Framsýn styrkir verkefnið „Þingeyska snjallkistan“

Þekkingarnet Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga vinna nú saman að verkefninu Tæknimennt sem byggðaaðgerð sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Megin markmið verkefnisins er að ýta undir tæknimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu enda alveg óhætt að segja að aukin færni á þeim sviðum sé til framtíðar mikilvægt byggðamál.

Hluti af verkefninu er að setja saman spennandi „dótakassa“, sem ber heitið Þingeyska snjallkistan. Þar kennir ýmissa grasa af kennslugögnum sem ætluð eru til að kenna og auka færni nemenda í forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind, rökhugsun o.fl. Allt byggir þetta undir tækniþekkingu og -færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum. Í kistunni er einnig er að finna vínylskera og hitapressu sem hægt er að nota til að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. Tæknin við slíka vinnu er til að mynda sú sama og notuð er hjá trésmíðafyrirtækjum við fræsara.

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkti verkefnið og skilyrði fyrir styrkveitingunni er að aflað yrði fjár á móti frá vinnustöðum á svæðinu til að kosta kaup á búnaði í kistuna. Því hefur verið ákveðið að leita til fyrirtækja og félagasamtaka á svæðinu um að taka þátt í verkefinu. Markmiðið er að safna kr. 500.000 þúsund og margt smátt gerir eitt stórt.

Þingeyska snjallkistan stendur öllum grunnskólum á starfssvæði ÞÞ og AÞ til boða og hún mun ganga á milli skólanna í vetur og næsta vetur þar sem verkefnið er hugsað til tveggja ára. Kennarar fá því gott tækifæri til að kynnast þessum kennslugögnum, sem vonandi örvar áhuga þeirra og gerir þeim auðveldara að velja góð tæki til kennslu þegar kemur að tæknimenntun. Snjallkistan hefur þegar verið kynnt skólunum á svæðinu og framundan eru að auki „dótadagar“ fyrir kennara sem er frekari kynning á snjallkistunni og tækifæri fyrir kennara til að prófa gögnin sem í þeim eru áður en kisturnar fara á flakk. Að loknu verkefninu verður skólunum á svæðinu gefið dótið.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar telur að um sé að ræða mjög áhugavert verkefni og hefur samþykkt að leggja því til kr. 100.000,-. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi í vikunni.

 

 

Félagsmenn Framsýnar fá hækkun kr. 125.000 – á við um starfsmenn sveitarfélaga

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndir Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar – stéttarfélags hafa undirritað samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar aðila þar sem stefnt er að gerð nýs kjarasamnings fyrir 20. október næstkomandi. Jafnframt drógu SGS og Efling – stéttarfélag til baka vísun kjaradeilu aðila til ríkissáttasemjara. Rétt er að taka fram að Framsýn á aðild að þessum samningi.

Þann 1. október 2019 verður hverjum starfsmanni greidd innágreiðsla á væntanlegan kjarasamning að upphæð 125.000 kr. miðað við fullt starf hjá sveitarfélagi. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. september 2019.  Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímavinnufólk fær innágreiðsluna.

Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga á gildistíma hinna endurnýjuðu kjarasamninga aðila og verði metinn sem hluti af kostnaðaráhrifum þeirra.

 

Framsýn kallar eftir kröfum sjómanna

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að veita Sjómannasambandi Íslands fullt umboð til kjarasamningsgerðar fh. sjómanna sem eru innan Sjómannadeildar Framsýnar.

 Umboð þetta nær til gerðar kjarasamnings og viðræðuáætlunar fh. Framsýnar stéttarfélags vegna kjarasamnings Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem rennur út 1. desember 2019.

 Sjómannadeild Framsýnar hefur ákveðið að kalla eftir kröfum sjómanna sem komið verður á framfæri við Samninganefnd Sjómannasambands Íslands um leið og þær liggja fyrir. Frestur til að skila inn tillögum er til 24. október n.k. Hér með er skorað á sjómenn innan Framsýnar að senda sínar kröfur á netfangið kuti@framsyn.is

 

 

Byggjum brýr

Þing Norræna verkalýðssambandsins (NFS) er haldið í Malmö dagana 3.–5. september undir yfirskriftinni „Byggjum brýr“. Þingið sækir forystufólk frá 15 heildarsamtökum launafólks frá öllum Norðurlöndunum. Fulltrúar fyrir 9 milljónir launamanna og verkalýðsfélaga sem hafa verið mikilvægasta aflið í að byggja upp velferðarsamfélög Norðurlandanna.

