðvikudaginn 16. maí kl. 20:00 var aðalfundur Þingiðnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Formaður, Jónas Kristjánsson, bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort þeir gerðu athugasemdir við boðun fundarins. Svo reyndist ekki vera. Því næst gerði hann tillögu um að Aðalsteinn Árni ritaði fundargerð og stjórnaði fundi. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Aðalsteinn Árni þakkaði traustið og tók við fundarstjórn. Hann óskaði eftir að fá að ganga frá fundargerðinni eftir fundinn og var það samþykkt. Því næst var gengið til dagskrár:

Dagskrá:

 • Venjuleg aðalfundarstörf

 

 • Skýrsla stjórnar
 • Ársreikningar
 • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
 • Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
 • Lagabreytingar
 • Ákvörðun árgjalda
 • Laun stjórnar
 • Kosning löggilts endurskoðanda
 • Fræðslusjóður Þingiðnar

 

 • Sjá meðfylgjandi tillögu stjórnar
 • Kjaramál

 

 

1. Venjuleg aðalfundarstörf

 1. a) Skýrsla stjórnar

Formaður, Jónas Kristjánsson flutti skýrslu stjórnar sem er svohljóðandi:

 

 1. Fundir

Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 6. júní 2017 voru alls 27. Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.

 1. Félagatal

Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2017 voru 127, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins. Greiðandi einstaklingar voru 111 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 109 og konur 2. Þess ber að geta að félagsmönnum fækkaði verulega milli ára sem á sínar skýringar. Fyrirtækið Yabimo ehf. var með alla sína starfsmenn skráða í Þingiðn þegar það var með ákveðna verkþætti á Þeistareykjum. Fyrirtækið er ekki lengur starfandi á félagssvæði Þingiðnar. Félagsmenn á árinu 2016 voru samtals 177. Rétt er að geta þess að erlendir iðnaðarmenn sem hafa verið hér við störf hafa ekki gengið formlega í félagið, þess í stað hafa þeir verið skráðir í félagið enda verið greiðendur til Þingiðnar. Oft er um að ræða starfsmenn sem hefur gengið illa að fá sín iðnréttindi metin á Íslandi.

 1. Fjármál

Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 10.155.557 sem er 10,7% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2017 námu kr. 2.569.799, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.538.644 sem er um 64% lækkun frá fyrra ári.

Á árinu 2017 fengu samtals 30 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði.

Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 6.349.084 og eigið fé í árslok 2017 nam kr. 228.703.507 og hefur það aukist um 2,9% frá fyrra ári.

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 4.265.668

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

 1. Orlofsmál

Til margra ára hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum í Kópavogi. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 12 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 201.650,-. Félagið stóð fyrir sumarferð í Borgarfjörð eystri haustið 2017 sem tókst í alla staði mjög vel. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa aðgengi að orlofshúsi á Spáni. Frá þeim tíma hefur íbúðin staðið félagsmönnum til boða. Nokkuð hefur verið um að félagsmenn stéttarfélaganna hafi notfært sér þennan orlofskost. Þingiðn ber ekki kostnað af orlofshúsinu heldur niðurgreiðir dvöl félagsmanna.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að kaupa miða í Hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2017:

Seldir flugmiðar                4.470                     Sparnaður fyrir félagsmenn         kr. 49.617.000,-

Seldir miðar í göng           3.027                     Sparnaður fyrir félagsmenn         kr. 1.059.450,-

Seldir gistimiðar                   739                     Sparnaður fyrir félagsmenn         kr.   1.625.800,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn         kr. 52.302.250,-

Þess má geta að stéttarfélögin hafa nú tekið upp nýtt orlofskerfi sem ætlað er að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið.

 1. Þorrasalir 1-3

Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

 1. Fræðslumál

Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum félagssjóð. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 386.453. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn. Fyrir aðalfundinum liggur fyrir tillaga um að félagið stofni öflugan fræðslusjóð með 0,3% framlagi félagsmanna. Verði tillagan samþykkt verður til öflugur fræðslusjóður fyrir félagsmenn.

 1. Málefni sjúkrasjóðs

Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 1.538.644 á árinu 2017 sem er veruleg lækkun milli ára. Árið 2016 voru greiddar kr. 4.245.407 í styrki til félagsmanna.

Greiðslur til 42 félagsmanna árið 2017 skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir    kr. 1.038.644,-

Sjúkradagpeningar          kr.    500.000,-.

