Öskubuskuævintýri á þingi ASÍ

Óhætt er að segja að þing Alþýðusambands Íslands sem fram fór í síðustu viku hafi verið tímamótaþing. Þingið sjálft fór vel fram en mikil spenna var í loftinu varðandi kjör í flest embætti innan ASÍ. Tæplega 300 fulltrúar tóku þátt í þinginu frá aðildarfélögum sambandsins. Að lokum fór svo að verulegar breytingar urðu á kjöri fólks í trúnaðarstöður fyrir ASÍ. Miðað við niðurstöðurnar var ákall um verulegar breytingar, fólk sem starfað hefur lengi innan ASÍ í stjórnum og ráðum náði ekki kjöri þrátt fyrir að sækjast hart eftir því. Segja má að róttæku öflin innan Alþýðusambandsins hafi unnið fullnaðar sigur svo vitnað sé í fréttaskýringu Ríkisútvarpsins frá niðurstöðum þingsins. Ánægjulegt er að sjá að þrír öflugir formenn innan aðildarfélaga sambandsins, sem hafa verið mjög áberandi í umræðunni um verkalýðsmál, náðu kjöri í þau embætti sem þau sóttust eftir. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness var kjörinn fyrsti varaforseti ASÍ en Guðbrandur Einarsson formaður Landssambands ísl. verslunarmanna fór fram gegn Vilhjálmi en varð að játa sig sigraðan. Guðbrandur hefur lengi starfað við hlið Gylfa Arnabjörnssonar forseta ASÍ sem gaf ekki kost á sér. Þess í stað var Drífa Snædal kjörin forseti. Ljóst er að Drífu bíður mikið starf að sameina ólík sjónarmið innan hreyfingarinnar. Líkt og Vilhjálmur þurfti Drífa að keppa við Sverri Mar Albertsson um embættið. Sverrir og Guðbrandur duttu báðir út úr trúnaðarstörfum fyrir sambandið en þeir voru áður í miðstjórn. Ánægjulegt var að sjá að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar fengu bæði góða kosningu í miðstjórn. Athygli vakti að tvær reyndar konur sem setið hafa í miðstjórn náðu ekki kjöri, þær Signý Jóhannesdóttir og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir sem verið hefur annar varaforseti ASÍ. Að lokum má geta þess að formaður Framsýnar gaf kost á sér í varamiðstjórn og hlaut hann góða kosningu. Fram að þessu hafa félagarnir Aðalsteinn Árni og Vilhjálmur Birgisson verið útilokaðir frá trúnaðarstörfum fyrir ASÍ. Nú eru aðrir tímar og tími umbreytinga hafin. Þessar niðurstöður sanna að menn vilja sjá breytingar í anda skoðana alþýðunnar í landinu. Ekki er ólíklegt að menn eigi eftir að sjá frekari breytingar á forystusveit stéttarfélaga og sambanda á komandi árum. Það er vor í lofti. Reyndar hafa ekki allir gengið sáttir frá borði. Sem dæmi má nefna Guðmund Ragnarsson sem sat um tíma í miðstjórn ASÍ auk þess að vera formaður VM. Hann féll í kosningu til formanns á síðasta aðalfundi félagsins. Fjölmiðlar sáu ástæðu til að draga hann fram í kastljósið á dögunum til að tjá sig um kröfur Starfsgreinasambandsins og VR. Hann taldi þær viðáttu vitlausar, alltof háar. Það er á sama tíma og verkafólk með um 300.000 krónur á mánuði spyr forystumenn stéttarfélaganna að því, hverjum detti eiginlega í hug að semja um svona léleg laun? Sem betur fer, er ekki eftirspurn eftir formönnum í verkalýðshreyfingunni sem hafa ekki skilning á kröfum þeirra sem skrapa botninn er viðkemur kjörum og velferð í þessu landi. Framsýn óskar nýju og fersku fólki velfarnaðar í störfum Alþýðusambands Íslands á komandi árum. Félagsmenn Alþýðusambands Íslands treysta ykkur til góðra verka í þeirra þágu.

Það var mikið plottað á þinginu, hér má sjá fráfarandi forseta ASÍ hvísla í eyrað á Guðbrandi vini sínum, mótframbjóðenda Vilhjálms Birgissonar í embætti fyrsta varaforseta ASÍ. Svo fór að Vilhjálmur sigraði glæsilega.

Hvað á ég nú að kjósa? Torfi Aðalsteinsson var einn af fulltrúum Framsýnar á þinginu veltir fyrir sér stöðunni.

Þau komu og sigruðu, Sólveig Anna formaður Eflingar og Ragnar Þór formaður VR. Þau náðu bæði kjöri í miðstjórn ASÍ.

Deila á