Við upphaf þingsins flutti forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, aðalræðu þingsins. Katrín byrjaði á að leggja áherslu á samstöðuna sem Norræna samfélagsmódelið byggir á; samfélag fyrir alla. Jafnframt benti hún á að það er enn verk að vinna við að byggja upp samfélag aukins jafnaðar og jafnréttis. Hún fjallaði því næst um íslenska kjarasamningakerfið og þann óstöðugleika sem hefur einkennt það. Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningunum síðasta vor miðaði að því að auka stöðugleika og taka jafnframt í samstarfi við verkalýðshreyfinguna á við þær áskoranir sem launafólk og íslenskt samfélag standa frammi fyrir. Í því sambandi benti Katrín á vilyrði um réttlátara skattkerfi, lengingu fæðingarorlofsins og hækkun barnabóta, húsnæðisstuðning við ungt fólk og tekjulága og baráttuna við brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hún lagði áherslu á að efnahagslegum stöðugleika verði að fylgja félagslegur stöðugleiki sem tryggir launafólki bætt lífskjör.

Katrín fjallaði um stærstu áskorunina sem Norðurlöndin, Evrópa og allt mannkynið stendur frammi fyrir sem eru loftslagsbreytingarnar og loftslagsváin. Hún vísaði til aðgerðaráðætlunar íslensku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þá vísaði hún til samstöðunnar sem komið hafi fram á fundi norrænu forsætisráðherranna á Íslandi fyrir skömmu síðan. Katrín áréttaði að til að ná árangri gegn loftslagsvánni þarf samstöðu um átak á alþjóðavísu. Í því sambandi vísaði hún til vaxandi kröfu ungs fólks um raunverulagar aðgerðir og árangur strax. Katrín lagði áherslu á að Hagvöxtur er ekki markmið í sjálfu sér. Efnahagslegum vexti þarf að fylgja réttlát skipting gæðanna um leið og ekki er gengi á gæði náttúrunnar heldur verði endurheimt það sem fórnað hefur verið í þeim efnum.

Katrín ræddi um stöðu Norðurlandanna í Evrópu. Hún sagði Evrópusamvinnuna mikilvæga fyrir Norðurlöndin en á sama tíma er mikilvægt að vera gagnrýnin og taka ekki öllu sem kemur frá Evrópusambandinu sem gefnu og nefndi þjónustutilskipunina og aðför hennar að samfélagslegu velferðarkerfi.

Í lokin ræddi Katrín tækniþróunina, breytingarnar á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar og mikilvægi þess að takast á við þessar breytingar og nýta þær til góðs fyrir alla, en ekki bara suma. Til þess þarf samfélagslegar lausnir hvort heldur horft er til menntunar og endurmenntunar eða annarra aðgerða sem nauðsynlegar eru.
Katrín lauk máli sínu á því að árétta samhengi baráttunnar gegn loftslagsvánni, aðgerðum til að mæta tækniþróuninni og breytingum á vinnumarkaði jöfnuði og jafnrétti og velferð fyrir alla. Grundvöll Norræna samfélagsmódelsins.

 

 

Göngur og réttir í Þingeyjarsýslum – réttað á Húsavík kl. 16:00

Um helgina verður víða réttað í Þingeyjarsýslum. Vitað er að réttað verður um helgina á Skógarétt í Reykjahverfi, Hraunsrétt í Aðaldal og réttum á Tjörnesi og Húsavík. Rétt er að taka fram að réttað verður í Húsavíkurrétt kl. 16:00 á morgun laugardag en ekki kl. 14:00 eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, það er vegna þess að jarðarför er frá Húsavíkurkirkju kl. 14:00.

 

Ný slökkvistöð rís

Starfsmaður stéttarfélaganna átti leið um hafnarsvæðið í dag og hitti þar á Jónas Hreiðar Einarsson, starfsmann Norðurþings sem var þar að líta eftir framkvæmdum við nýja slökkvistöð. Að sögn Jónasar er um mánuður eftir af þessum framkvæmdum en þá mun loks ljúka langri bið eftir úrbótum á aðstöðu slökkviliðs Norðurþings.

