Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sem haldinn var í Hannesarholti (og í fjarfundi) voru samþykktar tvær ályktanir sem annars vegar lúta að hvatningu til stjórnvalda um að ganga lengra til stuðnings þeim sem misst hafa vinnu og lent í fjárhagserfiðleikum og hins vegar átakinu „Allir vinna“ og mikilvægi þess til efnahagslegrar viðspyrnu. Sambandsstjórnin sem Þingiðn á aðild að telur mikilvægt að átakinu verði fram haldið og sveitarfélögin standi við stóru orðin í tengslum við Covid og komi að málum með auknum fjárfestingum.
Ályktun um stuðning vegna efnahagssamdráttar
„Það eru jákvæð teikn á lofti í íslensku samfélagi með komu bóluefnis til landsins. Aukin bjartsýni er að íslenskt efnahagslíf nái auknum þunga á seinni hluta ársins 2021. Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að styðja íslenskt atvinnulíf sem ber að fagna. Hins vegar er ljóst að ekki hefur verið gengið nógu langt fyrir þá sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Mikilvægt að þar kom til frekari stuðnings. Samiðn hvetur íslensk stjórnvöld að halda betur utan um þá sem hafa orðið fyrir áföllum á þessum erfiðum tímum.“
Ályktun um átakið „Allir vinna“
„Samiðn fagnar þeim árangri sem náðst hefur í átakinu “Allir vinna” en á síðasta ári námu endurgreiðslur vegna þess tæpum 20 m.a. kr. Ljóst er að þetta hefur verið mikilsvert innlegg í þeim árangri sem íslenskt samfélag hefur þó náð í afar erfiðu og krefjandi árferði. Samiðn vill hvetja íslensk stjórnvöld að framlengja átakið enda fara þar saman hagsmunir allra.
Samiðn telur milvægt að sveitarfélög auki við fjárfestingar sínar. Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur í ljós að þau hafa því miður ekki staðið við stóru orðin í Covid faraldrinum.“