Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar 27. desember

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 27. desember 2018 í fundarsal félagsins. Fundurinn hefst kl. 17:00.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Önnur mál

Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar og óvæntan glaðning. Mikilvægt er að sjómenn láti sjá sig á fundinum.

Stjórn Sjómannadeildar

 

PCC BakkiSilikon hf. hækkar laun starfsmanna fyrirtækisins

Framsýn stéttarfélag og Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hafa undanfarnar vikur átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf. um breytingar á sérkjarasamningi aðila sem rennur út um áramótin.

Stéttarfélögin hafa þrýst á að samningaviðræðurnar kláruðust fyrir áramót með nýjum samningi. Það hefur því miður ekki gengið eftir enda mikið verk að vinna. Meðal annars er unnið að því að þróa frammistöðutengd bónuskerfi, sem ætlað er að bæta kjör í verksmiðjunni og auka um leið verðmæti framleiðslunnar. Metnaður PCC er að framleiða hágæðavöru.

Í ljósi þessa sendi PCC BakkiSilicon hf. frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fyrirtækið tekur heilshugar undir áherslur stéttarfélaganna um mikilvægi þess að hraða viðræðum um endurnýjaðan sérkjarasamning. Til að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna lýsir PCC því yfir að nýr kjarasamningur komi til með að taka gildi frá 1. janúar 2019 enda takist samningar. Til að liðka fyrir samningum ætlar PCC að hækka starfsmenn um allt að 6% sem tengist starfsaldri og hæfni frá og með næstu áramótum þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst auk þess að tryggja öllum starfsmönnum 8% framleiðslukaupauka frá sama tíma, það er meðan unnið er að því að þróa nýtt kaupaukakerfi í janúar.

Rétt er að geta þess að hlutdeild í 6% launahækkuninni kemur til þegar starfsmenn hafa starfað í sex mánuði hjá fyrirtækinu eða lengur enda ætlað að umbuna þeim starfsmönnum sem hafa verið við störf í fyrirtækinu eins og þekkist í almennum kjarasamningum þar sem launatöflur taka mið af starfsaldri. Starfsmenn með 12 mánaða starfsreynslu fá 6% launahækkun, aðrir starfsmenn með 6 mánaða eða lengri starfsreynslu, þó innan við 12 mánaða starfsreynslu geta fengið 4% launahækkun enda hafi þeir lokið almennri grunnþjálfun og útgefnum skyldunámskeiðum með fullnægjandi hætti að mati stjórnenda.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, fagnar útspilli PCC, það er að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna fyrir hönd starfsmanna þrátt fyrir að ekki hafi náðst samningar. Yfirlýsing PCC hafi verið unnin í góðu samstarfi við stéttarfélögin. Að sögn Aðalsteins verður viðræðum fram haldið eftir áramótin. Vilji aðila sé að klára viðræðurnar með samningi í janúar.

Samningur við Erni endurnýjaður

Framsýn hefur gengið frá nýjum samningi við Flugfélagið Erni um afsláttarkjör fyrir félagsmenn sem fljúga milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samningurinn felur í sér að Framsýn í umboði aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna kaupir 4800 flugmiða sem jafngildir um árs notkun félagsmanna á flugmiðum þar sem um 400 félagsmenn fljúga í hverjum mánuði á stéttarfélagsfargjaldinu að meðaltali. Vegna verðlagsbreytinga og aukins kostnaðar í rekstri flugfélagsins náðist ekki að viðhalda óbreyttu verði sem verið hefur frá árinu 2015. Þess í stað hækka miðarnir til félagsmanna í kr. 10.300 per ferð með niðurgreiðslum félaganna. Nýju miðarnir koma í sölu 1. janúar 2019.

Valgeir Páll Guðmundsson flýgur reglulega með Flugfélaginu Erni milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Valli er alltaf hress ekki síst með kjörin sem honum og öðrum félagsmönnum stéttarfélaganna bjóðast, ferðist þeir með flugi milli landshluta með Erni.