Allir á völlinn í boði Framsýnar – frábær árangur hjá okkar liði

Næstkomandi sunnudag 8. september spila stelpurnar í meistaraflokki Völsungs í knattspyrnu sinn síðasta leik í sumar.  Leikurinn verður á Húsavíkurvelli og munu þær spila gegn Leikni Reykjavík.

Sumarið hefur verið frábært hjá meistaraflokki kvenna. Liðið er taplaust og eru langefstar á toppi deildarinnar.  Fyrir þremur vikum tryggðu þær sér Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild kvenna og munu spila í 1. deild næsta sumar.

Eftir leikinn á sunnudaginn munu þær fá bikarinn afhentan og verður mikið um að vera á vellinum. Leikurinn hefst kl. 12.00 og frítt verður í boði Framsýnar stéttarfélags.

Fyrir leik eða milli ellefu og tólf verða hoppukastalar, andlitsmálning og grillaðar pylsur í boði.

Yngstu iðkendur Völsungs munu leiða leikmenn inn á völlinn og sláarkeppni verður í hálfleik.

Á meðan á leik stendur verða seldar vöfflur í vallarhúsinu.

Framsýn hvetjur alla til að mæta og fagna þessum glæsilega árangri með stelpunum.  Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti sem meistaraflokkur kvenna hjá Völsungi fer upp um deild.

Láttu sjá þig á vellinum.😊

 

 

Stutt eftir af ferðaþjónustutímabilinu

Nú er háannatíma ferðaþjónustunnar að ljúka hvað á hverju. Hér á Skrifstofu stéttarfélaganna koma reglulega erlendir starfsmenn ferðaþjónustunnar sem eru á heimleið eftir sumartörnina. Þannig er sá hluti ferðaþjónustunnar sem einungis er starfandi yfir sumarið að klára sína vertíð. Þannig er staðan á Hótel Eddu á Stjöru-Tjörnum en þar lokaði fyrir skömmu eftir annasamt sumar. Myndina af ofan tók starfsmaður stéttarfélaganna á dögunum af hluta starfsfólks Hótel Eddu á Stóru-Tjörnum sem var í óða önn við að undirbúa lokun hótelsins.

Vilt þú komast á þing fyrir Framsýn?

Framundan eru tvö þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar sem Framsýn þarf að senda fulltrúa á í september og október. Félagsmenn sem hafa áhuga á að gefa kost á sér sem fulltrúar félagsins eru vinsamlegast beðnir um að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is.

Þing Alþýðusambands Norðurlands verður haldið á Illugastöðum föstudaginn 27. september og fram að hádegi á laugardeginum. Gist verður eina nótt á Illugastöðum. Framsýn á rétt á 22 fulltrúum. Um er að ræða áhugavert og skemmtilegt þing fyrir fólk sem hefur áhuga fyrir sínum málum er snýr að kjara,- atvinnu og byggðamálum. Framsýn greiðir allan kostnað við þingið sem og verði menn fyrir vinnutapi eða kostnaði við að koma sér á þingið. Skorað er á félagsmenn að gefa kost á sér á þingið.

Þing Starfsgreinasambands Íslands verður haldið í Reykjavík 24 og 25. október/fimmtudagur-föstudagur. Framsýn á rétt á 5 fulltrúum. Framsýn greiðir allan kostnað við þingið sem og verði menn fyrir vinnutapi eða kostnaði við að koma sér á þingið.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fundar á mánudaginn

Fundur í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar verður haldinn mánudaginn 9. september kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju er stjórn Framsýnar-ung boðið að taka þátt í fundinum. Mörg mál eru á dagskrá fundarins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kjaramál- lausir samningar
  4. Furulundur 11E
  5. Kjör fulltrúa á þing AN
  6. Kjör fulltrúa á þing SGS
  7. Kjör fulltrúa á þing LÍV
  8. Vinnustaðaeftirlit – brotastarfsemi
  9. Þakkarbréf frá SHÞ
  10. Ársreikningar félagsins – staðfesting ASÍ
  11. Kynnisferð
  12. VÍS- erindi
  13. Starfið framundan
  14. Önnur mál
    1. Starfslokanámskeið
    2. Kjör trúnaðarmanns

 

Gagnsæi gegn misskiptingu – Miðstjórn ASÍ ályktar

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt á miðstjórnarfundi ASÍ 28. ágúst. Meðal miðstjórnarmanna á fundinum var formaður Framsýnar sem var kallaður inn sem varamaður.

