Spreðað í auglýsingar – herferð ASÍ kostaði 6,3 milljónir fyrir utan vsk.

Eins og kunnugt er gerðu nokkur stéttarfélög alvarlegar athugasemdir við auglýsingaherferð ASÍ varðandi kjaramál sem verið hafa í birtingu undanfarnar vikur. Ótrúlegur áróður kemur fram í auglýsingunum sem beinist sérstaklega að kjarabaráttu verkafólks, varað er við launahækkunum og verkföllum. Virt auglýsingastofa var fengin til að gera auglýsingarnar enda kostuðu þær sitt eða um 6,3 milljónir fyrir utan vsk. Heildarkostnaður er því væntanlega um 7,8 milljónir.

Meðal þeirra stéttarfélaga sem hefur gert athugasemdir við auglýsingaherferð ASÍ og störf forsetans er Framsýn stéttarfélag. Allt bendir til að breytingar verði á forystu ASÍ á þingi þess í haust.

 

 

Ungliðar innan SGS áttu saman góða samverustund

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir ungliðafundi á Bifröst í Borgarfirði um miðja síðustu viku. Framsýn átti tvo fulltrúa á fundinum. Fundað var í tvo daga, það er í aðdraganda formannafundar sambandsins sem fram fór á sama stað. Meðal þess sem var til umræðu á fundinum voru áherslur ungs fólks í hreyfingunni og helstu áskoranir ungs fólks. Farið var yfir vinnumarkaðinn í alþjóðlegu samhengi undir fyrirlestri Gylfa Dalmann. Þá var fjallað um framtíð vinnumarkaðarins og þátttöku í félögum undir leiðsögn Haraldar Daða Ragnarssonar. Fræðslustjóri Samtakanna 78, Sólveig Rós fræðslustýra fór yfir málin; Eru skápar á vinnumarkaðinum? Að lokum var síðan haldinn sameiginlegur fundur ungliðana með formönnum aðildarfélaga sambandsins. Í máli ungliðina kom fram að samverustundin á Bifröst hefði bæði verið gefandi og eins fræðandi. Auk þessa var haldin kvöldvaka sem fór vel fram enda ungliðarnir til mikillar fyrirmyndar í alla staði.

Sunna Torfadóttir og Aðalbjörn Jóhannesson voru fulltrúar Framsýnar stéttarfélags á fundinum.

Ungliðar innan SGS áttu góða samverustund á Bifröst í Borgarfirði í síðustu viku.

Gagnlegur fundur SGS – Áróðurs auglýsingar ASÍ skotnar í kaf af fræðimanni

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fór fram á Bifröst í Borgarfirði fyrir helgina, um var að ræða tveggja daga vinnufund. Fundurinn fór vel fram. Formaður og varaformaður Framsýnar voru á fundinum. Í umræðum um kjaramál fór formaður Framsýnar yfir undirbúning félagsins vegna komandi kjaraviðræðna og lagði mikla áherslu á að félögin innan Starfsgreinsambandsins mótuðu saman kröfugerð sem þau færu síðan fram með gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Hann sagðist ekki trúa öðru en að með nýrri forystu Eflingar yrði Flóabandalagið lagt niður, það ætti ekki að vera þannig að Starfsgreinasambandið færi klofið í kjaraviðræðurnar í haust nema að áherslur félaganna væru ólíkar. Hann taldi mikilvægt að menn gerðu tilraun til þess að móta sameiginlega kröfugerð. Þá þyrfti aðkoma stjórnvalda að samningagerðinni að vera skýr. Framsýn kallar auk þess eftir umtalsverðum kerfisbreytingum þar sem horft verði til hagsmuna almennings en ekki fjármálakerfisins.

Formaður fór yfir áherslur félagsins þar sem kallað er eftir vaxtalækkunum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Það kom líka skýrt fram hjá formanni að Framsýn vill að samið verði um krónutölu hækkanir en ekki í prósentum þar sem prósentu hækkanir væru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerðu auk þess ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Eitt af þeim málum sem var á dagkrá fundarins var kynning hjá Stefáni Ólafssyni prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um þróun ójöfnuðar á Íslandi síðustu áratugi út frá viðamiklum rannsóknum sínum. Í lokin á þeirri kynningu fór hann yfir þau hræðsluáróðursmyndbönd sem forysta ASÍ hefur verið að deila á samfélagsmiðlum . Það eru ekki ýkjur að segja að eftir yfirferð Stefáns var boðskapur forseta ASÍ og margumræddra myndbanda gjörsamlega jarðaður og má segja að Stefán Ólafsson hafi gjörsamlega rassskellt forseta og forystu ASÍ enda kom fram í máli hans að í grundvallaratriðum væru sá boðskapur sem fram kemur í myndböndum frá ASÍ kolrangur og stæðist ekki skoðun. Framsýn tekur heilshugar undir þau orð sem Stefán Ólafsson viðhafði að það væri eins og myndböndin frá ASÍ kæmu frá forystu Samtaka atvinnulífsins en ekki forystu verkafólks! Þessi niðurstaða frá prófessornum er algerlega í anda þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið frá Framsýn, Verkalýðsfélagi Akraness, Eflingar og VR hvað þessi hræðsluáróðursmyndbönd varðar. Það þarf engum að koma á óvart að Framsýn, VR og Verkalýðsfélag Akraness hafi lagt fram vantraust á forseta ASÍ enda ljóst að hann vinnur gegn hagsmunum félagsmanna sinna eins og þessi afhjúpun á erindi frá Stefáni Ólafssyni prófessor sannar. Til viðbótar má geta þess að formaður Framsýnar spurði þá formenn innan Starfsgreinasambandsins sem sitja í miðstjórn fyrir sambandið hvort þeir hefðu vitað af auglýsingunum. Í máli þeirra koma fram að þau hefðu vitað af þeim og í máli þeirra sumra kom fram að mjög skiptar skoðanir hefðu verið innan miðstjórnar með auglýsingarnar. Í þessu ljósi er málið miklu alvarlegra, það er að þrátt fyrir að hluti miðstjórnarmanna hafi lagst gegn áróðursmyndböndunum hafi þau samt sem áður verið birt.

 

Erindi Stefáns Ólafssonar vakti mikla athygli á fundinum svo ekki sé meira sagt.

Það var mikið spjallað á fundinum enda mikið í gangi innan verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir. Hér hafa þau Vilhjálmur Birgisson formaður VA og Sólveig Anna formaður Eflingar dregið sig til hliðar en þau hafa unnið vel saman síðan Sólveig Anna tók við fjölmennasta stéttarfélaginu innan SGS í vor.

Að sjálfsögðu áttu Sólveig Anna og formaður Framsýnar einnig gott samtal sem þoldi dagsljósið. Sólveig Anna hefur áhuga fyrir því að heimsækja Framsýn í sumar.

Sigríður formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar tók þátt í fundinum.

 

Heiðrað fyrir björgunarstörf á sjómannadeginum á Húsavík

Hátíðarhöldin vegna Sjómannadagsins hafa farið vel fram á Húsavík um helgina. Í dag var  komið að heiðrun í tilefni dagsins. Heiðrunin fór fram í Miðhvammi þar sem Slysavarnardeild kvenna stóð fyrir kaffihlaðboði.Töluverður hópur fólks lagði leið sína í kaffið en slysavarnarkonur eru þekktar fyrir sín glæsilegu hlaðborð. Í ár var ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar og Vilhjálm Pálsson sem lengi hefur komið að björgunarmálum á svæðinu fyrir þeirra mikilvæga starf í þágu samfélagsins, ekki síst sjómanna. Það var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags sem flutti eftirfarandi ávarp til heiðurs Vilhjálmi og Björgunarsveitinni Garðari. Auk hans kom Heiðar Valur Hafliðson varaformaður Sjómannadeildar Framsýnar að heiðruninni.  Þá má geta þess að Framsýn færði Slysavarnardeild kvenna kr. 100.000,- að gjöf við þetta tækifæri.

Ágætu tilheyrendur!

Ég vil í upphafi óska hetjum hafsins, sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn. Reyndar er full ástæða til að óska öllum til hamingju með daginn enda sterkar rætur tengdar sjómennsku hjá okkur öllum og því sem hafið hefur gefið af sér um dagana.

Þekkt er þegar virtur bóksali hér í bæ sagði bein tengsl vera milli viðskipta í versluninni og þess hvernig fiskaðist á hverjum tíma. Fólk hefði meira á milli handanna sem skilaði sér í betri verslun og þar með velmegun í samfélaginu við Skjálfanda.

Þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á Húsavík með fækkun útgerða og þar með báta, skipar sjávarútvegur ákveðinn sess í okkar samfélagi. Sjávarútvegur og landbúnaður hafa fylgt okkur lengi og verið sterkustu stoðirnar í þingeysku atvinnulífi í gegnum söguna. Aukin ferðaþjónusta og nýr iðnaður á Bakka koma til með að styðja samfélagið enn frekar.

Eins og kunnugt er hefur þeirri merkilegu hefð verið viðhaldið á sjómannadaginn víða um land að heiðra sjómenn og þá sem tengjast sjómennsku. Það er sjómenn og aðra þá sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og farsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla. Í dag ber svo við að við ætlum að heiðra Vilhjálm Pálsson og Björgunarsveitina Garðar fyrir þeirra fórnfúsa starf til að tryggja öryggi sjófarenda.

Þannig er að Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina á sjómannadaginn frá árinu 2010 þegar leitað var til deildarinnar um að taka við þessum viðburði og sjá um þessa hlið hátíðardags sjómanna á Húsavík. Frá þeim tíma hefur stjórn deildarinnar komið saman og valið þá sem heiðraðir skyldu á hverjum tíma. Aldrei hefur verið reynt að hafa áhrif á það hvaða sjómenn væru heiðraðir. Hins vegar er afar ánægjulegt að segja frá því að í gegnum tíðina hefur reglulega verið haft samband við okkur úr nær umhverfinu og spurt hvort ekki væri komið að því að heiðra Björgunarsveitina Garðar fyrir björgunarafrek, ekki síst sjóbjarganir. Þar hafa verið fremstar í flokki eiginkonur sjómanna sem hafa talið sig vera öruggari vitandi af öflugri björgunarsveit, það er sveit manna sem ávallt væri tilbúin að bregðast við óvissuástandi eins og dæmin sanna.

