Skipting eftirlaunaréttinda milli hjóna

Starfsmenn stéttarfélaganna fá reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum varðandi það hvort hjón geti gert samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum.

Í  lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar hjónum og sambúðarfólki að gera samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum. Ákvæðið er hugsað sem jafnréttis- eða sanngirnismál, til að jafna réttindi þeirra sem verið hafa í á vinnumarkaði og þeirra sem hafa verið heimavinnandi. Skiptingin getur numið allt að 50% af eftirlaunaréttindum og hún skal vera gagnkvæm sem þýðir að ekki er hægt að skipta aðeins réttindum  annars aðilans.

Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna með þrennum hætti:

 Lífeyrisgreiðslum skipt

Greiðslur sjóðfélaga renna þá allt að hálfu til maka eða fyrrverandi maka. Þetta er tímabundin ráðstöfun á meðan báðir aðilar eru á lífi.

Áunnum lífeyrisréttindum er skipt

Gera þarf samninginn fyrir 65 ára aldur og áður en lífeyristaka hefst. Ef sjúkdómar eða heilsufar draga úr lífslíkum er hægt að gera slíkan samning.

Framtíðarréttindum er skipt

Sjálfstæð réttindi myndast fyrir maka til að jafna lífeyrisréttindi til framtíðar.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir í hverju skiptingin er fólgin áður en hún er ákveðin.  Eingöngu er verið að skipta rétti til eftirlauna. Réttur til örorku og makalífeyris helst óbreyttur. Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða ævilangan makalífeyri má segja að búið sé að jafna réttindi að nokkru leyti.

Tekjutenging Tryggingastofnunar gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum getur einnig flækt málið.

Skiptingin getur valdið því að heildargreiðslur til sjóðfélaga og maka frá Tryggingastofnun lækka en óljóst er hvernig reglur Tryggingastofnunar kunna að breytast í framtíðinni. Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og samantekt Stapa um makasamninga sem birt var í frétt hjá sjóðnum.

Orðsending frá Velferðarsjóði

Velferðasjóður Þingeyinga biður ykkur um fjástuðning. Velferðasjóðurinn er sjóður okkar, til að styðja þá sem minna mega sín hér í Þingeyjarsýslum.

Sjóðurinn byggir eingöngu á frjálsum framlögum og því biðjum við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, að láta fé af hendi rakna til þessara líknarmála.

Allt fé sem inn kemur rennur til að aðstoða nauðstadda hér á okkar svæði.

Bankareikningur okkar er 1110-05-402610

Kennitala er 600410-0670

Öll framlög eru vel þegin.

Um leið og við þökkum fyrir stuðning liðinna ára óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

fyrir hönd Velferðasjóðsins

sr.Örnólfur á Skútustöðum

Jólagleði í boði stéttarfélaganna

Stéttarfélögin verða með opið hús í fundarsal stéttarfélaganna laugardaginn 14. desember frá kl. 14:00 til 17:00. Boðið verður upp á kaffiveitingar, tertur, tónlist og þá fá börnin smá glaðning frá félögunum. Að venju eru allir velkomnir. Sjáumst hress og í jólaskapi.

Stéttarfélögin

Góðir skóla- og námskeiðsstyrkir til félagsmanna og fyrirtækja

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum styrkja fullgilda félagsmenn sem sækja námskeið eða stunda nám með vinnu. Styrkirnir koma frá fræðslusjóðum sem félögin eiga aðild að. Einnig er hægt að sækja til viðbótar um sérstaka námsstyrki frá félögunum sjálfum. Vinsamlegast leitið upplýsinga á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Fyrirtæki og stofnanir á félagssvæðinu eiga einnig rétt á styrkjum til námskeiðahalds fyrir starfsmenn sé vilji til þess meðal þeirra að standa fyrir eigin fræðslu innan fyrirtækja og/eða stofnanna.

Framsýn kallar eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um greiðslur til tímakaupsfólks

Nýverið vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga í Félagsdómi varðandi rétt tímavinnukaups til eingreiðslu sem samið var um í haust milli samningsaðila auk þess varðar þetta líka orlofs- og desemberuppbótina í gegnum tíðina. Meðfylgjandi þessari frétt er umfjöllun tekin af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness sem varðar málið.