 1. Kjaramál

Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 29. maí 2015 með gildistíma til 31. desember 2018. Kjarasamningurinn kom til endurskoðunar í febrúar 2018. Þrátt fyrir að forsendur samningsins náðist ekki samstaða um að segja upp samningum sem voru veruleg vonbrygði. Þingiðn greiddi atkvæði með uppsögn samninga. Meirihluti félaga innan ASÍ lagðist gegn upp sögn meðan meirihluti félagsmanna reiknað út frá vægi félaganna vildi nýta sér ákvæðið og segja upp samningunum. Framundan eru væntanlega harðar kjaradeilur en kjarasamningar eru almenn lausir um næstu áramót. Eitt er víst að iðnaðarmenn geta ekki sætt sig við annað en að nám þeirra og slæmar vinnuaðstæður oft á tíðum, verði metið til hærri launa ætli menn að viðhalda þekkingu í landinu á sviði iðnmenntunar. Ég nefni að væntanlega munum við sjá fram á harðar kjaradeilur, það segi ég þar sem setja má spurningamerki við aðferðarfræðina sem er notuð í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Aðildarfélög og sambönd innan Alþýðusambandsins hafa farið saman í viðræður við atvinnurekendur sem hafa skilað frekar litlum árangri í vasa iðnaðarmanna. Þá vantar meiri kraft í hreyfinguna þegar kemur að kjarabaráttu. Undir þessum lið er rétt að gera þess að félagið gekk frá sérkjarasamningi við PCC um launakjör iðnaðarmanna í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Gildistími samningsins er til ársloka 2018 og verður þá endurnýjaður. Undirbúningur félagsins vegna komandi kjaraviðræðna er þegar hafinn. Framsýn stendur að þessum samningi með Þingiðn.

 1. Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit

Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum iðnaðarmönnum enda hafa miklar framkvæmdir verið í gangi á svæðinu. Vissulega fylgja ógnanir slíkum framkvæmdum varðandi undirboð sérstaklega er varðar laun og starfsréttindi. Í mars 2016 réðu stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, starfsmann í vinnustaðaeftirlit vegna aukinna umsvifa á félagssvæðinu. Umsvifin hafa verið í sögulegu hámarki, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Eftirlitið hefur gengið vel og hefur því almennt verið vel tekið af forsvarsmönnum fyrirtækja sem og starfsfólki. Ljóst er að eftirlitið er þegar farið að skila tilætluðum árangri. Samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir hefur verið með miklum ágætum sérstaklega er varðar samstarf við Vinnueftirlitið. Mikill vilji er fyrir því hjá stéttarfélögunum að halda þessu samstarfi áfram. Verkefninu var í fyrstu ætlað að standa í tvö ár. Þú hefur verið ákveðið að framlengja verkefnið, þó ekki með sama hætti og verið hefur. Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur í fullu starfi undanfarin tvö ár hefur verið ráðinn í 50% frá og með 1. maí 2018. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott. Vitaskuld koma annað slagið upp mál sem krefjast viðbragða, við það verður ekki sloppið. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Það sést til dæmis á því að forsvarsmenn fyrirtækja sem koma með starfsemi inn á svæðið leita mikið eftir aðstoð og þjónustu stéttarfélaganna.

 1. Hátíðarhöldin 1. maí

Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2018. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en tæplega 600 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi.

11. Starfsemi félagsins

Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Á síðasta aðalfundi félagsins var samþykkt að gera breytingar á félagssvæðinu í takt við önnur iðnaðarmannafélög sem hafa verið að útvíka sín félagssvæði s.s. Félag Málmiðnarmanna á Akureyri. Einhverja hluta vegna fóru lagabreytingar Þingiðnar ekki í gegnum Laganefnd og miðstjórn ASÍ. Þeim var hafnað. Frá þeim tíma hafa starfsmenn félagsins átt í viðræðum við Alþýðusambandið um lausn mála. Þegar þessi skýrsla er skrifuð standa enn yfir viðræður milli aðila þar sem því hefur verið mótmælt harðlega að hálfu Þingiðnar að Alþýðusambandi skuli mismuna aðildarfélög sambandsins þegar kemur að stækkun félagssvæða. Við það verður ekki unað. Stjórnin taldi rétt að boða til félagsfundar um málið. Gestir fundarins voru Hilmar Harðarson og Þorbjörn Guðmundsson frá Samiðn. Á fundinum var óánægju félagsins komið á framfæri við afgreiðslu ASÍ. Ekki var annað að heyra á fulltrúm Samiðnar að Þingiðn hefði fullan stuðning sambandsins. Fulltrúi Samiðnar í miðstjórn hefði samþykkt lagabreytingar Þingiðnar. Félagið samþykkti á ágúst 2017 að kaupa stofnfé í Sparisjóði Suður Þingeyinga fyrir kr. 700.000,-. Með því vildi félagið taka þátt í að efla starfsemi sjóðsins í heimabyggð með öðrum þeim sem lögðu sjóðnum til stofnfé. Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína á Skrifstofu stéttarfélaganna og þáðu veitingar. Félagið kom að því að styðja aðeins við bakið á íþróttastarfi Völsungs með styrkjum til blakdeildar og knattspyrnudeildar félagsins. Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2018. Félagið hefur haft til skoðunar að fara í menningarferð og hefur verið að skoða álitlega kosti s.s. að fara til Akureyrar. Hafi félagsmenn hugmyndir eru þær vel þegnar.