Ekki síst vegna þessara sterku skilaboða hefur verið ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar fyrir frábært starf í þágu samfélagsins er tengist því að auka öryggi sjófarenda. Hlutverk sveitarinnar eru almenn slysavarna- hjálpar- og björgunarstörf.

Maðurinn sem lengi fór fyrir björgunarsveitinni, Vilhjálmur Pálsson, verður jafnframt heiðraður fyrir framgöngu sína við stofnun sveitarinnar en hún var stofnuð 17. nóvember 1959. Reyndar segir sagan að þá hafi komið saman 18 menn á Húsavík til að stofna með sér félagskap um björgun. Tveimur árum síðar hafi deildin verið stofnuð formlega.

Ákveðin skýring var á því að ákveðið var að stofna björgunarsveit á þessum tíma. Nokkrum vikum áður eða 21. október 1959 varð hörmulegt sjóslys þegar vélbáturinn Maí TH 194 frá Húsavík fórst í línuróðri við Mánareyjar og með honum tveir ungir og vaskir sjómenn sem létu eftir sig eiginkonur og börn á unga aldri. Nöfn þeirra voru Kristján Stefán Jónsson og Aðalsteinn Árni Baldursson hálfbróðir þess sem hér stendur. Sjóslysið var ákall um að stofnuð yrði björgunarsveit til að bregðast við aðstæðum sem þessum.

Þá er athyglisvert að skoða umræðuna á Alþingi Íslendinga á þessum tíma þegar Björn Jónsson alþingismaður gerir að umræðuefni öryggi og tryggingavernd sjómanna sem farast með þessum hætti og falla undir almannatryggingar. Hann kallar eftir breytingum á þáverandi lögum þar sem ekki þurfti að lögskrá á báta innan við 12 tonn á þessum tíma. Sjómenn á smábátum bjuggu við töluvert lakari tryggingavernd en aðrir sjómenn á stærri bátum en Vélbátnum Maí TH sem var 8 tonn. Í ræðu Björns Jónssonar frá 30. mars 1960 kemur m.a. fram:

„Ég veit, að það stríðir þvert á móti réttlætisvitund allra Íslendinga, að konur og börn skipverjanna af Maí og annarra, sem eins var ástatt um, gjaldi þess fjárhagslega, að farkosturinn, sem hinir látnu sigldu á í hina hinztu för, var einni eða tveimur lestum minni en svo, að heimilt væri að lögskrá á hann og tryggja þannig skipverja á sama hátt og sjómenn af stærri skipum, og sama gildir að sjálfsögðu um önnur hliðstæð tilvik.“ Tilvitnun lýkur.

Eins og heyra má lagði Björn mikla áherslu á að tekið yrði á tryggingamálum sjómanna. Síðar tókst að jafna tryggingavernd sjómanna, burt séð frá stærð skipa. Það að Björn skyldi vekja athygli á þessum misbresti í almannatryggingum eftir sjóslysið við Mánareyjar 1959 skilaði ekki síst þessum mikilvæga árangri í réttindabaráttu sjómanna og fjölskyldna þeirra.

Ágæta samkoma:

Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar og fyrrverandi formann sveitarinnar og eins af stofnendum hennar Vilhjálm Pálsson fyrir störf þeirra í þágu sjómanna og samfélagsins í heild.

Það þarf að minna okkur Íslendinga reglulega á það, hversu öflugt og fórnfúst starf björgunarsveitarfólk leggur á sig þegar neyðarkallið kemur. Það veit enginn hver er næstur í neyð.

Allt frá stofnun björgunarsveitarinnar hefur hún gengt veigamiklu hlutverki í okkar samfélagi. Alla daga ársins, nótt sem dag, hafa sjálfboðaliðar á vegum sveitarinnar verið tilbúnir að bregðast við öllum hugsanlegum aðstæðum. Kringumstæðum sem oft á tíðum eru stór hættulegar.

Reglulega heyrum við í fréttum frásagnir frá björgunaraðgerðum. Vélarvana fiskibátur á Skjálfanda, hvalaskoðunarbátar í vandræðum, rúta föst í Jökulsá, fjárskaði á Reykjaheiði, hópbifreiðaslys og ofsaveður á Norðurlandi. Allt eru þetta krefjandi aðstæður og oftar en ekki eru þar sjálfboðaliðar á vegum Björgunarsveitarinnar Garðars við störf.

Hvað björgunarstörf varðar eru enginn landamæri. Björgunarsveitarfólk á Húsavík er ávallt reiðubúið að sinna krefjandi björgunarstörfum á og við Ísland. Sveitin hefur í gegnum tíðina tekið þátt í fjölda verkefna bæði til lands og sjós í öllum landshlutum. Oft þegar um stærri útköll er að ræða á landsvísu er leitað til allra sveita innan Landsbjargar sem hefur innan sinna raða þúsundir sjálfboðaliða. Björgunarsveitarfólk á Húsavík hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar útköll hafa komið varðandi slík verkefni. Björgunarsveitinn er í dag ágætlega búin tækjum, heldur úti öflugu starfi í gegnum ungliðadeildina Náttfara auk þess að byggja starfsemi sína á sjálfboðaliðum. Í starfi sem þessu vantar alltaf sjálfboðaliða, rétt er að skora á fólk, konur og karla, að stiga fram og taka þátt í gefandi starfi sveitarinnar á Húsavík. Það er alltaf vöntun á öflugu og góðu fólki til starfa fyrir Björgunarsveitinna Garðar.

Það er ekki hægt að fara í gegnum sögu sveitarinnar nema minnast aðeins á stand Hvassafells við Flatey á Skjálfanda þann 7. mars 1975. Þennan dag var ofsaveður, norðaustan stormur, líklega um 9 vindstig, haugasjór og blindhríð. Um borð voru 19 manns, þar af þrjár konur. Ein þeirra var barnshafandi, komin sex mánuði á leið. Þar vann Björgunarsveitinn Garðar mikið björgunarafrek við mjög erfiðar aðstæður. Þetta frækna björgunarafrek hefur líklega aldrei fengið eins mikla athygli og það á sannarlega skilið, kannski vegna þess að það gekk afar vel þrátt fyrir stórhættulegar aðstæður. Enginn slasaðist við sjálfa björgunina á fólki og öllum var komið í höfn á Húsavík án áfalla. Ekki síst vegna þessa mikla björgunarafreks er það mat manna að full ástæða sé til að heiðra Björgunarsveitina Garðar. Áður höfum við heiðrað skipstjórana tvo, sem stundum hafa verið kallaðir meistarar brotsjóanna, því kjark þurfti og þor til að leggjast við hafnarkantinn í Flatey í ofsaveðri. Það voru þeir Pétur Olgeirsson og Ingvar Hólmgeirsson sem fluttu björgunarsveitina og búnað hennar út í Flatey. Það er alveg ljóst að menn lögðu sig í mikla hættu, eins og svo oft er raunin, þegar unnið er við björgunarstörf.

Sjóbjörgunarafreksins við Flatey verður lengi minnst enda góður minnisvarði um mikilvægi björgunarsveita hringinn í gegnum landið. Björgunin er einstök í sjóbjörgunarsögu SVFÍ, að því leyti að fara þurfti 15 sjómílna leið í foráttuverði og koma búnaði og mönnum í land við mjög ótryggar aðstæður. Höfum í huga að það þarf ekki að fara lengra en aftur til ársins 1959, þegar ekki var til formleg sveit manna til að bregðast við sjóslysum við Skjálfanda. Nú er öldin önnur, þökk sé þeim mönnum sem stigu fram og stofnuðu björgunarsveit á Húsavík sem og annars staðar á Íslandi.

Upp í hugann kemur Vilhjálmur Pálsson og sá frábæri hópur sem stofnaði Björgunarsveitina Garðar hér á Húsavík. Vilhjálmur Pálsson er fæddur 30. maí 1929 í Vetrarbraut á Húsavík og fagnar því 89 ára afmæli sínu um þessar mundir, nýbúinn að fá sér tattoo eins og aðrir unglingar. Hann er sonur hjónanna Páls Sigurjónssonar og Karólínu Sigurgeirsdóttur. Faðir Vilhjálms stundaði sjómennsku og var auk þess fiskmatsmaður. Móðir hans stundaði lengst af störf hjá Kaupfélagi Þingeyinga við þvotta.

Villi, eins og hann er oftast kallaður útskrifaðist frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1950. Þar kynnist hann konuefninu sínu, Védísi Bjarnadóttur og saman eiga þau þrjú uppkominn börn. Fyrir utan námsárin á Laugavatni og viðkomu við kennslustörf í Lauganesskóla um 1950, hefur Villi búið nánast alla sína tíð á Húsavík. Vilhjálmur var góður íþróttamaður og stundaði blak, frjálsar, körfubolta, fótbolta og handbolta. Að sögn Vilhjálms var hann tilnefndur til þátttöku í landsliðinu í frjálsum íþróttum, en orðið að gefa það frá sér. Hann keppti því aldrei fyrir Ísland. Villi er ekki ólíkur fýlnum, það er að segja fuglinum fýlnum, þar sem hann hefur í gegnum tíðina þurft að sjá sjóinn til að ná sér almennilega á flug enda byrjaði hann ungur að stunda sjóinn samhliða kennslu og námi.

Árið 1954 réð hann sig hjá Þórhalli Karlssyni skipstjóra og útgerðarmanni á Smára TH 59. Báturinn var gerður út á síld og vetrarvertíð. Eftir tveggja ára veru með Þórhalli skipti Villi um pláss og fór eitt ár á Stefán Þór ÞH með Tryggva Brynjólfssyni á síld og síðar á vetrarvertíð á sama bát með Maríusi Héðinssyni. Bátarnir voru gerðir út frá Húsavík og Suðurnesjunum. Um 1960 kaupir Villi trillu með Karli H. Hannessyni sem þeir nefndu Orra ÞH 16. Félagarnir stunduðu sjómennsku á sumrin á þessum tíma með annarri vinnu. Síðar átti Villi eftir að eignast aðrar trillur, það er Héðinn ÞH 176 og Pál ÞH 57. Þann bát eignaðist hann með dóttur sinni Önnu Karolínu og Brynjari Sigtryggssyni árið 1990 sem þau áttu í nokkur ár.

