Sjóböðin taka á sig mynd

Fulltrúum Framsýnar var boðið í skoðunarferð í Sjóböðin sem eru í byggingu á Húsavíkurhöfða. Með í för í morgun var framkvæmdastjóri Sjóbaðanna ehf. og afmælisbarn dagsins, Sigurjón Steinsson. Sjóböðin verða markaðssett undir vörumerkinu GeoSea. Sigurjón hefur undanfarin ár starfað sem rekstrarstjóri hjá Kilroy Iceland og þar áður hjá Landsbankanum.  Sigurjón er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.

Öldum saman hefur jarðhitinn norðan við Húsavík verið þekktur og jafnvel nýttur til baða og þvotta. Þegar borað var eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða upp úr miðri síðustu öld kom upp vatn sem reyndist vera heitur sjór og of steinefnaríkur til að henta til húshitunar. Í stað þess að heita vatnið færi til spillis var gömlu ostakari komið fyrir uppi á Húsavíkurhöfða. Þar hafa Húsvíkingar og gestir þeirra getað baðað sig upp úr heitum sjó, sér til heilsubótar. Þeir sem hafa verið með húðkvilla, líkt og Psoriasis, hafa nýtt sér aðstöðuna og fundið frið í eigin skinni. Vatnið er líka í kjörhitastigi fyrir slík böð eða 38°-39°C.

Vatnið í GeoSea sjóböðunum kemur úr tveimur borholum sem þegar eru til staðar, önnur er í notkun við ostakarið á höfðanum og hin er við Húsavíkurhöfn. Ekki er þörf á hreinsiefnum eða búnaði í sjóböðunum því stöðugt gegnumstreymi vatns frá borholum, milli lauga, yfir barma þeirra og út í sjó er nóg til að halda heilbrigði vatnsins innan tilskilinna heilbrigðismarka. Í GeoSea sjóböðunum koma menn til með að nóta náttúrunnar á einstakan hátt. Hitinn í iðrum jarðar sér um að sjórinn í böðunum sé hlýr og góður og steinefnaríkt vatnið gælir við hörundið. Á meðan hlýr sjórinn vinnur sín kraftaverk njóta gestir útsýnis yfir fjallgarðinn í vestri, Skjálfandaflóann fyrir neðan klettana og sjálfan Norður-heimskautsbauginn við sjóndeildarhring. Þá eru eyjarnar fögru, Lundey, Flatey og Grímsey sjáanlegar þegar gestir flatmaga í böðunum við hamrabeltið á Húsavíkurhöfða. Sjóböðin munu opna eftir nokkrar vikur. Sjá myndir sem teknar voru í heimsókninni í morgun en þá voru fjölmargir iðnaðarmenn við störf enda markmiðið að opna böðin sem fyrst. Ljóst er að böðin eiga eftir að draga til sín fjölmarga gesti enda einstök upplifun að upplifa, vatnið, fegurðina og dýralífið á Skjálfanda:

 

 

Stólamálið upplýst

Rannsóknarteymi Framsýnar hefur unnið að því hörðum höndum að upplýsa dularfulla stólahvarfið sem heimasíðan fjallaði um fyrr í vikunni. Þrír sumarstólar voru við Skrifstofu stéttarfélaganna en hurfu um síðustu helgi í skjóli nætur. Teymið hefur skilað góðu starfi þar sem málið skoðast upplýst. Vegfarandi hafði samband og greindi frá því að stólarnir væru við Leikskólann Grænuvelli á Húsavík. Það reyndist vera rétt og eru þeir komnir í heimahöfn. Þá er vitað hverjir voru á ferð.

Stólarnir eru komnir heim eftir mikla rannsóknarvinnu.

Dularfulla stólahvarfið

Sá sem fékk þrjá garðstóla „lánaða“ við Skrifstofu stéttarfélaganna er vinsamlegast beðinn um að skila þeim sem fyrst. Á dögunum sást til mannaferða við skrifstofuna með stóla í fanginu. Viðkomandi aðili er beðinn um að skila stólunum. Rétt er að geta þess að hægt er að kaupa samskonar stóla í Húsasmiðjunni á Húsavík.

