Við erum ekki á matseðlinum

Um þessar mundir stendur SGS, í samstarfi við systursamtök sín á Norðurlöndunum, fyrir árlegri herferð undir yfirskriftinni #notonthemenu, eða „Við erum ekki á matseðlinum“. Þetta er gert til að benda á að fólk í þjónustustörfum verður fyrir áreitni í sínum störfum og hvetja fólk til að sýna því virðingu.

Desemberuppbót og eingreiðsla til starfsmanna sveitarfélaga

Almenni vinnumarkaðurinn – Iðnaðarmenn:

Rétt er að minna á að desemberuppbót fyrir þá sem vinna fullt starf eftir kjarasamningum SGS, Samiðnar og LÍV er 89.000 krónur. Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótina á að greiða ekki seinna en 15. desember og greiðist miðað við starfshlutfall og starfstíma. Allir starfsmenn sem hafa verið við störf hjá atvinnurekenda í samfellt 12 vikur eða meira á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku desember.

Starfsmenn ríkisins:

Starfsmenn ríkisins eiga rétt á 89.000 desemberuppbót m.v. fullt starf og hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Allir starfsmenn sem voru við störf hjá ríkinu samfellt í 13 vikur eða meira á síðustu 12 mánuðum og eru hættir störfum eiga sömuleiðis rétt á hlutfallslegri desemberuppbót.

Starfsmenn sveitarfélaga:

Þá er rétt að geta þess að starfsmenn sveitarfélaga eiga rétt á kr. 113.000 deemberuppbót m.v. við fullt starf og hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall. Þó þannig að starfsmaður hafi hafið störf hjá viðkomandi sveitarfélagi fyrir 1. september. Starfsmaður sem lét af störfum á árinu en hafði starfað í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda hlutfallslega desemberuppbót.

Þess ber að geta til viðbótar að starfsfólk sveitarfélaga fær sérstaka eingreiðslu kr. 42.500 sem greiðist 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf  í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember.

Námsstefna í samningagerð

Fjórða námstefnan í samningagerð á vegum Ríkissáttasemjara fór fram í Borgarnesi dagana 19.-21. nóvember. Námstefnuna sátu 70 þátttakendur frá mörgum aðilum vinnumarkaðarins. Á námstefnunni var fjallað um samskipti, lög og reglur á vinnumarkaði, efnahagslegt samhengi kjarasamninga, ábyrgð og skyldur samningafólks, kjarasamningagerð á tímum samfélagsmiðla og samningafærni. Í lok námsstefnunnar fengu þátttakendur viðurkenningarskjal og rós frá embætti ríkissáttasemjara. Einn af þeim var formaður Framsýnar stéttarfélags Aðalsteinn Árni Baldursson.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari afhendi formanni Framsýnar viðurkenningarskjal og rós við útskriftina.

Fallegasta fólkið, fulltrúar frá Framsýn, Starfsgreinasambandi Íslands, Flugfreyjufélagi Íslands, Félagi ljósmæðra og Farmannasambandinu töldu sig vera á besta borðinu.

Um 70 fulltrúar úr atvinnulífinu tóku þátt í námsstefnunni sem fór vel fram undir stjórn Elísabetar S. Ólafsdóttur skrifstofustjóra embættisins.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir ályktun miðstjórnar ASÍ varðandi frumvarp til fjárlaga 2019:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega þeirri stefnu sem endurspeglast með skýrum hætti í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019. ASÍ hefur á undanförnum árum ítrekað varað við þeirri stefnu í opinberum fjármálum sem byggir á því að veikja tekjustofna með skattalækkunum til hinna tekjuhæstu. Sú leið er óásættanleg.

Miðstjórn ASÍ krefst þess að strax verði ráðist í að treysta undirstöður velferðar og félagslegs stöðugleika. Þar ríkir bráðavandi.