Eins og sjá má á þessu innskoti hefur Vilhjálmur Pálsson lengi verið viðloðandi sjóinn en hann var með 30 tonna réttindi, sem sjómaður og björgunarsveitarmaður. Þingeyskir sjómenn eiga Vilhjálmi Pálssyni mikið að þakka. Hann var hvatamaður af því að kennsla í sjóvinnu væri tekin upp á Húsavík og yrði valfag í Gagnfræðaskóla Húsavíkur þar sem hann var kennari.

Um 1976 bauð Menntamálaráðuneytið upp á námskeið í sjóvinnu til að auka tengsl skóla við atvinnulífið. Námið var tekið upp á Húsavík og fór kennslan fram í níunda og tíunda bekk. Verklega námið fór fram fyrra árið og bóklega námið síðara árið. Kennslan fór fram í Gagnfræðaskólanum og í verbúð niður við höfn. Þá var farið í róðra og fiskað. Leitað var til Bessa Guðlaugssonar til að fara með nemendur á sjó enda þótti hann bæði gætinn og góður sjómaður. Síðar fór Menntamálaráðuneytið að senda skólaskip um landið þar sem komið var við í höfnum og nemendum kennt handtökin um borð sem var hluti af náminu. Sjóvinna var kennt hér á Húsavík í um 15 ár. Nemendur sem luku prófi útskrifuðust með 30 tonna réttindi en drengir og stúlkur sem útskrifuðust þurftu auk þess að hafa náð 18 ára aldri. Villi var ekki eingöngu viðloðandi þetta nám á unglingastiginu heldur leituðu skipstjórar hér í bæ til hans þegar reglum var breytt upp úr 1980 og réttindaskyldan kom inn. Þá fengu skipstjórar ekki lengur leyfi til að stýra bátum upp að 200 tonnum nema hafa til þess tilskilin réttindi. Á þeim tíma áttu menn ekki auðvelt með að fara suður til Reykjavíkur í Stýrimannaskóla Íslands. Eftir mikla vinnu tókst Villa að sannfæra stjórnendur skólans og Menntamálaráðuneytið um að hægt væri að kenna námið á Húsavík. Gekk hann í að ráða hæfa kennara auk þess að halda utan um námið sem heppnaðist vel. Í heildina hefur Vilhjálmur Pálsson komið að því að úrskrifa um 500 til 600 sjómenn með ákveðinn skipstjórnarréttindi. Hann hætti afskiptum sínum af þessum málum um 1990.

Ég hef á undanförum árum tekið viðtöl við flesta skipstjóra sem róið hafa frá Húsavík vegna heiðrana á Sjómannadaginn. Ég hef fundið fyrir miklu þakklæti í garð Villa með hans frumkvæði á sínum tíma að halda úti þessu námi í góðu samstarfi við menntastofnanir og þá sem komu að námskeiðahaldinu. Það hafi skipt verulega miklu máli og tryggt þessa mikilvægu menntun í heimabyggð.

Eins og komið hefur verið inn á þessu ávarpi eru bein tengsl milli Vilhjálms Pálssonar og Björgunarsveitarinnar Garðars. Vilhjálmur minnist þess þegar menn vöknuðu upp við vondan draum haustið 1959 þegar vélbáturinn Maí TH fórst. Í kjölfarið hafði Jóhanna Aðalsteinsdóttir formaður Slysavarnadeildar kvenna á Húsavík samband við hann og taldi mikilvægt að fluglínutæki sem var til staðar á Húsavík en ekki í umsjón neins ákveðins aðila, yrði virkjað þannig að fleiri kynnu að fara með það svo hægara væri að grípa til þess kæmi til frekari sjóskaða. Villi tók þessu mjög alvarlega og hóf þegar í stað vinnu við að mynda björgunarsveit sem endaði með því að hún var stofnuð af hópi manna hér í bæ. Strax var hafist handa við að safna nauðsynlegum búnaði fyrir sveitina s.s. ýmsum tækjum, ennisljósum og talstöðvum. Á stofnfundinum var Villi kosinn formaður og gegndi hann því starfi í 22 ár ásamt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum sem tengdust björgunarstörfum. Hann var t.d. umdæmisstjóri björgunarsveita á Norðurlandi til margra ára.

Reyndar er Villi mikið ólíkindatól. Hann var kennari til fjölda ára, formaður Völsungs, hann var þjálfari góður og íþróttamaður, hann var sjúkrabílstjóri, hann var formaður í björgunarsveit og fór fyrir björgunarafrekinu í Flatey.

Þá má geta þess að hér á árum áður riðu hestamenn í Grana fyrir skrúðgöngu á 17. júní hér í bæ og þar var Villi að sjálfsögðu ævinlega mættur á reistum hesti. Fleira mæti nefna en þá yrði þetta ávarp allt of langt. Já, Villi hefur verið einstaklega áberandi í húsvísku samfélagi og skilað góðu verki.

Að lokum vil ég skora á alla að standa vel við bakið á Björgunarsveitinni Garðari hér eftir sem hingað til, við þurfum á þeim að halda og sveitin þarf á stuðningi okkur að halda. Höfum í huga að björgunarsveitin verður aldrei öflugri en baklandið, það þarf fjármagn til sveitarinnar þar sem tækjabúnaður hennar á hverjum tíma endurspeglast af áhuga samfélagsins á starfi deildarinnar.

Að þessu sögðu vil ég biðja Vilhjálm Pálsson og Védísi að koma hér upp ásamt núverandi formanni björgunarsveitarinnar Garðars, Birgi Mikaelssyni, Guðmundi Salómonssyni og Fanneyju Óskarsdóttur og veita viðtöku heiðursorðu sem þakklætisvott fyrir ykkar framúrskarandi starf í gegnum tíðina í þágu okkar í landnámi Garðars. Gjörið svo vel og komið hér upp.

Þóra Björg Sigurðardóttir tók við penningagjöf frá Framsýn til styrktar Slysavarnardeild kvenna á Húsavík kr. 100.000,-. Hún þakkaði kærlega fyrir stuðninginn. 

Höfðingjarnir Trausti Friðfinsson og Guðlaugur Bessason voru á svæðinu og heilsuðu upp á Vilhjálm Pálsson. Þeir eru brottflutir en eru staddir á Húsavík um þessar mundir. Trausti og Guðlaugur voru lengi til sjós.

Það var vel við hæfi að gestir í kaffihlaðborði Slysavarnardeildar kvenna stæðu upp og heiðruðu Vilhjálm og Björgunarsveitinna fyrir þeirra störf í þágu almennings í Þingeyjarsýslum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Molar frá aðalfundi – samþykkt að skoða stækkun á félagssvæðinu

Skipulagsmál voru til umræðu á aðalfundi Framsýnar á mánudaginn. Eftir góðar umræður var samþykkt að gera breytingar á 4. og 6. grein félagslaga er varðar aðild að félaginu og kjörgengi. Sjá má breytingarnar neðar í þessari frétt.

Þá var samþykkt að skoða útvíkkun á félagssvæði Framsýnar.

„Aðalfundurinn samþykkir að heimila stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að vinna að stækkun félagssvæðisins, það er að félagssvæðið verði Norður- og Vesturland, það er frá Raufarhöfn að félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.“

4.grein
Aðild og aukaaðild

Sérhver starfsmaður getur sótt um inngöngu í félagið að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. a) Sé starfandi eftir þeim kjarasamningum sem félagið á aðild að.
  2. b) Verði 16 ára á því almanaksári, er hann eða hún sækir um inngöngu.
  3. c) Standi í óbættum sökum við önnur félög innan Alþýðusambands Íslands.
  4. d) Sé ekki atvinnurekandi eða hafi ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar að því fyrirtæki eða stofnun sem hann vinnur hjá.

Nú telur stjórn og trúnaðarráð félagsins, að tekinn hafi verið í félagið einstaklingur sem ekki átti rétt til inngöngu, eða að viðkomandi hefur gefið rangar eða villandi upplýsingar um atvinnu sína eða annað, og missir þá viðkomandi þegar í stað skv. úrskurði stjórnar og trúnaðarráðs félagsins félagsréttindi og verður ekki tekinn inn í félagið fyrr en úr hefur verið bætt að fullu. Slíkum úrskurði er heimilt að visa til miðstjórnar ASÍ.

6.grein
Réttindi félagsmanna
Réttindi fullgildra félagsmanna eru eftirfarandi:

  1. a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum, kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra heildarsamtaka, sem félagið á aðild að og réttur til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, þá sem félagið á aðild að og viðkomandi félagsmaður vinnur eftir.
  2. b) Forgangsréttur til vinnu á félagssvæðinu til að vinna þau störf, sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum, sem kjarasamningar segja til um hverju sinni.
  3. c) Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við það, sem nánar er ákveðið í reglugerðum þeirra.
  4. d) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum, eftir því sem samþykktir og reglugerðir kveða á um.
  5. e) Réttur til að sækja námskeið á vegum félagsins eða þeirra samtaka, sem það er aðili að.
  6. f) Réttur til aðstoðar vegna vanefnda atvinnurekenda á kjarasamningum og til annarrar þeirrar þjónustu sem félagið veitir hverju sinni, þar með talið lögfræðiþjónustu.
  7. g) Réttur til lögfræðilegrar aðstoðar vegna bótamála í sambandi við vinnuslys eða atvinnusjúkdóma.
  8. h) Þrátt fyrir ákvæði a liðar, njóta ekki kjörgengis félagsmenn sem eru í stjórnunarstörfum innan fyrirtækja eða stofnana og þeir sem skráðir eru sem launamenn hjá eigin fyrirtæki og/eða ef maki þeirra eða annar nákominn telst hafa ráðandi stöðu eða verulegra hagsmuna að gæta innan þess sama fyrirtækis eða stofnunar.

Aukafélagar, sem ekki uppfylla ákvæði 4. greinar um fullgilda félagsmenn, hafa aðeins málfrelsi og tillögurétt um málefni félagsins, en njóta ekki annarra réttinda skv. a-lið þessarar greinar. Aukafélagar skulu njóta annarra réttinda skv. liðum b-g. Starfsmenn félagsins, starfsmenn og forystumenn þeirra heildarsamtaka, sem það á aðild að, skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, þótt þeir séu ekki félagsmenn.