Framsýn hefur með bréfi í morgun kallað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum í Þingeyjarsýslum, hvort þau hafi mismunað tímakaupsfólki með þeim hætti sem greinir í máli þessu. Það er að tímavinnufólk hafi ekki setið við sama borð og fastráðið fóllk varðandi einstakar greiðslur, orlofs- og desemberuppbætur.

(Tekið af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness)

“Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga er laut að rétti tímakaupsfólks til eingreiðslu að fjárhæð 42.500 kr. sem greidd var þann 1. febrúar á þessu ári.

En á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að skilja ætti tímakaupsfólk eitt eftir án réttar til greiðslunnar.

Það er skemmst frá því að segja eins áður hefur komið fram að Félagsdómur tók undir allar dómkröfur Verkalýðsfélags Akraness og vann félagið því fullnaðar sigur í málinu sem kom formanni ekki á óvart enda blasti við að málatilbúnaður Sambands íslenskra sveitafélaga stóðst ekki eina einustu skoðun.

En það er morgunljóst að þessi dómur hefur mikið fordæmisgildi enda voru rök lögmanns Sambands íslenskra sveitafélaga þau að hvorki Reykjavíkurborg né ríkið hafi greitt umrædda eingreiðslu til starfsmanna sem tóku laun eftir tímakaupi.

Það er ekki bara það að Sveitafélögin, Ríkið og Reykjavíkurborg þurfi að greiða tímakaupsfólki umrædda eingreiðslu sem kemur út úr þessum dómi, heldur einnig það að búið er að hlunnfara tímakaupsfólk illilega þegar kemur að því að reikna út rétt til orlofs-og desemberuppbótar.

En sveitafélögin hafa einungis reiknað dagvinnutíma út þegar verið er að reikna út starfshlutfall sem myndar rétt til hversu háar orlofs-og desemberuppbætur tímakaupsfólk á rétt á, en ekki allt vinnuframlag þeirra eins og vinnu sem unnin er utan dagvinnutíma. En í dómi Félagsdóms er skýrt kveðið á um að starfshlutfall eigi að reiknast í samræmi við vinnuframlag.

Þetta hefur gert það að verkum að Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar gert þá kröfu á Akraneskaupstað að sveitafélagið leiðrétti útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tímakaupsfólks 4 ár aftur í tímann.

En það er alveg ljóst að þó nokkuð margir starfsmenn sveitafélaganna vítt og breitt um landið eiga rétt á leiðréttingu og það er verulega umhugsunarvert  hvernig Samband íslenskra sveitafélaga túlkar ranglega réttindi þeirra sem lökustu kjörin hafa hjá sveitafélögunum.

En eins og áður sagði hefur þessi dómur umtalsvert fordæmisgildi fyrir tímakaupsfólk og hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness starfsmenn vítt og breitt um landið sem og þá sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg að kanna réttarstöðu sína í ljósi þessa dóms.”

Lesa má dóminn í held inn á heimasíðu stéttarfélagsins

 

 

 

Fært á Skrifstofu stéttarfélaganna

Í morgun hefur verið unnið að því að ryðja snjó frá Skrifstofu stéttarfélaganna með handafli og stórvirkum vinnuvélum þannig að nú ættu allir þeir sem erindi eiga á skrifstofuna að hafa gott aðgengi að skrifstofunni og þar með starfsmönnum.

Hlutastörf lækka tekjur kvenna út ævina

Mun hærra hlutfall kvenna en karla á Íslandi vinnur hlutastörf, sem hefur mikil áhrif á tekjur þeirra allt fram á efri ár. Rannsóknir sýna að um þriðjungur kvenna vinnur hlutastörf en á bilinu sex til fjórtán prósent karla, en hlutfallið sveiflast meira milli tímabila hjá körlum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðu þess að konur og karlar vinna hlutastörf og þær hafa leitt ýmislegt í ljós. Í norrænni samanburðarrannsókn frá árinu 2014 kemur fram að algengasta ástæðan fyrir því að konur vinna hlutastörf er sú ábyrgð sem þær taka á fjölskyldunni. Um þriðjungur hlutastarfandi kvenna gefur þá ástæðu.

