Þingiðn varar við breytingum á yfirvinnuálagi

Stjórn Þingiðnar hefur samþykkt að senda frá sér ályktun vegna yfirstandandi kjaraviðræðna milli Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem virðast snúast nánast eingöngu um vinnutímabreytingar, það er niðurfellingu á neysluhléum og lækkun á yfirvinnuálaginu. Þingiðn hefur áhyggjur af stöðunni og telur jafnframt löngu tímabært að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Samiðn fer með samningsumboð félagsins. Stjórnin samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu mála.

Ályktun
-Vegna yfirstandandi kjaraviðræðna Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins-

„Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hafnar alfarið hugmyndum Samtaka atvinnulífsins sem byggja á því að fella niður neysluhlé, lengja dagvinnutímabil og heimilt verði að fleyta yfirvinnutíma milli mánaða og gera að dagvinnu. Þá er breytingum á yfirvinnuálagi, það er úr 80% í 66% hafnað.

Slíkar hugmyndir eru fráleitar að mati Þingiðnar og ber að vísa út af borðinu þegar í stað.

Þess í stað er mikilvægt að samninganefnd Samiðnar tryggi iðnaðarmönnum viðunandi lífskjör í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld. Kjör sem taki mið af menntun og ábyrgð iðnaðarmanna til samræmis við aðrar sambærilegar stéttir þar sem menntunar er krafist.“

Deila á