Ný stjórn og góðar umræður um verkalýðsmál

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar fór fram í gær. Á fundinum var farið yfir starfsemi deildarinnar á síðasta ári auk þess sem kjaramál fengu góða umræðu. Þá var gengið frá kjöri á nýrri stjórn og hana skipa; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Trausti og Kristbjörg Vala koma ný inn í stjórnina. Jóna Matthíasdóttir og Dómhildur Antonsdóttir voru áður í stjórn en voru ekki í kjöri á fundinum í gær. Var þeim báðum þakkað fyrir vel unninn störf í þágu deildarinnar.

Formaður deildarinnar, Jónína Hermannsdóttir fór yfir skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár.

 Skýrsla stjórnar:

Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags býð ég ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Eins og þið þekkið eru innan raða Framsýnar stéttarfélags tvær sjálfstæðar deildir, Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Dómhildur Antonsdóttir ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Karl Hreiðarsson.

Eins og kunnugt er lét Jóna Matthíasdóttir af störfum sem formaður á síðasta ári þar sem hún skipti um starf sem fellur ekki undir starfssvið Framsýnar. Full ástæða er til að þakka Jónu fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar en hún var góður félagi og sinnti starfi sínu mjög vel sem formaður deildarinnar og ritari stjórnar Framsýnar. Þá gegndi hún trúnaðarstörfum fyrir LÍV. Jónína Hermannsdóttir varaformaður deildarinnar tók við formennsku af Jónu og hefur gengt því embætti fram að þessu.

Ef við snúum okkur að starfseminni þá var lítið um formleg fundarhöld hjá stjórn á síðasta ári. Einn stjórnarfundur var skráður. Þess í stað var notast við tölvupósta og símtöl. Hluti stjórnar tók þátt í jólafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar sem fram fór 15. desember. Samkvæmt félagslögum er formaður deildarinnar einnig tilnefndur í aðalstjórn Framsýnar á hverjum tíma til tveggja ára í senn. Núverandi kjörtímabil er 2018-2020. Aðalstjórn fundar reglulega eða að jafnaði einu sinni í mánuði.

Jónína Hermannsdóttir fór á þing Alþýðusambands Íslands sem haldið var í Reykjavík 24-26. október 2018. Þá tók hún þátt í fundi sem LÍV boðaði til í Reykjavík um mótun kröfugerðar. Sá fundur var haldinn 5. október 2018. Annar fundur um kjaramál var haldinn 16. október 2018 í Reykjavík sem Huld Aðalbjarnardóttir sat fyrir hönd deildarinnar.

Ástæða er til að þakka stjórn og trúnaðarráði, starfsmönnum og formanni félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn í flestum tilfellum beint til skrifstofu stéttarfélaganna með sín mál.

Félagatal
Á árinu 2018 greiddu 344 manns til félagsins, þar af voru konur 179 á móti 165 körlum.

Fjármál
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum; Framsýn, Þingiðn og STH auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með samstarfssaming við félögin. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári.  Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda starfsmanna á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins en þýðir einnig aukna vinnu og kostnað fyrir félagið. Endurskoðaður ársreikningur Framsýnar verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á næstu mánuðum. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.

Þá má geta þess að samkvæmt 3.mgr. 49. gr. laga ASÍ skulu stjórnir sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ fá tryggingafræðing eða löggiltan  endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Framsýn lét nýlega framkvæma þessa athugun og sá PWC um skoðunina.

Niðurstaðan er skýr: „ekkert bendi til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á allra næstu árum sé litið til eiginfjárstöðu í árslok 2017, afkomu sjóðsins á undanförnum árum og þess að bótagreiðslur úr sjóðnum og iðgjöld til sjóðsins verði áfram með líkum hætti og verið hefur.“ Þá kemur fram í fylgisjali að staðan sé í raun öfundsverð.

Óráðstarfað eigið fé/styrkjum hjá sjúkrasjóði Framsýnar er 22,8 á árinu 2017

Þessi niðurstaða staðfstir enn frekar að vel er haldið utan um fjármálin hjá Framsýn stéttarfélagi.

Kjara og samningamál
Um síðustu áramót runnu kjarasamningarnir út, það er milli LÍV og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að. Framsýn samþykkti síðastliðið haust að veita LÍV samningsumboð félagsins gagnvart SA. Frá áramótum og reyndar fyrir þann tíma hafa staðið yfir viðræður milli aðila um nýjan kjarasamning. Því miður hefur lítið sem ekkert þokkast varðandi launaliðinn. Viðræðurnar hafa snúist um kröfugerð LÍV fyrir hönd aðildarfélaganna, breytingar á vinnutíma og neysluhléum sem Samtök atvinnulífsins vilja ná fram auk viðræðna við stjórnvöld um breytingar á skattkerfinu og aðgengi fólks að húsnæði. Það er að venjulegu fólki verði gert kleift að kaupa eða leigja sér íbúðarhúsnæði án þess að setja sig endanlega á hausinn.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af tillögum Samtaka atvinnulífsins að fella niður neysluhlé. Markmiðið á að vera að draga úr virkum vinnutíma en ekki að fella niður neysluhlé. Fyrir þessum fundi liggur ályktun um hugmyndir SA um niðurfellingu neysluhléa og stöðuna í kjaraviðræðunum. Meðan ákveðin stéttarfélög hafa sem betur fer hafnað þessari leið hafa önnur félög lýst því yfir að þau séu tilbúin að skoða hugmyndir Samtaka atvinnulífsins sem eru töluverð vonbryggði.

Orlofsmál
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum.