 

 

 

 

 

Molar frá aðalfundi – Mikil endurnýjun í stjórnunarstörfum fyrir Framsýn

Þar sem ekki komu fram aðrar tillögur en frá Kjörnefnd Framsýnar um félagsmenn í stjórnunarstöður á vegum Framsýnar fyrir næsta kjörtímabil, sem eru tvö ár, skoðast tillaga nefndarinnar sjálfkjörin. Um er að ræða verulegar breytingar enda koma margir nýir félagsmenn inn í stjórnunarstöður á vegum félagsins, sérstaklega stjórn og trúnaðarráð. Nefna má, Börk Kjartansson, Brynjar Smárason, Magneu Dröfn Arnardóttur, Guðlaugu Ívars, Sigrún Hildi Tryggvadóttir, Kristján Önundar, Unni Kjartans, Guðrúnu Steingríms og Garðar Finnsson. Nýtt og öflugt fólk er boðið velkomið til starfa.

Aðalstjórn:                                                                   Vinnustaður:

Aðalsteinn Árni Baldursson       Formaður                            Skrifstofa stéttarfélaganna
Ósk Helgadóttir                       Varaformaður                   Þingeyjarsveit – Stórutjarnaskóli
Jóna Matthíasdóttir               Ritari                                      M+W Germany,útibú á Íslandi
Jakob G. Hjaltalín                    Gjaldkeri                              ÚA – Þurkun
Sigurveig Arnardóttir              Meðstjórnandi                  Heilbrigðisst. Norðurl. – Hvammur
Svava Árnadóttir                               Meðstjórnandi                  Norðurþing – Raufarhöfn
Torfi Aðalsteinsson                         Meðstjórnandi                  Jarðboranir hf.

 

Varastjórn:
Aðalsteinn Gíslason                                                                         Fiskeldið Haukamýri
Agnes Einarsdóttir                                                                           Hótel Laxá ehf.
María Jónsdóttir                                                                      Fatahreinsun Húsavíkur sf.
Þórir Stefánsson                                                                               Vegagerðin
Gunnþórunn Þórgrímsdóttir                                             Norðurþing – Leiksk.Grænuvellir
Börkur Kjartansson                                                                         HB Grandi

Trúnaðarráð:

Þráinn Þráinsson                                                                              Víkurraf
Brynjar Smárason                                                                            Rifós
Ölver Þráinsson                                                                                Norðlenska
Valgeir Páll Guðmundsson                                                           Sjóvá Almennar
Magnea D. Arnardóttir                                                         Norðurþing – Borgarhólsskóli
Sigrún Arngrímsdóttir                                                                     Heimavinnandi
Guðlaug Ívarsdóttir                                                             Norðurþing – Öxarfjarðarskóli
Sverrir Einarsson                                                                    Öryggismiðstöð Íslands hf.
Guðný Grímsdóttir                                                                          ÚA – Þurkun
Þórdís Jónsdóttir                                                                Þingeyjarsveit – Þingeyjarskóli
Sigrún Hildur Tryggvadóttir                                                          PCC BakkiSilicon hf.
Kristján Önundarson                                                                       Vegagerðin
Guðrún Steingrímsdóttir                                                    Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Garðar Finnsson                                                                     Icelandair – Hótel Reynihlíð
Unnur Kjartansdóttir                                                         Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Fjölskyldudagur hjá frístundabændum

Bæjarbúar og gestir tóku vel í heimboð frístundabænda á Húsavík sem buðu gestum og gangandi í heimsókn í fjárhúsin. Um hundrað manns nýtu sér tækifærið, þrátt fyrir frekar leiðinlegt veður, og skoðuðu frístundabændur og búfjárhald þeirra. Greinilegt var að fólk kunni vel að meta framtakið, ekki síst fólk sem nýlega hefur flutt til Húsavíkur. Við látum myndirnar tala sínu máli:

Molar frá aðalfundi – Frábæru fólki þakkað fyrir störf þeirra í þágu Framsýnar

Á aðalfundi Framsýnar gengu þrír aðilar úr stjórn og trúnaðarráði félagsins. Þetta eru þau Dómhildur Antonsdóttir, Einar Friðbergsson og Ragnhildur Jónsdóttir. Formaður Framsýnar þakkaði þeim fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, þeirra yrði sárt saknað úr starfinu enda í alla staði öflugt og gott fólk sem allir hefðu gaman af að vinna með. Domma, Einar og Ragnhildur þökkuðu kærlega fyrir sig og sögðu sömuleiðis hafa notið þess í botn að starfa fyrir félagið. Með þessum orðum ljúkum við umfjöllun um aðalfund Framsýnar sem fór vel fram í alla staði undir fundarstjórn Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar.

Þessi eru bara frábær.

Molar frá aðalfundi – kraftmikið starf hjá ungliðum innan Framsýnar

Guðmunda formaður Framsýnar-Ung var að sjálfsögðu á aðalfundi félagsins. Með í för var ungur sonur hennar. Vilji er til þess hjá Framsýn að gera allt til að halda úti öflugu starfi innan félagsins er viðkemur ungum félagsmönnum. Nýlega var gengið frá kjöri á nýju ungliðaráði innan félagsins eftir kjörtímabil síðasta ráðs. Nýja ráðið skipa: Ásrún Einarsdóttir, Eva Sól Pétursdóttur, Heiða Elín Aðalsteinsdóttir og Sunna Torfadóttir. Guðmunda Steina Jósefsdóttir er formaður Framsýnar-ung. Fulltrúar frá Ungliðarráðinu munu taka þátt í ungliðafundi Starfsgreinasambands Íslands sem hefst á Bifröst í Borgarfirði síðar í dag, miðvikudag.

 

Molar frá aðalfundi – félagsmenn duglegir við að sækja sér menntun

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2017 fengu 313 félagsmenn greiddar kr. 12.584.237,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2016 var kr. 11.548.910,-.

Námsstyrkir árið 2017 skiptast þannig milli sjóða:

226 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt  kr. 8.798.818,-.

8 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt         kr.   500.041,-.

11 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt    kr.   469.072,-.

25 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks  kr. 1.142.506,-.

43 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt   kr. 1.673.800,-.

Að auki fengu fjórir félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 189.000,-.

Samtals fengu félagsmenn því greiddar 12.773.237,- í námsstyrki á árinu 2017, það er með styrkjum úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Starfsmennastyrkir til félagsmanna í Framsýn hækkuðu um áramótin og verða allt að 100 þúsund krónur á ári eða 75% af kostnaði við námið. Ónotaður réttur til þriggja ára verður kr. 300 þúsund hjá almennum félagsmönnum innan félagsins. Rétturinn er aðeins hærri hjá verslunar- og skrifstofufólki. Þessir góðu styrkir koma í gegnum þá fræðslusjóði sem Framsýn á aðild að samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldskóla á félagssvæðinu.

Dæmi eru um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar með beiðni um fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.

 

 

Molar frá aðalfundi – Fjárhagsleg afkoma félagsins mjög góð á árinu 2017.

Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum Framsýnar á umliðnu starfsári enda mikið aðhald í rekstri félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 21,9%  milli rekstrarára.  Rekstrarútgjöld  félagsins hækkuðu einnig á  milli ára.

 Rekstrartekjur félagsins námu kr. 265.648.270,- sem er aukning um 21,9% milli ára. Rekstrargjöld námu 185.455.936,- sem er aukning um 21,37% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja úr sjúkrasjóði og vinnudeilusjóði auk hlutdeildar í kostnaði við Hrunabúð og hærri skatta frá samböndum. Fjármagnstekjur námu kr. 54.826.653,-.  Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 224.809.587,- á móti kr. 184.395.753,- á árinu 2016. Í árslok 2017 var tekjuafgangur félagsins kr. 128.532.122,- en var kr. 112.922.283,- árið 2016.  Heildareignir félagsins námu kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017 samanborið við kr. 1.771.721.280,- í árslok 2016. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam  kr. 73.310.410,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 11.574.684,-  til rekstursins. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

 

 

Molar frá aðalfundi- félagsmenn á ferð og flugi í boði Framsýnar

Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.

Framsýn stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og þrjár íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík. Í haust bætist væntanlega fjórða íbúðin í Þorrasölum við enda gangi kauptilboð félagsins í íbúð 204 eftir.

Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl.

Þá fengu 69 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.093.487,-.

Sumarferð stéttarfélaganna 2017 var farin í Borgarfjörð eystri helgina 20. – 21. ágúst 2017. Tæplega 20 manns tóku þátt í ferðinni sem tókst í alla staða mjög vel. Ósk Helgadóttir sá um fararstjórn og leiðsögn og stóð sig með mikilli prýði eins og henni er von og vísa. Í sumar er slík ferð fyrirhuguð í Mývatnssveit, það er gönguferð um fallega staði í sveitinni fögru.

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eru með leigusamning um afnot á orlofshúsi á Spáni. Nokkuð hefur verið um að félagsmenn hafi notfært sér þennan orlofskost. Framsýn ber ekki kostnað af orlofshúsinu heldur niðurgreiðir dvöl félagsmanna.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að kaupa miða í Hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2017:

Seldir flugmiðar       4.470            Sparnaður fyrir félagsmenn               kr. 49.617.000,-  Seldir miðar í göng   3.027           Sparnaður fyrir félagsmenn               kr.   1.059.450,-    Seldir gistimiðar         739           Sparnaður fyrir félagsmenn               kr.   1.625.800,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn                kr. 52.302.250,-

Þess má geta að stéttarfélögin hafa nú tekið upp nýtt orlofskerfi sem ætlað er að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið.

 

 

Molar frá aðalfundi – styrkir til félagsmanna úr sjúkrasjóði hækkuðu verulega milli ára

Á árinu 2017 voru 895 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði Framsýnar og 107 styrkir vegna sjúkradagpeninga og fæðingarstyrkja, það er um 1000 styrkir. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 57.309.735,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 46.108.635,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu er veruleg hækkun milli ára á styrkjum úr sjúkrasjóði eða um 24,3%.