Má bjóða þér meiri frítíma?

Flestir þekkja vel þá staðreynd að Íslendingar vinna mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Vinir og ættingjar á hinum Norðurlöndunum hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldu, vinum og áhugamálum. Við þessu vill BSRB bregðast með því að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 án launaskerðingar. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref með tilraunaverkefnum sem bandalagið stendur fyrir ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu.

Í dag vinna um 2.700 einstaklingar á vinnustöðum sem taka þátt í þessum tveimur tilraunaverkefnum. Þetta eru bæði staðir þar sem unnið er í dagvinnu og vinnustaðir þar sem unnin er vaktavinna. Hjá ríkinu hafa fjórar stofnanir tekið þátt og verða fimm frá og með haustinu. Reykjavíkurborg byrjaði fyrr á sínu tilraunaverkefni og hefur árangurinn verið svo jákvæður að öllum vinnustöðum borgarinnar var boðið að taka þátt síðasta vor.

Þó BSRB taki þátt í tilraunaverkefnunum einskorðast þátttakan ekki við félagsmenn aðildarfélaga BSRB. Fjölmargir félagsmenn stéttarfélaga sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands taka þátt í að stytta vinnuvikuna. Þá eru dæmi um vinnustaði eins og Hugsmiðjuna sem hafa innleitt styttingu vinnuviku hjá sér til framtíðar. Allt hefur þetta áhrif og nú hafa Akraneskaupstaður, Akureyrarbær og Reykjanesbær ákveðið að hefja tilraun um styttri vinnuviku meðal sinna starfsmanna. Fleiri munu fylgja í kjölfarið.

Jákvæðar niðurstöður

Niðurstöður fram að þessu sýna að starfsánægja hefur aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara er fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf. Í viðtölum við starfsfólks hefur meðal annars komið fram að þau upplifa að stressið heima fyrir hafi minnkað með styttingunni. Afköst starfsfólks hafa jafnframt haldist óbreytt þó vinnutíminn sé styttri og á flestum vinnustöðum hefur dregið verulega úr skammtímaveikindum.

Það er ekki bara verkalýðshreyfingin sem vill stytta vinnuvikuna. Skynsamir stjórnendur vilja einnig fara þessa leið enda sýnir reynslan að ávinningurinn er verulegur fyrir bæði vinnustaðinn og starfsfólkið.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 

Vinnustaðaheimsóknir í Mývatnssveit

Fulltrúar frá Framsýn fóru í vinnustaðaheimsóknir í Mývatnssveit í gær. Meðal annars var komið við hjá vegagerðarmönnum á Hólasandi þar sem verið er að byggja upp Kísilveginn. Jafnframt var staldrað við á Hótel Reynihlíð þar sem miklar framkvæmdir eru í gangi, Baðlóninu, Vogafjósi, Garðagleði og hjá Helga Héðins á Geiteyjarströnd. Fulltrúum Framsýnar var alls staðar vel tekið. Umræður urðu um stöðu atvinnumála á svæðinu og kjör og réttindi starfsmanna. Hér má sjá myndir úr ferðalaginu:

 

Keðjuábyrgð í lög – starfsmannaleigur og útsendir starfsmenn

Nýlega samþykkti Alþingi mikilvægar úrbætur á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda nr. 45/2007 (áður lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra), lögum um starfsmannaleigur og fleiri lögum. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:

  • Markmið laganna um útsenda starfsmenn og starfsmannaleigur áréttuð.
  • Lögin um útsenda starfsmenn ná nú til starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi þótt fyrirtækin séu ekki með starfsstöð hér á landi eða hafi gert samning við innlent notendafyrirtæki.
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingar af Evrópska efnahagssvæðinu skulu tilkynna sig til Vinnumálastofnunar og hefur stofnunin vald til að meta hvort um raunverulega verktöku eða gerviverktöku er að ræða og bregðast við með viðeigandi hætti.
  • Víðtækara hlutverk og ríkari skyldur Vinnumálastofnunar.
  • Ríkari skyldur eru lagðar á erlend þjónustufyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur, og sjálfstætt starfandi að veita nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína bæði í heimalandinu og hér á landi. Einnig er ríkari upplýsingaskylda á notendafyrirtæki.
  • Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um útsenda starfsmenn nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja í byggingariðnaði eða mannvirkjagerð sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
  • Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um starfsmannaleigur nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna allra innlendra sem erlendra fyrirtækja í öllum atvinnugreinum sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
  • Tekin eru af tvímæli um að þau stjórnvöld hér á landi sem málið varða geti miðlað upplýsingum um starfsemina sín á milli.
  • Kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að óska umsagnar stéttarfélaganna/aðila vinnumarkaðarins varðandi ráðningarsamninga, launaseðla og vinnutímaskýrslur og skyldur til að afhenda stéttarfélögunum slíkar upplýsingar sé eftir því leitað.
  • Heimildir til að leggja á starfsemina dagsektir gerðar skýrari.
  • Heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem veita Vinnumálastofnun ekki upplýsingar eða veita stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
  • Allar nauðsynlegar upplýsingar skulu veittar á íslensku eða ensku.

Stéttarfélögin ganga frá persónuverndarstefnu og persónuverndarfulltrúa

Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga voru samþykkt frá Alþingi í vor. Lögin innleiða reglugerð ESB um persónuvernd sem sett var vorið 2016 og samanstendur m.a. af nýrri reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Lögin staðfesta að sá grundvallarréttur sem felst í vernd persónuupplýsinga einstaklinga verði tryggður fyrir alla. Með hinum nýju lögum verða gerðar töluverðar breytingar á þeim réttarreglum sem gilda um meðferð persónuupplýsinga. Lögin munu taka til allra stofnana og flestra fyrirtækja hér á landi.

Innan Framsýnar og Þingiðnar sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hefur verið unnið að því að innleiða nýju persónuverndarstefnuna. Hún mun birtast inn á heimasíðu stéttarfélaganna á næstu dögum og verður aðgengileg þar fyrir félagsmenn.

Samkvæmt persónuverndarstefnu stéttarfélaganna skulu þau ávallt sjá til þess að vinnsla persónuupplýsinga hjá þeim séu í samræmi við persónuverndarlöggjöf hverju sinni. Stéttarfélögin skulu gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja og sýna fram á að vinnslan fari fram í samræmi við persónuverndarlöggjöf, með hliðsjón af eðli, umfangi, samhengi og tilgangi vinnslunnar og áhættu fyrir réttindi og frelsi hinna skráðu í samræmi við 23. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga
Með hliðsjón af þeim þáttum og nýjustu tækni og kostnaði skulu stéttarfélögin gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir, sem hannaðar eru til að framfylgja meginreglum um persónuvernd með skilvirkum hætti og fella nauðsynlegar verndarráðstafanir inn í vinnsluna til að uppfylla kröfur persónuverndarlöggjafar, þegar ákveðnar eru aðferðir við vinnslu og þegar vinnsla fer fram. Skal að öðru leyti mið tekið af 1. mgr. 24. gr. persónuverndarlaga laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Þá skulu stéttarfélögin gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja að sjálfgefið sé að einungis þær persónuupplýsingar séu unnar sem nauðsynlegar eru vegna tilgangs vinnslu. Gildir það um hversu miklum persónuupplýsingum er safnað, að hvaða marki unnið er með þær, hversu lengi þær eru varðveittar og aðgang að þeim. Einkum skal tryggja með slíkum ráðstöfunum að það sé sjálfgefið að persónuupplýsingar verði ekki gerðar aðgengilegar ótakmörkuðum fjölda fólks án íhlutunar viðkomandi einstaklings. Að öðru leyti skal tekið mið af 2. mgr. 24. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Loks skulu stéttarfélögin ganga úr skugga um að allir samningar við vinnsluaðila tryggi að vinnsla sem fer fram af þeirra hálfu fyrir hönd félaganna uppfylla allar kröfur persónuverndarlöggjafar hverju sinni.

