106 sóttu um tvær lausar stöður hjá Persónuvernd á Húsavík

Persónuvernd auglýsti nýverið eftir starfsfólki á nýja starfsstöð stofnunarinnar á Húsavík. Auglýst var eftir einum lögfræðingi og einum sérfræðingi í þjónustuver. Umsóknarfrestur var til 8. febrúar sl. Alls sóttu 28 um stöðu lögfræðings og 78 um stöðu sérfræðings. Verið er að vinna úr umsóknum en fyrirséð er að ráðningarferlið taki nokkrar vikur. (Heimild: personuvernd.is)

Samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er gríðarlegur áhugi fyrir þessum auglýstu störfum á vegum Persónuverndar á Húsavík. Ekki síst í ljósi þess er full ástæða til að hvetja Persónuvernd og aðrar stofnanir á vegum ríkisins að fjölga stöfum enn frekar á Húsavíkursvæðinu enda greinilega mikil eftirspurn eftir störfum sem þessum.

Nýr dómur – bílstjórar Uber eru launamenn

Breski vinnudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 2016 að bifreiðastjórar sem óku undir merkjum Uber á Bretlandi væru launamenn en ekki verktakar eða sjálfstætt starfandi. Hæstiréttur Bretlands hefur staðfest þá niðurstöðu.

Dómurinn sem er frá 19. febrúar 2021 er mikill sigur fyrir allt það launafólk sem gert er að vinna í ótryggum ráðningarsamböndum. Tilurð slíkra sambanda eru gjarnan rökstudd með vísan til nýrrar tækni, nýs skipulags vinnunnar, fjórðu iðnbyltingarinnar og svo framvegis. Í enda dags er kjarni málsin alltaf sá að einhver ræður í reynd framkvæmd og skipulagi vinnunnar og sá aðili er að jafnaði sá sem á endanum hirðir arðinn af henni. Réttarstaða aðilana er ójöfn og verður ekki jöfnuð nema með skipulögðum vinnumarkaði sem byggir á réttindum og skyldum sem samkomulag tekst um í kjarasamningum þar sem stéttarfélög hvers réttarstaða er varin í lögum og alþjóðasamningum, koma fram fyrir ótilgreindan hóp launamanna. Í því efni hefur ekkert breyst frá því launafólk byrjaði að skipuleggja sig í upphafi 20 aldar.

Fjallað var um hinn áfrýjaða dóm í frétt ASÍ 8. nóvember 2016. Hæstiréttur Bretlands hefur nú staðfest hann að öllu leyti. Niðurstöðu sína um skilgreiningu bifreiðastjóra Uber sem launamanna byggir Hæstiréttur í meginatriðum á fimm þáttum er lúta að stjórnunarrétti Uber.

1. Þóknun bifreiðastjóranna er alfarið og einhliða ákveðin af Uber.
2. Samningur bifreiðastjóranna og Uber og öll samningskjör eru einhliða ákveðin af Uber.
3. Bifreiðastjórar ráða í reynd ekki hvenær eða hvort þeir vinna því um leið og þeir skrá sig inn í Uber appið er þeim skylt að taka allar ferðir. Haldið er utanum hvort þeir þiggi allar ferðir sem bjóðast og uppfylli þeir ekki markmið Uber í því efni eru þeir afskráðir úr appinu.
4. Uber ræður hvernig bifreiðar eru notaðar og tæknin sem notuð er og er óaðskiljanlegur hluti þjónustunnar er alfarið eign Uber.
5. Uber lágmarkar öll samskipti bifreiðastjóra og farþega og gerir sérstakar ráðstafanir til þess að hindra að framhaldandi viðskiptasamband geti stofnast milli aðila.

Þetta eru megin rökin en þau má finna í málsgreinum 94-101 í dóminum. Um aðgreiningu launamanna og verktaka er fjallað á vinnuréttarvef ASÍ.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.

Einungis tvö sveitarfélög af 15 bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa

Í nýrri úttekt Verðlagseftirlitsins er farið yfir þróun á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun. Sérstaklega er sjónum beint að forgangshópum, hverjir tilheyra þeim og afsláttum sem bjóðast þeim hópum. Með forgangshópum er átt við einstæða foreldra, námsmenn, öryrkja og atvinnulausa en misjafnt eru hverjir tilheyra þessum hópum hjá sveitarfélögunum og eiga rétt á afsláttum. Þá var skoðað hvernig gjöld breytast við það að börn fari úr leikskóla yfir í grunnskóla en þar sem mun færri sveitarfélög bjóða upp á afslætti af skóladagvistunargjöldum en leikskólagjöldum, hækkar kostnaður fyrir fólk sem tilheyrir forgangshópum í mörgum tilfellum töluvert þegar þau færast milli skólastiga.

