ASÍ ályktar um aðgerðir í húsnæðis- og skattamálum

Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út.
Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem er þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.
Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fast í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa í við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. tilkomin vegna aðgerðarleysis stjórnvalda og sveitastjórna. Og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda.
Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág-og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna-og vaxtabótakerfinu.

Viðræður og undirbúningur í gangi vegna kjarasamninga

Óhætt er að segja að mikið álag sé um þessar mundir hjá forsvarsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaga vegna yfirstandandi kjaraviðræðna við atvinnurekendur og þá er undirbúningur á fullu varðandi aðra kjarasamninga sem falla úr gildi eftir áramótin eins og hjá starfsmönnum sveitarfélaga og hjá ríkinu.

Dagskráin er svona þessa vikuna:
Undirbúningsfundur stendur yfir í Reykjavík í dag vegna kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn er laus 31. mars 2019. Fulltrúar frá Framsýn taka þátt í þessari undirbúningsvinnu.

Á morgun þriðjudag er sömuleiðis undirbúningsfundur í Reykjavík vegna kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn er laus 31. mars 2019. Fulltrúar frá Framsýn taka þátt í þessari undirbúningsvinnu.

Á miðvikudag er samningafundur á Húsavík milli PCC Bakkisilicon og stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar. Fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins taka einnig þátt í fundinum.

Á fimmtudag er síðan fundur í Reykjavík um ferðaþjónustusamninginn milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Um er að ræða samlestur á kjarasamningum sem til stendur að sameina í einn kjarasamning. Fulltrúi frá Framsýn mun taka þátt í þessari vinnu.

Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið settur á samningafundur á föstudag. Eins og sjá má á þessu yfirliti er mikið að gera um þessar mundir og dagskráin verður svona áfram næstu vikurnar og mánuðina.

Framsýn færir Hvammi gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson

Fyrir helgina færði Framsýn stéttarfélag Hvammi heimili aldraðra á Húsavík gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson sem lengi kom að störfum fyrir stéttarfélögin á Húsavík. Hafliði var mjög virkur í starfi stéttarfélaganna á Húsavík og tók sæti í varastjórn Verslunarmannafélags Húsavíkur 28. febrúar 1966 en til stofnfundar félagsins var boðað 6. september 1965. Hann sat lengi í stjórn og trúnaðarmannaráði Verslunarmannafélags Húsavíkur, þar af sem formaður um tíma. Auk þessa var hann í trúnaðarstörfum fyrir Landssamband íslenskra verslunarmanna. Við sameiningu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum árið 2008 tók Hafliði sæti í stjórn deildar- verslunar og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hann sat í stjórn deildarinnar til ársins 2011. Við það tækifæri var Hafliða þakkað áratuga starf hans að málefnum verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar og Verslunarmannafélags Húsavíkur með viðurkenningarskjali sem bar yfirheitið „Framúrskarandi félagsmaður í Framsýn.“

Það voru þau Hildur Sveinbjörnsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Pétur Helgi Pétursson forstöðumaður fasteigna og Sigurveig Arnardóttir trúnaðarmaður starfsmanna og stjórnarmaður í Framsýn sem veittu gjöfinni viðtöku fyrir hönd Hvamms. Með þeim á myndinni er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Um er að ræða Soundbar/hljóðstöng og DVD spilara til að spila tónlist. Eins og kunnugt er var Hafliði mikill tónlistarmaður og því er gjöfin vel við hæfi en Hafliði starfaði síðustu æfiárin á Hvammi og spilaði og söng reglulega fyrir heimilsfólkið á Hvammi. Hljóðstöngin nýtist einnig vel við að magna upp hljóð úr sjónvarpinu fyrir heimilismenn á Hvammi sem sumir hverjir hafa tapað heyrn.

Hljóðstöngin er þegar komin upp og samkvæmt heimildum Framsýnar er mikil ánægja með gjöfina meðal heimilsmanna á Hvammi heimili aldraðra.

 

 

Nýr framkvæmdastjóri boðinn velkominn til starfa

Flosi Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Tekur hann til starfa á næstu vikum.

Flosi býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu en hann  er húsasmiður og viðskiptafræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá Íslandsstofu við fræðslu og ráðgjöf. Áður starfaði hann m.a. hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG um 10 ára skeið og sem húsasmiður hjá ýmsum aðilum.