Fyrirséð er að núverandi stefna stjórnvalda er ósjálfbær þegar hægja tekur á vexti í efnahagslífinu. Alþýðusamband Íslands mun aldrei sætta sig við að launafólki, öldruðum og öryrkjum verði gert að axla byrðarnar af óábyrgri ríkisfjármálastefnu. Það er óásættanlegt að stjórnvöld mæti ekki kröfum verkalýðshreyfingarinnar og nýti tækifærið til að ráðast í þau miklu verkefni sem bíða; að stórbæta lífskjör, styrkja velferðina og tryggja almenningi gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum.  

Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld sýni í verki vilja sinn til að jafna kjörin og byggja í haginn til framtíðar og komi strax með aðgerðir sem mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.“

Flugfreyja í flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur

Ein skemmtilegasta frétt vikunnar er frásögn af forystugimbur sem fór með áætlunarflugi frá Húsavík til Reykjavíkur síðasta sunnudag. Hugsanlega er þetta í fyrsta skiptið sem gimbur fer fljúgandi innanlands með áætlunarflugi. Vitað er að sauðfé hefur áður verið flutt milli landshluta með flugi í þar til gerðum flugvélum sem hafa verið útbúnar sérstaklega fyrir slíka gripaflutninga.

Það var Guðni Ágústsson sem stóð að flutningnum í samráði við Flugfélagið Erni og Fjáreigendafélag Húsavíkur sem sá um að sækja forystugimbrina til Skúla Ragnarssonar stórbónda á Ytra Álandi í Þistilfirði. Gimbrin var vistuð í bílskúr formanns Fjáreigendafélagsins meðan hún beið eftir flugi daginn eftir. Flutningarnir gengu vel og skilaði forystugimbrin sér til Reykjavíkur þar sem eigandinn Guðni Ágústsson og fjölmiðlar tóku fagnandi á móti henni. Guðna varð að orði; „Þetta er gert forystukindinni til heiðurs. Hún hefur mannsvit í veðrum, leiðir hjörðina og bóndann heim“. Við komuna til Reykjavíkur fékk gimbrin nafnið Flugfreyja. Forystugimbrin verður til heimilis á Stóru- Reykjum í Flóa.

Fjölmiðlar hafa fjallað um flutninginn á forystugimbrinni milli landshluta.

Flugfreyja var í góðu yfirlæti hjá formanni Fjáreigendafélags Húsavíkur meðan hún beið eftir flugi frá Húsavík til Reykjavíkur.

Stéttarfélögin í viðræðum við PCC

Samningaviðræður milli stéttarfélaganna, Framsýnar og Þingiðnar annars vegar og PCC BakkiSilicon hins vegar hófust síðasta fimmtudag. Á fundinum, sem fram fór í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík, lögðu félögin fram kröfugerð fh. starfsmanna fyrirtækisins sem falla undir gildissvið stéttarfélaganna. Viðræðurnar fóru vel fram og verður þeim fram haldið á næstu dögum.

Fulltrúar PCC fara yfir málin í fundarhléi. Steinþór Þórðarson og Björg Björnsdóttir frá PCC og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins.

 

Samningafundir í Karphúsinu

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hafa undanfarna daga setið á fundum um kröfugerð sambandsins í húsnæði Ríkissáttasemjara. Síðasta miðvikudag var komið að samningaviðræðum um kjarasamning starfsfólks í ferðaþjónustu. Fyrir þeim samningi fer formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Með honum eru fulltrúar frá þeim stéttarfélögum innan Starfsgreinasambandsins sem hafa starfsfólk í ferðaþjónustu innan sinna raða. Eins og fram hefur komið starfar verulegur fjöldi í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsgreinasambandið hefur lagt mikla áherslu á að bæta kjör þessa hóps verulega enda á lélegustu kjörunum í dag sé tekið mið af launatöflu Starfsgreinasambands Íslands.

Setið á fundi, hér má sjá fulltrúa frá aðildarfélögum SGS undirbúa sig fyrir fund með Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu síðasta miðvikudag.