Gagnsæi gegn misskiptingu
Komið hefur í ljós að sú aðgerð að leggja niður kjararáð hefur valdið launaskriði hjá þeim hæstlaunuðu hjá ríkinu. Það var engin umræða um sanngjörn laun í tengslum við þá aðgerð. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Á meðan við leggjum ekki skýrar línur í þessum málum skiptir engu máli hverjir ákveða launin. Einföld aðgerð eins og að breyta því hverjir ákveða laun þeirra launahæstu skilar engu réttlæti í sjálfu sér án skýrra reglna um launaákvarðanir. Tilhneigingin er alltaf sú að þeir sem hafa meira fá meira og þeir sem minna hafa fá minna.

Það er löngu tímabært að mótuð verði skýr og sanngjörn launastefnu hjá ríkinu og í stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Festa þarf í lög að fyrirtæki geri grein fyrir launabili í ársreikningum og stjórnvöld þurfa að setja skýra launastefnu þar sem tilgreint er hvert launabilið megi vera á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu.
Við þurfum að bregðast við þeirri móðgun og augljósu stéttaskiptingu sem birtist okkur í hvert sinn sem skattskrár eru gerðar opinberar. Það er ekki nóg að fordæma ofurlaun einu sinni á ári án þess að aðhafast nokkuð. Það er kominn tími til aðgerða.

Miðstjórn ASÍ hvetur fulltrúa í stjórnum, trúnaðarmenn á vinnustöðum, stjórnmálafólk, starfsfólk og stjórnendur til að ræða launamun innan þeirra fyrirtækja og stofnana sem og innan samfélagsins alls. Móta þarf stefnu sem byggir á niðurstöðu þess samtals.

Það er afar brýnt að allir landsmenn greiði skatta og gjöld til samfélagsins óháð uppruna tekna, svo sem arðgreiðslur úr fyrirtækjum eða fjármagnstekjur. Upplýsingar um slíkt þurfa að vera aðgengilegar og gagnsæjar. Miðstjórn ASÍ hvetur Alþingi jafnframt til að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti, þar sem birtir eru allir álagðir skattar, þannig að aðgengi að þessum samfélagslega mikilvægu upplýsingum sé tryggt

Mest brotið á erlendu starfsfólki

Undanfarin ár hefur verið hraður vöxtur í efnahagslífinu á Íslandi. Ný rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga, bendir til að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki og einstaklingum með lágar tekjur. Við þessum brotum eru í dag engin viðurlög sem Alþýðusambandið telur algerlega óásættanlegt.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:

  • Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári.
  • Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og nam miðgildi kröfuupphæðar 262.534 kr.
  • Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.
  • Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð.
  • Niðurstöður spurningakönnunar Gallup eru í takt við launakröfur stéttarfélaga og benda til þess að brotastarfsemi beinist fremur gegn erlendu launafólki og yngra fólki, með lægri tekjur og í óreglulegu ráðningarsambandi og hlutastörfum.
  • Skoðun á launakröfum og spurningakönnunin benda til að brotin felist m.a. í vangreiðslum á launum, álagsgreiðslum og ýmsum réttindabrotum.
  • Hjá meirihluta launafólks, einkum hjá þeim sem hafa lengri starfsaldur og hærri tekjur, er brotastarfsemi nærri óþekkt.

Brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum er alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir einstaklinga. Þessir félagar okkar eiga að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það eru hagsmunir samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda mikil.

  • Bæta þarf löggjöf og regluverk. Lögbinda verður hörð viðurlög og sektargreiðslur vegna launaþjófnaðar og annarra brota gegn launafólki
  • Efla þarf upplýsingamiðlun, eftirlit á vinnumarkaði og eftirfylgni vegna brotastarfsemi. Bæta með kerfisbundnum hætti samstarf og samvinnu stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins með samræmdri og öflugri upplýsingamiðlun.
  • Stuðningur við brotaþola. Tryggja verður að þeir einstaklingar sem brotið er á sæki rétt sinn með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins alls og þeir njóti öryggis og skjóls.

Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2019 gaf ríkisstjórn Íslands fyrirheit um að gripið verði til fjölmargra aðgerða gegn launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrirheit sem byggja á kröfum og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir liggur aðgerðaáætlun en verkefnið nú er að fylgja yfirlýsingunni eftir og hrinda að fullu í framkvæmd á næstu mánuðum þannig að stigin verði markviss og afgerandi skref til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Rannsókn ASÍ um brotastarfsemi á vinnumarkaði

Sveitarstjórnarmenn segja stopp við launahækkunum – skilaboð SNS

Mál Starfsgreinasambands Íslands gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga var tekið fyrir í Félagsdómi sl. mánudag. Er það í samræmi við samþykkt formannafundur SGS 8. ágúst síðastliðinn. Það var mat fundarins að með því að vísa deilum um jöfnun á lífeyrisréttindum til Félagsdóms væri hægt að halda áfram að ræða önnur atriði.

Fyrirtaka í málinu fór fram síðastliðinn mánudag og fór lögfræðingur saminganefndar sveitarfélaganna fram á frestun. Frestur til að skila inn greinargerð um frávísun er til 3. september og málflutningur verður 4. september. Verði því hafnað að vísa málinu frá verður settur nýr frestur til að skila inn efnislegri greinargerð. Ljóst er að sveitarfélögin eru að reyna að fresta efnislegri umræðu um sjálfsagða jöfnun lífeyrisréttinda eins lengi og þau geta. Þessi harða afstaða sveitarfélaganna er mikil vonbrigði, ekki í samræmi við málflutning talsmanna samninganefndar sveitarfélaganna og er ekki jákvætt innlegg til lausnar deilunnar.

Neita enn að greiða 105.000 kr. innágreiðslu
Viðræðunefnd SGS átti fund með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær þar sem 105.000 kr. innágreiðsla til félagsmanna var meðal þess sem tekið var til umræðu. SGS lagði á það þunga áherslu að upphæðin sem ríki, Reykjavíkurborg og nokkrar stofnanir greiddu sínu fólki 1. ágúst sl. yrði greidd til félagsmanna þeirra 1. september næstkomandi og töldu einboðið að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga yrði við kröfunni um innágreiðsluna. Henni var hins vegar hafnað af hálfu nefndarinnar á fundinum og voru það mikil vonbrigði. Það sem er til viðbótar athyglisvert er að samninganefnd SNS ber því við að sveitarstjórnarmenn vilji ekki greiða starfsmönnum innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins þessa innágreiðslu til jafns við aðra, það sé ekki stemning fyrir því innan þeirra raða. Þessar fullyrðingar eru á skjön við skoðanir þeirra sveitarstjórnarmanna sem tjáð hafa sig um málið við forsvarsmenn Framsýnar. Þar hefur ekki skort á viljann en því borið við að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga leggist alfarið gegn því og hvetji sveitarfélögin til að standa saman gegn þessari sjálfsögðu kröfu aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Já, vitleysan er ekki öll eins.

Fundað með Vinnumálastofnun

Síðasta þriðjudag funduðu fulltrúar Norðurþings og Framsýnar með forsvarsmönnum Vinnumálastofnunnar. Fundurinn fór fram á Húsavík. Tilgangur fundarins var að fara yfir sameinginleg mál er varðar þjónustu Vinnumálastofnunar við skjólstæðinga sína á svæðinu og samskipti stofnunarinnar við hagsmunaaðila, það er Norðurþing og Framsýn. Fulltrúar Framsýnar komu ýmsu á framfæri enda telur félagið þjónustu við atvinnuleitendur ekki vera ásættanlega á félagssvæðinu. Fulltrúar Vinnumálastofnunar svöruðu fyrir sig og lögðu fram sínar skýringar. Vilji er til þess að taka upp aukið samstarf er varðar málefni þess hóps sem um ræðir.

SGS kallar eftir upplýsingum um kaup og kjör í veiðihúsum landsins – lítið um svör

Á formannafundi Starfsgreinasambandsins 7. ágúst síðastliðinn var gerð eftirfarandi samþykkt:

Formannafundur SGS 8. ágúst samþykkir að fela framkvæmdastjóra að senda Landssambandi veiðifélaga erindi og óski eftir upplýsingum um kjarasamninga, aðbúnað og önnur atriði sem varða starfsfólk í veiðihúsum landsins og réttindi þess.