Flosi býr einnig að fjölbreyttri reynslu af félagsmálum, m.a. setu í bæjarstjórn Kópavogs frá 1998 til 2010 auk setu í ýmsum nefndum og ráðum fyrir sveitarfélög og ráðuneyti. Þess utan hefur hann tekið þátt í margvíslegu öðru félagsstarfi.

Ráðningarferlið var í höndum Capacent en alls bárust 17 umsóknir um stöðuna.

Framsýn stéttarfélag býður Flosa velkominn til starfa og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum fyrir Starfsgreinasambandið sem Framsýn á aðild að.

(Mynd með frétt er tekin af heimasíðu SGS)

 

Jólafundi Framsýnar frestað

Jólafundi Framsýnar sem vera átti í kvöld hefur verið frestað til laugardagsins 15. desember. Til fundarins eru boðaðir starfsmenn félagsins, trúnaðarmenn á vinnustöðum, trúnaðarráð, Framsýn-ung auk stjórnar félagsins. Auk hefðbundinnar dagskrár verður boðið upp á kvöldverð og heimatilbúin skemmtiatriði.

Vegna veðurs hefur jólafundi Framsýnar verið frestað um tvær vikur.

 

Ákvörðun ÚR kallar á endurskoðun á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða

Nýlega var 36 sjó­mönn­um í áhöfn frysti­tog­ar­ans Guðmund­ar á Nesi sagt upp störf­um eft­ir að Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur (ÚR) ákvað að setja tog­ar­ann á sölu­skrá. Samkvæmt heimildum Framsýnar stéttarfélags er reyndar þegar búið að selja skipið til Grænlands og samkvæmt sömu heimildum er skipið í næst síðustu veiðiferðinni. Tæplega þriðjungur áhafnarinnar er í Framsýn stéttarfélagi. Í til­kynn­ingu frá útgerðarfé­lag­inu seg­ist fyrirtækið harma aðgerðirn­ar. Í upp­hafi þessa árs gerði fyrirtækið út fjóra frysti­tog­ara frá Reykja­vík. Í upp­hafi næsta árs mun fé­lagið aðeins gera út einn slík­an, Kleif­a­berg, og þá mun sjó­mönn­um fé­lags­ins hafa fækkað um sam­tals 136.

Í til­kynn­ingu útgerðarfyrirtækisins seg­ir að ástæður þess­ar­ar óheillaþró­un­ar séu fjölmarg­ar en þær helstu eru „erfiðar rekstr­araðstæður frysti­tog­ara sem stjórn­völd á Íslandi beri veru­lega ábyrgð á með óhóf­legri gjald­töku stimp­il- og veiðigjalda.“ Þá er verk­fall sjó­manna í fyrra einnig tekið inn í mynd­ina og seg­ir fé­lagið að kjara­samn­ing­ar í kjöl­far verk­falls­ins hafi gert rekst­ur frysti­tog­ara erfiðan við Ísland.

Því miður er með ólíkindum hvað sumar útgerðir þessa lands geta lagst lágt í að verja gjörðir sínar. Það að halda því fram að verkfall sjómanna hafi leitt til þess að útgerðir þurfi að losa sig við fiskiskip er algjör fjarstæða og til skammar fyrir viðkomandi útgerðir sem halda slíku fram. Talandi um veiðigjöld hafa þau ekki verið meira íþyngjandi en svo að búið er að endurnýja flotann að töluverðu leyti á síðustu árum auk þess sem öflug skip eru í smíðum erlendis. Þá hefur ekki vantað að hluthafar þessara sömu fyrirtækja hafi verið að greiða sér svimandi háar arðgreiðslur sem eiga sér vart hliðstæður í íslensku viðskiptalífi.

Það að halda því fram að veiðigjöld og verkföll sjómanna hafi skapað þessa stöðu er því algjör brandari og á skjön við veruleikann svo ekki sé meira sagt. Reyndar mikil lítilsvirðing við sjómenn. Eðlilega er sjómönnum brugðið sem síðustu vikurnar og mánuði hafa misst vinnuna eða eru með uppsagnarbréfin í vasanum.

Framsýn er í góðu sambandi við þá sjómenn sem þetta á við um sem eðlilega er brugðið og mjög óánægðir með stöðu mála. Félagið kallar eftir auknu siðferði meðal útgerðarmanna og að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti.

Samkvæmt lögum eru lífeyrissjóðir eign sjóðsfélaga. Útgerðarmenn eiga ekki að komast upp með að gambla með lífeyrissjóði sjómanna eða annarra sjóðsfélaga í eigin þágu og grafa þannig undan stöðu sjómanna og lífsviðurværi þeirra eins og dæmin sanna.