Molar frá aðalfundi – félagsmenn aldrei fleiri eða 3.687, koma frá 38 löndum

Alls greiddu 3.514 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2017 en greiðandi félagar voru 2.920 árið 2016. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði verulega milli ára og hefur félagið aldrei verið fjölmennara. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.151 karl og 1.363 konur sem skiptast þannig, konur eru 39% og karlar 61%. Skýringin liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf.

Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.

Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 302, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 8 til 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu.

Þá má geta þess að 482 launagreiðendur greiddu launatengd gjöld til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 13 á milli ára. Árið 2016 greiddu 469 launagreiðendur til félagsins.

Félagsmenn þann 31. desember 2017 voru samtals 3.687. Hlutfallslega starfa flestir við ferðaþjónustu.

Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2017 eftir röð:

 Beck&Pollitzer Polska

Munck Íslandi ehf.

GPG. Seafood ehf.

Sveitarfélagið Norðurþing

Norðlenska matarborðið ehf.

Ríkisjóður Íslands

Íslensk verkmiðlun

Íslandshótel hf.

Jarðboranir hf.

Norðursigling ehf.

Beck&Pollitzer Polska greiddi mest allra atvinnurekenda í iðgjöld til Framsýnar á árinu 2017. Árið áður greiddi Munck Íslandi ehf. mest til félagsins. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar.

 

 

 

 

Molar frá aðalfundi – rúmlega 70 milljónir greiddar í atvinnuleysisbætur með mótframlagi á árinu 2017

Atvinnuástandið á félagssvæði Framsýnar hefur verið með miklum ágætum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni fengu 137 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2017 samtals kr. 82.952.573,-. Með mótframlagi kr. 6.636.206,- námu heildargreiðslur alls kr. 89.588.779,-.

Sambærilegar tölur fyrir árið 2016 eru eftirfarandi. Alls fengu 109 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2016 samtals kr. 66.648.792,-. Með mótframlagi kr. 5.331.903,- námu heildargreiðslur alls kr. 71.980.695,-.

Eins og kunnugt er hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á félagssvæði Framsýnar. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka hafa verið á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að atvinnulífið iði um þessar mundir.

Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum.

Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður. Ekki er annað að sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.

Rétt er að geta þess að ferðaþjónustan hefur verið að eflist ár frá ári. Menn hafa verið stórhuga í Þingeyjarsýslum og byggt m.a. upp hótel og aðra þjónustu við ferðamenn. Í því sambandi má nefna Sjóböðin á Húsavíkurhöfða sem líkt og Jarðböðin í Mývatnssveit eiga án efa eftir að draga til sín fjölmarga gesti.

Um þessar mundir er PCC BakkiSilicon hf. að hefja starfsemi á Bakka. Væntanlega verður um að ræða öfluga atvinnugrein í iðnaði. Þá eru bundnar vonir við að með tilkomu Vaðlaheiðargangna muni atvinnusvæðið á Norðurlandi styrkjast enn frekar.

 

 

Hver vill vekja verðbólgudrauginn? Eftir Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar á Húsavík, Ragnar Þór Ingólfsson formann VR og Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akranes.

Frá því að Seðlabanki Íslands tók upp 2,5% verðbólgumarkmið árið 2001 hefur bankanum aðeins tekist að halda verðbólgu innan marka á þremur tímabilum. Það tókst fyrstu tíu mánuði ársins 2003 og í mars 2005 en svo urðu umskipti í árangri Seðlabankans að halda verðstöðugleika í kjölfar hruns. Eitt lengsta tímabil frá stofnun Seðlabankans árið 1961 hefur varað nú síðustu fjögur ár þar sem tekist hefur að halda verðbólgu undir 2,5% markinu.

Hagsmunir almennings.
Óþarft ætti að rifja upp aðdraganda þess að verðtryggingu var komið á fót, en það var m.a. gert í því skyni að verja eignir lífeyrissjóða og réttindi sjóðfélaga fyrir raunrýrnun höfuðstóls. Ljóst er hverjir hagsmunir almennings eru – enda eru 83% íbúðarlána verðtryggð en hið sama á ekki við um laun hinna sömu skuldara, sem eru í óverðtryggðum krónum. Ef verðbólgudraugurinn kemst á kreik mun eigið fé í húsnæði fólks rýrna og kaupmáttur alltof lágra launa minnka.

Hagsmunir spákaupmanna.
Ekki líta þó allir verðbólguna sömu augum – því verðtrygging felur óhjákvæmilega í sér tækifæri til spákaupmennsku til skamms tíma. Fjárfestingafélög á borð við Gamma hafa keypt gríðarlegt magn húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, aðallega fyrir hönd umbjóðenda sinna. Gamma, sem fær m.a. tekjur af hækkun húsnæðisverðs í gegnum þóknanir í eignastýringu, hefur hag af áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði, sem m.a. veldur verðbólgu. Athyglisvert er að fulltrúar Gamma hafa gert kröfu um að Seðlabankinn afnemi bindiskyldu á erlendu innflæði fjármagns. Þannig sjá Gamma-menn fyrir sér að geta haldið við þenslu á húsnæðismarkaði með því að bjóða erlendum spákaupmönnum inn á markaðinn til að viðhalda verðhækkunum á húsnæði nú þegar það hefur tekið að lækka lítilega. Bankarnir þrír hafa lengi haldið úti skökkum verðtryggingarjöfnuði, sem þýðir að þeir hafa keypt skuldir af almenningi sem eru verðtryggðar til langs tíma en fjármagna sig sjálfir með óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til skamms tíma, svo að hagnaður myndast þegar verðbæturnar skila sér um leið og verðbólgan fer aftur af stað. Nú þegar ekkert hefur bólað á verðbólgunni í fjögur ár er erfiðara að græða á daginn og grilla á kvöldin. Nú er fyrirtækið Framtíðin sem er stýrt af Gamma nýlega komið inná lánamarkað og bjóða hávaxta skammtímalán og verðtryggð húsnæðis og námslán.

Er bið spákaupmanna að ljúka?
Því er augljóslega innbyggð eftirspurn meðal ákveðinna afla eftir því að verðbólgudraugurinn láti á sér kræla á ný og Seðlabankinn sofni á verðinum. Það eru ekki umbjóðendur okkar sem halda úti þeirri eftirspurn enda hafa þeir fyrst og fremst hag af því að Seðlabankanum takist lögboðið ætlunarverk að halda við verðstöðugleika. Nær enginn árangur náðist á verðbólguvaktinni óslitið í rúm 50 ár – frá stofnun Seðlabankans þar sem þrír pólitískt ráðnir Seðlabankastjórar réðu iðulega ríkjum og þar til seðlabankastjóri var faglega ráðinn í kjölfar bankahruns og fagleg peningastefnunefnd var sett á laggirnar.

Bið spákaupmanna virðist þó senn á enda þar sem skipunartími Más Guðmundssonar rennur út á næsta ári og ráða þarf nýjan seðlabankastjóra. Ráðningarferli nýs aðstoðarseðlabankastjóra er hins vegar þegar hafið á vegum forsætisráðherra. Og viti menn, í hæfnisnefndina hefur Gamma fengið sinn eigin fulltrúa, nýstiginn úr stöðu yfirmanns efnahagsráðgjafar fyrirtækisins! Friðrik Már Baldursson hefur beinlínis verið skipaður formaður nefndar sem mun raða upp umsækjendum í stöðu aðstoðarseðlabankastjóra – og takmarka val forsætisráðherra eins og slíkum nefndum er ætlað. Friðrik Már hefur áður rekið erindi spákaupmanna gegn almannahagsmunum eins og frægt er þegar Viðskiptaráð Íslands fékk þá Richard Portes, prófessor frá London Business School, til þess að telja m.a. íslenskum lífeyrissjóðum trú um að allt væri í stakasta lagi með íslensku bankana, einungis 10 mánuðum áður en þeir féllu.

Jafnvel þótt litið væri fram hjá þessum lið á starfsferli Friðriks Más liggur fyrir að hann hætti störfum hjá Gamma skömmu áður en hann settist í sæti formanns hæfisnefndar jafnvel nokkrum dögum áður en hann var skipaður. Samkvæmt Viðskiptablaðinu í síðustu viku hætti Friðrik Már “nýlega” störfum hjá Gamma sem hefur ekki svarað fyrirspurn hvenær það gerðist.

Kerfi í kreppu.
Kjarabarátta snýst ekki bara um kaupmátt launa heldur fyrst og fremst um réttláta skiptingu kökunnar sem næst einungis fram með kerfisbreytingum. Að okkar mati er það hrein ögrun við verkalýðshreyfinguna og almenning að forsætisráðherra skuli velja til þessa afdrifaríka verkefnis mann sem er svo augljóslega nátengdur gríðarlegum sérhagsmunum. Þeir sérhagsmunir eru vitaskuld í senn andstæðir almannahagsmunum.

Öllum, sem fylgst hafa með efnahagsmálum, má ljóst vera að Friðrik Már Baldursson er samkvæmt þessu vanhæfur sem formaður hæfisnefnda fyrir lykilstöður Seðlabanka Íslands – þegar litið er til dómaframkvæmdar um vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar. Þær eru náskyldar hæfisreglum réttarfars, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 17. maí sl. í máli nr. 752/2017 er tengdist einum bankanna en tengsl hins vanhæfa héraðsdómara við bankann voru mun minni en tengsl Friðriks Más við Gamma. Áhrif vanhæfis í slíkum tilvikum eru að stöðuveiting er væntanlega ógildanleg. Embættisfærslur af því tagi af hendi forsætisráðherra geta ekki annað en vakið upp vantraust meðal almennings og minnkandi trú á sjálfstæði Seðlabankans.

Margoft hefur landslýður þurft að treysta á dómstóla – innlenda sem erlenda – til þess að ná rétti sínum vegna athæfis bankakerfisins, svo sem vegna Icesave og gengistryggðra lána, svo að dæmi séu nefnd.

Þarf að treysta á dómstóla?
Ætla kjörnir fulltrúar og þingbundin stjórnvöld að láta þetta endurtaka sig? Þarf launafólk virkilega enn að stóla á dómskerfið í stað kjörinna fulltrúa til þess að krefjast réttar síns til þess að búa við óspillt, gegnsætt og faglegt kerfi sem gætir almannahagsmuna?