Svar barst til SGS dagsett 22. ágúst, en þar sem segir m.a.

,,Minnt er á að Landssamband veiðifélaga hefur ekki afskipti af rekstri eða störfum veiðifélaganna, þau starfa sjálfstætt, þó skylduaðild sé að Landssambandinu, sem annast sameiginleg hagsmunamál, s.s. umfjöllun um lög og reglur og samskipti við opinbera aðila.“

Þetta svar LV veldur SGS miklum vonbrigðum og að sjá það sett fram með svo skýrum hætti að aðbúnaður og kjör starfsfólks í veiðihúsum allt í kringum landið komi þeim ekki við með neinum hætti. Áhugaleysi LV er verulegt umhugsunarefni. Þó að veiðifélög innan LV leigi í einhverjum tilfellum út veiði í ám og rekstur veiðihúsa til annarra aðila geta þau ekki firrt sig ábyrgð með þessum hætti.

Starfsgreinasambandið mun halda áfram að reyna að afla áreiðanlegra upplýsinga um kjör í veiðihúsum og skorar á veiðifélög í landinu að tryggja að þessi mál séu í lagi. Jafnframt hvetur SGS Landssamband veiðifélaga til þess að breyta sínum starfsháttum og standa undir því að afla upplýsinga um að aðildarfélög þess hagi rekstri sínum í samræmi við lög og kjarasamninga.

Bréf SGS til LV

Svar LV til SGS

Hafna beiðni Framsýnar um jöfnun meðal starfsmanna Skútustaðahrepps

Skútustaðahreppur svaraði erindi Framsýnar í gær en félagið fór fram á að sveitarfélagið greiddi starfsmönnum eingreiðslu kr. 105.000 þar sem kjarasamningar hafa ekki tekist líkt og öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins sem eru með lausa samninga. Eins og sjá má hér að neðan hafnaði sveitarfélagið beiðni Framsýnar sem eru mikil vonbrigði þar sem með því er sveitarfélagið að mismuna starfsmönnum eftir aðld að stéttarfélagi sem er þeim til skammar.  Hér má sjá svar sveitarfélagsins:

Vegna erindis Framsýnar stéttarfélags 2. júlí 2019 og svo ítrekun á því erindi þann 7. ágúst s.l. þá hafnar sveitarfélagið óskum Framsýnar sem fram koma í bréfinu.  

Eins og þér er kunnugt um hafa kjaraviðræður staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019 án niðurstöðu. Mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí s.l.

Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu en rétt er að árétta að sveitarfélagið Skútustaðahreppur veitti samninganefndinni fullnaðarumboðið í desember s.l. Í því felst að sveitarfélaginu er óheimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð og skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins. 

Það er einlæg von sveitarfélagsins Skútustaðahrepps að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.“

 

Kalla eftir upplýsingum frá veiðiheimilum á félagssvæðinu

Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að kalla eftir upplýsingum frá veiðiheimilum á félagssvæði Framsýnar varðandi starfskjör starfsmanna enda eitt af hlutverkum stéttarfélaga að fylgjast með kjörum, aðbúnaði og réttundum þeirra sem eru á vinnumarkaði og falla undir kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Flest störf í veiðiheimilum falla undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að, það er fyrir utan þau störf sem unnin eru af fagmenntuðu fólki s.s. lærðum þjónum og matreiðslumönnum. Í bréfi Framsýnar til veiðiheimilanna er kallað eftir ráðningarkjörum starfsmanna, ráðningarfyrirkomulagi, aðild að stéttarfélögum, fjölda starfsmanna og eftir hvaða kjarasamningum starfsmenn starfa eftir á veiðiheimilunum.

Þá má geta þess að málefni starfsmanna sem starfa á veiðiheimilum voru til umræðu á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands í síðustu viku. Þar var samþykkt að kalla eftir þessum upplýsingum frá þeim aðilum sem reka veiðiheimili víða um land.