Framsýn stéttarfélag skorar á útgerð Guðmundar í Nesi að hætta við söluna á skipinu og að uppsagnir áhafnarinnar verði þegar í stað dregnar til baka. Þá hvetur félagið Lífeyrissjóðinn Gildi til að endurskoða fjárfestingastefnu sjóðsins er viðkemur þeim fyrirtækjum sem haga sér með þeim hætti sem endurspeglast í vinnubrögðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda. Það verður aldrei friður um fjárfestingar lífeyrissjóða meðan fyrirtæki haga sér með þessum hætti í skjóli fjármagns frá lífeyrissjóðum.

 

Samningaviðræðum frestað vegna veðurs

Til stóð að fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu í dag með Samtökum atvinnulífsins og PCC vegna sérkjarasamnings félaganna við PCC á Bakka. Fundurinn átti að fara fram á Húsavík. Vegna veðurs hefur viðræðunum verið frestað fram í næstu viku. Fundartími verður ákveðinn fyrir helgina. Þegar hefur verið haldinn einn fundur um samninginn sem rennur út um áramótin.

Góður gangur í viðræðum

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust á fundi í gær til að ræða kjarasamning sem nær til starfsmanna í ferðaþjónustu innan sambandsins. Viðræðurnar fóru fram í húsnæði Ríkissáttasemjara. Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar sem fer fyrir samninganefndinni er viðkemur samningnum fyrir hönd SGS, ganga viðræðurnar vel og verður fram haldið í næstu viku. Viðræðurnar snúast um að yfirfara þá kjarasamninga sem gilda fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu og við bensínafgreiðslustörf, það er sérákvæði. Þá er vilji til þess að sameina kjarasamninga í ferðaþjónustu sem gilt hafa annars vegar fyrir stéttarfélögin innan Flóabandalagsins og hins vegar landsbyggðarfélaganna innan SGS sem og mismunandi bensínafgreiðslusamninga. Launaliður samningsins er inn á öðru borði enda markmiðið að samræma launabreytingar milli þeirra kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins eiga aðild að og falla úr gildi um áramótin.

Viðræður milli SGS og SA um kjarasamning starfsfólks í ferðaþjónustu ganga vel. Markmiðið er að klára sérmálin á næstu vikum. Launaliðurinn verður svo tekinn sérstaklega fyrir á sameinginlegu borði samninganefnda samningsaðila.

Við erum ekki á matseðlinum

Um þessar mundir stendur SGS, í samstarfi við systursamtök sín á Norðurlöndunum, fyrir árlegri herferð undir yfirskriftinni #notonthemenu, eða „Við erum ekki á matseðlinum“. Þetta er gert til að benda á að fólk í þjónustustörfum verður fyrir áreitni í sínum störfum og hvetja fólk til að sýna því virðingu.

Desemberuppbót og eingreiðsla til starfsmanna sveitarfélaga

Almenni vinnumarkaðurinn – Iðnaðarmenn:

Rétt er að minna á að desemberuppbót fyrir þá sem vinna fullt starf eftir kjarasamningum SGS, Samiðnar og LÍV er 89.000 krónur. Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótina á að greiða ekki seinna en 15. desember og greiðist miðað við starfshlutfall og starfstíma. Allir starfsmenn sem hafa verið við störf hjá atvinnurekenda í samfellt 12 vikur eða meira á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku desember.

Starfsmenn ríkisins:

Starfsmenn ríkisins eiga rétt á 89.000 desemberuppbót m.v. fullt starf og hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Allir starfsmenn sem voru við störf hjá ríkinu samfellt í 13 vikur eða meira á síðustu 12 mánuðum og eru hættir störfum eiga sömuleiðis rétt á hlutfallslegri desemberuppbót.

Starfsmenn sveitarfélaga:

Þá er rétt að geta þess að starfsmenn sveitarfélaga eiga rétt á kr. 113.000 deemberuppbót m.v. við fullt starf og hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Þó þannig að starfsmaður hafi hafið störf hjá viðkomandi sveitarfélagi fyrir 1. september. Starfsmaður sem lét af störfum á árinu en hafði starfað í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda hlutfallslega desemberuppbót.

Þess ber að geta til viðbótar að starfsfólk sveitarfélaga fær sérstaka eingreiðslu kr. 42.500 sem greiðist 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf  í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember.