Til viðbótar má geta þess að stéttarfélögin hafa tilnefnd/skipað Halldór Oddsson lögmann ASÍ (halldoro@asi.is) sem persónuverndarfulltrúa félaganna, Framsýnar og Þingiðnar.

Hlutverk persónuverndarfulltrúa er:
– Að sinna eftirliti með reglufylgni og aðstoða stéttarfélögin við að uppfylla skyldur sínar skv. Persónuverndarlögum.
– Vera tengiliður við eftirlitsvaldið sem í þessu tilviki er fyrst og fremst Persónuvernd.
– Taka við ábendingum og kvörtunum frá félagsmönnum frá hinum skráðu (félagsmönnum) ef þeir telja að stéttarfélög sem ábyrgðar- og vinnsluaðili með persónuupplýsingar séu ekki að uppfylla sínar skyldur.
– Vera félagsmönnum stéttarfélaganna innan handar við ráðgjöf og aðstoð í málum er varða persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga á vinnustað.

Volunteering in Iceland? THINK AGAIN !

Well think again!   You may be doing more harm than good – and hopefully that is not your intention.

For decades young people from all over the world have come to Iceland to volunteer in projects that focus on the preservation of nature?  We have welcomed these young people. They have given up their time and effort to assist us in preserving our rough and unforgiving nature.

However – in the last few years “volunteering” has been given a new meaning in Iceland and not such a pleasant one. In times of unemployment in Europe and elsewhere and in search of adventure and perhaps wanting something to put on one´s CV – people have been coming to Iceland to volunteer in places of business – doing regular work. Not saving the nature – but serving coffee. For free!

This is against everything we stand for. Working for the economic gain of someone should benefit both employer and worker.  Working for free is what slaves used to do and they didn´t choose their fate. Working for free is deflating the value of work – hurting regular people and benefitting the rich.

Perhaps your situation is such that you can afford to work for free one summer – but there are people who need this job and need to be paid for it.

Ok – this is the moral side of the story. There is also a legal side. By law in Iceland, every job has a guaranteed minimum wage and all jobs have obligations and benefits. We are sure that those soliciting for volunteer workers don´t always tell you everything:

  • Have you been informed that you must pay tax of your free board and housing?
  • Have you been informed that you need a work permit – even though you are “volunteering”?
  • Have you been informed that you are not covered by any of the health and social insurance programmes that everyone else in Iceland enjoys?

They Unions in Iceland negotiate General Agreements with the Federation of Employers, thereby setting a minimum wage for all jobs. The unions understand the concept of volunteering for the greater good – and we support our Red Cross volunteers that travel to disaster areas to help  – but we draw the line at regular businesses. If your volunteer work is for someone´s economic gain – you shouldn´t be doing it and please don´t act as you are doing anyone a favour.

Please remember that your “employer” is breaking the law and certainly contracts – playing unfair in the market place and basically just being greedy.  You can always change your mind and demand a salary – because an agreement about volunteer work in the workplace will not hold up in an Icelandic court of law. This union would be glad to represent you.

We are just an email away – asa@asa.is  we read English, Scandinavian languages (Danish, Sweedish and Norwegian), Polish and Serbian.

Further information:

www.volunteering.is

Stéttarfélögin hækka tjaldstæðisstyrki

Félagsmenn Framsýnar, STH og Þingiðnar geta sótt um styrk vegna gistingar á tjaldstæðum og við kaup á útilegukortinu. Það gerist þannig að félagsmenn og fjölskyldur þeirra fara með sitt tjald, tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi eða annan búnað á tjaldsvæði innanlands, fá löglegan reikning (númeraður reikningur með kennitölu söluaðila og kaupanda þjónustu), framvísa síðan reikningnum á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá endurgreiðslu fyrir hluta upphæðarinnar eða allt að kr. 25.000. Niðurgreiðslan fer eftir greiddu félagsgjaldi. Skilyrði fyrir þessari greiðslu er að félagsmaður hafi greitt félagsgjöld í a.m.k. 6 mánuði.