Helstu niðurstöður:

  • Öll 15 sveitarfélögin bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa
  • Einungis 4 sveitarfélög af 15 bjóða upp á lægri gjöld fyrir skóladagvistun/frístund.
  • Kostnaður hækkar því töluvert í flestum sveitarfélögum hjá forgangshópum, einstæðum foreldrum, námsmönnum og öðrum sem tilheyra forgangshópum við það að barn færist milli skólastiga. Gjöldin hækka síður hjá þeim sem greiða almenn gjöld.
  • Mjög misjafnt er hverjir tilheyra forgangshópum hjá sveitarfélögunum. Þeir sem tilheyra forgangshópum og greiða lægri leikskólagjöld eru einstæðir foreldrar og námsmenn og er afsláttur af leikskólagjöldum í boði fyrir þessa hópa í öllum sveitarfélögunum.
  •  Einungis 2 sveitarfélög af þeim 15 sem verðlagseftirlitið gerði úttekt á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa foreldra.
  • Einungis fjögur sveitarfélög bjóða upp á lægri skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa en það eru Kópavogsbær, Garðabær, Akraneskaupstaður og Seltjarnarnesbær. Gildir afslátturinn fyrir einstæða, öryrkja og námsmenn.
  • Ekkert sveitarfélag er með lægri gjöld skóladagvistunargjöld fyrir börn atvinnulausa.
  • Forgangshópar greiða því í flestum tilfellum sömu gjöld og aðrir þegar börnin eru komin í grunnskóla og hækka gjöldin því töluvert hjá forgangshópum þegar barnið fer úr leikskóla yfir í grunnskóla
  • Hafa verður í huga að það að afslættir bjóðist í einu sveitarfélagi en ekki öðru þarf það ekki að þýða að viðkomandi sveitarfélag sé með lægri gjöld. Í fréttinni sem linkur er á hér að neðan má finna gröf þar sem er hægt að sjá hversu há gjöldin eru miðað við í öðrum sveitarfélögum.

Fréttina í heild sinni má nálgast hér:

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/verdlagsfrettir/adeins-tvo-af-15-sveitarfelogum-bjoda-upp-a-laegri-leikskolagjold-fyrir-atvinnulausa/

Lægri leikskólagjöld og skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa ein leið til að hlífa börnum og barnafjölskyldum í kreppu 

Nauðsynlegt er að hlífa börnum fyrir afleiðingum kreppunnar en lægri gjöld fyrir leikskólagjöld og skóladagvistun er ein leið til að vinna að því markmiði. Samkvæmt rannsóknarskýrslu frá 2019 um lífskjör og fátækt barna á Íslandi á árunum 2004- 2016 versnuðu lífskjör barna meira en lífskjör almennings í kjölfar hrunsins og hlutfall barna sem bjuggu við fjárhagsþrengingar jókst meira hjá þeim börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en hjá þeim sem gerðu það ekki. Börn á heimilum í viðkvæmri stöðu, svo sem börn einstærða foreldra, öryrkja og atvinnulausra eru einnig mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar en önnur börn. Brýnt er að bæta kjör barna sem búa á heimilum í viðkvæmri stöðu en nærri fjögur af hverju 10 undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra og er staða barna öryrkja sambærileg stöðu einstæðra foreldra.

Fækkun félagsmanna og atvinnuleysi í hámarki

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er mikill efnahagssamdráttur á Íslandi sem tengist heimsfaraldrinum. Reyndar er talað um einn mesta efnahagssamdrátt í heila öld. Almennt atvinnuleysi á Íslandi er um 11,6% um þessar mundir og jókst úr 10,7% milli mánaða, það er milli desember og janúar. Almennt er atvinnuleysið mest á Suðurnesjunum eða um 24,5%. Á Norðurlandi eystra, þar á meðal á félagssvæði Framsýnar, er það um 10%. Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík fylgist stöðugt með gangi mála á vinnumarkaði og fjölda félagsmanna. Athygli vekur að greiðandi félagsmönnum fækkaði verulega milli ára eða úr 3.079 í 2.648 félagsmenn árið 2020. Ástæðan er einföld, verulegur samdráttur í atvinnulífinu, sérstaklega í ferðaþjónustu, hefur leitt til þess að félagsmönnum hefur fækkað umtalsvert. Samhliða þessu hafa tekjur Framsýnar farið niður enda mun færi sem greiða félagsgjald til félagsins milli ára. Ekki er ólíklegt að tekjuskerðingin milli ára 2019/20 verði um 12 til 15% þegar tekið er tillit til félagsgjalda og kjaratengdra gjalda s.s. greiðslna atvinnurekenda í orlofs- og sjúkrasjóð félagsins

Um þrjú hundruð söngfuglar komu í heimsókn

Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur um land allt í dag. Á Húsavík fór hann vel fram í góðu veðri og fjölmenntu börn og unglingar um bæinn til að syngja fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnanna. Söngfuglarnir fóru ekki tómhentir heim þar sem þeim var boðið upp á mæru og ýmislegt annað góðgæti fyrir sönginn. Um þrjú hundruð gestir komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag og er þeim þakkað fyrir komuna og fallegan söng.   