Námsstefna í samningagerð

Fjórða námstefnan í samningagerð á vegum Ríkissáttasemjara fór fram í Borgarnesi dagana 19.-21. nóvember. Námstefnuna sátu 70 þátttakendur frá mörgum aðilum vinnumarkaðarins. Á námstefnunni var fjallað um samskipti, lög og reglur á vinnumarkaði, efnahagslegt samhengi kjarasamninga, ábyrgð og skyldur samningafólks, kjarasamningagerð á tímum samfélagsmiðla og samningafærni. Í lok námsstefnunnar fengu þátttakendur viðurkenningarskjal og rós frá embætti ríkissáttasemjara. Einn af þeim var formaður Framsýnar stéttarfélags Aðalsteinn Árni Baldursson.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari afhendi formanni Framsýnar viðurkenningarskjal og rós við útskriftina.

Fallegasta fólkið, fulltrúar frá Framsýn, Starfsgreinasambandi Íslands, Flugfreyjufélagi Íslands, Félagi ljósmæðra og Farmannasambandinu töldu sig vera á besta borðinu.

Um 70 fulltrúar úr atvinnulífinu tóku þátt í námsstefnunni sem fór vel fram undir stjórn Elísabetar S. Ólafsdóttur skrifstofustjóra embættisins.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir ályktun miðstjórnar ASÍ varðandi frumvarp til fjárlaga 2019:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeirri stefnu sem endurspeglast með skýrum hætti í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. ASÍ hefur á undanförnum árum ítrekað varað við þeirri stefnu í opinberum fjármálum sem byggir á því að veikja tekjustofna með skattalækkunum til hinna tekjuhæstu. Sú leið er óásættanleg.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að strax verði ráðist í að treysta undirstöður velferðar og félagslegs stöðugleika. Þar ríkir bráðavandi.

Fyrirséð er að núverandi stefna stjórnvalda er ósjálfbær þegar hægja tekur á vexti í efnahagslífinu. Alþýðusamband Íslands mun aldrei sætta sig við að launafólki, öldruðum og öryrkjum verði gert að axla byrðarnar af óábyrgri ríkisfjármálastefnu. Það er óásættanlegt að stjórnvöld mæti ekki kröfum verkalýðshreyfingarinnar og nýti tækifærið til að ráðast í þau miklu verkefni sem bíða; að stórbæta lífskjör, styrkja velferðina og tryggja almenningi gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum.  

Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld sýni í verki vilja sinn til að jafna kjörin og byggja í haginn til framtíðar og komi strax með aðgerðir sem mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.“

Flugfreyja í flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur

Ein skemmtilegasta frétt vikunnar er frásögn af forystugimbur sem fór með áætlunarflugi frá Húsavík til Reykjavíkur síðasta sunnudag. Hugsanlega er þetta í fyrsta skiptið sem gimbur fer fljúgandi innanlands með áætlunarflugi. Vitað er að sauðfé hefur áður verið flutt milli landshluta með flugi í þar til gerðum flugvélum sem hafa verið útbúnar sérstaklega fyrir slíka gripaflutninga.

Það var Guðni Ágústsson sem stóð að flutningnum í samráði við Flugfélagið Erni og Fjáreigendafélag Húsavíkur sem sá um að sækja forystugimbrina til Skúla Ragnarssonar stórbónda á Ytra Álandi í Þistilfirði. Gimbrin var vistuð í bílskúr formanns Fjáreigendafélagsins meðan hún beið eftir flugi daginn eftir. Flutningarnir gengu vel og skilaði forystugimbrin sér til Reykjavíkur þar sem eigandinn Guðni Ágústsson og fjölmiðlar tóku fagnandi á móti henni. Guðna varð að orði; „Þetta er gert forystukindinni til heiðurs. Hún hefur mannsvit í veðrum, leiðir hjörðina og bóndann heim“. Við komuna til Reykjavíkur fékk gimbrin nafnið Flugfreyja. Forystugimbrin verður til heimilis á Stóru- Reykjum í Flóa.

Fjölmiðlar hafa fjallað um flutninginn á forystugimbrinni milli landshluta.

Flugfreyja var í góðu yfirlæti hjá formanni Fjáreigendafélags Húsavíkur meðan hún beið eftir flugi frá Húsavík til Reykjavíkur.

Stéttarfélögin í viðræðum við PCC

Samningaviðræður milli stéttarfélaganna, Framsýnar og Þingiðnar annars vegar og PCC BakkiSilicon hins vegar hófust síðasta fimmtudag. Á fundinum, sem fram fór í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík, lögðu félögin fram kröfugerð fh. starfsmanna fyrirtækisins sem falla undir gildissvið stéttarfélaganna. Viðræðurnar fóru vel fram og verður þeim fram haldið á næstu dögum.

