Boðað verkfall hreingerningarfólks á hótelum 8. mars var samþykkt með 89% atkvæða í atkvæðagreiðslu Eflingar sem lauk í gærkvöldi.
Fram kemur í fréttatilkynningu að 862 hafi greitt atkvæði og þar af hafi 769 samþykkt verkfallið, 67 greitt atkvæði gegn því og 26 ekki tekið afstöðu. Á kjörskrá voru 7.950 manns og var þátttaka því rétt tæp 11%.
Enn fremur segir að verkfallsboðunin teljist þar með samþykkt og verði afhent Samtökum atvinnulífsins og ríkissáttasemjara á morgun, 1. mars.
Efling hyggst á morgun tilkynna um víðtækari verkfallsaðgerðir sem verða samstilltar með VR og ná lengra fram í tímann. (frétt þessi byggir á frétt mbl.is)