Félagið hefur gengið frá áætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi fyrir starfsemi Þingiðnar sem er meðfylgjandi skýrslunni. Félagið stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði með Framsýn sem fram fór í mars 2018. Einn félagsmaður Þingiðnar tók þátt í námskeiðinu. Tekin var ákvörðun um að skipta um lögmenn hjá aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Mandat, lögmannstofa hefur lengi séð um að þjónusta félögin. Eftir að ákveðnar breytingar áttu sér stað í starfsmannahaldi á stofunni var ákveðið að segja upp samningi við lögmannsstofuna og ganga til samninga við Jón Þór Ólason lögfræðing um að þjónusta félögin og félagsmenn þar með.

 1. Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs

Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.  Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur. Eitt stöðugildi er á Skrifstofu stéttarfélaganna sem Virk greiðir kostnað við. Núverandi starfsmaður er Ágúst S. Óskarsson.

 1. Samkomulag við Flugfélagið Erni

Í nóvember 2013 gerðu stéttarfélögin samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Síðan þá hefur samkomulagið verið endurnýjað með reglubundnum hætti. Samkomulagið byggir m.a. á því að félögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir sem seldir eru á kostnaðarverði eru aðeins ætlaðir félagsmönnum og geta þeir einir ferðast á þessum kjörum. Með samkomulagi við flugfélagið í lok árs 2017 hafa félögin tryggt að verðið kr. 8.900 muni haldast út árið 2018 sem er afar ánægjulegt fyrir félagsmenn Þingiðnar.

14.  Húsnæði stéttarfélaganna

Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf. Rekstur Hrunabúðar hefur gengið vel. Öll leigurými eru í notkun og biðlisti komi til þess að rými losni á næstu mánuðum. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Ráðast þarf í lagfæringar á þakinu í sumar þar sem það er einfaldlega ónýtt. Um þessar mundir standa yfir viðræður við verktaka um að taka verkið að sér.

 1. Málefni skrifstofunnar

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og tveir starfsmenn eru í hlutastarfi við vinnustaðaeftirlit og þrif/ræstingar. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,5% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

 1. Lokaorð

Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

 1. b) Ársreikningar félagsins

Huld Aðalbjarnadóttir fór yfir ársreikninga félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 10.155.557 sem er 10,7% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2017 námu kr. 2.569.799, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.538.644 sem er um 64% lækkun frá fyrra ári. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 6.349.084 og eigið fé í árslok 2017 nam kr. 228.703.507 og hefur það aukist um 2,9% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 4.265.668

 1. c) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Góðar umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga. Að loknum umræðum voru ársreikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða. Tillaga um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári var samþykkt.

 1. d) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu

Gerð var grein fyrir tillögu kjörnefndar um félagsmenn í trúnaðarstöður í félaginu fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár 2018 til 2020. Ekki komu aðrar tillögur og skoðast þær því samþykktar og voru staðfestar á aðalfundinum.

 e) Lagabreytingar

Ekki voru fyrirliggjandi tillögur um lagabreytingar. Umræður urðu um höfnun Alþýðusambands Íslands á breytingum á félagslögum Þingiðnar sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi félagsins. Þingiðn hefur áður fordæmt vinnubrögð Alþýðusambandsins. Að mati lögfræðinga félagsins stenst ekki ákvörðun Alþýðusambandsins á sama tíma og sambærilegar lagabreytingar hafa flogið í gegnum Alþýðusambandið frá öðrum iðnaðarmannafélögum. Um þessar mundir er lögfræðingur Alþýðusambandsins með málið til skoðunar. Samþykkt var að bíða eftir niðurstöðu lögfræðingsins áður en haldið verður áfram með málið af hálfu félagsins þurfi þess með.

 1. f) Ákvörðun árgjalda

Samþykkt var að hafa árgjaldið óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum.

 1. g) Laun stjórnar

Samþykkt var að laun stjórnar verði óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

 1. h) Kosning löggilts endurskoðanda

Tillaga um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2018 var samþykkt samhljóða.