Þegar svör karla eru skoðuð kemur í ljós að enginn þeirra valdi sér hlutastarf vegna fjölskylduaðstæðna. Almennt virðast karlar fremur vinna hlutastörf vegna menntunar, eigin heilsu eða annarra ástæðna. Aðrar rannsóknir sem ná til fólks í hlutastörfum í öðrum Evrópulöndum sýna sömu niðurstöður, um þriðjungur kvenna vinnur hlutastarf vegna fjölskylduábyrgðar en einungis um sex prósent karla.

Þessi munur á atvinnuþátttöku kynjanna getur haft margvíslegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir konur út ævina. Lægri atvinnuþátttaka skilar sér ekki bara í lægri tekjum á vinnumarkaði, heldur einnig í lægri lífeyrisgreiðslum kvenna.

Stytting vinnuviku getur breytt miklu

BSRB hefur lengi talað fyrir því að jafna þurfi stöðu kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. Stytting vinnuvikunnar er einnig gríðarstórt jafnréttismál, en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika geti stuðlað að því að konur leiti síður í hlutastörf og karlar taki aukna ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfunum.

Það er von BSRB að með styttingu vinnuvikunnar takist að breyta hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna með því að stuðla að jafnari skiptingu ábyrgðar á launuðum sem ólaunuðum störfum. En ekki síst að stytting vinnuvikunnar leiði til þess að störf sem gjarnan eru kölluð kvennastörf verði metin af verðleikum í launasetningu og með betri vinnutíma. (Þessi frétt er tekin af heimasíðu BSRB)

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar hér.

Um þriðjungur kvenna á Íslandi vinnur hlutastörf sem lækkar tekjur þeirra og í kjölfarið greiðslur úr lífeyrissjóðum.

 

 

Rólegt – fáir á ferðinni

Á hverjum degi leita yfir hundrað manns á Skrifstofu stéttarfélaganna eftir upplýsingum í formi heimsókna á skrifstofuna og/eða með því að senda netpósta á starfsmenn. Það átti þó ekki við í gær enda brjálað veður á Húsavík. Sama staðan er í dag, veðrið er hundleiðinlegt og því fáir á ferðinni. Starfsmenn stéttarfélaganna börðust til vinnu í morgun og eru að venju klárir að þjónusta félagsmenn í dag þrátt fyrir að þó nokkuð sé um að fyrirtæki og stofnanir séu lokaðar í dag.

Það er ekki mikið líf á Skrifstofu stéttarfélaganna upp á morguninn.

Góður fundur um leikskólamál

Framsýn stóð fyrir fundi með foreldrum ungbarna á Húsavík í síðustu viku ásamt stjórnendum Norðurþings. Umræðuefnið var aðgengi ungbarna að Leikskólanum Grænuvöllum og hækkanir leikskólagjalda. Einnig urðu umræður um álögur vegna fasteignagjalda á Húsavík. Fundurinn var fjölsóttur og voru fundarmenn sammála um að hann hefði verið upplýsandi og góður. Foreldrar höfðu ákveðið frumkvæði að fundinum en þau leituðu til Framsýnar með ósk um aðkomu félagsins að málinu sem að sjálfsögðu var orðið við.

Fréttabréf kemur út í vikunni

Ritstjóri, blaðamenn og yfirsetjari Fréttabréfs stéttarfélaganna eru í óða önn að klára uppsetningu á fréttabréfinu með það að markmiði að það fari í prentun á morgun. Það þýðir að blaðið mun væntanlega berast lesendum í lok vikunnar. Það er sem sagt allt á fullu varðandi útgáfu á jólablaði stéttarfélaganna sem að venju er fullt af fræðandi og skemmtilegu lesefni. Meðfylgjandi mynd er af Heiðari Kristjánssyni sem er í þessum skrifuðu orðum að setja upp blaðið góða sem gefið er út í tæplega 2000 eintökum og dreift til lesenda í Þingeyjarsýslum og áskrifanda víða um land.