Jöfn og góð nýting er á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Framsýn festi kaup á nýrri íbúð í Þorrasölum á síðasta ári og á nú fjórar íbúðir í húsinu. Fyrir á Þingiðn eina íbúð. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun en eins og þið vitið er ekkert punktakerfi við lýði hjá stéttarfélögunum okkar.

Okkur til mikillar ánægju var skrifað undir áframhaldandi samning milli Framsýnar og flugfélagsins Ernis um kaup á flugmiðum fyrir félagsmenn Framsýnar og tengdra aðila. Um er að ræða eina bestu kjarabót sem okkur félagsmönnum stendur til boða. Nýr samningur er áætlaður að tryggja okkur verð á flugmiða aðra leið milli Húsavíkur og Reykjavíkur fyrir kr. 10.300 út árið 2019 og er það vel. Óhætt er að segja að með samningi þessu séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Þjónusta Ernis er til fyrirmyndar, boðið er upp á daglegar ferðir milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Reiknað er með að stéttarfélögin selji félagsmönnum milli fjögur og fimm þúsund flugmiða á árinu 2019.

Þá má geta þess að stéttarfélögin tóku upp nýjan orlofsvef á síðasta ári til að auka enn frekar þjónustu við félagsmenn. Vefurinn er mjög aðgengilegur og ekki annað að heyra en að félagsmenn séu mjög ánægðir með hann.

Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Umsækjendum um styrki fjölgaði milli ára. Á síðasta ári fengu 38 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 2.680.362.– Við viljum minna félagsmenn á að kynna sér fjölmörg önnur réttindi sem eru einnig í boði og nýta það sem til staðar. Starfmenn skrifstofu félagsins liðsinna ykkur með þær upplýsingar og þær má einnig finna á vefsíðu og í kynningarbæklingi Framsýnar sem er uppfærður reglulega. Deild verslunar – og skrifstofufólks hefur ekki almennt staðið fyrir sérstökum fundum fyrir félagsmenn sína, heldur eru haldnir opnir almennir félagsfundir Framsýnar um margvísleg málefni, m.a. kjarasamninga sem og annað fræðsluefni.

Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Stöðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi félagsins og aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á um tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu.  Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni.

Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári sem fyrr. Þar eru starfandi 5 starfsmenn í fullu starfi með starfsmanni Virk starfsendurhæfingarsjóðs, einn starfsmaður er í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í hlutastörfum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Viðburðir á árinu
Framsýn kom að nokkrum stórum viðburðum á árinu. Í apríl stóð félagið fyrir viðburði í Menningarmiðstöð Þingeyinga þar sem haldið var upp á 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar. Félagið gaf út ljóðabók í tilefni af afmælinu með ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur sem fór fyrir þeim konum sem stofnaði Von. Hátíðarhöldin 1. maí voru haldinn í Íþróttahúsinu á Húsavík og fóru vel fram enda mikið fjölmenni samankomið í höllinni. Föstudaginn fyrir sjómannadag stóð Sjómannadeild félagsins fyrir heiðrun sjómanna og í desember var gestum og gangandi boðið í aðventukaffi á vegum stéttarfélaganna. Þá fóru fulltrúar frá Framsýn í heimsókn til Solidarnosc í Gdansk í lok september. Kynnisferðin til Póllands var virkilega áhugaverð og skemmtileg í alla staði. Eins og heyra má var starfið lifandi á umliðnu starfsári.

 Lokaorð
Með þessari stuttu samantekt hefur verið gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í starfsemi félagsins, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri við félagið.  Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

 

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, haldinn mánudaginn 11. febrúar samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun.

 „Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur löngu tímabært að vísa kjaradeilu Landssambands íslenskra verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Svo virðist sem lítið sem ekkert sé að gerast í kjaraviðræðum aðila annað en að ræða breytingar á vinnutilhögun með niðurfellingu á neysluhléum sem félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki.

Í ljósi frétta um ofurhækkanir til bankastjóra Landsbankans er mikilvægt að LÍV endurskoði framlagða kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Ný kröfugerð taki mið af því svigrúmi sem bankaráð Landsbankans telur vera til staðar, svigrúm sem virðist hafa farið algjörlega fram hjá Seðlabankastjóra, sem varað hefur við kröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Á sama tíma og almenningur í landinu býr við okurvexti telur bankaráð Landsbankans eðlilegt og sanngjarnt að hækka laun bankastjórans þessi launahækkun uppá 82% ógni ekki stöðugleikanum, eða valdi óðaverðbólgu að ógleymdu hinu margfræga höfrungahlaupi.sem flokkast undir sturlaðar launahækkanir.

Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa laun bankastjóra Landsbankans hækkað úr kr. 2.089.000 í kr. 3.800.000. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða rétt tæp 82% á þessu tíu mánaða tímabili.

Í ljósi þessara tíðinda verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Seðlabankastjóri, fjármálaráðherra og leiðarahöfundar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins bregðast við. Landsbankinn er að mestu í eigu íslenska ríkisins og þá hafa leiðarahöfundar Fréttablaðsins kallað forystumenn í verkalýðshreyfingunni öfgamenn fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum tugþúsunda félagsmanna um bætt kjör, það er að þeir þurfi ekki að búa við fátæktarmörk öllu lengur, það er innan við kr. 300.000 á mánuði.

Enn og aftur kallar Framsýn eftir jöfnuði og réttlæti í þjóðfélaginu. Í landi eins og Íslandi á enginn að þurfa að líða skort eða búa við það hlutskipti að geta ekki búið í húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Annað verður aldrei liðið.“

Trausti Aðalsteins kemur nýr inn í stjórn deildarinnar.

Anna Brynjars tók þátt í fundinum eins og fleiri félagsmenn innan Deildar verslunar- og skrifstofufólks.

 

Deila á