 1. Fræðslusjóður Þingiðnar

Í máli formanns kom fram að stjórn Þingiðnar hefur unnið að því að stofna fræðslusjóð innan félagsins til hagsbóta fyrir félagsmenn. Dæmi eru um að félagsmenn hafi hótað úrsögn úr félaginu þar sem þeir hafi ekki aðgengi að fræðslustyrkjum líkt og félagar í Framsýn hafa í gegnum fræðslusjóði Framsýnar. Ekki síst í ljósi þess leggur stjórnin til við aðalfund félagsins að stofnaður verði fræðslusjóður fyrir félagsmenn sem fjármagnaður verði með framlagi frá félagsmönnum upp á 0,3% frá og með næstu áramótum. Það er meðan ekki næst samstaða um það innan Samiðnar að semja um sérstakan fræðslusjóð fyrir félagsmenn aðildarfélaga Samiðnar. Þá er lagt til að aðalfundurinn samþykki að leggja fræðslusjóðnum til tvær milljónir þegar í stað þannig að hægt verði að úthluta úr sjóðnum eftir aðalfundinn. Aðalsteinn Árni gerði síðan grein fyrir drögum að reglugerð sjóðsins og starfsreglum. Eftir góðar umræður var samþykkt að stofna sjóðinn og leggja honum til tvær milljónir sem stofnframlag. Síðan greiði félagsmenn 0,3 til sjóðsins frá og með næstu áramótum sem innheimt verði með félagsgjaldinu. Reglugerð og starfsreglur sjóðsins voru einnig samþykktar samhljóða. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með stofnun Fræðslusjóðs Þingiðnar.

 1. Kjaramál

Formaður fór yfir stöðuna í kjaramálum. Hann sagði meðal annars frá formannafundi ASÍ þar sem uppsögn kjarasamninga var til umræðu. Því miður hefði ekki náðst samstaða um að segja upp gildandi kjarasamningum. Á fundinum hefði komið fram að iðnaðarmenn hafa setið töluvert eftir miðað við aðra hópa innan ASÍ. Taldi hann það óásættanlegt. Hann kallaði eftir viðhorfsbreytingum innan Samiðnar og ASÍ. Hann taldi ekki ráðlegt fyrir iðnaðarmenn að vera í samfloti með öðrum aðildarfélögum Alþýðusambandsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins en kjarasamningar eru lausir um næstu áramót. Eftir framsögu formanns um kjaramál var orðið gefið frjálst. Í stuttu máli sagt voru fundarmenn sammála upplegi formannsins og sögðu stöðuna auk þess mjög alvarlega, að væri flótti úr stéttinni, iðnaðarmenn leituðu úr sínum störfum í betur borguð störf á almenna vinnumarkaðinum. Eftir góðar umræður fékk stjórn félagsins fullt umboð til að fylgja eftir skoðunum aðalfundarins á vetfangi kjaramála.

 1. Önnur mál
 2. a) Hækkun á styrkjum úr sjúkrasjóði félagsins

Undir þessum lið var tekin fyrir tillaga frá stjórn félagsins um að bætur og styrkir úr sjúkrasjóði félagsins hækki til samræmis við ákvörðun aðalfundar Framsýnar sem haldinn verður 28. maí. Tillagan var samþykkt samhljóða.

 1. b) Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi

Lögð var fram Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi sem stjórn félagsins hefur þegar samþykkt að gildi fyrir starfsemi félagsins. Lagt fram til kynningar og umræðu. Ekki var annað að heyra en að menn væru ánægðir með aðgerðaráætlunina enda mikilvægt að hún sé til staðar hjá öllum stéttarfélögum og reyndar á öllum vinnustöðum líka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Reglugerð

fyrir Fræðslusjóð Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum

 

 1. grein: Nafn sjóðsins
  Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.

 

 1. grein: Tilgangur
  Tilgangur sjóðsins er alhliða fræðslustarfsemi með sérstaka áherslu á styrki til félagsmanna sem stunda nám í greininni eða sækja starfstengd námskeið. Þá skal heimilt að verja ákveðnum fjármunum til tómstundastyrkja í samræmi við starfsreglur sem sjóðurinn settur sér og samþykktar eru á aðalfundi félagsins.

 

 1. grein: Tekjur sjóðsins
  Tekjur sjóðsins eru:
 2. a) Samningsbundin iðgjöld atvinnurekenda á hverjum tíma.
 3. b) 0,3% af innheimtum félagsgjöldum. Viðmiðunargjald 1% félagsgjald.
 4. c) Viðbótarframlög frá félagssjóði, sem ákveðin eru hverju sinni.
 5. d) Vaxtatekjur.
 6. e) Námskeiðsgjöld.
 7. f) Aðrar tekjur.