Takk fyrir okkur

Fulltrúar Framsýnar hafa verið tíðir gestir í Reykjavík undanfarið enda hafa staðið yfir viðræður við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning sem rennur út um áramótin. Þegar formaður Framsýnar var í sinni síðustu ferð í dag fyrir jól milli Reykjavíkur og Húsavíkur færði hann starfsmönnum Flugfélagsins Ernis konfektkassa frá félaginu. Að sjálfsögðu voru starfsmenn flugfélagsins virkilega ánægðir með jólagjöfina um leið og þeir báðu um góðar kveðjur norður með þakklæti fyrir samstarfið á árinu. Við tökum undir það enda átt afar ánægjulegt samstarf við starfsfólk flugfélagsins sem er í alla staði frábært.

 

Við þurfum að brýna vopnin og bíta í skjaldarrendur

Á jólafundi Framsýnar síðasta laugardag gerði Ósk Helgadóttir varaformaður árið 2018 upp í starfi félagsins. Við gefum Ósk orðið:

Félagar!

Nú fer enn eitt árið að renna sitt skeið á enda. Þá er rétt að taka aðeins stöðuna, hvarfla augunum yfir það sem liðið er, en leiða jafnframt hugann að áframhaldandi verkum. Árið 2018 markar tímamót i sögu Framsýnar stéttarfélags, en 10 ár eru liðin síðan það var stofnað upp úr nokkrum félögum í Þingeyjarsýslum.

Það væri synd að segja að lognmolla hafi einkennt starf Framsýnar það sem af er ári. Strax í upphafi árs var það umræðan um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem átti sviðið. Fyrsta ályktun félagsins á árinu var hvatning til aðildarfélaga ASÍ að nýta sér ákvæði í kjarasamningum og segja þeim upp þegar samningar komu til endurskoðunar í febrúar. Þá var enda ljóst að forsendur samninga voru brostnar. Framsýn talaði afar skýrt fyrir uppsögn kjarasamninga og það voru því mikil vonbrigði að aflokinni atkvæðagreiðslu, sem fram fór á formannafundi ASÍ í febrúar að svo varð ekki. Naumur meirihluti formannanna kaus að bíða vetrarins með að sækja kjarabætur fyrir sitt fólk og fara þá fram með festu. Nú er sá tími runninn upp og ætti ekki að vera nokkuð til fyrirstöðu að herða nú sóknina og sækja fast fram.

Almennt verða kjarasamningar sem Framsýn á aðild að í gegnum landssamböndin lausir nú um áramótin. Undirbúningsvinna við mótun kröfugerðar vegna væntanlegra kjaraviðræðna við okkar viðsemjendur hófst strax í byrjun árs. Sú vinna er langt komin, enda markmiðið að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir áramót.

Mikil gróska hefur einkennt atvinnulífið á Mið-Norðurlandi undanfarin ár í mestu iðnaðaruppbyggingu sem um getur í sögu Norðurlands. Stór uppbyggingarverkefni hafa staðið yfir og í tengslum við þær framkvæmdir hafa um 2000 manns komið tímabundið inn á atvinnusvæði Framsýnar, það er til viðbótar við það vinnuafl sem fyrir var. Það er við byggingu kísilmálmverksmiðjunnar á Bakka, við jarðvarmavirkjunina á Þeistarreykjum, við gerð Vaðlaheiðargangna og við þá miklu uppbyggingu sem verið hefur í ferðaþjónustunni hér á svæðinu. Auknum framkvæmdum hefur fylgt fjölþjóðlegt starfslið og félagsmenn Framsýnar á þessum tíma komið víða að úr heiminum. Það er gaman að geta þess að fólk frá 38 þjóðlöndum greiddi til félagsins á síðasta ári.

Við búum mjög vel að hafa frábært starfslið á skrifstofu stéttarfélaganna. Álag á þau hefur verið mikið á þessum umbrotatímum atvinnulífsins, en okkar fólk hefur leyst úr öllum þeim málum sem upp hafa komið, með miklum sóma.

Uppbyggingu áðurtalinna verkefna er nú að mestu lokið. Á Þeistareykjum malar nú 90 MW gufuaflsvirkjun, sem komin er í fullan rekstur og framleiðir að megninu til orku fyrir Kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, en verksmiðjan hóf starfsemi um miðbik ársins. Við teljum niður dagana þar til Vaðlaheiðargöng verða opnuð og líklega verða þau jólagjöfin í ár. Göngin munu koma til með að styrkja samfélögin, bæði austan og vestan Vaðlaheiðar t.d. með greiðari aðgangi að fjölbreyttari vinnumarkaði.