Mest brotið á erlendu launfólki – hæstu kröfurnar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð

Undanfarin ár hefur verið hraður vöxtur í efnahagslífinu á Íslandi. Ný rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga, bendir til að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki og einstaklingum með lágar tekjur. Við þessum brotum eru í dag engin viðurlög sem Alþýðusambandið telur algerlega óásættanlegt.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
• Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári.
• Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og nam miðgildi kröfuupphæðar 262.534 kr.
• Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.
• Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð.
• Niðurstöður spurningakönnunar Gallup eru í takt við launakröfur stéttarfélaga og benda til þess að brotastarfsemi beinist fremur gegn erlendu launafólki og yngra fólki, með lægri tekjur og í óreglulegu ráðningarsambandi og hlutastörfum.
• Skoðun á launakröfum og spurningakönnunin benda til að brotin felist m.a. í vangreiðslum á launum, álagsgreiðslum og ýmsum réttindabrotum.
• Hjá meirihluta launafólks, einkum hjá þeim sem hafa lengri starfsaldur og hærri tekjur, er brotastarfsemi nærri óþekkt.
Brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum er alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir einstaklinga. Þessir félagar okkar eiga að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það eru hagsmunir samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda mikil.

• Bæta þarf löggjöf og regluverk. Lögbinda verður hörð viðurlög og sektargreiðslur vegna launaþjófnaðar og annarra brota gegn launafólki
• Efla þarf upplýsingamiðlun, eftirlit á vinnumarkaði og eftirfylgni vegna brotastarfsemi. Bæta með kerfisbundnum hætti samstarf og samvinnu stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins með samræmdri og öflugri upplýsingamiðlun.
• Stuðningur við brotaþola. Tryggja verður að þeir einstaklingar sem brotið er á sæki rétt sinn með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins alls og þeir njóti öryggis og skjóls.

Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2019 gaf ríkisstjórn Íslands fyrirheit um að gripið verði til fjölmargra aðgerða gegn launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrirheit sem byggja á kröfum og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir liggur aðgerðaáætlun en verkefnið nú er að fylgja yfirlýsingunni eftir og hrinda að fullu í framkvæmd á næstu mánuðum þannig að stigin verði markviss og afgerandi skref til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Nánari upplýsingar:
Drífa Snædal, forseti ASÍ, 695-1757
Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, 663 9026

Örfrá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal á laugardaginn

Vegna forfalla eru örfá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal á laugardaginn, 17. ágúst.

Fyrir nokkrum árum gerðu stéttarfélögin góða ferð í Fjörður, en að þessu sinni verður Flateyjardalurinn heimsóttur. Um er að ræða dagsferð. Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 klukkan 8:30. Heimkoma er áætluð um kvöldmatarleitið. Fararstjórn er í höndum Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar en hún þekkir hverja þúfu á þessum slóðum. Henni til aðstoðar verður Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar.

Stéttarfélögin hafa staðið fyrir skemmtiferðum fyrir félagsmenn sína undanfarin ár og hafa þær verið vinsælar og vel sóttar. Skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur að geyma einstaka náttúruparadís. Til svæðisins teljast eyðibyggðirnar á Látraströnd, í Fjörðum, á Flateyjardal, Flateyjardalsheiði, nyrst í Fnjóskadal og í Náttfaravíkum að ógleymdri Flatey sem lúrir makindalega úti á Skjálfandanum. Eftir þúsund ára erfiðan búskap lagðist byggð af á þessum útkjálka, en eftir stendur mikilfengleg náttúra sem er í senn angurblíð og fögur, en jafnframt ógnvekjandi og hrikaleg. Skaginn geymir sögu genginna kynslóða og þar á hvert tóftarbrot sína sögu, þar bjó kraftmikið fólk sem háði harða og óvægna baráttu við náttúruöflin.

Reiknað er með að menn nesti sig sjálfir í ferðina en boðið verður upp á grillmat og drykki í boði stéttarfélaganna síðdegis á laugardaginn. Linda Baldurs á skrifstofu stéttarfélaganna tekur við skráningum í ferðina. Þátttökugjaldið er kr. 5.000 fyrir félagsmenn og gesti.

Ósk Helgadóttir er frábær fararstjóri og hún verður án efa í miklu stuði á laugardaginn.

…..Jónas Kristjánsson verður svo á katinum Ósk til aðstoðar.