 

 1. grein: Stjórn sjóðsins
  Þrír félagsmenn skipa stjórn sjóðsins, og skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Kosnir skulu tveir varamenn á sama hátt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Þó skal heimilt að tilnefna starfsmenn félagsins í stjórn sjóðsins enda liggi fyrir samþykki aðalfundar þess efnis. Formaður félagsins kallar stjórnina saman til fyrsta fundar.

 

 1. grein: Verksvið stjórnar
  Verksmið stjórnar er að úthluta styrkjum til félagsmanna í samræmi við starfsreglur sjóðsins. Þá er stjórninni heimilt að skipuleggja námskeið eða aðra fræðslu sem gagnast getur félagsmönnum á hverjum tíma. Reiknað er með að úthlutun úr sjóðnum fari fram einu sinni í mánuði.

 

 1. grein: Ágreiningur
  Verði ágreiningur um fjárveitingar úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð. Það sama á við um ef félagsmaður er ósáttur við afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Í þeim tilvikum getur hann vísað málinu til félagsstjórnar til afgreiðslu.

 

 1. grein: Ávöxtun sjóðsins
  Laust fé fræðslusjóðs skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar félagsstjórnar og er félagssjóður þá ábyrgur fyrir endurgreiðslu, þegar fræðslusjóður þarf á fé sínu að halda.

 

Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins.

 

 1. grein: Breytingar á reglugerð
  Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar atkvæða séu þeim fylgjandi.

 

Reglugerðin þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum 16. maí 2018.

 

 

Starfsreglur

Fræðslusjóðs Þingiðnar

 

 1. Félagsmaður sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 24 og greitt til félagsins á þeim tíma á rétt á stuðningi til starfsnáms. Greitt er hlutfallslega fyrir fólk í hlutastörfum.

 

 1. Við ákvörðun upphæðar er miðað við greidd félagsgjöld síðustu 12 mánaða. Félagsgjald af lágmarkslaunum iðnaðarmanna í 100% starfi eða meira gefur fulla styrkupphæð.
 2. Fylla þarf út umsóknareyðublað og skila ásamt reikningi/kvittun til skrifstofu félagsins. Umsókn þarf að berast viðkomandi stéttarfélagi innan 12 mánaða frá dagsetningu reiknings.

 

 1. Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingagjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til  starfsmenntunarstyrks sem hann hafði áunnið sér hjá sjóðnum. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.

 

 1. Foreldrar í fæðingar- eða foreldraorlofi geta nýtt sér áunnin rétt skv. 1. gr. ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld á meðan á orlofi stendur.

 

 1. Félagsmenn í atvinnuleit halda áunnum rétti sínum eins og hann var við starfslok ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld af atvinnuleysisbótum.

 

Hve mikið er greitt ?
Greitt er að hámarki kr. 100.000.- á ári m.v. 1. júní 2018. Miða skal við almanaksárið. Aldrei er þó greitt meira en sem nemur 75% af námskostnaði.

Frístunda/tómstundanámskeið
Fræðslusjóðurinn veitir styrki vegna tómstundanámskeiða ýmiskonar og er endurgreiðsla vegna þeirra 75% af kostnaði en aldrei hærri en kr. 30.000.- á ári og dregst jafnframt af heildarupphæð einstaklingsstyrks þess árs.

Uppsafnaður réttur; aukinn styrkur til náms
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu þrjá ár, eiga rétt á styrk allt að kr. 300.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið skv. reglum sjóðsins. Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 100.000.-  sem hluti af kostnaði náms/námskeiðs í þessu tilviki.

Styrkir til kaupa á hjálpartækjum fyrir lestrar-og ritstuðning.
Hægt er að sækja um allt að 75% styrk vegna kaupa á hjálpartækjum ætluðum til stuðnings við lestur og skrift. Heildarstyrkur miðast við hámarksupphæð skv. almennum reglum sjóðsins eða kr. 100.000.-

Styrkir vegna íslenskunáms
Félagsmenn sem hafa annað móðurmál en íslensku geta sótt um allt að 75% styrk vegna íslenskunáms eftir mánaðar félagsaðild að Þingiðn.

 

Réttur ellilífeyrisþega
Ellilífeyrisþegar innan Þingiðnar halda rétti sínum til einstaklingsstyrkja í allt að 24 mánuði frá því þeir hætta að vinna.  Þetta er í samhengi við réttindi þeirra sem eru á tímabundinni örorku og annað sbr. 4. lið í starfsreglunum.

Breyting á starfsreglum
Reglur þessar geta tekið breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á