Það væri synd að segja að hjól atvinnulífsins hafi ekki snúist liðlega á árinu og fjölbreytileiki þess verið með allra mesta móti. Atvinnuleysi hefur ekki verið teljandi á þeim svæðum sem mesti uppgangurinn hefur náð til, en hætt er við að þær tölur geti hækkað eitthvað þegar líður á veturinn.

Við skulum heldur ekki alveg gleyma okkur í hamingju yfir auknum atvinnutækifærum, staðan í þeim málum er hreint ekki góð í öllum byggðalögum Þingeyjarsýslna. Þar nefni ég þær byggðir sem nær eingöngu hafa haft afkomu sína að sjávarútvegi og landbúnaði. Atvinnugreinum sem hafa til lengri tíma haldið í okkur lífinu, en eiga nú í vök að verjast. Það er meðal annars hlutverk stéttarfélags að verja þau samfélög, að hafa skoðun á hverning við byggjum landið og hvernig við skiptum gæðunum.

Á árinu minntumst við stofnunar Verkakvennafélagsins Vonar með veglegum hætti, en 28. apríl voru liðin 100 ár frá stofnun félagsins. Þann dag blésum við til fagnaðar í Menningarmiðstöð Þingeyinga og buðum til okkar góðum gestum. Þar fór fram vönduð dagskrá í tali og tónum og borið var fram bakkelsi að hætti formæðranna. Þá var opnuð sýning á ljósmyndum af verkakonum við störf á starfstíma Vonar. Sérstakt afmælisblað Framsýnar var gefið út í tilefni tímamótanna og út kom ljóðabók með völdum ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur, konuna sem fyrst kom fram með hugmyndir af stofnun baráttusamtaka fyrir alþýðukonur. Bókin ber nafnið Tvennir tímar. Í Árbók Þingeyinga 2018 mun starfsemi Verkakvennafélagsins verða gerð ítarleg skil, en bókin kemur út í lok næsta árs.

Framsýn stóð fyrir fjölmennri samkomu í „Höllinni“ á baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí . Um 600 manns sóttu hátíðina, sem að þessu sinni var tileinkuð aldarminningu Verkakvennafélagsins Vonar. Framsýn tók að venju þátt í heiðrun sjómanna á Húsavík á sjómannadaginn og eins og undanfarin ár heimsóttu fulltrúar félagsins Raufarhafnarbúa í tilefni sjómannadagsins og buðu bæjarbúum upp á kaffi og tertur. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum slóu saman í trúnaðarmannanámskeið í upphafi árs. Tókst námskeiðið afar vel og er það fjölmennasta trúnaðarmannanámskeið sem félögin hafa haldið.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar, ásamt formönnum Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur brugðu sér til Gdansk í Póllandi nú í haust. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja pólsku verkalýðshreyfinguna Solidarnosc og efla með því tengslin á milli félaganna. Tekið var á móti hópnum með kostum og kynjum og heppnaðist ferðin afar vel. Forvígismenn Solidarnosc töldu að nauðsynlegt væri að efla tengsl milli verkalýðshreyfinga landanna tveggja, enda um 18.000 Pólverjar búsettir á Íslandi um þessar mundir, eða um 5 % þjóðarinnar. Ferðir sem þessar fara fulltrúar Framsýnar á eigin vegum, en áður hefur hópurinn heimsótt verkalýðsfélög í Færeyjum, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Vegna mikillar eftirspurnar fjárfesti Framsýn í fjórðu íbúðinni í Þorrasölum í Kópavogi á árinu, en íbúðirnar þar hafa verið afar vel nýttar. Fjárhagstaða félagsins er góð um þessar mundir og á aðalfundi Framsýnar sem haldinn var í júní síðastliðnum var samþykkt að hækka styrki til félagsmanna, suma þeirra verulega. Félagsmenn Framsýnar hafa góðan aðgang að starfsmenntastyrkjum og orlofskostir félagsins voru vel nýttir af félagsmönnum Framsýnar og fjölskyldum þeirra í sumar sem leið. Framsýn leggur mikið upp úr því að félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku haldi áfram réttindum í félaginu og segja má að Framsýn hafi farið fyrir þeim félögum sem leggja mikið upp úr þessum þætti, enda haft fjárhagslega burði til þess. Því miður er það svo að í allt of mörgum tilfellum tapa félagsmenn viðkomandi stéttarfélaga réttindum við starfslok.