Svanasöngur kjararáðs

Kjararáð hefur enn á ný sent frá sér úrskurð um starfskjör forstöðumanna ríkisstofanna sem gengur þvert á þá almennu launastefnu sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og gildir fyrir allan meginþorra launafólks. Lög um kjararáð féllu úr gildi frá 1. júlí síðastliðnum og hefur ráðið þar með lokið starfsemi sinni. Í þessum síðasta úrskurði sínum frá 14. júní ákvarðar kjararáð í einu lagi um laun 48 forstöðumanna ríkisstofnanna afturvirkt frá og með 1. desember 2017. Laun forstöðumannanna hækka mis mikið en vegin meðaltalshækkun þeirra er um 10,8%. Í úrskurðinum segir að hann taki til erinda frá forstöðumönnum sem borist hafi ráðinu á árunum 2016 og 2017. Ekki er í úrskurðinum að finna neinn nánari rökstuðning fyrir því að endurúrskurða þurfi um laun einstakra forstöðumanna hvorki úr innsendum erindum né frá hlutaðeigandi ráðuneytum sem stofnanirnar heyra undir.

Þessar köldu kveðjur til launafólks koma í framhaldi af fréttum um að laun forstöðumanna ríkisfyrirtækja hafi hækkað um tugi prósenta í kjölfar þess að ákvörðun um laun þeirra var færð frá kjararáði til stjórna viðkomandi stofnanna í júlí í fyrra.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, tekur undir orð forseta ASÍ um að það verði verkefni verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að hækkanirnar verði fordæmisgefandi í komandi kjaraviðræðum, enda metnar ,,hóflegar” af viðkomandi stjórnum. Það sé óásættanlegt að í þessu landi búi tvær þjóðir, yfirvaldið og almenningur sem um gildi mismunandi lögmál. Við það muni verkalýðshreyfingin aldrei sætta sig.

 

Það er hófsemi að semja um 56% launahækkun – það á bara við um suma

Fyrir nokkrum misserum voru gerðar þær breytingar á Kjararáði að þeim sem féllu undir úrskurð ráðsins var fækkað. Við það tækifæri beindi fjármála- og efnahagsráðuneytið því til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta hófs við ákvörðun um laun forstjóra fyrirtækjanna. Að gæta hófs er huglægur mælikvarði og spurningin hvert er viðmiðið þegar lagt er mat á hvort ákvörðunin er hófsöm. Bankastjórn Landsbankans hækkaði laun bankastjórans um 1,2 milljónir á mánuði eða um 56%. Sambærilega hækkun hafði forstjóri Landsvirkjunar fengið.
Formaður bankaráðs Landsbankans leggur áherslu á að við ákvörðun um 56% launahækkun bankastjórans hafi verið gætt hófsemi. Af því má draga þá ályktun að formaðurinn telji ákvörðun bankaráðsins í anda tilmæla fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gæta hófs við ákvörðun um laun bankastjórans.
Víða í samfélaginu er tekist á um launahækkanir og eftir áramótin losnar megnið af kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin og forsvarmenn atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að gætt verði hófsemi og horft verði til þess að launabreytingar raski ekki efnahagslegum stöðuleika.
Við sem höfum lagt mikla áherslu á efnahagslegan stöðugleika og stigvaxandi kaupmátt erum nú komin út í horn. Þegar 56% launahækkun rúmast innan launastefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telst hófleg, getum við tæplega lagt upp með eitthvað minna. Að leggja upp með 4,5% til 3% launahækkun eins og við höfum samið um í síðustu kjarasamningum, hljómar eins og hvert annað bull og er ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Launabreytingar forstjóra ríkisfyrirtækja eru að ganga endanlega frá efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að hafa það á hreinu að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Það er engin leið að verja þann mismun sem fellst í hófsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins því fyrir liggur að sú hófsemi á bara við suma en ekki alla. (samidn.is)

