Kommúnistar og kröfuhundar

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar er höfundur meðfylgjandi greinar um kjaramál og stöðuna á vinnumarkaði. Ósk er skólaliði í Stórutjarnaskóla. Greinin er vel skrifuð og hittir í mark.

Kommúnistar og kröfuhundar

Þeir sem vinna þau störf sem í daglegu tali kallast láglaunastörf þekkja hversu mikið þarf að leggja að mörkum til að brauðfæða fjölskylduna. Það er ástæðan fyrir því að fólk í þeirri stöðu vinnur margt hvert langan vinnudag og er þess utan tilbúið að hlaða á sig aukavinnu sé hún boði, því með því móti getum það mögulega tryggt sér og sínum lágmarksþátttöku í því samfélagi sem við búum í. Þættir sem mörgum þykja sjálfsagðir, eins og það að mennta börnin sín og eignast þak yfir höfuðið er ekki einfalt fyrir þá sem lítið hafa og sama hvað hver segir, þá er það blákaldur veruleiki að við Íslendingar sitjum ekki öll við sama borð.
Vinna verka- og láglaunafólks skiptir sköpum fyrir samfélagið, því það vinnur störfin sem enginn tekur eftir að séu unnin, en það taka allir eftir því ef það er ekki gert. Líklega hugsa ekki margir út í það að þetta er einmitt fólkið sem heldur samfélaginu gangandi (með fullri virðingu fyrir öðrum stéttum). Ætli hugsi til dæmis margir út í það hvað starfsfólk á hjúkrunarheimilum ber úr býtum við að sinna andlegum og líkamlegum þörfum ástvina okkar, sem við sjálf höfum ekki tíma til að sinna? Eða hvernig við kæmust leiðar okkar í snjó og ófærð ef enginn fengist til að vinna á snjóruðningstækjunum? Ef enginn tæmdi sorptunnurnar fyrir okkur myndi fljótlega skapast vandamál og lítill yrði útflutningurinn ef ekki fengist fólk til starfa í frystihúsin og í afurðastöðvarnar við að skapa verðmæti úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Hvað ef við fengjum ekki fólk í vinnu við að þjónusta ferðamenn ? Það yrði ástand í leik- og grunnskólum ef ekki fengist þar fólk til almennra starfa. Hver ætti þá að gæta barnanna, snýta þeim, hugga þau og skeina, svo að við hin gætum sinnt okkar vinnu og aflað tekna. Öll þessi störf ásamt reyndar fjölmörgum öðrum láglaunastörfum eiga það sammerkt að vera ekki mikils metin í þjóðfélaginu, þó öllum ætti að vera ljós nauðsyn þess að þau séu ynnt af hendi. Launaseðlar verka- og láglaunafólks taka af allan vafa um hversu margra króna virði það er talið. Þó að gamla bændasamfélagið sé sem betur fer liðið undir lok, þá hangir enn yfir okkur sá illi arfur að ætla vinnufólki það hlutskipti að ná því rétt að hanga á horriminni.

Íslenskt verka- og láglaunafólk hefur lengi verið þurftalítið og hefur langoftast, allavega í seinni tíð, beðið þeirra mola er hrjóta við og við af borðum atvinnurekanda. Verið sagt að fara varlega í að rugga bátnum, ófaglært fólk hafi lítið fram að færa og mætti þakka fyrir að hafa yfirhöfuð einhverja vinnu.

Nærtæk dæmi snúa að þeim kjaraviðræðum er nú standa yfir og lúta að kostakjörum Samtaka atvinnulífsins varðandi vinnutímabreytingar og eru svar þeirra við kröfum ASÍ er varða styttingu vinnuviku. Tillögur SA byggja á þremur meginþáttum og hljóða í stuttu máli upp á: „ að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klukkutímum í 13, að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu og að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma“. Tillögurnar féllu líklega vel að þeirri samfélagsgerð sem hér var við lýði í árdaga verkalýðshreyfingarinnar, í upphafi 20.aldar. Þá tíðkaðist að fólk þrælaði myrkranna á milli, alltaf á sama kaupinu hversu margir tímar sem unnir voru og án nokkurra sérstakra kaffitíma. Tillögurnar ef samþykktar yrðu myndu færa verkafólk aftur til ómanneskjulegs samfélags, þar sem réttlaus lítilmagninn mátti sín lítils gagnvart ofríki atvinnurekanda.