Það er margt sem stendur til boða fyrir okkar fólk , en að öllu því ólöstuðu bera ódýru flugfargjöldin með flugfélaginu Erni þar líklega hæst. Margir fullyrða að þar sé um að ræða eina allra mestu kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn sína.

Félagið okkar er öflugt og ég held að það sé ekkert mont þó ég segi að Framsýn sé einn af máttarstólpum Þingeysks samfélags og styðji það dyggilega. Það gerir félagið með beinum hætti í formi ýmis konar styrkja, með öflugum stuðningi við æskulýðs- og íþróttastarfsemi í héraðinu, með styrkjum til menningarmála, auk þess að standa fyrir fundum og viðburðum af ýmsu tagi. Framsýn hefur ályktað um ýmis málefni það sem af er ári. Það er líf í félaginu okkar og við látum rödd okkar heyrast.

Ég nefndi hér í upphafi að vinna væri hafin við gerð kjarasamninga. Það er gaman að geta þess að fyrsta sinn í sögu Starfsgreinasambands Íslands ganga öll aðildarfélög þess saman að samningaborðinu. Á 43. þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var í lok október blésu hressandi vindar og þar gerðust einnig sögulegir atburðir. Kona var kjörin forseti sambandsins í fyrsta sinn í 102 ára sögu þess, fulltrúar róttækari afla í hreyfingunni voru kjörnir í margar helstu trúnaðarstöður innan sambandsins og fólk af erlendum uppruna, starfandi á Íslandi átti rödd á þinginu. En það sem vakti sérstaka athygli og var ákaflega ánægjulegt var hlutur unga fólksins, sem mætti sterkt til leiks á þetta þing. Þar er án efa að skila sér kröftugt ungliðastarf SGS – félaganna. Framsýn á í því starfi öfluga fulltrúa sem láta sig málin varða og vekja sannarlega vonir um kröftuga verkalýðsbaráttu framtíðar.

Mikil endurnýjun varð á stjórn og trúnaðarráði Framsýnar á árinu og bjóðum við nýja félaga, ásamt nýjum trúnaðarmönnum sérstaklega velkomna til starfa. Þið verðið ugglaust góð viðbót við alla þá frábæru einstaklinga sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið okkar. Að vera virkur í starfi stéttarfélags krefst áhuga og fórnfýsi og það eru ekki allir fúsir til þeirra starfa. Styrkur Framsýnar liggur í mannauði ykkar kæru félagar, sem fórnið tíma ykkar og orku í að sinna því sem þið eruð kosin til eða ráðin til að gera. Og mig langar til að nota hér tækifærið og þakka ykkur fyrir allt ykkar óeigingjarna starf í þágu félagsins.

Hér að framan hef ég tæpt á nokkrum atriðum úr starfi Framsýnar það sem af er ári og drepið á því allra helsta. En við skulum ekki dvelja of lengi í fortíðinni, nú er vert við líta fram á veginn. Við skulum halda áfram ótrauð, okkar góða starfi, með hækkandi sól á nýju ári, en eins og segir í kvæðinu:„Hvað þá verður veit nú enginn og vandi er um slíkt að spá“.

Kæru vinir. Framundan gætu verið erfiðir kjaraviðræður og þá mun reyna á styrk okkar. Við, fólkið í félögunum þurfum að láta okkur málin varða til að forystufólk okkar fái þann stuðning sem skyldi. Það þurfa að nást mikilvægar kjarabætur og þá er það samstaðan sem er lykilatriði. Það mun reyna á samstöðu SGS – félaganna í viðræðum við atvinnurekendur. Það mun reyna á fögur fyrirheit enn einnar nýrrar ríkisstjórnar Íslands, sem setti sér þá stefnu í húsnæðismálum að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna. Það mun einnig reyna á fyrirheit hennar um uppbyggingu heilbrigðiskerfis, um samgöngumál, um atvinnu og byggðamál. Loforð um að styðja við þá sem standa hvað höllustum fæti í okkar annars ágæta þjóðfélagi. Við tölum þar um verkafólk, láglaunafólk, um aldraða og öryrkja.