 

Spurðu og spurðu og spurðu – frábærir unglingar

Það kom einstaklega góður hópur unglinga í heimsókn til stéttarfélaganna í morgun ásamt flokksstjórum Vinnuskóla Norðurþings. Tilgangur heimsóknarinnar var að fræðast um starfsemi stéttarfélaga, atvinnulífið og uppsetningu launaseðla. Meðan á fræðslunni stóð gafst nemendum skólans tækifæri á að spyrja formann Framsýnar út í þessi atriði. Fjölmargar spurningar voru lagaðar fram sem formaðurinn gerði sitt besta til að svara. Ljóst er að þessir unglingar eru til mikillar fyrirmyndar. Hér koma nokkrar myndir sem voru teknar á kynningunni.

Laun halda ekki í hækkun verðs á fjölbýli

Tímakaup á Íslandi er að meðaltali 68% hærra en í Evrópusambandinu, skv. tölum frá hagstofu sambandsins. Þegar búið er að taka tillit til verðlags á vörum og þjónustu skilar tímakaupið íslensku launafólki hins vegar 2% minna en í ESB að meðaltali. Staðan er umtalsvert betri í Noregi, þar fær launafólk ríflega þriðjungi meira fyrir tímakaupið sitt en í ESB, að teknu tilliti til verðlags. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.   

Í yfirlitinu er einnig umfjöllun um fasteignamarkaðinn en ljóst er að aldrei hefur verið erfiðara að kaupa fyrstu íbúð. Útborguð laun einstaklinga á aldrinum 25 – 34 ára hafa ekki haldið í við hækkun verðs á fjölbýli og það verður æ erfiðara fyrir ungt fólk sem er á leigumarkaði að leggja til hliðar fyrir íbúð.  

Þá er einnig í yfirlitinu ítarleg umfjöllun um fjölgun ferðamanna á Íslandi. Litið er til reynslu landa þar sem fjölgun ferðamanna var gríðarlega mikil á stuttum tíma og spáð í þróun næstu ára.

Frekari upplýsingar um stöðu mála er hægt að nálgast inn á heimasíðu VR.

 

 

Ný könnun – betur staðið að uppsögnum en búist var við

Við gerð kjarasamninga aðildarsamtaka ASÍ 2015 var gerð bókun um könnun á framkvæmd uppsagna á almennum vinnumarkaði. Í bókuninni segir:

„Á samningstímanum munu aðilar sammælast um spurningar sem lagðar verði annars vegar fyrir félagsmenn stéttarfélaganna og hins vegar fyrir aðildarfyrirtæki SA í könnunum sem aðilar annast sjálfur, þar sem leitast verður við að kanna almenna framkvæmd og þekkingu á ákvæðum kjarasamninga um uppsagnir (form,  frestir, viðtöl).“ 

Mál þróuðust þannig að SA lauk ekki sínum hluta en sl. vetur fékk ASÍ Gallup til þess að framkvæma fyrir sig könnun í samræmi við þessa bókun. Niðurstöður voru betri en fyrirfram var búist við. Af þeim 17% þátttakenda sem sagt hafði verið upp síðan 2008 reyndust 80% hafa fengið uppsagnarfrest og af þeim sem óskuðu skýringa á uppsögn sinni fengu 85% skýringar. Þetta eru í sjálfu sér þokkalegar niðurstöður en miðað við þann hóp sem leitar til ASÍ og aðildarsamtakanna vegna ólögmætra uppsagna hefði mátt ætla að staðan væri verri. Þegar hins vegar er litið á aldursskiptingu þeirra sem fengu uppsagnarfrest reyndust einungis 57% aðspurða í aldurshópnum 18-24 ára hafa fengið uppsagnarfrest. Í ljósi þess að nánast allt launafólk á rétt til kjarasamningsbundins uppsagnarfrests eru þessar niðurstöður sláandi. Í aldurshópnum 55-64 var hlutfallið 90%.

