Formaður á ferðinni um héraðið

Það hefur því miður ekki gefist mikill tími hjá formanni Framsýnar að fara í vinnustaðaheimsóknir á árinu enda ár kjarasamningsgerðar. Á dögunum gaf hann sér þó tíma og heimsótti vinnustaði í Mývatnssveit og Reykjahverfi. Að þessu sinni var tilgangurinn ekki síst að hitta stjórnendur og taka stöðuna á atvinnulífinu og heyra væntingar þeirra varðandi komandi ár auk þess að færa starfsmönnum konfekt og dagatal frá stéttarfélögunum. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við atvinnulífið á félagssvæðinu. Formanni og eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna Aðalsteini J. Halldórssyni, sem var með í för, var alls staðar vel tekið. Almennt báru stjórnendur sig vel varðandi stöðuna en vissulega höfðu þeir ákveðnar áhyggjur af ferðaþjónustunni. Það er hvernig hún muni koma til með að þróast á komandi árum en fyrir liggur að mikið hefur verið fjárfest í atvinnugreininni á undanförnum árum. Í Mývatnssveit er mjög mikið lagt upp úr ferðaþjónustu. Í Reykjahverfi eru öflug fyrirtæki í grænmetisrækt, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Formaður Framsýnar og eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna munu á næstu dögum halda áfram að heimsækja vinnustaði í Þingeyjarsýslum. Hér koma nokkrar myndir frá heimsókn formanns til fyrirtækja í Mývatnssveit og Reykjahverfi.

 

Deila á