Forysta verkalýðshreyfingarinnar mun ekki sitja hjá. Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formann Verkalýðsfélags Akranes.

 

Molar frá aðalfundi – Styrkir hækka verulega, líkamsræktarstyrkur fer í kr. 30.000,-.

Í ljósi góðrar stöðu Framsýnar var samþykkt að hækka styrki til félagsmanna úr Sjúkrasjóði. Um er að ræða umtalsverðar hækkanir. Þessar eru helstar:

    • Niðurgreiðslur vegna sjúkranudds hækki úr kr. 2.300 í kr. 2.500 per tíma.
    • Niðurgreiðslur vegna meðferðar hjá kírópraktorum hækki úr kr. 2.300 í kr. 2.500 per tíma.
    • Niðurgreiðslur vegna heilsunudds hjá viðurkenndum heilsunuddara hækki úr kr. 2.000 í kr. 2.200 per tíma.
    • Niðurgreiðslur vegna nálastungumeðferðar hjá viðurkenndum aðilum hækki úr kr. 2.000 í kr. 2.200 per tíma.
    • Niðurgreiðslur vegna endurhæfingar hjá NFLÍ Hveragerði eða sambærilegum stofnunum hækki úr kr. 60.000 í kr. 70.000.
    • Niðurgreiðslur vegna framhalds krabbameinsskoðunar hækki úr kr. 4.500 í kr. 6.000.
  • Niðurgreiðslur vegna krabbameinsleitar í ristli og/eða blöðruhálsi hækki úr kr. 25.000 í kr. 30.000.

 

  • Niðurgreiðslur vegna tækni- og glasafrjóvgunar hækki úr kr. 100.000 í kr. 150.000.
  • Niðurgreiðslur vegna áhættumats hjá Hjartavernd eða hjá sambærilegri stofnun hækki úr kr. 17.000 í kr. 20.000.

 

  • Niðurgreiðslur vegna heilsueflingar hækki úr kr. 17.000 í kr. 30.000.
  • Niðurgreiðslur vegna meðferðar hjá sálfræðingum hækki úr kr. 6.000 í kr. 7.000 per tíma.
  • Niðurgreiðslur vegna meðferðar/viðtala hjá fjölskylduráðgjöfum hækki úr kr. 6.000 í kr. 7.000 per tíma.
  • Niðurgreiðslur vegna meðferðar/viðtala hjá geðlæknum hækki úr kr. 6.000 í kr. 7.000 per tíma.
  • Niðurgreiðslur vegna aðgerða á augum hækki úr kr. 50.000 í kr. 60.000, það er per auga. Samtals styrkur getur því orðið kr. 120.000.
  • Niðurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum og linsum hækki úr kr. 50.000 í kr. 60.000.
  • Niðurgreiðslur vegna kaupa á heyrnartækjum hækki úr kr. 75.000 í kr. 80.000 per eyra. Samtals getur endurgreiðslan orðið kr. 160.000.
  • Útfararstyrkur vegna félagsmanna sem eru á vinnumarkaði og falla frá hækki úr kr. 330.000 í kr. 360.000. Fullur réttur helst í 5 ár frá því að menn hætta á vinnumarkaði.
  • Fæðingarstyrkur og ættleiðingastyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 100.000,- í kr. 150.000 með hverju barni.Skilyrði fyrir niðurgreiðslum til félagsmanna verða að öðru leiti þær sömu og verið hafa, það er samkvæmt reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins.

 

Hafið öll kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf, þið eruð öll frábær sem og félagsmenn Framsýnar. Án ykkar væri Framsýn ekki eitt öflugasta stéttarfélag landsins.

Formaður Framsýnar, kom víða við í ávarpi sínu í á aðalfundi félagsins í gær, hér má lesa boðskapinn:

Ágætu félagar, velkomin á aðalfund Framsýnar stéttarfélags

 Megintilgangur Framsýnar stéttarfélags er að vinna að hagsmunamálum launþega á starfssvæðinu, með því að semja um kaup og kjör, standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra og vinna að hverskonar fræðslu- og menningarstarfsemi á félagssvæðinu.

Samkvæmt lögum Framsýnar ber að halda aðalfund félagsins á hverju ári, það er fyrir lok maímánaðar ár hvert. Dagskráin skal vera samkvæmt lögum félagsins.

Gerð er krafa um að stjórn og trúnaðarráð félagsins leggi fram skýrslu um störf félagsins á umliðnu starfsári og ársreikninga.

Til að uppfylla þessar kröfur hafið þið fyrir framan ykkur ítarlega ársskýrslu Framsýnar auk ársreikninga félagsins og Hrunabúðar sf. sem hér eru til kynningar en ekki afgreiðslu.

Ég skora á fundarmenn að kynna sér fundargögnin.

Ætlun mín er að gera stuttlega grein fyrir starfsemi félagsins. Huld Aðalbjarnardóttir mun síðar á fundinum fara yfir ársreikninga félagsins og Hrunabúðar sf. sem er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar og varðar rekstur á efri hæðinni að Garðarsbraut 26. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir starfsemi Virk, starfsendurhæfingar.

Þegar horft er til starfsemi félagsins á umliðnu starfsári má sjá að starfið hefur aldrei í sögunni verið eins öflugt og um þessar mundir. Alls greiddu 3.514 einstaklingar til Framsýnar stéttarfélags á árinu 2017, en greiðandi félagar voru 2.920 árið 2016. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði verulega milli ára eða um tæplega 600 og hafa þeir aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.151 karl og 1.363 konur sem skiptast þannig, konur eru 39% og karlar 61% af félaginu. Skýringin liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf.

Með gjaldfrjálsum félagsmönnum sem eru 302 voru félagsmenn í árslok 2017 samtals 3.687. Hlutfallslega starfa flestir félagsmenn við ferðaþjónustu.

Það er athyglisvert að erlendum félagsmönnum innan Framsýnar hefur fjölgað verulega á síðustu 20 árum. Um þessar mundir koma tæplega 40% félagsmanna frá 38 þjóðlöndum fyrir utan Ísland.

Þá má geta þess að 482 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 13 milli ára. Verktakafyrirtækin Beck&Pollitzer og Munck Íslandi ehf. greiddu mest til félagsins á árinu 2017. Beck&Pollitzer greiddi þó mest eða um 20 milljónir, innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna.

Eins og sjá má í ársreikningum Framsýnar vegna ársins 2017 er fjárhagsleg afkoma félagsins með miklum ágætum. En höfum í huga að eitt strangt og langt verkfall gæti komið sér afar illa fyrir félagið, það er fjárhagslega.  Rekstrartekjur félagsins námu kr. 265.648.270,- sem er aukning um 21,9% milli ára og varð rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins. Rekstrargjöld námu 185.455.936,- sem er aukning um 21,37% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja úr sjúkrasjóði og vinnudeilusjóði auk hlutdeildar í kostnaði við Hrunabúð og hærri skatta frá samböndum.

Í árslok 2017 var tekjuafgangur Framsýnar kr. 128.532.122,- en var kr. 112.922.283,- árið 2016.  Þá námu heildareignir félagsins kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017 samanborið við kr. 1.771.721.280,- í árslok 2016.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. 

Á árinu 2017 voru greiddir um 1000 styrkir til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 57.309.735,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 46.108.635,-.

Samkvæmt niðurstöðunni varð veruleg hækkun milli ára á styrkjum úr sjúkrasjóði eða um 24,3%. Við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að félagið hafi burði til að mæta auknum útgjöldum, stundum óvæntum. Aðhald í rekstri Framsýnar til fjölda ára er lykillinn að því að félagið getur mætt aðstæðum sem þessum. Það á hins vegar ekki við um öll stéttarfélög í landinu eins og nýlegar fréttir bera með sér.

Að venju hafa kjaramálin verið fyrirferðarmikil í starfi félagsins. Gengið var frá stofnanasamningum við ríkisstofnanir á svæðinu, það er við framhaldsskólana á Laugum og á Húsavík. Félagið kom að því að ganga frá vinnustaðasamningum með starfsmönnum Jarðborana við fyrirtækið auk þess að sjá um atkvæðagreiðslu um samninginn sem var samþykktur.

Þann 19. mars 2018 gengu Framsýn og Þingiðn frá sérkjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf. Gildistími samningsins er út árið 2018. Samningurinn nær til framleiðslustarfsmanna og iðnaðarstarfsmanna samtals 62 starfsmanna, þar af eru 10 félagsmenn innan Þingiðnar og 52 í Framsýn.

Um 111 starfsmenn koma til með að starfa hjá fyrirtækinu í þessum áfanga og verður mikill meirihluti þeirra í Framsýn. Áður en atkvæðagreiðslan fór fram um samninginn gafst starfsmönnum kostur á að taka þátt í tveimur kynningarfundum. Atkvæðagreiðsla um samninginn fór fram í lok fundanna og var samningurinn samþykktur samhljóða.

Almennt eru kjarasamningar sem Framsýn á aðild að í gegnum landssamböndin lausir um næstu áramót. Kjarasamningar Framsýnar við ríkið og sveitarfélög losna síðar eða 31. mars 2019.

Undirbúningur félagsins er hafinn og á næstu vikum verður farið í vinnustaðaheimsóknir til að kalla eftir kröfum félagsmanna. Þá verður einnig auglýst eftir tillögum frá félagsmönnum í næsta Fréttabréfi og á heimasíðu félagsins. Því miður virðist áhugi fólks fyrir almennum félagsfundum ekki vera til staðar. Því er að mati félagsins vænlegra til árangurs að standa fyrir vinnustaðaheimsóknum og auglýsa eftir kröfum félagsmanna. Það form virkar vel enda mikill áhugi til staðar hjá félagsmönnum að fá forystumenn Framsýnar í heimsókn á vinnustaði.

Vissulega voru það gríðarleg vonbrigði að aðildarfélög/sambönd Alþýðusambands Íslands skyldu ekki nýta sér ákvæði í kjarasamningum og segja upp samningunum í febrúar 2018 þegar þeir komu til endurskoðunar, enda forsendur brostnar.

Þrátt fyrir að meirihluti félagsmanna innan sambandsins vildi að samningunum yrði sagt upp dugði það ekki til þar sem meirihluta aðildarfélaga þarf til að þeir losni. Afgreiðslan fór fram á formannafundi Alþýðusambands Íslands í febrúar.