 

Styttist í komu jólasveinana

Senn koma jólin og eflaust eru margir farnir að huga að undirbúningi þeirra. Í upphafi aðventu fer jólaverslunin að lifna, laufabrauð, konfekt og smákökur kitla bragðlauka landsmanna og jólaljósin skína skært um stræti og torg. Það styttist einnig í komu jólasveinana, en yfir þeim hvílir ákveðin dulúð og leynd. Helst er haldið að varnarþing íslenskra jólasveina sé í Dimmuborgum. Eftir helgina munu þeir einn af öðrum taka að tínast til byggða. Samkvæmt sérkjarasamningi íslenskra jólasveina skal Stekkjastaur, sá fyrsti koma til byggða aðfaranótt 12. desember ár hvert. Allir launþegar þurfa að vera meðvitaðir um réttindi sín og og skyldur, en í fylgiskjali A með samningnum segir að jólasveinar skuli fara í bað einu sinni á ári. Að því loknu skuli þeir vitja íslenskra barna og færa þeim gjafir í skóinn, hafi þau til þess unnið. Réttindi jólasveina eru aftur á móti þau að Grýla móðir þeirra í samráði við hundlatan heimilisföðirinn, Leppalúða, ábyrgist að þeir séu sæmilega til fara. Einnig að eftir hátíðirnar megi þeir kýla vömbina að vild og liggja að því loknu á meltunni þar til líða fer að næstu jólum.

Sannir íslenskir jólasveinar klæðast eins og margir vita gömlu íslensku bændafötunum, líkt og þjóðin klæddist á 18-19 öld. Þau eru unnin úr íslenskri prjónavoð, ull, skinni og gæru.Tölurnar á fatnaði þeirra bræðra eru handunnar úr horni, beini eða tré. Litirnir eru einnig rammíslenskir, en þeir eru byggðir á íslenskum jurtalitum. Það voru Kristín Sigurðardóttir og vinkona hennar Ragnheiður Kristjánsdóttir sem aðstoðuðu Grýlu og umboðsmenn íslensku jólasveinanna fyrir allmörgum árum, við að hanna og sauma föt á þá.

Fréttamaður heimasíðu Framsýnar leit við hjá Kristínu á dögunum, en hún býr í Tjarnarborg í Ljósavatnsskarði. Kristín sem er félagsmaður Framsýnar, starfaði lengi sem skólaliði við Stórutjarnaskóla. Hún er ekki lengur á vinnumarkaði, en grípur gjarnan í saumaskap fyrir Grýlu gömlu, sem orðin er þreytt á að bæta föt sona sinna, enda margir þeirra annálaðir fataböðlar. Kristín segist ekki telja það eftir sér að lagfæra fatnað sveinanna, eða jafnvel sauma nýjan, því það sé mikilvægt að þeir séu hlýlega búnir, því ekki megi þeir veikjast í upphafi jólavertíðarinnar.

En það eru ekki eingöngu lifandi jólasveinar sem Kristín leggur metnað sinn í, heldur framleiðir hún eftirmyndir íslensku jólasveinafjölskyldunnar og eru þau uppábúin í vaðmálsföt og sauðskinnskó. Sveinkarnir hennar Kristínar eru víðförlari en almennt gengur og gerist meðal íslenskra jólasveina, þeir skipta orðið hundruðum og hafa dreifst um allan heim. Hver þeirra hefur sín sérkenni, þeir eru safngripir og ekki síður fínir í tauinu en frændur þeirra í Dimmuborgum.