Nú þurfum við sjálf að brýna vopnin og bíta í skjaldarrendur. Við skulum koma blóðinu á hreyfingu með því að minnast loka útspils Kjararáðs til hollvina sinna. Krefjast bættra kjara. Það er ekki í boði að að þiggja einu sinni enn ölmusu úr auðvaldslúkum, brauðmolarnir eru búnir! Við krefjumst réttlætis! Verum Framsýn í orðsins fyllstu merkingu, stöndum sem einn maður við bakið á nýkjörinni, baráttuglaðri verkalýðsforystu og veitum þeim allan þann styrk sem okkur er unnt.

Gleðileg jól

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

Gleði í jólaboði stéttarfélaganna

Stéttarfélögin voru með opið hús í dag. Boðið var upp á kaffi og meðlæti af bestu gerð frá Heimabakaríi. Börn og unglingar úr Tónlistarskólanum á Húsavík jomu í heimsókn og spiluðu jólalög og önnur skemmtileg lög ásamt kennurum. Ungu börnin fengu glaðning frá jólasveininum. Dagurinn var í alla staði mjög gleðilegur en um 200 manns komu í jólakaffið. Við þökkum fyrir okkur. Sjá myndir frá deginum.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar á laugardaginn

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags mun koma saman til fundar á laugardaginn til að taka fyrir nokkur mál. Fundurinn hefst kl 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Þar sem þetta er væntanlega síðasti fundur ársins er starfsmönnum félagsins, trúnaðarmönnum, heiðursgestum og stjórn Framsýnar ung boðið að sitja fundinn.

Dagskrá:

    1. Fundargerð síðasta fundar
    2. Inntaka nýrra félaga
    3. Samkomulag við Flugfélagið Erni
    4. Trúnaðarmannanámskeið 2019
    5. Tryggingafræðileg úttekt á sjúkrasjóði félagsins
    6. Samskipti Framsýnar við VHE
    7. Staðan í kjaramálum
    8. Jólaboð stéttarfélaganna
    9. Starfsemi ASÍ-UNG: Aðalbjörn Jóhannsson
    10. Starfsemi Framsýnar á árinu 2018: Ósk Helgadóttir
    11. Önnur mál 

Veðrið var eins og best var á kosið í Fnjóskadalnum í gær

 

Veðrið var eins og best var á kosið í Fnjóskadalnum í gær, vægt frost og ákaflega kyrrlátt og fagurt um að litast. Það var líka gestkvæmt í Vaglaskógi, en þar fór fram hinn árlegi jólamarkaður Skógræktarinnar á Vöglum. Hægt var að versla jólatré, greinar, arinvið og fleira úr skóginum, auk þess sem handverksfólk úr Þingeyjarsveit og nágrenni bauð varning sinn til sölu. Var þar margt fagurra muna að sjá, auk þess sem boðið var upp á ýmiss konar góðgæti fyrir munn og maga. Fjöldi gesta lagði leið sína á jólamarkaðinn, margir versluðu jólagjafirnar, völdu jólatréð (sem er ekki alltaf sérviskulaust), eða komu bara til að sýna sig og sjá aðra. Nemendur í 9. og 10. bekk Stórutjarnaskóla sáu um kaffisölu í Furulundi, til ágóða fyrir ferðasjóð. Það var svo ilmur af brennandi birki, snarkandi eldinum og marrinu í snjónum sem fangaði hug gesta í Vaglaskógi og rammaði inn jólaskapið. Sannkölluð jólastemming á Vöglum, dagurinn var einkar vel heppnaður og á starfsfólk Skógræktarinnar bestu þakkir skildar fyrir einstaka gestrisni og þægilegheit í alla staði. Hér eru myndir frá deginum.

