Fræðslufundir um vinnutímabreytingar 1. maí 2021

Þann 1. maí 2021 mun vinnuvika starfsfólks, í fullu starfi, í vaktavinnu styttast úr 40 klukkustundum í 36 á viku. Frekari stytting í allt að 32 klukkustundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnuskyldustunda. Launamyndun vaktavinnufólks breytist og mun taka meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall og auka ævitekjur sínar.

Upplýsingar um breytingu á vinnutíma vaktavinnufólks er að finna í fylgiskjali 2 þeirra stéttarfélaga sem sömdu um slíkt, þar á meðal Framsýnar. Hér má sjá fylgiskjal 2.

Um er að ræða verulegar breytingar og því er mikilvægt að hlutaðeigandi starfsmenn séu vel inn í þeim. Hvað það varðar, hafa starfsmenn verið duglegir við að leita eftir upplýsingum á Skrifstofu stéttarfélaganna sem og  stjórnendur stofnanna. Formaður Framsýnar var beðinn um að funda með forstöðumönnum og starfsmönnum sambýlanna í gærmorgun auk þess sem Framsýn stóð fyrir kynningarfundi kl. 16:00 í gær með stjórnendum og starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Hvamms heimils aldraðra og sambýlanna á Húsavík. Gestur fundarins var Bára Hildur Jóhannsdóttir sem farið yfir fyrir innleiðingarhópnum hvað varðar þessar miklu breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks. Um er að ræða mjög flóknar breytingar. Afar mikilvægt er að menn kynni sér þær vel með því m.a. að fara inn á vefinn. www.betrivinnutimi.is Þá er alltaf hægt að fræðast um þær með því að setja sig í samband við starfsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna.

Deila á