Styttist í komu jólasveinana

Senn koma jólin og eflaust eru margir farnir að huga að undirbúningi þeirra. Í upphafi aðventu fer jólaverslunin að lifna, laufabrauð, konfekt og smákökur kitla bragðlauka landsmanna og jólaljósin skína skært um stræti og torg. Það styttist einnig í komu jólasveinana, en yfir þeim hvílir ákveðin dulúð og leynd. Helst er haldið að varnarþing íslenskra jólasveina sé í Dimmuborgum. Eftir helgina munu þeir einn af öðrum taka að tínast til byggða. Samkvæmt sérkjarasamningi íslenskra jólasveina skal Stekkjastaur, sá fyrsti koma til byggða aðfaranótt 12. desember ár hvert. Allir launþegar þurfa að vera meðvitaðir um réttindi sín og og skyldur, en í fylgiskjali A með samningnum segir að jólasveinar skuli fara í bað einu sinni á ári. Að því loknu skuli þeir vitja íslenskra barna og færa þeim gjafir í skóinn, hafi þau til þess unnið. Réttindi jólasveina eru aftur á móti þau að Grýla móðir þeirra í samráði við hundlatan heimilisföðirinn, Leppalúða, ábyrgist að þeir séu sæmilega til fara. Einnig að eftir hátíðirnar megi þeir kýla vömbina að vild og liggja að því loknu á meltunni þar til líða fer að næstu jólum.

Sannir íslenskir jólasveinar klæðast eins og margir vita gömlu íslensku bændafötunum, líkt og þjóðin klæddist á 18-19 öld. Þau eru unnin úr íslenskri prjónavoð, ull, skinni og gæru.Tölurnar á fatnaði þeirra bræðra eru handunnar úr horni, beini eða tré. Litirnir eru einnig rammíslenskir, en þeir eru byggðir á íslenskum jurtalitum. Það voru Kristín Sigurðardóttir og vinkona hennar Ragnheiður Kristjánsdóttir sem aðstoðuðu Grýlu og umboðsmenn íslensku jólasveinanna fyrir allmörgum árum, við að hanna og sauma föt á þá.

Fréttamaður heimasíðu Framsýnar leit við hjá Kristínu á dögunum, en hún býr í Tjarnarborg í Ljósavatnsskarði. Kristín sem er félagsmaður Framsýnar, starfaði lengi sem skólaliði við Stórutjarnaskóla. Hún er ekki lengur á vinnumarkaði, en grípur gjarnan í saumaskap fyrir Grýlu gömlu, sem orðin er þreytt á að bæta föt sona sinna, enda margir þeirra annálaðir fataböðlar. Kristín segist ekki telja það eftir sér að lagfæra fatnað sveinanna, eða jafnvel sauma nýjan, því það sé mikilvægt að þeir séu hlýlega búnir, því ekki megi þeir veikjast í upphafi jólavertíðarinnar.

En það eru ekki eingöngu lifandi jólasveinar sem Kristín leggur metnað sinn í, heldur framleiðir hún eftirmyndir íslensku jólasveinafjölskyldunnar og eru þau uppábúin í vaðmálsföt og sauðskinnskó. Sveinkarnir hennar Kristínar eru víðförlari en almennt gengur og gerist meðal íslenskra jólasveina, þeir skipta orðið hundruðum og hafa dreifst um allan heim. Hver þeirra hefur sín sérkenni, þeir eru safngripir og ekki síður fínir í tauinu en frændur þeirra í Dimmuborgum.

Jólasveinarnir okkar þrettán, ásamt Grýlu, Leppalúða og húsdýri þeirra, jólakettinum hafa lengi átt þátt i að móta jólahefðir íslendinga með einum eða öðrum hætti. Framganga sveinkana hefur mildast með árunum, hafa þeir bætt hegðun sína og munnsöfnuð og óknyttir þeirra og uppátæki heyra nú nánast sögunni til. Jólakötturinn er orðinn gamall og lúinn, hefur í dag lítinn áhuga á börnum og kúrir heima í bólinu hjá Leppalúða. Þessi ágæta fjölskylda er þáttur í menningararfi okkar Íslendinga, er dæmi lifandi hefðir sem ber að varðveita. Aðstendendur fjölskyldunnar í Dimmuborgum, jafnt Kristín sem aðrir er hafa lagt þar hönd að verki eiga miklar þakkir skyldar fyrir að vekja athygli á þessum arfi, byggja úr honum menningartengda ferðaþjónustu og skapa með því atvinnu fyrir Þingeyinga.

Myndir: Edda Bjarnadóttir og Ósk Helgadóttir sem auk þess tók saman þessa skemmtilegu frétt.

 

 

Deila á