Deilan við SFS um skiptaverðið tapast fyrir Félagsdómi

Þann 6. maí 2020 sendi SFS bréf til samtaka sjómanna þar sem tilkynnt var um uppsögn á ákvæði kjarasamningsins sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017. Um er að ræða  ákvæðið í grein 1.29.1. um 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur til skyldra aðila.

Sjómannasamband Íslands taldi að SFS gæti ekki sagt þessu ákvæði upp einhliða þar sem hingað til hefði ekki verið ágreiningur milli aðila um að síðast gildandi samningur gilti þar til nýr væri gerður. Samningurinn hafði gildistíma til 1. desember 2019 en þar sem nýr kjarasamningur hefur ekki verið gerður milli aðila taldi SSÍ að kjarasamningurinn sem undirritaður var þann 18. febrúar 2017 væri enn í gildi enda unnið eftir honum. Sjómannasamband Íslands vísaði því málinu til Félagsdóms til að leysa úr þessum ágreiningi milli SFS og SSÍ um að 0,5% hækkun á skiptaverðmætishlutfallinu þegar afli er seldur skyldum aðila gildi þar til nýr samningur kæmist á milli aðila.

Í gær var kveðinn upp dómur í Félagsdómi þar sem SFS er sýknað af af kröfu SSÍ. Frá og með 1. júní 2020 er því skiptaverðið það sama hvort sem aflinn er seldur skyldum eða óskyldum aðila. Dómurinn fellst á að síðastgildandi samningur haldi gildi sínu að því undanskildu að frá 1. júní 2020 fellur 0,5% hærra skiptaverðmætishlutfallið brott úr grein 1.29.1. Rökin virðast þau að ekki hafi verið haldinn fundur eftir 1. desember 2019 í starfshópnum sem vinna átti í bókunum samningsins á samningstímanum. Miðað við málflutning SFS fyrir Félagsdómi er ljóst að þau samtök voru aldrei á samningstímanum að vinna að heilindum í að ljúka vinnu við bókanirnar. Niðurstaða þessa máls setur því kjaraviðræðurnar við SFS í enn meiri hnút en þær viðræður voru í fyrir og því ljóst að viðræður við SFS munu ekki halda áfram nema undir handleiðslu ríkissáttasemjara.

Sjá dóminn.

Fræðslufundir um vinnutímabreytingar 1. maí 2021

Þann 1. maí 2021 mun vinnuvika starfsfólks, í fullu starfi, í vaktavinnu styttast úr 40 klukkustundum í 36 á viku. Frekari stytting í allt að 32 klukkustundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnuskyldustunda. Launamyndun vaktavinnufólks breytist og mun taka meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall og auka ævitekjur sínar.

Upplýsingar um breytingu á vinnutíma vaktavinnufólks er að finna í fylgiskjali 2 þeirra stéttarfélaga sem sömdu um slíkt, þar á meðal Framsýnar. Hér má sjá fylgiskjal 2.

Um er að ræða verulegar breytingar og því er mikilvægt að hlutaðeigandi starfsmenn séu vel inn í þeim. Hvað það varðar, hafa starfsmenn verið duglegir við að leita eftir upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna sem og  stjórnendur stofnanna. Formaður Framsýnar var beðinn um að funda með forstöðumönnum og starfsmönnum sambýlanna í gærmorgun auk þess sem Framsýn stóð fyrir kynningarfundi kl. 16:00 í gær með stjórnendum og starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Hvamms heimils aldraðra og sambýlanna á Húsavík. Gestur fundarins var Bára Hildur Jóhannsdóttir sem farið yfir fyrir innleiðingarhópnum hvað varðar þessar miklu breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks. Um er að ræða mjög flóknar breytingar. Afar mikilvægt er að menn kynni sér þær vel með því m.a. að fara inn á vefinn. www.betrivinnutimi.is Þá er alltaf hægt að fræðast um þær með því að setja sig í samband við starfsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna.

Allir velkomnir á Öskudaginn

Skrifstofa stéttarfélaganna bíður alla velkomna í heimsókn á Öskudaginn. Ekki er verra að menn taki lagið og þiggi smá glaðning í staðin. Að sjálfsögðu verður vel hugað að sóttvörnum. Mikilvægt er að menn hafi í huga að forðast óþarfa snertingar, þvoi sér um hendurnar og viðhaldi tveggja metra reglunni.

Páskaúthlutun íbúða/orlofshúsa

Þá er komið að því, páskarnir framundan með tilheyrandi gleði og hamingju. Þeir sem ætla að sækja um dvöl í íbúðum og orlofshúsum stéttarfélaganna, Framsýnar-Þingiðnar-STH um páskana eru beðnir um að sækja um fyrir 22. febrúar nk.. Um er að ræða íbúðir stéttarfélaganna í Kópavogi, Reykjavík og á Akureyri auk orlofshúss Framsýnar á Illugastöðum. Tímabilið sem um ræðir er frá 30. mars til 6. apríl. Umsóknirnar verða teknar fyrir 22. febrúar og félagsönnum úthlutað íbúðum/orlofshúsum í kjölfarið.

