Formannsskipti framundan í Sjómannadeild Framsýnar

Á síðasta aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar sem haldinn var 22. janúar gaf núverandi formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín út yfirlýsingu um að þetta væri síðasta árið sem hann gæfi kost á sér sem formaður deildarinnar. Nú væri komið að leiðarlokum eftir skemmtilegan og gefandi tíma sem formaður og því tímabært að finna nýjan og öflugan formann deildarinnar sem taki við á næsta aðalfundi deildarinnar. Jakob sem lengi var til sjós hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um boð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið  formaður deildarinnar í 31 ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989.

Til fróðleiks má geta þess að ungur að árum eða um 15 ára aldur réð Kobbi sig á sjó hjá Kristjáni Jónssyni sem þá rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Verksmiðjan átti þrjá smábáta sem voru um og yfir 10 tonn. Bátarnir voru notaðir til að veiða smásíld til niðursuðu. Veiðiskapurinn kallaðist nótabrúk. Á Akureyri störfuðu svokölluð nótabrúk hér á árum áður og voru þá aðallega notaðar landnætur. Síldin var veidd á grunnsævi. Síðan var hún geymd í svonefndum lásum á Pollinum. Úr lásunum voru síðan tekin úrköst, lítilli nót var kastað inn í lásinn og sá skammtur tekinn, sem hentaði hverju sinni. Afgangurinn var svo geymdur áfram í lásnum. Þetta voru fyrstu kynni Jakobs af veiðiskap sem þótti nokkuð sérstakur og er löngu aflagður í dag.

Eftir tveggja ára veru hjá Kristjáni eða árið 1971 lá leið Jakobs á síðutogara frá Akureyri, Sléttbak EA. Eftir það var hann í nokkur ár á togurum í eigu ÚA, Harðbak EA og Sólbak EA, það er bæði á síðutogurum og eins skuttogurum. Rétt er að geta þess að Jakob kom að því árið 1975 að sækja nýjan glæsilegan skuttogara ÚA, Harðbak EA til Þýskalands sem þótti með glæsilegustu togurum þess tíma. Harðbakur EA var smíðaður á Spáni. 

Milli þess að vera á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri á þessum tíma réði Jakob sig tímabundið á Kristbjörgu VE árið 1972, en báturinn var gerður út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum.   

Nú var komið að ákveðnum tímamótum í lífi Jakobs G. Hjaltalíns. Hann hafði kynnst konu sem síðar varð eiginkona hans og bjó hún austan Vaðlaheiðar, það er í Aðaldal. Jakob tók því ekki lengur útstímið út Eyjafjörðinn á togurum í eigu ÚA, þess í stað hélt hann akandi yfir Vaðlaheiðina síðla sumars 1975, sem endaði með því að Jakob og tilvonandi eiginkona settust að á Húsavík.  Það er Hólmfríður Arnbjörnsdóttir og eiga þau saman einn uppkominn son.

Hugur Jakobs leitaði aftur til sjós og var hann fljótur að ráða sig til Sigga Valla á Kristbjörgu ÞH. Síðar réði hann sig til Hinriks Þórarinssonar á Jörva ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og net frá Húsavík.

Haustið 1976 ræður Jakob sig til Höfða hf. sem þá hafði fjárfest í nýjum togara, Júlíusi Havsteen ÞH. Á þeim tíma var mikið atvinnuleysi á Húsavík og kallaði samfélagið eftir byltingu í atvinnumálum svo ekki ætti illa að fara fyrir samfélaginu við Skjálfanda. Það var mikill fengur fyrir Höfða útgerðina að fá mann eins og Jakob til starfa, enda þaulvanur og duglegur sjómaður. Jakob var ráðinn sem bátsmaður. Nokkru síðar fjárfesti Höfði hf. í stærri togara, Kolbeinsey ÞH 10 sem smíðaður var á Akureyri. Við það fluttist Jakob yfir á Kolbeinsey og þar átti hann mörg góð ár, en árið 1996 ákvað hann að segja skilið við sjóinn í bili og réði sig í netagerð Höfða hf.

Þrátt fyrir það var sjómennsku Jakobs ekki alveg lokið, en  hann réði sig tímabundið eftir veruna í netagerðinni á nokkra togara og vertíðarbáta, það er á Brim ÞH og Sigurð Jakobsson ÞH sem gerðir voru út frá Húsavík. Rauðanúp ÞH sem gerður var út frá Raufarhöfn og Hjalteyrina EA sem gerð var út frá Akureyri.

Á sínum langa og farsæla sjómannsferli gegndi Jakob flestum störfum um borð, hann var; háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir. Árið 2004 hætti Jakob endanlega til sjós og fékk sér vinnu í landi. Það er eftir langan og farsælan sjómannsferil.  Hann hefur gefið út að hann muni hætta formennsku í Sjómannadeild Framsýnar á aðalfundi deildarinnar sem verður haldinn í desember næstkomandi, það er eftir farsælan feril sem formaður.

Deila á