Jólaboð stéttarfélaganna laugardaginn 15. desember

Stéttarfélögin verða með opið hús í fundarsal stéttarfélaganna laugardaginn 15. desember frá kl. 14:00 til 17:00. Boðið verður upp á kaffiveitingar, tertur, tónlist og þá fá börnin smá glaðning frá félögunum. Að venju eru allir velkomnir. Sjáumst hress og í jólaskapi.

Stéttarfélögin

Áhugi fyrir trúnaðarmannsstöðu

Framsýn fór í morgun í vinnustaðaheimsókn til starfsmanna GPG á Raufarhöfn. Að venju var vel tekið á móti gestunum frá Húsavík sem færðu starfsmönnum smá glaðning frá félaginu. Formaður Framsýnar svaraði fyrirspurnum starfsmanna auk þess að fara yfir stöðuna í kjaraviðræðum aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þá var gengið frá kjöri á trúnaðarmanni fyrir starfsmenn. Svo fór að slegist var um stöðuna þar sem þrír starfsmenn gáfu kost á sér í starfið. Talningu er nú lokið og verður nýr trúnaðarmaður skipaður formlega á næsta stjórnarfundi Framsýnar sem fram fer í næstu viku. Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum í dag en rúmlega 30 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á Raufarhöfn.

ASÍ ályktar um aðgerðir í húsnæðis- og skattamálum

Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út.
Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem er þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.
Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fast í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa í við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. tilkomin vegna aðgerðarleysis stjórnvalda og sveitastjórna. Og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda.
Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág-og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna-og vaxtabótakerfinu.

Viðræður og undirbúningur í gangi vegna kjarasamninga

Óhætt er að segja að mikið álag sé um þessar mundir hjá forsvarsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaga vegna yfirstandandi kjaraviðræðna við atvinnurekendur og þá er undirbúningur á fullu varðandi aðra kjarasamninga sem falla úr gildi eftir áramótin eins og hjá starfsmönnum sveitarfélaga og hjá ríkinu.

Dagskráin er svona þessa vikuna:
Undirbúningsfundur stendur yfir í Reykjavík í dag vegna kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn er laus 31. mars 2019. Fulltrúar frá Framsýn taka þátt í þessari undirbúningsvinnu.

Á morgun þriðjudag er sömuleiðis undirbúningsfundur í Reykjavík vegna kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn er laus 31. mars 2019. Fulltrúar frá Framsýn taka þátt í þessari undirbúningsvinnu.

Á miðvikudag er samningafundur á Húsavík milli PCC Bakkisilicon og stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar. Fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins taka einnig þátt í fundinum.

Á fimmtudag er síðan fundur í Reykjavík um ferðaþjónustusamninginn milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Um er að ræða samlestur á kjarasamningum sem til stendur að sameina í einn kjarasamning. Fulltrúi frá Framsýn mun taka þátt í þessari vinnu.

Þegar þetta er skrifað hefur ekki verið settur á samningafundur á föstudag. Eins og sjá má á þessu yfirliti er mikið að gera um þessar mundir og dagskráin verður svona áfram næstu vikurnar og mánuðina.

Framsýn færir Hvammi gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson

Fyrir helgina færði Framsýn stéttarfélag Hvammi heimili aldraðra á Húsavík gjöf til minningar um Hafliða Jósteinsson sem lengi kom að störfum fyrir stéttarfélögin á Húsavík. Hafliði var mjög virkur í starfi stéttarfélaganna á Húsavík og tók sæti í varastjórn Verslunarmannafélags Húsavíkur 28. febrúar 1966 en til stofnfundar félagsins var boðað 6. september 1965. Hann sat lengi í stjórn og trúnaðarmannaráði Verslunarmannafélags Húsavíkur, þar af sem formaður um tíma. Auk þessa var hann í trúnaðarstörfum fyrir Landssamband íslenskra verslunarmanna. Við sameiningu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum árið 2008 tók Hafliði sæti í stjórn deildar- verslunar og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hann sat í stjórn deildarinnar til ársins 2011. Við það tækifæri var Hafliða þakkað áratuga starf hans að málefnum verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar og Verslunarmannafélags Húsavíkur með viðurkenningarskjali sem bar yfirheitið „Framúrskarandi félagsmaður í Framsýn.“