Bolluát á bolludag – yfir milljón bolla bakaðar

Starfsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna settust aðeins niður í morgun og fengu sér bollur úr Heimabakaríi á Húsavík. Að sjálfsögðu smökkuðust þær vel enda Heimabakarí þekkt fyrir góðar bollur og annað brauð.

Á Íslandi hefur tíðkast í yfir hundrað ár að borða bollur á þessum degi og í Þjóðólfi 1910 er talað um bolluát á bolludaginn.[3] Þó mun það hafa þekkst eitthvað áður og í matreiðslubók Þ.A.N. Jónsdóttur frá 1858 er uppskrift að langaföstusnúðum, þ.e. bolludagsbollum. Reykvísk bakarí fara að auglýsa bollur á bolludaginn á öðrum áratug aldarinnar og í Morgunblaðinu 1915 er kvartað yfir hnignun bolludagsins: „… það eina sem virðist vera eftir af kætinni frá fyrri tímum á »bolludaginn«, er óhemju kökuát barnanna — og full búðarskúffan af smápeningum hjá bökurum bæjarins. »Bollan« kostar því miður þrjá tveggeyringa í þetta sinn!“[4]

Áætlað hefur verið að íslenskir bakarar baki um eina milljón bolla fyrir bolludaginn en einnig eru margir sem baka bollur heima. Bollurnar eru nú oftast bornar fram með sultu og rjóma innan í og hattur bollunnar skreyttur með súkkulaðihulu eða glassúr en þó eru margar aðrar útgáfur til. Tvær tegundir af bollum eru algengastar: vatnsdeigsbollur (sem eru mjúkar og frauðkenndar) og gerbollur (sem eru öllu fastari í sér). Bollur bolludagsins hafa breyt lítið frá ári til árs, en bolluskrautið hefur breytist þó nokkuð á liðnum árum eftir smekk tímans.

Hvetur til samstöðu meðal sjómanna og SFS

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna á föstudaginn. Þar hitti hún fyrir formann Framsýnar, Aðalsteinn Árna Baldursson. Til stóð að Jakob G. Hjaltalín formaður Sjómannadeildar félagsins tæki þátt í spjallinu við Heiðrúnu en hann átti ekki heimangengt.  

Fundurinn var vinsamlegur og fór vel fram og skiptumst Heiðrún og Aðalsteinn á skoðunum um hagsmuni sjómanna og útgerða innan SFS. Umræður urðu um helstu baráttumál sjómanna og áherslur útgerðarmanna varðandi breytingar á núgildandi kjarasamningum sem hafa verið lausir frá því í desember 2019. Aðalsteinn sagði það óviðunandi með öllu að sjómenn væru búnir að vera samningslausir á annað ár. Taldi hann skyldu SFS og samtaka sjómanna að setja aukinn kraft í viðræðurnar. Sjómenn væru mjög óánægðir með stöðuna sem væri afar eðlilegt. Þá fór hann yfir helstu atriði úr kröfugerð sjómanna sem snúa meðal  annars að því að jafna lífeyrisréttindi meðal launþega með því að útgerðir greiði sambærilegt mótframlag af sjómönnum í lífeyrissjóð og þekkist á almenna vinnumarkaðinum.  Verðmyndunarmál, mönnunamál sem og önnur hagsmunamál sjómanna fengu einnig góða umræðu á fundi Aðalsteins og Heiðrúnar.   

Greinilegur áhugi fyrir störfum hjá Persónuvernd

Ef marka má þann mikla fjölda sem skoðaði frétt heimasíðunnar um auglýsingu starfa á vegum Persónuverndará Húsavík ætti ekki að vera erfitt að ráða í starfið. Samkvæmt vefmælinum skoðuðu 1.250 manns fréttina á vefnum.  Þess má geta að Persónuvernd hefur auglýst tvær stöður hjá stofnuninni til umsóknar í nýrri starfsstöð á Húsavík. Um er að ræða eina stöðu lögfræðings og eina stöðu sérfræðings í þjónustuveri. Leitað er að framúrskarandi einstaklingum sem eru tilbúnir að takast á við krefjandi verkefni með samhentu teymi hjá Persónuvernd segir í auglýsingunni.  Full ástæða er til að fagna því að Persónuvernd sem er sjálfstætt stjórnvald, hafi ákveðið að efla þjónustuna enn frekar með því að opna fjarþjónustu á Húsavík.

Félagsmenn í STH athugið – upplýsingar um Félagsmannasjóðinn

Í síðustu kjarasamningum við sveitarfélögin og fleiri sjálfseignastofnanir var samið um Félagsmannsjóð sem launagreiðandi greiðir í með 1,24% framlagi. Þetta er jöfnunarsjóður sem greiðir hámarksfjárhæð sem er kr. 80.000 til einstaklinga sem ná þeirri upphæð og síðan hlutfallslega upp að þeirri upphæð, miðað við heildartekjur á árinu 2020. Allir sem voru félagsmann um lengri eða styttri tíma á árinu 2020 eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum. Sjóðurinn hefur fengið nafnið Katla félagsmannasjóður og er búið er að opna fyrir umsóknir en sjóðurinn er í umsjón allra þeirra stéttarfélaga innan BSRB og félagsmanna þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga og eru sjóðsfélagar 10.500 alls.

Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sækja um á rafrænni umsóknarsíðu sjóðsins og leggja fram viðeigandi upplýsingar svo sem síðasta launaseðil viðmiðunarárs, starfshlutfall og starfstíma yfir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020.

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar. Greitt verður úr sjóðnum í apríl, nánari upplýsingar á katla.bsrb.is

Sækja um hér: minarsidurkatla.bsrb.is og þar er að finna upplýsingar um starfsemi sjóðsins.

Beðist er velvirðingar á því hversu mikið þetta hefur dregist en samkvæmt reglum átti að greiða út úr sjóðnum þann 1. febrúar sl. Von okkar er að hægt verði að greiða fyrr út úr sjóðnum en það á eftir að koma í ljós.

Sambandsstjórn Samiðnar ályktar

Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sem haldinn var í Hannesarholti (og í fjarfundi) voru samþykktar tvær ályktanir sem annars vegar lúta að hvatningu til stjórnvalda um að ganga lengra til stuðnings þeim sem misst hafa vinnu og lent í fjárhagserfiðleikum og hins vegar átakinu „Allir vinna“ og mikilvægi þess til efnahagslegrar viðspyrnu.  Sambandsstjórnin sem Þingiðn á aðild að telur mikilvægt að átakinu verði fram haldið og sveitarfélögin standi við stóru orðin í tengslum við Covid og komi að málum með auknum fjárfestingum.

Ályktun um stuðning vegna efnahagssamdráttar
„Það eru jákvæð teikn á lofti í íslensku samfélagi með komu bóluefnis til landsins. Aukin bjartsýni er að íslenskt efnahagslíf nái auknum þunga á seinni hluta ársins 2021. Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styðja íslenskt atvinnulíf sem ber að fagna. Hins vegar er ljóst að ekki hefur verið gengið nógu langt fyrir þá sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Mikilvægt að þar kom til frekari stuðnings. Samiðn hvetur íslensk stjórnvöld að halda betur utan um þá sem hafa orðið fyrir áföllum á þessum erfiðum tímum.“

Ályktun um átakið „Allir vinna“  
„Samiðn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í átakinu “Allir vinna” en á síðasta ári námu endurgreiðslur vegna þess tæpum 20 m.a. kr. Ljóst er að þetta hefur verið mikilsvert innlegg í þeim árangri sem íslenskt samfélag hefur þó náð í afar erfiðu og krefjandi árferði. Samiðn vill hvetja íslensk stjórnvöld að framlengja átakið enda fara þar saman hagsmunir allra.
Samiðn telur milvægt að sveitarfélög auki við fjárfestingar sínar. Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa því miður ekki staðið við stóru orðin í Covid faraldrinum.“

Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun

Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir mestir hjá atvinnulausum og innflytjendum.

Um fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir mestir hjá atvinnulausum og innflytjendum, eins og fram kom á veffundi nú í hádeginu þar sem niðurstöðurnar voru kynntar.

Varða lagði nýverið könnun fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB þar sem spurt var um stöðu launafólks og atvinnulausra. Ákveðið var að ráðast í gerð könnunarinnar meðal annars vegna þeirra miklu erfiðleika sem hluti launafólks býr við vegna heimsfaraldur kórónuveirunnar, sérstaklega sá stóri hópur sem misst hefur vinnuna.

Niðurstöðurnar sýna verulegan mun á fjárhagsstöðu félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB eftir kyni. Alls sögðust 23,7% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að þeir ættu frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Hlutfallið var mun hærra meðal kvenna, 27,2% en hjá körlum mældist það um 19,5%.

Staða atvinnulausra var mun verri en staða launafólks. Rúmlega helmingur atvinnulausra, 50,5%, sögðust eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð.

Atvinnuleysi er mun hærra meðal innflytjenda en innfæddra, um 24% samanborið við 15,2% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem vitnað er til í skýrslu Vörðu og því ljóst að um viðkvæman hóp er að ræða. Alls sögðust um 34,9% innflytjenda eiga erfitt eða frekar erfitt með að láta enda ná saman. Það er mun hærra hlutfall en meðal innfæddra, þar sem 26,2% voru í sömu stöðu. Innflytjendur líða frekar efnahagslegan skort og hafa í meira mæli þurft að þiggja matar- og/eða fjárhagsaðstoð.

Í könnun Vörðu var einnig spurt um andlega og líkamlega heilsu. Niðurstöðurnar sýna að andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra er verri en þeirra sem eru í vinnu og þeir eru líklegri til að hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa atvinnulausra mælist einnig mun verri hjá konum en körlum en athygli verkur að um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði, þeirra sem eru  í vinnu, sagðist búa við slæma andlega heilsu.

Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunar Vörðu í heild sinni í meðfylgjandi skýrslu um stöðu launafólks á Íslandi.

