Yfirlýsing Framsýnar vegna auglýsingaherferðar Alþýðusambands Íslands – fordæmir sambandið fyrir auglýsingaherferð gegn verkafólki

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar, stéttarfélags fordæmir upphafsmyndband í nýrri auglýsingaherferð  Alþýðusambands Íslands og birst hefur í fjölmiðlum undanfarna daga. Það vekur furðu og eru vissulega mikil tíðindi að stærstu heildarsamtök launafólks á Íslandi vari við verkföllum og vopnaskaki eins og þau kjósa að nefna baráttu launafólks. Í auglýsingu  Alþýðusambandsins er því haldið fram að það komi sér best fyrir verkafólk að fá sem minnstar launahækkanir, því þannig aukist kaupmáttur launa mest og þar með velferð þeirra.

Röksemdarfærsla að þessu tagi er brjóstvörn íslensks launafólks Alþýðusambandi Íslands til háborinnar skammar. Sú græðgisvæðing sem ríkt hefur í samfélaginu síðustu ár skrifast á engan hátt á launafólk þessa lands, eins og látið er að liggja í myndbandinu. Þess í stað hefur barátta verkafólks skilað almenningi í landinu hvað mestum sigrum, jafnvel með vopnaskaki sem felst í samstöðu fólksins. Um það ætti Miðstjórn ASÍ að vera kunnugt.

Rétt er að vekja athygli á því að árið 1998 voru lágmarkslaun á Íslandi. kr. 70.000 á mánuði. Nú 20 árum síðar hafa þau hækkað í kr. 300.000 sem gerir um  230.000  króna hækkun eða 328% á tímabilinu.

Því til viðmiðunar er rétt að rifja upp að þingfarakaup var árið 1998 kr. 225.000 en er í dag 1,1 milljón og hefur því hækkað um 875.000 krónur á þessum 20 árum eða  sem nemur 389%.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar krefst þess að umrætt myndband verði tafarlaust tekið úr spilun og harmar þær köldu kveðjur sem Alþýðusambandið, forsvari íslenskrar alþýðu, sendir aðildarfélögum sínum  í aðdraganda kjarasamninga.

Framsýn  spyr hvort einhugur hafi ríkt innan Miðstjórnar Alþýðusambandsins  um gerð myndbands gegn kjarabaráttu verkafólks í landinu?  Það er grátlegt að forysta ASÍ virðist ætla að stefna áfram á mið misskiptingar, óréttlætis og ójöfnuðar með því að tala fyrir samræmdri láglaunastefnu.

Þeirri stefnu hefur hinn almenni launamaður þegar hafnað.

Þannig samþykkt á fundi stjórnar, trúnaðarráðs og ungliðaráðs Framsýnar þriðjudaginn 8. maí 2018.

 

Deila á