Jólasveinarnir okkar þrettán, ásamt Grýlu, Leppalúða og húsdýri þeirra, jólakettinum hafa lengi átt þátt i að móta jólahefðir íslendinga með einum eða öðrum hætti. Framganga sveinkana hefur mildast með árunum, hafa þeir bætt hegðun sína og munnsöfnuð og óknyttir þeirra og uppátæki heyra nú nánast sögunni til. Jólakötturinn er orðinn gamall og lúinn, hefur í dag lítinn áhuga á börnum og kúrir heima í bólinu hjá Leppalúða. Þessi ágæta fjölskylda er þáttur í menningararfi okkar Íslendinga, er dæmi lifandi hefðir sem ber að varðveita. Aðstendendur fjölskyldunnar í Dimmuborgum, jafnt Kristín sem aðrir er hafa lagt þar hönd að verki eiga miklar þakkir skyldar fyrir að vekja athygli á þessum arfi, byggja úr honum menningartengda ferðaþjónustu og skapa með því atvinnu fyrir Þingeyinga.

Myndir: Edda Bjarnadóttir og Ósk Helgadóttir sem auk þess tók saman þessa skemmtilegu frétt.

 

 

Afsláttarkjör áfram í boði

Framsýn og Flugfélagið Ernir hafa gengið frá áframhaldandi samningi um sérkjör fyrir félagsmenn stéttarfélaganna sem fljúga með flugfélaginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem gilda á árinu 2020. Samkvæmt samkomulaginu kaupir Framsýn 4800 flugmiða af Erni og endurselur til félagsmanna stéttarfélaganna. Þess má geta að Framsýn er stærsti viðskiptavinur flugfélagsins á Íslandi er viðkemur samningum stéttarfélaga við flugfélagið en stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa verið að selja um 5000 flugmiða á ári til félagsmanna. Áætlað er að félagsmenn hafi sparað sér um 66 milljónir á síðasta ári með því að kaupa miðana í gegnum stéttarfélögin. Samkvæmt nýja samkomulaginu mun miðaverðið haldast óbreytt fram eftir næsta ári en þá kemur til hækkun sem kynnt verður síðar.

Nauðungarvinna og þrælahald aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag dóm í máli sem þrotabú fyrirtækisins Menn í vinnu höfðaði vegna ummæla starfsmanns í Vinnustaðaeftirliti ASÍ, í fréttum Stöðvar 2 snemma á þessu ári.

Eins og alkunna er þurfti ASÍ ítrekað að hafa afskipti af fyrirtækinu Menn í vinnu áður en það varð gjaldþrota. Það var vegna slæms aðbúnaðar starfsfólks og brota á kjörum þess. Frá því fyrirtækið hóf störf hafði Vinnumálastofnun það einnig til rannsóknar og var í samstarfi við bæði Vinnueftirlit ríkisins og Ríkisskattstjóra.

Í frétt Stöðvar 2 þann 7.febrúar 2019 var opinberaður grunur um að erlendir starfsmenn fyrirtækisins Menn í vinnu hafi verið í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu. Þeir séu bæði svangir, peningalausir og hræddir auk þess að búa við óásættanlegar og heilsuspillandi aðstæður á vegum fyrirtækisins. Samkvæmt dómi Héraðsdóms var stafsmanni ASÍ heimilt í þessu viðtali að vísa til þessara aðstæðna og felst í því fullnaðar viðurkenning á réttmæti þeirra ummæla. Hins vegar voru dæmd dauð og ómerk ummæli starfsmannsins um innlagnir á og úttektir af bankareikningum starfsmanna og að framkvæmdastjóri fyrirtækisins virtist hafa aðgang að bankareikningum stafsmanna sinna. Þótti dómara skorta gögn til að styðja við þessar fullyrðingar þrátt fyrir að starfsmenn hafi í frétt Stöðvar 2 sýnt viðstöddum gögn þessu til stuðnings. Heildarniðurstaða dómsins er því umdeilanleg þó ekki sé meira sagt.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort dómnum verði áfrýjað.

Starfsfólk ASÍ mun hér eftir sem hingað til standa með félagsmönnum sínum og enduróma veruleika þeirra á vinnumarkaði. Til stendur að efla vinnustaðaeftirlit verkalýðshreyfingarinnar enn frekar á næstu mánuðum.