Starfsmenn sveitarfélaga – Hafa greiðslur úr Félagsmannasjóði skilað sér til ykkar?

Allir félagsmenn Framsýnar sem starfa eða störfuðu hjá sveitarfélagi á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 31. desember 2020 áttu að fá greitt úr félagsmannasjóði 1. febrúar síðastliðinn. Svo virðist sem greiðslan hafi ekki skilað sér til allra. Því er vert fyrir viðkomandi stafsmenn sveitarfélaga að skoða hvernig stendur á því. Það er hægt með því að setja sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar eða með því að fylla út þetta rafræna eyðublað

Í núgildandi kjarasamningi við sveitarfélögin var samið um og stofnaður sérstakur félagsmannasjóður. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er greitt úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert. 

Persónuvernd opnar starfsstöð á Húsavík – spennandi störf í boði

Persónuvernd hefur auglýst tvær stöður hjá stofnuninni til umsóknar í nýrri starfsstöð á Húsavík. Um er að ræða eina stöðu lögfræðings og eina stöðu sérfræðings í þjónustuveri. Leitað er að framúrskarandi einstaklingum sem eru tilbúnir að takast á við krefjandi verkefni með samhentu teymi hjá Persónuvernd segir í auglýsingunni.  

Full ástæða er til að fagna því að Persónuvernd sem er sjálfstætt stjórnvald, hafi ákveðið að efla þjónustuna enn frekar með því að opna fjarþjónustu á Húsavík. Frekari upplýsingar eru í boði hjá Persónuvernd í síma 5109600.

Formannsskipti framundan í Sjómannadeild Framsýnar

Á síðasta aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar sem haldinn var 22. janúar gaf núverandi formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín út yfirlýsingu um að þetta væri síðasta árið sem hann gæfi kost á sér sem formaður deildarinnar. Nú væri komið að leiðarlokum eftir skemmtilegan og gefandi tíma sem formaður og því tímabært að finna nýjan og öflugan formann deildarinnar sem taki við á næsta aðalfundi deildarinnar. Jakob sem lengi var til sjós hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um boð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið  formaður deildarinnar í 31 ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989.

Til fróðleiks má geta þess að ungur að árum eða um 15 ára aldur réð Kobbi sig á sjó hjá Kristjáni Jónssyni sem þá rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Verksmiðjan átti þrjá smábáta sem voru um og yfir 10 tonn. Bátarnir voru notaðir til að veiða smásíld til niðursuðu. Veiðiskapurinn kallaðist nótabrúk. Á Akureyri störfuðu svokölluð nótabrúk hér á árum áður og voru þá aðallega notaðar landnætur. Síldin var veidd á grunnsævi. Síðan var hún geymd í svonefndum lásum á Pollinum. Úr lásunum voru síðan tekin úrköst, lítilli nót var kastað inn í lásinn og sá skammtur tekinn, sem hentaði hverju sinni. Afgangurinn var svo geymdur áfram í lásnum. Þetta voru fyrstu kynni Jakobs af veiðiskap sem þótti nokkuð sérstakur og er löngu aflagður í dag.

Eftir tveggja ára veru hjá Kristjáni eða árið 1971 lá leið Jakobs á síðutogara frá Akureyri, Sléttbak EA. Eftir það var hann í nokkur ár á togurum í eigu ÚA, Harðbak EA og Sólbak EA, það er bæði á síðutogurum og eins skuttogurum. Rétt er að geta þess að Jakob kom að því árið 1975 að sækja nýjan glæsilegan skuttogara ÚA, Harðbak EA til Þýskalands sem þótti með glæsilegustu togurum þess tíma. Harðbakur EA var smíðaður á Spáni. 

Milli þess að vera á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri á þessum tíma réði Jakob sig tímabundið á Kristbjörgu VE árið 1972, en báturinn var gerður út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum.   

Nú var komið að ákveðnum tímamótum í lífi Jakobs G. Hjaltalíns. Hann hafði kynnst konu sem síðar varð eiginkona hans og bjó hún austan Vaðlaheiðar, það er í Aðaldal. Jakob tók því ekki lengur útstímið út Eyjafjörðinn á togurum í eigu ÚA, þess í stað hélt hann akandi yfir Vaðlaheiðina síðla sumars 1975, sem endaði með því að Jakob og tilvonandi eiginkona settust að á Húsavík.  Það er Hólmfríður Arnbjörnsdóttir og eiga þau saman einn uppkominn son.

Hugur Jakobs leitaði aftur til sjós og var hann fljótur að ráða sig til Sigga Valla á Kristbjörgu ÞH. Síðar réði hann sig til Hinriks Þórarinssonar á Jörva ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og net frá Húsavík.