Fulltrúar PCC fara yfir málin í fundarhléi. Steinþór Þórðarson og Björg Björnsdóttir frá PCC og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins.

 

Samningafundir í Karphúsinu

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hafa undanfarna daga setið á fundum um kröfugerð sambandsins í húsnæði Ríkissáttasemjara. Síðasta miðvikudag var komið að samningaviðræðum um kjarasamning starfsfólks í ferðaþjónustu. Fyrir þeim samningi fer formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Með honum eru fulltrúar frá þeim stéttarfélögum innan Starfsgreinasambandsins sem hafa starfsfólk í ferðaþjónustu innan sinna raða. Eins og fram hefur komið starfar verulegur fjöldi í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsgreinasambandið hefur lagt mikla áherslu á að bæta kjör þessa hóps verulega enda á lélegustu kjörunum í dag sé tekið mið af launatöflu Starfsgreinasambands Íslands.

Setið á fundi, hér má sjá fulltrúa frá aðildarfélögum SGS undirbúa sig fyrir fund með Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu síðasta miðvikudag.

 

Undrast ákvörðun Sjómannafélags Íslands að vísa félagsmanni úr félaginu

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér yfirlýsingu þar sem fundið er að vinnubrögðum trúnaðarráðs Sjómannafélags Íslands vegna brottreksturs Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.

Yfirlýsing Framsýnar vegna ákvörðunar Sjómannafélags Íslands að vísa félagsmanni úr félaginu:

„Framsýn stéttarfélag fordæmir ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarráðs Sjómannafélags Íslands vegna brottreksturs Heiðveigar Maríu Einarsdóttur sem boðið hefur sig fram til formanns í félaginu.

Mikilvægt er að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við þessari forkastanlegu samþykkt trúnaðarráðs félagsins og mótmæli henni harðlega. Vinnubrögð sem þessi eru ekki boðleg og eiga ekki að líðast í lýðræðislegum stéttarfélögum.

Stéttarfélög starfa skv. lögum nr. 80/1938 og eiga að vera opin öllum þeim sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum þeirra við atvinnurekendur. Stéttarfélagi er ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.

Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa í félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Alvarleg brot félagsmanns stéttarfélags gegn eigin félagi eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess, geta í alvarlegustu undantekningartilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.

Framsýn stéttarfélag skorar því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.“

 

Krefjast aðhalds í hækkunum

Með ályktun skorar Framsýn stéttarfélag á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Það muni liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Ályktun
Um álögur ríkis og sveitarfélaga

Framsýn stéttarfélag skorar á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Þá vega gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum almennt þungt í vasa verkafólks sem býr við það hlutskipti að vera á lágmarkslaunum.

Fyrir liggur að kjarasamningar verkafólks á almenna vinnumarkaðinum eru lausir um næstu áramót. Það mun ekki auðvelda gerð kjarasamninga haldi opinberir aðilar ekki að sér höndum varðandi hækkanir á gjaldskrám og sköttum.

Eðlilega eru væntingar almenns launafólks miklar, ekki síst í ljósi ofurhækkana til einstakra hópa s.s. forstjóra, þingmanna og ráðamanna, þeirra sem reglulega vara við launahækkunum til þeirra sem búa við lökust kjörin.

Hvernig geta menn sem vilja láta taka sig alvarlega talað gegn launahækkunum til fólks sem starfar eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna?

Gerir þetta sama fólk sér grein fyrir því að föst mánaðarlaun verkafólks eru á bilinu 266.735 upp í 300.680 krónur svo vitnað sé í launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins?

Það er alveg ljóst að i þeim kjaraviðræðum sem framundan eru mun íslenskt verkafólk fremur velja harða kjarabaráttu og jafnvel vinnustöðvanir en að þiggja að hámarki 4% launahækkun í þriggja ára samningi, eins og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir.

Skömmin er mikil hjá þeim sem hugsa sér að skammta slíkar hækkanir eins og skít úr hnefa til þess fjölmenna hóps sem vinnur myrkranna á milli að því að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Verkafólk á Íslandi er eldsneytið í þeirri vél er heldur samfélaginu gangandi. Það kallar eftir sanngirni og jöfnuði í þjóðfélaginu og mun ekki láta auðvaldið knýja sig til áframhaldandi fátæktar.