Félagar í ASÍ mega vera afskaplega stoltir af eftirlitsfólki hreyfingarinnar sem sinna erfiðum störfum í baráttunni fyrir betri vinnumarkaði. Starfsmenn í vinnustaðaeftirliti ASÍ hafa unnið þrekvirki við að gæta hagsmuna vinnandi fólks og nýtur órofa stuðnings og fulls trausts í sínum störfum. Alþýðusambandið leitar stöðugt leiða til að efla eftirlit enda er full ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af fólki af erlendum uppruna sem kemur í gegnum starfsmannaleigur á íslenskan vinnumarkað, nauðungavinna og þrælahald verður aldrei liðið á íslenskum vinnumarkaði“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

(Meðfylgjandi mynd tengist ekki fréttinni)

 

Þingeyjarsveitin heimsótt

Formaður Framsýnar og eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna héldu áfram vinnustaðaheimsóknum í gær um félagssvæðið. Heimsóttir voru átta vinnustaðir í Þingeyjarsveit. Almennt var ríkjandi bjartsýni meðal stjórnenda og starfsmanna sem fulltrúar stéttarfélaganna spjölluðu við. Sjá myndir:

Sveitarfélögin haldi aftur af gjaldskrárhækkunum og sýni ábyrgð!

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með Alþýðusambandi Íslands sem ítrekar nauðsyn þess að sveitarfélög sýni ábyrgð og styðji við lífskjarasamningana með því að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám, rétt eins og yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga frá síðasta vori kvað á um.

Alþýðusambandinu hafa borist fregnir af því að sum sveitarfélög hafi gefið út að þau ætli að halda hækkunum á gjaldskrám, þ.m.t. fasteignagjöldum, innan við 2,5% og taka þannig ábyrgð og taka þátt í að stuðla að verðstöðugleika í samfélaginu sem er vel.

Það á þó því miður ekki við um öll sveitarfélög en fréttir hafa borist af því að sum þeirra ætli sér að láta íbúa bera miklar gjaldskrárhækkanir á komandi ári og draga þannig úr þeim ávinningi sem lífskjarasamningunum var ætlað að skila.

Þá virðast sum sveitarfélög ætla að hækka fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld langt umfram verðbólgu og bera fyrir sig þau rök að fasteignaskattar falli ekki undir gjaldskrár sveitarfélaga.

Fasteignaskattar eru meðal þeirra útgjaldaliða sem fasteignagjöld samanstanda af og falla þeir því að sjálfsögðu undir gjaldskrár sveitarfélaga sem eru ákvarðaðar á ári hverju, rétt eins og leikskólagjöld og önnur gjöld. Fasteignagjöld, þ.m.t. fasteignagskattar vega í mörgum tilfellum þungt í útgjöldum heimilanna og ljóst er að það dugar skammt að halda aftur af hækkunum á aðgangseyri ofan í sundlaugar ef hækka á fasteignaskatta á sama tíma.

Alþýðusambandið krefst þess að sá ávinningur sem kjarasamningarnir hafa veitt heimilum landsins verði ekki eyðilagður með hækkun gjalda. Sveitarfélögum landsins ber að fara að fordæmi þeirra sveitarfélaga sem ætla að sýna ábyrgð og halda aftur af hækkunum á öllum þeim gjaldskrám sem snerta heimili landsins.

 

Formaður á ferðinni um héraðið

Það hefur því miður ekki gefist mikill tími hjá formanni Framsýnar að fara í vinnustaðaheimsóknir á árinu enda ár kjarasamningsgerðar. Á dögunum gaf hann sér þó tíma og heimsótti vinnustaði í Mývatnssveit og Reykjahverfi. Að þessu sinni var tilgangurinn ekki síst að hitta stjórnendur og taka stöðuna á atvinnulífinu og heyra væntingar þeirra varðandi komandi ár auk þess að færa starfsmönnum konfekt og dagatal frá stéttarfélögunum. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við atvinnulífið á félagssvæðinu. Formanni og eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna Aðalsteini J. Halldórssyni, sem var með í för, var alls staðar vel tekið. Almennt báru stjórnendur sig vel varðandi stöðuna en vissulega höfðu þeir ákveðnar áhyggjur af ferðaþjónustunni. Það er hvernig hún muni koma til með að þróast á komandi árum en fyrir liggur að mikið hefur verið fjárfest í atvinnugreininni á undanförnum árum. Í Mývatnssveit er mjög mikið lagt upp úr ferðaþjónustu. Í Reykjahverfi eru öflug fyrirtæki í grænmetisrækt, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Formaður Framsýnar og eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna munu á næstu dögum halda áfram að heimsækja vinnustaði í Þingeyjarsýslum. Hér koma nokkrar myndir frá heimsókn formanns til fyrirtækja í Mývatnssveit og Reykjahverfi.