Framsýn talaði skýrt fyrir því að samningunum yrði sagt upp. Það er reyndar sorglegt að þau stéttarfélög sem lögðust gegn því að samningunum yrði sagt upp tali nú fyrir hörðum átökum um næstu áramót takist ekki að semja á nótum verkalýðshreyfingarinnar.

Hvernig væri að þessi félög létu verkin tala og stæðu í lappirnar með félögum eins og Framsýn sem lengi hefur farið fyrir þeim stéttarfélögum sem kalla eftir harðari kjarabaráttu. Það verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með framvindu mála næstu mánuðina og hvort raunveruleg samstaða verði meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna um að krefjast löngu tímabærra hækkana fyrir félagsmenn sambandanna. Framsýn kallar eftir því.

Hugsanlega þurfum við að búast við því að önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins fyrir utan Verkalýðsfélag Akraness og Eflingu geri tilraun til að útiloka Framsýn frá samstarfi um mótun kröfugerðar á vegum sambandsins. Við höfum áður þurft að búa við slíkt viðmót frá forystu sambandsins. Þá er mikilvægt að eiga gott samstarf við VR um mótun endanlegrar kröfugerðar enda á sömu línu og Framsýn.

Framsýn verður seint sakað um að fylgja ekki eftir skoðunum félagsmanna beint og milliliðalaust inn á samningaborðið í Karphúsinu. Við höfum aldrei látið yfirlýsingar frá Alþýðusambandi Íslands, lágvörninni innan verkalýðshreyfingarinnar eða forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa áhrif á okkar skoðanir þegar kemur að kjara- og réttindamálum verkafólks.

Það er ljós í myrkrinu. Töluverð endurnýjun hefur átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar sem er afskaplega ánægjulegt. Kraftmiklir formenn eru komnir til starfa hjá VR, VM og Eflingu og þeir kalla eftir viðhorfsbreytingum. Boltinn er komin af stað og framundan eru frekari breytingar á forystusveit stéttarfélaga sem er vel.

Þá hefur Framsýn lengi barist fyrir því að kosið verði um embætti forsesta Alþýðusambands Íslands á hverjum tíma í beinni kosningu, það er að allir félagsmenn hafi atkvæðisrétt í allsherjaratkvæðagreiðslu. Það á ekki að líðast að fámenn klíka í skjóli fjölmennra stéttarfélaga innan ASÍ ráði valinu á hverjum tíma á æðsta embættismanni verkalýðshreyfingarinnar. Sá tími er löngu liðin.

Fyrir liggur að núverandi forseti Alþýðusambands Íslands nýtur ekki trausts félagsmanna Framsýnar frekar en forystu VR sem nýlega lýsti yfir formlegu vantrausti á hans störf. Framsýn tekur heilshugar undir vantraust VR og fyrir aðalfundinum liggur ályktun þess efnis.

Þá þarf að opna aðgengi aðildarfélaga að fundargerðum Alþýðusambandsins en þær eru lokaðar aðildarfélögunum.

Það er fullur vilji hjá formönnum Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar að berjast fyrir því að verkalýðshreyfingin komist upp úr núverandi kyrrstöðu og láti verkin tala.

Þessir aðilar hafa myndað með sér samstarf um að berjast fyrir hagsmunum verkafólks. Þau kalla eftir nýjum viðhorfum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda í garð þess hóps sem býr við hvað lökust kjörin í landinu.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fjölmargir hafa haft samband við fjórmenningana og hvatt þau til dáða meðan forysta Alþýðusambands Íslands hefur varað við skoðunum þeirra með yfirlýsingum og auglýsingu sem Framsýn brást við með því að senda frá sér yfirlýsingu 8. maí 2018 og er meðfylgjandi skýrslunni.

Framsýn stéttarfélag kallar eftir nýjum áherslum í verkalýðsbaráttu á Íslandi og hvetur félagsmenn stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands til að vera virka og gefa kost á sér til starfa fyrir félögin. Liður í löngu tímabærri endurnýjun innan hreyfingarinnar er að kalla ungt fólk til starfa fyrir stéttarfélögin, líkt og Framsýn stéttarfélag gerir með því að halda úti öflugu ungliðaráði innan félagsins sem skipað er ungu fólki á aldrinum 18 ára upp í 35 ára aldur.

Hvað viðkemur atvinnuástandinu á félagssvæðinu þá fengu 137 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur með mótframlagi á árinu 2017 samtals kr. 89.588.779,- frá Vinnumálastofnun. Árið áður fengu 109 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur samtals með mótframlagi kr. 71.980.695,-.

Vissulega eru þetta háar tölur, þrátt fyrir það hefur atvinnuástandið verið með miklum ágætum.

Eins og kunnugt er hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á félagssvæði Framsýnar. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka hafa verið á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að atvinnulífið iði um þessar mundir.

Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum. Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður auk ferðaþjónustu. Ekki er annað að sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.

Um þessar mundir er PCC BakkiSilicon hf. að hefja starfsemi á Bakka. Væntanlega verður þar um að ræða öfluga atvinnugrein í iðnaði. Þá eru bundnar vonir við að með tilkomu Vaðlaheiðargangna muni atvinnusvæðið á Norðurlandi styrkjast enn frekar.

Á uppgangstímum er ekki síst mikilvægt að halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti. Undanfarin ár hafa umsvifin í Þingeyjarsýslum verið í sögulegu hámarki, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Fyrir rétt um tveimur árum var ráðinn sérstakur starfsmaður í vinnustaðaeftirlit á vegum stéttarfélaganna með stuðningi frá nokkrum aðilum sem komið hafa að framkvæmdunum á svæðinu.

Samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir hefur verið með miklum ágætum, sérstaklega hafa félögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Nú þegar hillir undir að framkvæmdunum ljúki hefur verið ákveðið að draga aðeins úr eftirlitinu með því að halda úti formlega 50% starfi frá og með 1. maí 2018. Að sjálfsögðu munu aðrir starfsmenn stéttarfélaganna koma að eftirlitinu við reglubundnar heimsóknir á vinnustaði.

Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framsýn stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi, fjórar íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík.

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að Framsýn gekk frá kaupum á nýrri íbúð í Þorrasölum í síðustu viku þar sem félagið átti fyrir þrjár íbúðir. Þannig vill félagið koma til móts við sífellt fjölgandi félagsmenn þar sem núverandi íbúðir eru uppteknar flesta daga. Næsta verkefni í íbúðarkaupum, utan Þingeyjarsýslna, verður væntanlega á Akureyri. Áhugi er fyrir því innan stjórnar Framsýnar að kanna kaup á íbúð á Akureyri, eigi síðar en á næsta ári.

Framsýn hefur lagt töluvert upp úr orlofsmálum fyrir félagsmenn með því að bjóða þeim upp á gott aðgengi að orlofshúsum, íbúðum, tjaldstæðum, hótel- og gistiheimilum. Þá hefur verið boðið upp á sumarferðir og íbúð á Spáni.

Þegar orlofsmál eru til umræðu er rétt að nefna að félagsmenn spöruðu sér um 52 milljónir á síðasta ári með kaupum á flugmiðum, miðum í Hvalfjarðargöngin og á hótel- og gistiheimili. Til gamans má geta þess að Skrifstofa stéttarfélaganna seldi 4.470 flugmiða á síðasta ári. Framsýn hefur með samningum við Flugfélagið Erni tryggt félagsmönnum óbreytt verð kr. 8.900 per flugmiða út árið 2018.

Þess ber að geta að stéttarfélögin hafa nú tekið upp nýtt orlofskerfi sem ætlað er að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið með því að fara inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is. Nýja kerfið auðveldar félagsmönnum að kaupa flugmiða um leið og það dregur úr álaginu á skrifstofunni sem er hið besta mál.

Það getur enginn efast um mikilvægi stéttarfélaga, ekki síst þegar kemur að því að efla starfsmenntun félagsmanna. Framsýn er mjög umhugað um þennan málaflokk og heldur úti kynningarstarfsemi auk þess sem félagsmenn hafa aðgengi að öflugum styrkjum til starfsmenntunar.

Á árinu 2017 fengu 313 félagsmenn greiddar kr. 12.584.237,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum og eru það endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2016 var kr. 11.548.910,-. Að auki fengu fjórir félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 189.000,-. Samtals fengu félagsmenn því greiddar 12.773.237,- í námsstyrki á árinu 2017, það er með styrkjum úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Starfsmennastyrkir til félagsmanna í Framsýn hækkuðu um síðustu áramót og verða allt að 100 þúsund krónur á ári eða 75% af kostnaði við námið. Ónotaður réttur til þriggja ára verður kr. 300 þúsund hjá almennum félagsmönnum innan félagsins. Rétturinn er aðeins hærri hjá verslunar- og skrifstofufólki. Þessir góðu styrkir koma í gegnum þá fræðslusjóði sem Framsýn á aðild að samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að Framsýn er deildaskipt félag. Auk þess að hafa almenna deild sem flestir tilheyra, eru tvær formlegar deildir innan félagsins, það er Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Jóna Matt og Jakob Gunnar Hjaltalín fara fyrir þessum deildum. Þá er innan félagsins starfandi ungliðaráð sem fer með málefni ungs fólks innan félagsins. Guðmunda Steina Jósefsdóttir fer fyrir ungliðaráðinu. Draumurinn er að efla þessa starfsemi innan Framsýnar með það að markmiði að hvetja ungt fólk til starfa fyrir félagið á komandi árum.

Áhugaverðum áfanga í sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum var náð þann 28. apríl 2018. Þá voru liðin 100 ár frá stofnun Verkakvennafélagsins Vonar. Innan stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar var einhugur um að minnast þessara tímamóta með virðingu. Ráðist var í að gefa út ljóðabók með völdum ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur en hún fór fyrir þeim konum sem stofnuðu verkakvennafélagið á sínum tíma, það er 28. apríl 1918. Verkefnið var unnið með afkomendum Bjargar. Ásprent sá um setningu og prentun á bókinni „Tvennir tímar“.

Jafnframt var ákveðið að láta stækka gamlar ljósmyndir af konum við störf og gefa út afmælisblað sem er væntanlegt til lesenda á næstu vikum. Egill Páll Egilsson fjölmiðlafræðingur ritstýrir blaðinu.