 

Undrast ákvörðun Sjómannafélags Íslands að vísa félagsmanni úr félaginu

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér yfirlýsingu þar sem fundið er að vinnubrögðum trúnaðarráðs Sjómannafélags Íslands vegna brottreksturs Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.

Yfirlýsing Framsýnar vegna ákvörðunar Sjómannafélags Íslands að vísa félagsmanni úr félaginu:

„Framsýn stéttarfélag fordæmir ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarráðs Sjómannafélags Íslands vegna brottreksturs Heiðveigar Maríu Einarsdóttur sem boðið hefur sig fram til formanns í félaginu.

Mikilvægt er að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við þessari forkastanlegu samþykkt trúnaðarráðs félagsins og mótmæli henni harðlega. Vinnubrögð sem þessi eru ekki boðleg og eiga ekki að líðast í lýðræðislegum stéttarfélögum.

Stéttarfélög starfa skv. lögum nr. 80/1938 og eiga að vera opin öllum þeim sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum þeirra við atvinnurekendur. Stéttarfélagi er ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.

Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa í félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Alvarleg brot félagsmanns stéttarfélags gegn eigin félagi eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess, geta í alvarlegustu undantekningartilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.

Framsýn stéttarfélag skorar því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.“

 

Krefjast aðhalds í hækkunum

Með ályktun skorar Framsýn stéttarfélag á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Það muni liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Ályktun
Um álögur ríkis og sveitarfélaga

Framsýn stéttarfélag skorar á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Þá vega gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum almennt þungt í vasa verkafólks sem býr við það hlutskipti að vera á lágmarkslaunum.

Fyrir liggur að kjarasamningar verkafólks á almenna vinnumarkaðinum eru lausir um næstu áramót. Það mun ekki auðvelda gerð kjarasamninga haldi opinberir aðilar ekki að sér höndum varðandi hækkanir á gjaldskrám og sköttum.

Eðlilega eru væntingar almenns launafólks miklar, ekki síst í ljósi ofurhækkana til einstakra hópa s.s. forstjóra, þingmanna og ráðamanna, þeirra sem reglulega vara við launahækkunum til þeirra sem búa við lökust kjörin.

Hvernig geta menn sem vilja láta taka sig alvarlega talað gegn launahækkunum til fólks sem starfar eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna?

Gerir þetta sama fólk sér grein fyrir því að föst mánaðarlaun verkafólks eru á bilinu 266.735 upp í 300.680 krónur svo vitnað sé í launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins?

Það er alveg ljóst að i þeim kjaraviðræðum sem framundan eru mun íslenskt verkafólk fremur velja harða kjarabaráttu og jafnvel vinnustöðvanir en að þiggja að hámarki 4% launahækkun í þriggja ára samningi, eins og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir.

Skömmin er mikil hjá þeim sem hugsa sér að skammta slíkar hækkanir eins og skít úr hnefa til þess fjölmenna hóps sem vinnur myrkranna á milli að því að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Verkafólk á Íslandi er eldsneytið í þeirri vél er heldur samfélaginu gangandi. Það kallar eftir sanngirni og jöfnuði í þjóðfélaginu og mun ekki láta auðvaldið knýja sig til áframhaldandi fátæktar.

Nýju persónuverndarlög­in hafa ekki áhrif á upp­lýs­inga­gjöf til eftirlitsfulltrúa

Eitthvað hefur borið á því að fyrirtæki beri fyr­ir sig nýja per­sónu­vernd­ar­lög­gjöf og vilji ekki láta af hendi upp­lýs­ing­ar um launa­kjör og rétt­indi starfs­manna þegar eft­ir­litsaðilar á veg­um Alþýðusambands Íslands. Dæmi eru um að séttarfélög hafi staðið í stappi við fyrirtæki vikum og jafnvel mánuðum saman vegna þessa.