 

Jólasveinn ársins 2019

Guðmunda Steina Jósefsdóttir var valin „Jólasveinn ársins 2019“ á lokafundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn sem fram fór á föstudaginn. Fundarmönnum bauðst að kjósa þann félagsmann sem þykir hafa skarað fram úr í starfi Framsýnar á árinu. Formaður og varaformaður voru ekki í kjöri.

Titilinn „Jólasveinn ársins 2019“ hlaut Guðmunda Steina fyrir hennar mikla og óeigingjarna starf í þágu félagsins. Guðmunda er þriggja barna móðir og býr í Laxárdal. Hún hefur verið liðtæk í starfi Framsýnar og gegnir um þessar mundir formennsku í Framsýn-ung. Með þessu öllu saman er hún í námi og vinnur einnig utan heimilis. Sem sagt hörkukona og góður félagsmaður. Þegar valið fór fram gafst mönnum kostur á að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hér koma tvö dæmi: „Hún stendur sig vel, mætir vel, fersk og flott baráttukona!“ „Dugleg, mætir á nánast alla fundi, er í fullum skóla, vinnu og með þrjú ung börn. Bíður sig fram á öll þing.“

Guðmunda fékk ekki Óskarinn að gjöf fyrir að vera virkasti félagsmaðurinn 2019 heldur fallegan jólasvein í verðlaun. Framsýn óskar Guðmundu Steinu til hamingju með titilinn.

Upplýsandi fundur um lífeyrismál

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir upplýsingafundi um málefni sjóðfélaga innan Lsj. Stapa í gær, mánudag. Fundurinn var mjög góður en vissulega má gagnrýna að fólk fylgist ekki almennt betur með sínum málum og mæti á fund sem þennan sem ætlað er að miðla upplýsingum til sjóðfélaga og svara fyrirspurnum um málefni sjóðsins. Á fundinum fóru forsvarsmenn Lsj. Stapa yfir réttindakerfi Stapa, lykiltölur úr rekstri og framvindu fjárfestingarstefnu auk þess sem komið var inn á aukið hlutverk fulltrúaráðs sjóðsins. Eins og segir í upphafi var fundurinn góður og lögðu fundarmenn fjölmargar spurningar fyrir frummælendur fundarins.

Allir í stuði á jólafundi Framsýnar – góðu ári að ljúka í starfsemi félagsins

Lokafundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar á árinu fór fram síðasta föstudag. Trúnaðarmönnum á vinnustöðum, starfsmönnum stéttarfélaganna og stjórn Framsýnar-ung var einnig boðið að sitja fundinn. Fundurinn hófst með venjubundnum hætti með dagskrá. Þegar hún var tæmd tók skemmtinefnd kvöldsins við „Gimbrarnar sjö“ við stjórnun fundarins með skemmtidagskrá sem stóð fram eftir kvöldi. Boðið var upp á heimatilbúin skemmtiatriði og að lokum spilaði Hrútabandið fyrir dansi. Veitingarstaðurinn Salka sá um veitingar kvöldsins sem voru í alla stað til mikillar fyrirmyndar. Fundurinn fór í alla staða vel fram en hefð er fyrir því innan Framsýnar að ljúka starfsárinu með góðum jólafundi þar sem blandað er saman gaman og alvöru. Hér koma nokkrar myndir frá lokafundi ársins hjá stjórn og trúnaðarráði Framsýnar ásamt góðum gestum sem starfað hafa fyrir félagið á árinu.