Það voru þau Hildur Sveinbjörnsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Pétur Helgi Pétursson forstöðumaður fasteigna og Sigurveig Arnardóttir trúnaðarmaður starfsmanna og stjórnarmaður í Framsýn sem veittu gjöfinni viðtöku fyrir hönd Hvamms. Með þeim á myndinni er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Um er að ræða Soundbar/hljóðstöng og DVD spilara til að spila tónlist. Eins og kunnugt er var Hafliði mikill tónlistarmaður og því er gjöfin vel við hæfi en Hafliði starfaði síðustu æfiárin á Hvammi og spilaði og söng reglulega fyrir heimilsfólkið á Hvammi. Hljóðstöngin nýtist einnig vel við að magna upp hljóð úr sjónvarpinu fyrir heimilismenn á Hvammi sem sumir hverjir hafa tapað heyrn.

Hljóðstöngin er þegar komin upp og samkvæmt heimildum Framsýnar er mikil ánægja með gjöfina meðal heimilsmanna á Hvammi heimili aldraðra.

 

 

Nýr framkvæmdastjóri boðinn velkominn til starfa

Flosi Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Tekur hann til starfa á næstu vikum.

Flosi býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu en hann  er húsasmiður og viðskiptafræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá Íslandsstofu við fræðslu og ráðgjöf. Áður starfaði hann m.a. hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG um 10 ára skeið og sem húsasmiður hjá ýmsum aðilum.

Flosi býr einnig að fjölbreyttri reynslu af félagsmálum, m.a. setu í bæjarstjórn Kópavogs frá 1998 til 2010 auk setu í ýmsum nefndum og ráðum fyrir sveitarfélög og ráðuneyti. Þess utan hefur hann tekið þátt í margvíslegu öðru félagsstarfi.

Ráðningarferlið var í höndum Capacent en alls bárust 17 umsóknir um stöðuna.

Framsýn stéttarfélag býður Flosa velkominn til starfa og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum fyrir Starfsgreinasambandið sem Framsýn á aðild að.

(Mynd með frétt er tekin af heimasíðu SGS)

 

Jólafundi Framsýnar frestað

Jólafundi Framsýnar sem vera átti í kvöld hefur verið frestað til laugardagsins 15. desember. Til fundarins eru boðaðir starfsmenn félagsins, trúnaðarmenn á vinnustöðum, trúnaðarráð, Framsýn-ung auk stjórnar félagsins. Auk hefðbundinnar dagskrár verður boðið upp á kvöldverð og heimatilbúin skemmtiatriði.

Vegna veðurs hefur jólafundi Framsýnar verið frestað um tvær vikur.

 

Ákvörðun ÚR kallar á endurskoðun á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða

Nýlega var 36 sjó­mönn­um í áhöfn frysti­tog­ar­ans Guðmund­ar á Nesi sagt upp störf­um eft­ir að Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur (ÚR) ákvað að setja tog­ar­ann á sölu­skrá. Samkvæmt heimildum Framsýnar stéttarfélags er reyndar þegar búið að selja skipið til Grænlands og samkvæmt sömu heimildum er skipið í næst síðustu veiðiferðinni. Tæplega þriðjungur áhafnarinnar er í Framsýn stéttarfélagi. Í til­kynn­ingu frá útgerðarfé­lag­inu seg­ist fyrirtækið harma aðgerðirn­ar. Í upp­hafi þessa árs gerði fyrirtækið út fjóra frysti­tog­ara frá Reykja­vík. Í upp­hafi næsta árs mun fé­lagið aðeins gera út einn slík­an, Kleif­a­berg, og þá mun sjó­mönn­um fé­lags­ins hafa fækkað um sam­tals 136.

Í til­kynn­ingu útgerðarfyrirtækisins seg­ir að ástæður þess­ar­ar óheillaþró­un­ar séu fjölmarg­ar en þær helstu eru „erfiðar rekstr­araðstæður frysti­tog­ara sem stjórn­völd á Íslandi beri veru­lega ábyrgð á með óhóf­legri gjald­töku stimp­il- og veiðigjalda.“ Þá er verk­fall sjó­manna í fyrra einnig tekið inn í mynd­ina og seg­ir fé­lagið að kjara­samn­ing­ar í kjöl­far verk­falls­ins hafi gert rekst­ur frysti­tog­ara erfiðan við Ísland.