Nú hefur Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, skorið úr um það að nýju persónuverndarlögin eigi ekki að koma í veg fyrir fyrir að eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna geti aflað þeirra upplýsinga sem þeir þurfa að fá til þess að sannreyna að starfsfólk séu á launakjörum samkvæmt kjarasamningum.

Nánar má lesa um málið í frétt Morgunblaðsins sem lesa má hér.

Mynd tekin af visir.is

Konur taka af skarið

„Konur taka af skarið“ eru námskeið/samtalsfundir sem AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa, Starfsgreinasambandið og JCI Sproti standa fyrir. Síðastliðinn laugardag var fyrsta námskeiðið af sex haldið í sal Einingar Iðju á Akureyri, en samskonar námskeið verða haldin á Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík, Ísafirði og Borgarnesi á næstunni. Það er Jafnréttissjóður Íslands sem styrkir þetta verkefni, en markmið þess er að hvetja konur til þátttöku og áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Vel var mætt á þetta fyrsta námskeið og norðlenskar konur höfðu gaman saman og áttu ekki einungis skemmtilegan, heldur ekki síður fróðlegan dag þar sem dagskráin var sérlega áhugaverð.

Berglind Þrastardóttir stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar var fundarstjóri, bauð hún konur velkomnar og að því loknu var gengið til dagskrár. Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, hélt erindi um kynjakerfið undir yfirskriftinni „Að bjóða kynjakerfinu birginn“ og að því loknu fjallaði Drífa Snædal, nýkjörinn forseti ASÍ, um stöðu verkalýðsbaráttunnar í dag og ræddi hún einnig um uppbyggingu verkalýðsfélaganna.

Viktor Ómarsson, hjá JCI Sprota, eini karlmaðurinn á fundinum, hélt erindi um leiðtogaþjálfun og leiðbeindi þátttakendum um hvernig hægt er að hafa áhrif og koma sínu á framfæri. Fjallaði hann einnig um fundarsköp og fundarstjórnun og lagði fyrir nokkur verkefni af því tagi.

Að síðustu spjallaði Drífa Snædal um reynslu sína og upplifun af því að vera kona starfandi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Námskeiðin „Konur taka af skarið“ eru opið öllum félagskonum í Starfsgreinasambandi Íslands og starfsmannafélögum sveitarfélaganna, þeim að kostnaðarlausu.

Þrjár konur sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn tóku þátt í námskeiðinu.

 

Fjarvistaruppbót landvarða

Þeir landverðir sem starfað hafa hjá Vatnajökulsþjóðgarði – á vinnustöðum í óbyggðum- frá árinu 2011 og ekki verið í samband við sitt stéttarfélag s.s.  Framsýn, landvarðafélagið eða Starfsgreinasambandið vegna greiðslu fjarvistaruppbótar eru beðnir um að gera það sem fyrst.
Eftir að greiðsla fjarvistaruppbótar var viðurkennd með dómi héraðsdóms Austurlands og staðfest hæstarétti https://www.asa.is/images/stories/DomarPDF/Fjarvistaruppbot2017.pdf gerðu félögin kröfu um greiðslu uppbótarinnar til allra sinna félagsmanna sem undir dóminn féllu.
Þrátt fyrir dóminn ætlar Vatnajökulsþjóðgarður ekki að greiða uppbótina nema til þeirra landvarða sem hjá þeim hafa starfað nema þeir kalli eftir því sjálfir. Nokkrir landverðir hafa verið í sambandi og er unnið að því með lögmanni að leysa úr þeirra málum og nú sendum við út þetta ákall í þeirri von að ná til þeirra sem ekki hafa haft samband.

Skipting eftirlaunaréttinda milli hjóna

Starfsmenn stéttarfélaganna fá reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum varðandi það hvort hjón geti gert samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum.

Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar hjónum og sambúðarfólki að gera samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum. Ákvæðið er hugsað sem jafnréttis- eða sanngirnismál, til að jafna réttindi þeirra sem verið hafa í á vinnumarkaði og þeirra sem hafa verið heimavinnandi. Skiptingin getur numið allt að 50% af eftirlaunaréttindum og hún skal vera gagnkvæm sem þýðir að ekki er hægt að skipta aðeins réttindum annars aðilans.

Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna með þrennum hætti:

Lífeyrisgreiðslum skipt

Greiðslur sjóðfélaga renna þá allt að hálfu til maka eða fyrrverandi maka. Þetta er tímabundin ráðstöfun á meðan báðir aðilar eru á lífi.

Áunnum lífeyrisréttindum er skipt

Gera þarf samninginn fyrir 65 ára aldur og áður en lífeyristaka hefst. Ef sjúkdómar eða heilsufar draga úr lífslíkum er hægt að gera slíkan samning.

Framtíðarréttindum er skipt

Sjálfstæð réttindi myndast fyrir maka til að jafna lífeyrisréttindi til framtíðar.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir í hverju skiptingin er fólgin áður en hún er ákveðin. Eingöngu er verið að skipta rétti til eftirlauna. Réttur til örorku og makalífeyris helst óbreyttur. Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða ævilangan makalífeyri má segja að búið sé að jafna réttindi að nokkru leyti.

Tekjutenging Tryggingastofnunar gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum getur einnig flækt málið. Skiptingin getur valdið því að heildargreiðslur til sjóðfélaga og maka frá Tryggingastofnun lækka en óljóst er hvernig Tryggingastofnunar kunna að breytast í framtíðinni.

Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og samantekt Stapa um makasamninga sem birt var í frétt hjá sjóðnum.

Sjóðfélagalán til félagsmanna

Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar eiga rétt á lánum hjá Lsj. Stapa enda séu þeir sjóðfélagar. Stapi veitir lán gegn veði í fasteign í eigu sjóðfélaga. Lánsrétt eiga sjóðfélagar sem greiða eða hafa greitt til samtryggingar- eða séreignardeildar sjóðsins. Umsóknir og upplýsingar um lánareglur, vexti o.fl. er að finna á heimasíðu sjóðsins. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á lan@stapi.is eða hafa samband í síma 4604500.

 

Jólabærinn Húsavík – mikil ásókn í jólahlaðborð

Svo virðist sem straumurinn liggi til Húsavíkur í desember á jólahlaðborð. Samkvæmt upplýsingum frá Fosshótel Húsavík hafa tæplega þúsund manns boðað komu sína í jólahlaðborð hjá hótelinu og koma gestirnir víða að. Án efa er bæði um að ræða íslands- og heimsmet. Svo virðist sem þrennt hafi þar sérstaklega áhrif, glæsilegt jólahlaðborð sem gerist ekki betra, frábært og nýupptekið hótel og þá skemma Sjóböðin ekki fyrir sem njóta mikilla vinsælda.

Það verða margir jólasveinar á ferðinni á Húsavík í desmeber, það er bæði alvöru jólasveinar og eins aðrir jólasveinar úr samfélaginu.

 

Stjórn Framsýnar kölluð saman til fundar

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 13. nóvember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Ungliðar innan Framsýnar-ung hafa einnig seturétt á fundinum. Mörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kjaraviðræður við PCC
  4. Staða kjaraviðræðna SGS/LÍV við SA
  5. Þing ASÍ
  6. Skipan trúnaðarmanna hjá PCC
  7. Málefni Sjómannafélags Íslands/yfirlýsing
  8. Skipan í ungliðaráð Framsýnar
  9. Félagsfundur um ójöfnuð í þjóðfélaginu
  10. Gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson
  11. Jólafundur félagsins
  12. Jólaboð stéttarfélaganna
  13. Aðalfundur Sjómannadeildar
  14. Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks
  15. Íbúðakaup á Akureyri
  16. Húsnæði stéttarfélaganna/leiga á aðstöðu VÍS
  17. Námskeið- konur taka af skarið
  18. Námskeið á vegum Ríkissáttasemjara
  19. Önnur mál