Eins og ævinlega er styttist í að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losni og verkalýðshreyfingin krefst launahækkana fyrir verka- og láglaunafólk, bregst það ekki að á sjónvarpsskjánum birtist boðberi válegra tíðinda, í formi seðlabankastjóra. Allt hans yfirbragð ber þess merki að heimsendir sé á næsta leiti, jafnvel strax á morgun. „Það verður ágjöf, þjóðarskútan mun lenda í svarrandi brimi. Vitið þið ekki að óhóflegar launahækkanir leiða af sér hærri vexti og meira atvinnuleysi“ þrumar bankastjórinn, slær út höndum orðum sínum til áréttingar og ískaldur hrollur hríslast niður hryggsúluna á kröfuhundum og kommúnistum sem vita, en vilja ekki lengur skilja, að það er hefð fyrir því að stöðugleiki efnahagslífsins sé látinn lenda á einmitt þessum hópi.

Ég ætla, sem einn þessara meintu kommúnista og kröfuhunda að boðskap seðlabankastjóra megi skilja sem svo að þær krónur sem vinnulýðurinn nær að hrista úr launaumslaginu, séu á einhvern hátt efnismeiri og hafi meira verðgildi en hækkanir til þeirra sem gullvögnunum aka. Þeim er ekki boðið upp á launahækkanir sem tíðkast á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði þar sem prósentin teljast á fingrum annarar handar heldur hljóða þær oftast upp á tugi prósenta og svo það sé sagt hreint út af bálreiðri verkakonu, þá er líkast því að þær hækkanir séu skrifaðar með sverum skítagaffli. Siðlausar launahækkanir, árangurstengdar greiðslur og bónusar til þessara útvöldu hópa í þjóðfélaginu vekja reiði í brjóstum þeirra sem sífellt þurfa að stíga pedalana hraðar í von um að eiga fyrir mat fram að næstu mánaðarmótum. Slíkar hækkanir þó miklar séu gára ekki hafflötinn og þjóðarskútan siglir hægan byr á milli hafna. Hvar er þá samfélagsleg ábyrgð og hófsemi? Fólkinu á gólfinu bjóðast ekki slíkar greiðslur þótt margir hverjir hafi verið á vinnumarkaði árum saman og búi þar af leiðandi yfir víðtækri þekkingu og mikilli reynslu af ýmsum störfum. Árangurstengdar greiðslur til handa verka- og láglaunafólki byggjast hins vegar á stoðkerfisvandamálum og slitnum liðum. Leggi það verulega hart að sér, gæti það að auki nælt sér í bónus sem fólginn í skertum lífsgæðum sökum ótímabærrar örorku og skapast af langvarandi þrældómi.

Daginn sem Geir H. Harde bað guð að blessa Ísland fylltist almenningur í landinu réttlátri reiði í garð gráðugra auðvaldsplebba sem græddu á daginn og grilluðu á kvöldin. Hrunið kom harðast niður á þeim er síst skyldi, því án þess að hafa nokkuð til þess unnið missti fjöldi fólks atvinnuna, aðrir misstu heimili sín eða töpuðu fjármunum sem þeir voru búnir að nurla saman yfir starfsævina. Hrunið hafði samt ekki eingöngu slæmar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið, því einhverskonar hópefli varð til meðal þjóðarinnar sem stóð eftir hnípin og særð. Það urðu víðtækar breytingar á hugsunarhætti almennings, sem var réttilega nóg boðið þegar veislan fór úr böndunum, á þeirra kostnað. Því eru, í það minnsta lægri stéttir samfélagsins ekki búnar að gleyma og ætla sér ekki að kosta gleðina á ný.

Fólkið á lægstu laununum, fólkið bak við tjöldin er Íslands stærsta auðlind, því án þess myndi samfélagið einfaldlega ekki virka. Við förum ekki fram á mikið, enda kærum við okkur ekki um samfélag byggt á græðgi og efnishyggju. En við eigum fullan rétt á að okkur sé sýnd virðing fyrir það að vinna þau mikilvægu störf sem við vinnum og fyrir það krefjumst við mannsæmandi launa.

Amen og halelúja

Deila á