Það er því verk er að vinna, sérstaklega hvað yngsta aldurhópinn varðar. Annars vegar þarf að auka fræðslu og meðvitund yngri félagsmanna um réttarstöðu sína og hins vegar þarf að lagfæra ákvæði kjarasamninga um framkvæmd uppsagna. Á vettvangi ASÍ hefur komið fram eftirfarandi hugmynd um viðbót við ákvæði kjarasamninga þar sem fjallað er um uppsagnir og framkvæmd þeirra:

”Bætur vegna uppsagna úr starfi sem ekki eru skriflegar eða tilgreina ekki ástæðu uppsagnar eftir að ósk þar um hefur réttilega komið fram, reiknast sem jafnvirði áunnins uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns og sæta ekki frádrætti vegna launaðra starfa hans á uppsagnarfresti. Bætur vegna ólögmætra fyrirvaralausra uppsagna reiknast sem jafnvirði tvöfalds áunnins uppsagnarfrests viðkomandi starfsmanns og sæta ekki frádrætti vegna annarra launaðra starfa hans á uppsagnarfresti.“
Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar.

Twitter Facebook

Til baka

 

Áríðandi- Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar

Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks á almennum vinnumarkaði kom til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkaði framlagið um 1,5% og er nú orðið 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.

Atvinnurekenda greiðir hækkað mótframlag til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið er greitt til en sjóðfélagar geta nú sjálfir ráðstafað allt að 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.

Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 en þá var samið um 3,5% hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sem tók gildi í þremur áföngum á árunum 2016-2018.

Taktu upplýsta ákvörðun um lífeyrisréttindin þín

Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.

Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við lífeyrissjóðinn og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi.  Að öðrum kosti rennur hækkunin í samtryggingu og réttindi þín til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris aukast.

Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gildi frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.

Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá lífeyrissjóðunum.

Framsýn stéttarfélag fordæmir afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna fyrirtækisins

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti í morgun að senda frá sér svohljóðandi yfirlýsingu vegna ákvörðunar forstjóra Hvals um að meina starfsmönnum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness.

„Framsýn stéttarfélag fordæmir afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar.

Samkvæmt framkomnum yfirlýsingum frá Verkalýðsfélagi Akraness er starfsmönnum Hvals hf. gert að standa utan þess félags. Að mati Framsýnar er um að ræða skýrt brot á 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en skv. því ákvæði er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á félagsaðild og stjórnmálaskoðanir starfsmanna sinna.

Fyrir liggur að nýverið vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir Hæstarétti gegn Hval hf. þar sem fyrirtækið var dæmt til að greiða starfsmanni 512 þús. kr. vegna brota á kjarasamningi. Viðbrögð forstjóra Hvals við því eru vægast sagt barnaleg. Hafi það farið fram hjá honum þá er sá tími löngu liðinn að einstök fyrirtæki geti tekið sér vald, æðra Alþingi Íslendinga og ákveðið eigin lög og reglur á íslenskum vinnumarkaði.

Framsýn stéttarfélag fagnar því að Verkalýðsfélag Akraness ætli að stefna Hval hf. enda ólíðandi með öllu að grafið sé undan réttindum íslenskrar verkalýðshreyfingar með svo ósvífnum hætti.

Það er enginn svo stór að hann sé hafinn yfir lög og reglur á Íslandi.“

 

Skorað á formann Framsýnar að endurskoða sína afstöðu

Eins og fram hefur komið hefur Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram á þingi sambandsins í haust. Framsýn stéttarfélag hefur kallað eftir breytingum á forystusveit sambandsins.

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling hafa sömuleiðis kallað eftir þessum breytingum. Með nýjum formönnum hjá Eflingu og VR urðu ánægjulegar viðhorfsbreytingar til þessara mála.