Varðandi ljósmyndirnar þá eiga þær flestar það sameiginlegt að vera frá starfstíma Vonar. Pétur Jónasson ljósmyndari á Húsavík tók verkið að sér og skilaði því af sér með miklum sóma.

Ljósmyndunum verður fljótlega komið fyrir í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, í Þröskuldi litla fundarsalnum á efri hæðinni.

Vegna afmælisins var blásið til afmælisveislu í Menningarmiðstöð Þingeyinga þann 28. apríl sl. Sérstakur gestur hátíðarinnar var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem tók við fyrstu ljóðabókinni enda útgáfudagur bókarinnar þann sama dag. Hún ásamt formanni og varaformanni Framsýnar flutti ávarp auk Birgis Þórs Þórðarsonar afkomanda Bjargar Pétursdóttur. Hann þakkaði Framsýn sérstaklega fyrir samstarfið fyrir hönd afkomenda og sagði bókina öllum til mikils sóma. Eftir flutning ávarpa var boðið upp á tónlistaratriði, kaffi og veitingar með gömlu sniði þar sem kleinur, pönnukökur og randalín voru í boði.

Við þetta tækifæri færði Framsýn Kvenfélagsambandi Suður Þingeyinga 150 ljóðabækur og afkomendum Bjargar Pétursdóttur 100 bækur að gjöf. Þá var Menningarmiðstöð Þingeyinga fært hljóðkerfi að gjöf til að nota við menningarviðburði á vegum miðstöðvarinnar. Starfsmenn miðstöðvarinnar aðstoðuðu Framsýn við að safna myndunum af konum við störf, en þær eru fengnar úr Ljósmyndasafni Þingeyinga. Með gjöfinni vildi félagið þakka fyrir samstarfið, en hljóðkerfið kemur að góðum notum í öflugu starfi Menningarmiðstöðvarinnar. Allir þessir aðilar þökkuðu vel fyrir gjafirnar, Kvenfélagasambandið, afkomendur Bjargar og Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Framsýn stéttarfélag hefur komið að mörgum öðrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.

Félagið sendi frá sér 7 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.

Félagið stóð fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn 9. júní 2017 á Kaffi Ljósfangi. Boðið tókst að venju mjög vel en um 120 gestir þáðu boð félagsins, sem fram fór í blíðskaparveðri.

Framsýn stóð fyrir sameiginlegum félagsfundi með Þingiðn í júní 2017 um breytingar á framlögum til lífeyrissjóða. Fulltrúar frá Lsj. Stapa komu í heimsókn og gerðu grein fyrir breytingunum.

Ákveðið var á fundi í ágúst að kaupa stofnfé í Sparisjóði Suður- Þingeyinga fyrir kr. 3.300.000. Félagið leit á þetta sem góðan fjárfestingakost auk þess sem markmiðið var að efla um leið starfsemi sparisjóðsins í heimabyggð.

Eins og fram hefur komið stóð Framsýn fyrir fjölmörgum vinnustaðafundum á síðasta starfsári. Sá fjölmennasti var haldinn á Bakka í byrjun júlí þegar fundað var með starfsmönnum Beck & Pollitzer á Íslandi. Fyrirtækið vann við að setja upp vélar og tæki í verksmiðju PCC á Bakka. Rúmlega 180 manns mættu á fundinn. Um er að ræða fjölmennasta vinnustaðafund í sögu Framsýnar.

Stjórn og trúnaðarráð samþykkti í desember 2017 aðgerðaáætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi fyrir Framsýn stéttarfélag. Áætlunin er aðgengileg á vef félagsins.

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni, í byrjun desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.

Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á sýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2018.

Framsýn stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði í byrjun mars 2018. Námskeiðið var óvenju fjölmennt en um 30 manns tóku þátt í námskeiðinu. Félagsmálaskóli alþýðu sá um skipulagningu námskeiðsins sem stóð yfir í tvo daga. Það þarf ekki að hafa mörg orð yfir mikilvægi þess að hafa öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum. Hvað það varðar er Framsýn afar vel sett um þessar mundir og verður svo vonandi áfram.

Þann 16. maí 2018 stóð Framsýn í samstarfi við Íslandsbanka fyrir fjölmennum fræðslufundi sem bar yfirskriftina „Fjármál við starfslok“. Fundurinn sem var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna var fjölmennur en um 60 einstaklingar mætu á fundinn.

Þó nokkuð er um að forsvarsmenn félagsins séu beðnir um að flytja erindi á fundum og ráðstefnum auk þess að taka þátt í umræðuþáttum um velferðar og verkalýðsmál enda greinilegt að starf félagsins nýtur mikillar virðingar í þjóðfélaginu.

Félagið hefur komið að því að styðja við bakið á íþróttafélögum á svæðinu, sérstaklega Völsungi, HSÞ og Eflingu.

Töluverð ásókn er í félagið frá starfsfólki sem starfar ekki á félagssvæði Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau félög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi starfar á. Þessa reglu vill Framsýn stéttarfélag virða.

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og tveir starfsmenn eru í hlutastarfi við vinnustaðaeftirlit og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.

Tekin hefur verið ákvörðun um að hætta samstarfi við Mandat lögmannstofu sem þjónustað hefur stéttarfélögin til fjölda ára vegna málefna er tengjast kjara- og réttindamálum félagsmanna. Nú ber svo við að reyndustu lögmennirnir eru hættir á stofunni. Því var ákveðið að semja við Jón Þór Ólason lögmann um að taka við keflinu og sjá um mál sem stéttarfélögin þurfa að vísa til lögmanna til frekari vinnslu.

Þá hafa verið gerðar umtalsferðar breytingar á bókaldskerfi stéttarfélaganna og nýtt kerfi tekið upp, svokallað DK- bókhaldskerfi. Því er ætlað að einfalda og auðvelda starfsmönnum að færa bókhaldið og gera það um leið skilvirkara.

Eins og fram kemur í skýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Fyrir aðalfundinum liggja fyrir tillögur um að hækka verulega styrki til félagsmanna í gegnum sjúkrasjóð félagsins. Markmiðið er nú sem endranær að reka félagið vel með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Styrkur félagsins kemur auk þess ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum, gangnamiðum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði og trúnaðarmönnum á vinnustöðum. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu félagsmönnum sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á höndum, sem og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. Ekki síst þeim sem hverfa nú úr trúnaðarstörfum fyrir félagið um leið og nýir fulltrúar eru boðnir velkomnir.

Það verður töluverð endurnýjun í stjórn og trúnaðarráði á þessum aðalfundi sem er afar ánægjulegt og eðlileg þróun.

Hafið öll kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf, þið eruð öll frábær sem og félagsmenn Framsýnar. Án ykkar væri Framsýn ekki eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Til hamingju með það kæru félagar!

 

 

Fjörugum aðalfundi lokið – Vantraust tillaga samþykkt samhljóða

Rétt í þessu var fjörugum og málefnalegum aðalfundi Framsýnar stéttarfélags að ljúka. Mörg mál voru á dagskrá fundarins. Samþykkt var að stórhækka styrki til félagsmanna úr sjúkrasjóði. Vinna er hafin við mótun kröfugerðar, til stendur að skoða stækkun á félagssvæðinu og þá var tillaga um vantraust á störf forseta Alþýðusambands Íslands samþykkt samhljóða. Hér má lesa samþykkt fundarins: 

„Alþýðusamband Íslands hefur ekki talið ástæðu til að verða við beiðni Framsýnar stéttarfélags um að taka úr umferð auglýsingar þar sem varað er við launahækkunum til láglaunafólks.

Því samþykkir aðalfundur félagsins að lýsa yfir vantrausti á forseta Alþýðusambands Íslands.

Það er með ólíkindum að Alþýðusamband Íslands skuli leyfa sér að verja ofurlaunahækkanir til embættismanna þjóðarinnar, forstjóra fyrirtækja og aðila í fjármálageiranum með því að berja niður samtakamátt verkafólks í landinu með áróðursauglýsingum. Samtök sem eiga að setja málstað vinnandi fólks ofar öllu.

Það að vara verkafólk við því að fylgja eftir kröfum sínum er undarleg hugmyndafræði. Sú túlkun forystumanna launþega á því að það séu einungis kaupkröfur þeirra sem skapa þjóðarauðinn sem leiða af sér óðaverðbólgu og ólgu á íslenskum vinnumarkaði er með öllu óskiljanleg. Kaupmáttur launa sé það sem menn eigi að horfa til, annað skipti ekki máli.

Hverju hefur þessi stefna skilað verkafólki í landinu:

  • Lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað á 20 árum um einungis 230.000 krónur á mánuði.

    Til samanburðar er athyglisvert að skoða hækkanir hjá völdum aðilum milli árana 2016 – 2017 og tilgreindar eru í ársreikningum félaganna:
  • Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
  • Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,7 milljónir.
  • Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
  • Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
  • Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
  • Forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón.
  • Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir.
  • Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir.
  • Verkamaðurinn á gólfinu hjá Granda með níu ára starfsreynslu í fiskvinnslu hækkaði um tæplega kr. 12.000 á mánuði, mánaðarlaun kr. 274.151.

    Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að kjararáð hefur hækkað laun æðstu embættismanna og ráðherra, auk þess að hækka þingfarakaup sem nemur um 200 til 400 þúsund krónur á mánuði með afturvirkum hækkunum til allt að tveggja ára.

    Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags sættir sig ekki við undanhald líkt og boðað er í auglýsingaherferð Alþýðusambands Íslands. Þess í stað kallar Framsýn eftir samfélagssáttmála um sérstakar aðgerðir til handa láglaunafólki í landinu í gegnum skattkerfisbreytingar og bætt launakjör.

    Það er hlutverk stéttarfélaga að vera málsvarar sinna félagsmanna. Framsýn stéttarfélag tekur hlutverk sitt mjög alvarlega og mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir auknum lífsgæðum og réttindum félagsmanna. Annað er ekki í boði.“

Miklar umræður urðu á fundinum í kvöld um stöðuna í verkalýðshreyfingunni og kjaraviðræðurnar sem eru framundan við Samtök atvinnulífsins. Á næstu dögum verður fjallað nánar um fundinn á heimasíðu félagsins.