Því miður er með ólíkindum hvað sumar útgerðir þessa lands geta lagst lágt í að verja gjörðir sínar. Það að halda því fram að verkfall sjómanna hafi leitt til þess að útgerðir þurfi að losa sig við fiskiskip er algjör fjarstæða og til skammar fyrir viðkomandi útgerðir sem halda slíku fram. Talandi um veiðigjöld hafa þau ekki verið meira íþyngjandi en svo að búið er að endurnýja flotann að töluverðu leyti á síðustu árum auk þess sem öflug skip eru í smíðum erlendis. Þá hefur ekki vantað að hluthafar þessara sömu fyrirtækja hafi verið að greiða sér svimandi háar arðgreiðslur sem eiga sér vart hliðstæður í íslensku viðskiptalífi.

Það að halda því fram að veiðigjöld og verkföll sjómanna hafi skapað þessa stöðu er því algjör brandari og á skjön við veruleikann svo ekki sé meira sagt. Reyndar mikil lítilsvirðing við sjómenn. Eðlilega er sjómönnum brugðið sem síðustu vikurnar og mánuði hafa misst vinnuna eða eru með uppsagnarbréfin í vasanum.

Framsýn er í góðu sambandi við þá sjómenn sem þetta á við um sem eðlilega er brugðið og mjög óánægðir með stöðu mála. Félagið kallar eftir auknu siðferði meðal útgerðarmanna og að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti.

Samkvæmt lögum eru lífeyrissjóðir eign sjóðsfélaga. Útgerðarmenn eiga ekki að komast upp með að gambla með lífeyrissjóði sjómanna eða annarra sjóðsfélaga í eigin þágu og grafa þannig undan stöðu sjómanna og lífsviðurværi þeirra eins og dæmin sanna.

Framsýn stéttarfélag skorar á útgerð Guðmundar í Nesi að hætta við söluna á skipinu og að uppsagnir áhafnarinnar verði þegar í stað dregnar til baka. Þá hvetur félagið Lífeyrissjóðinn Gildi til að endurskoða fjárfestingastefnu sjóðsins er viðkemur þeim fyrirtækjum sem haga sér með þeim hætti sem endurspeglast í vinnubrögðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda. Það verður aldrei friður um fjárfestingar lífeyrissjóða meðan fyrirtæki haga sér með þessum hætti í skjóli fjármagns frá lífeyrissjóðum.

 

Samningaviðræðum frestað vegna veðurs

Til stóð að fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu í dag með Samtökum atvinnulífsins og PCC vegna sérkjarasamnings félaganna við PCC á Bakka. Fundurinn átti að fara fram á Húsavík. Vegna veðurs hefur viðræðunum verið frestað fram í næstu viku. Fundartími verður ákveðinn fyrir helgina. Þegar hefur verið haldinn einn fundur um samninginn sem rennur út um áramótin.

Góður gangur í viðræðum

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust á fundi í gær til að ræða kjarasamning sem nær til starfsmanna í ferðaþjónustu innan sambandsins. Viðræðurnar fóru fram í húsnæði Ríkissáttasemjara. Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar sem fer fyrir samninganefndinni er viðkemur samningnum fyrir hönd SGS, ganga viðræðurnar vel og verður fram haldið í næstu viku. Viðræðurnar snúast um að yfirfara þá kjarasamninga sem gilda fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu og við bensínafgreiðslustörf, það er sérákvæði. Þá er vilji til þess að sameina kjarasamninga í ferðaþjónustu sem gilt hafa annars vegar fyrir stéttarfélögin innan Flóabandalagsins og hins vegar landsbyggðarfélaganna innan SGS sem og mismunandi bensínafgreiðslusamninga. Launaliður samningsins er inn á öðru borði enda markmiðið að samræma launabreytingar milli þeirra kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins eiga aðild að og falla úr gildi um áramótin.

Viðræður milli SGS og SA um kjarasamning starfsfólks í ferðaþjónustu ganga vel. Markmiðið er að klára sérmálin á næstu vikum. Launaliðurinn verður svo tekinn sérstaklega fyrir á sameinginlegu borði samninganefnda samningsaðila.