Nú þegar fyrir liggur að núverandi forseti ASÍ ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs er áhugavert að heyra ákveðna forystumenn og starfsmenn innan sambandsins taka undir að breytinga sé þörf. Hvar voru þessir aðilar þegar Framsýn, VR og Verkalýðsfélag Akraness töluðu fyrir þessum breytingum? Þeir hafa greinilega verið fyrir utan þjónustusvæðis þar sem það heyrðist ekkert frá þeim.

Eðlilega hafa nokkur nöfn verið nefnd í fjölmiðlum sem kandidatar í stól forsesta ASÍ enda áhrifamesta embætti íslenskrar verkalýðshreyfingar. Einn af þeim er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni. Þegar Morgunblaðið gekk á hann og nefndi að nafn hans væri í pottinum yfir þá sem helst væru nefndir sem arftakar Gylfa svaraði Aðalsteinn því til að hann ætlaði sér ekki að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ. Síðan þá hefur verið skorað á hann að endurskoða sína afstöðu. Greinilegt er að ákall er um að næsti forseti sambandsins komi úr grasrótinni. Þrátt fyrir það hefur Aðalsteinn ekki breytt um afstöðu til framboðs til forseta ASÍ. Ekki er ólíklegt að málið verði tekið upp á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í ágúst.

Skorað hefur verið á formann Framsýnar sem hér er á mynd ásamt Þór Péturssyni útgerðarmanni að gefa kost á sér sem næsti forseti ASÍ. Hann segir það ekki koma til greina. Hans vilji standi til þess að félagsmenn innan aðildarfélaga/sambanda ASÍ hafi möguleika á því að gefa kost á sér og síðan gefist öllum félagsmönnum innan Alþýðusambands Íslands kostur á að greiða atkvæði í forsetakjörinu. Þannig eigi lýðræðið að virka. Núverandi kerfi sé ekki til þess fallið að efla tiltrú fólks á verkalýðshreyfingunni.

Ráðherra bauð formanni Framsýnar í heimsókn

Ásmundur Einar Daðason Félags- og jafnréttisráðherra boðaði formann Framsýnar til óformlegs fundar í vikunni með honum og aðstoðarmanni. Tilefnið var að fara almennt yfir málin. Húsnæðismál, skattamál, vaxtamál, staða landsbyggðarinnar, jafnréttismál, kjaramál og væntanlegar breytingar á forystu Alþýðusambands Íslands voru meðal þeirra málefna sem tekin voru upp á fundinum. Ásmundur Einar lagði áherslu á gott samstarf við Framsýn og verkalýðshreyfinguna í heild sinni enda ráðuneytinu umhugað um velferð fólks og gott samstarf við verkalýðshreyfinguna. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, sagðist ánægður með boð ráðherra. Það væri afar mikilvægt að aðilar, það er stjórnvöld á hverjum tíma og verkalýðshreyfingin, gætu átt samtal um málefni líðandi stundar.

 

Farðu frá…..

Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa verið að laga vegi í nágrenni Húsavíkur og reyndar lengra til í héraðinu. Kristján Önundarson var á ferðinni ásamt öðrum vegagerðarmönnum frá Húsavík í Kelduhverfi á dögunum þegar formaður Framsýnar áttu þar leið um. Mikilvægt er að brýna fyrir vegfarendum að aka gætilega um vegina, ekki síst þar sem þeir sjá starfsmenn Vegagerðarinnar við störf. Þeir starfa við hættulegar aðstæður, ekki síst þegar umferðarhraðinn er mikill. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að sýna mikla tillitssemi.

Kraftur í starfi GPG á Raufarhöfn – vantar fleiri daga í vinnuvikuna

Formaður Framsýnar kom við hjá starfsmönnum GPG á Raufarhöfn síðasta fimmtudag. Þar var allt brjálað að gera en um 30 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu að staðaldri. Um þessar mundir voru um 20 starfsmenn við störf enda hluti starfsmanna komnir í sumarfrí. Verkstjórar og starfsmenn töldu mikilvægt að fjölga dögum í vinnuvikunni svo menn kæmust yfir að klára hráefnið sem þyrfti að vinna hjá fyrirtækinu á hverjum tíma enda fiskaðist vel.