Haustið 1976 ræður Jakob sig til Höfða hf. sem þá hafði fjárfest í nýjum togara, Júlíusi Havsteen ÞH. Á þeim tíma var mikið atvinnuleysi á Húsavík og kallaði samfélagið eftir byltingu í atvinnumálum svo ekki ætti illa að fara fyrir samfélaginu við Skjálfanda. Það var mikill fengur fyrir Höfða útgerðina að fá mann eins og Jakob til starfa, enda þaulvanur og duglegur sjómaður. Jakob var ráðinn sem bátsmaður. Nokkru síðar fjárfesti Höfði hf. í stærri togara, Kolbeinsey ÞH 10 sem smíðaður var á Akureyri. Við það fluttist Jakob yfir á Kolbeinsey og þar átti hann mörg góð ár, en árið 1996 ákvað hann að segja skilið við sjóinn í bili og réði sig í netagerð Höfða hf.

Þrátt fyrir það var sjómennsku Jakobs ekki alveg lokið, en  hann réði sig tímabundið eftir veruna í netagerðinni á nokkra togara og vertíðarbáta, það er á Brim ÞH og Sigurð Jakobsson ÞH sem gerðir voru út frá Húsavík. Rauðanúp ÞH sem gerður var út frá Raufarhöfn og Hjalteyrina EA sem gerð var út frá Akureyri.

Á sínum langa og farsæla sjómannsferli gegndi Jakob flestum störfum um borð, hann var; háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir. Árið 2004 hætti Jakob endanlega til sjós og fékk sér vinnu í landi. Það er eftir langan og farsælan sjómannsferil.  Hann hefur gefið út að hann muni hætta formennsku í Sjómannadeild Framsýnar á aðalfundi deildarinnar sem verður haldinn í desember næstkomandi, það er eftir farsælan feril sem formaður.

Við viljum öll taka þátt og hafa hlutverk í samfélaginu

Frá því að VIRK hóf starfsemi fyrir um 12 árum hafa þúsundir einstaklinga nýtt sér þjónustuna og náð að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Starfsemi VIRK hefur því gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið, einstaklinga og fyrirtækin í landinu. Mikilvægt er að hjálpa og fjárfesta í fólki.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, var fyrsti starfsmaður starfsendurhæfingarsjóðsins og hóf störf rétt fyrir hrunið. „Þetta er auðvitað talsvert merkileg saga. Þá voru aðilar vinnumarkaðarins búnir að stofna VIRK og það var komin skipulagsskrá en það átti alveg eftir að útfæra starfið. Ég byrja 15. ágúst 2008, fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ, og er þá alein og fer að reyna að finna mér fagfólk til þess að vinna með.
Þegar hrunið skellur á er ég rétt svo að koma starfseminni af stað og þeir segja við mig, bæði fulltrúar verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins, að ég eigi bara að setja í fimmta gír, sem ég gerði. Það veitti ekkert af og strax á árinu 2009 vorum við farin að taka á móti fólki í þjónustu.“

Meirihluti í vinnu eða nám

Vigdís segir meirihluta þjónustuþega hafa náð virkni að lokinni endurhæfingu þó vissulega séu alltaf einhverjir sem hætti líka. „Í dag eru 2.624 einstaklingar hjá VIRK og frá upphafi hafa komið um 19.500 manns. Af þeim hafa tæplega 12.000 lokið þjónustu hjá okkur og af þeim eru 75-80% í einhverri virkni þegar þau útskrifast.“

Vigdís segir þetta auðvitað hafa áhrif á samfélagið. „Við erum að tala um mörg þúsund manns sem ná að útskrifast annaðhvort í vinnu eða nám. Við náum að sjálfsögðu aldrei árangri með alla, sumir eru kannski það illa staddir þegar þeir koma að það er ekki raunhæft að þeir komist á vinnumarkaðinn en meirihluti fólks sem fer í gegn hérna hjá okkur nær að fara í vinnu, annaðhvort að hluta eða öllu leyti. Margir ná að fara aftur í sitt fyrra starf og svo er alltaf ákveðinn hluti, sérstaklega unga fólkið, sem fer í nám og það er náttúrulega líka mjög verðmætt.“

Vigdís segir það að hjálpa og fjárfesta í fólki hafa gríðarlega mikla samfélagslega þýðingu. „Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Mörg úrræði í boði

Vigdís segir fjölda einstaklinga hjá VIRK um þessar mundir vera svipaðan og undanfarin tvö ár og að biðin sé ekki löng í dag. Ferlið hefst á því að fara til læknis og fá beiðni. „Ástæðan er sú að fólk kemur til okkar með heilsubrest og við þurfum að vita hver hann er svo við getum verið með ábyrga starfsendurhæfingaráætlun. Síðan er farið yfir hana af sérfræðingum hjá okkur og fólk svarar spurningalista svo við fáum sem bestar upplýsingar til þess að geta búið til góða áætlun,“ útskýrir hún.

„Því næst fær fólk úthlutað ráðgjafa en þeir eru staðsettir í flestum tilfellum hjá stéttarfélögunum um allt land. Þetta eru sérhæfðir starfsendurhæfingarráðgjafar sem eru yfirleitt með mjög góða menntun á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda. Flestir ráðgjafarnir hjá okkur eru með mastersgráðu og hafa svo allir fengið sérstaka þjálfun hjá okkur. Þeir hafa þetta mikilvæga hlutverk að hvetja einstaklinginn áfram í sínu ferli og halda utan um hann,“ útskýrir Vigdís.

„Svo höfum við tök á að kaupa alls konar úrræði fyrir fólk hjá þjónustuaðilum um allt land, ýmis námskeið, sjálfsstyrkingu, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og líkamsrækt. Við höfum möguleika á að veita einstaklingum mjög fjölbreytta þjónustu. Ef þjónustuþegarnir þurfa mikið utanumhald þá erum við með samninga við starfsendurhæfingarstöðvar víða um land sem veita daglega þjónustu, þá mætir fólk á hverjum degi og fær mjög mikið utanumhald og svo eru aðrir sem þurfa minna og koma þá bara til ráðgjafa öðru hvoru og eru síðan kannski að fá þjónustu frá sálfræðingi og hugsanlega einhver námskeið og líkamsrækt sem dæmi.“

Ekki okkar hlutverk að lækna

Vigdís segir mikið lagt upp úr því að kenna fólki ýmis bjargráð þannig að það geti bjargað sér sjálft. „Við erum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Hver þjónustuþegi setur sér markmið um endurkomu til vinnu í upphafi starfsendurhæfingarinnar, gerir ætlun með ráðgjafa sínum um hvernig best sé að ná markmiðum sínum og við nýtum fjölbreytta þjónustu og leiðir til að vinna að þeim markmiðum.

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Hún segir flesta ná flugi út á vinnumarkaðinn en það sé alltaf ákveðinn hópur sem er með þannig skerðingar að hann eigi erfitt með það. „Þá erum við með svokallaða atvinnulífstengla sem fara í raun og veru svolítið út á örkina og reyna að finna störf fyrir þessa einstaklinga en oft eru þetta hlutastörf. Þetta er þjónusta sem hefur verið í þróun hjá okkur undanfarin ár og hefur gefið mjög góða raun. Við höfum náð samstarfi við nokkur hundruð fyrirtæki sem hafa verið ákaflega viljug og búa þá til hlutastörfin til að mæta þessum einstaklingum. Það hefur gengið ótrúlega vel að vera með þessa beinu tengingu við atvinnulífið þegar þess þarf.“

Forvarnir mikilvægar

Fyrir nokkrum árum var heimasíðan velvirk.is sett á laggirnar en Vigdís segir hana vera hluta af forvarnarverkefni VIRK. „Markmið þeirrar síðu er að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að koma til okkar með því að bjóða upp á fræðslu og ráðleggingar, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er líka mikilvægt að fyrirtæki bjóði upp á heilsusamlegt starfsumhverfi og styðji fólkið sitt. Við erum alltaf að bæta við síðuna og þarna geta stjórnendur náð sér í alls konar fræðslu, tæki og tól og starfsmenn líka.“

Athygli vekur að um 80% þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvanda. „Ef þú ert að glíma við mikla verki þá hefur það áhrif á sálina og öfugt þannig að það er ekkert skrítið að þetta tvennt tengist. En þessi mikla fjölgun geðgreininga er auðvitað áhyggjuefni í samfélaginu. Það er eins og fólki líði ekki eins vel og að við séum að takast á við afleiðingar einhvers sem þarf að fara betur ofan í kjölinn á. Á sama tíma og við erum á réttri leið með marga hluti þá er þetta eitthvað sem við sem samfélag þurfum að horfast í augu við og athuga hvað við getum gert betur. Það eru margir hlutir í þessu samhengi sem þarf að skoða.“

Erfitt en ekki ómögulegt

Vigdís segir COVID hafa haft neikvæð áhrif á marga og þá ekki síst hjá þeim sem eru að glíma við atvinnumissi. „Því fylgir auðvitað mikið óöryggi og við finnum það vel hjá okkar þjónustuþegum sem eru að glíma við þunglyndi og kvíða og standa nú frammi fyrir enn meiri einangrun. Þetta hefur komið mjög illa við þá einstaklinga og það þarf að halda sérstaklega vel utan um þann hóp. Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Þá hafi þau líka orðið vör við að ákveðinn hópur hafi haft það betra í COVID, sennilega vegna þess að það hafi dregið úr hraða í samfélaginu. Það veki upp ýmsar spurningar. „Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvort við séum hreinlega að gera of miklar kröfur til okkar. Það þyki jafnvel eðlilegt að foreldrar sem eiga nokkur börn séu líka í fullu námi, stundi ræktina, sinni tómstundum og vinnu. Eru þetta eðlilegar kröfur sem við eigum að gera á okkur sjálf og aðra? Það eru margir sem hafa ekki möguleika á að uppfylla þessar kröfur eða forsendur til að standa undir svona væntingum. Þetta er margþætt og flókið og það skiptir máli fyrir okkur öll að byggja upp gott samfélag þar sem okkur líður vel.“

Viðtalið birtist í Konur í atvinnulífinu – sérblaði Fréttablaðsins 27. janúar 2021.