The Husavik Museum is offering a guided tour in English Saturday 4th of March at 2pm. Look forwards to seeing you!

The Husavik Museum is offering a guided tour in English Saturday 4th of March at 2pm. Look forwards to seeing you!
Öskudagur sem er upphafsdagur lönguföstu er í dag. Hefð er fyrir því á þessum degi að börn, unglingar og jafnvel fullorðnir gangi milli verslana og stofnana og taki lagið fyrir starfsmenn. Starfsfólkið á Skrifstofu stéttarfélaganna er komið í stellingar með það að markmiði að taka vel á móti þeim fjölmenna hópi sem ætla má að heimsæki skrifstofuna í dag. Að sjálfsögðu og rúmlega það verður tekið vel á móti gestum dagsins sem án efa verða fjölmargir. Allir velkomnir.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur samþykkt einróma að leggja það til við aðildar fyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu og hefst atkvæðagreiðsla um tillöguna í dag. Verði hún staðfest tekur verkbannið gildi viku síðar, en þá mega engir þeirra liðlega 20 þúsund manna, sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði, sækja vinnu og þeir þiggja ekki laun eða önnur réttindi meðan á því stendur. Þetta eru viðbrögð SA við því að upp úr samningaviðræðum slitnaði við stéttarfélagið Eflingu í gær, en frestuð verkföll Eflingar hófust að nýju á miðnætti.
Fyrirspurnir hafa borist til Framsýnar í dag hvernig svona verkbann virki. Á vef ASÍ er fjallað nokkuð ítarlega um verkbönn, þar segir meðal annars:
„Um framkvæmd verkbanns gilda að flestu leyti sömu sjónarmið og um framkvæmd verkfalls. Meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi falla niður þann tíma sem verkbann varir og rakna við þegar því líkur. Vinna er ekki innt af hendi og laun eru ekki greidd.
Spyrja má að því hvernig fari með fyrirframgreidd laun, hafi verkbann verið boðað, og hvort atvinnurekandi geti þannig komið sér undan samningsbundnum launagreiðslum með verkbannsboðun. Úr þessu deiluefni var skorið í Félagsdómi 12/1984(IX:95). Málsatvik voru þau að Félag bókagerðarmanna hafði verið í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn boðaði verkbann á blaðamenn sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Skyldi verkbann hefjast þann 4. október. Samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands eru laun greidd fyrirfram fyrsta hvers mánaðar. Þegar verkbann hafði verið boðað greiddi fyrirtækið einungis laun vegna fyrstu þriggja daga mánaðarins. Félagið höfðaði mál gegn fyrirtækinu og krafðist þess að þessi framkvæmd yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins var sú að fallist var á það með fyrirtækinu að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa eigi ekki að skýra svo bókstaflega að það hafi átt að tryggja félagsmönnum BÍ launagreiðslur fyrir tímabil, sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Var Nútíminn því sýknaður af kröfu félagsins.
Það er á valdi þess aðila sem fyrirskipar verkbann að ákveða hversu víðtækt það skuli vera. Hann getur ákveðið að það skuli koma til framkvæmda í áföngum eða eftir atvikum að það skuli einungis taka til tiltekinna verkþátta eða starfsgreina. Verkbann getur þó aldrei orðið víðtækara en upphaflega var ákveðið.
Ágreiningur getur komið upp um það atriði hverjir megi vinna í verkbanni eins og er með verkföll.
Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) er m.a. fjallað um það hvernig félagsmenn þess skuli bregðast við í vinnustöðvun.
Í 47. gr. samþykktanna segir að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega, sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum. Greinin kveður líka á um að sama skuli gilda viðvíkjandi verkbanni eða verkfalli erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.
Þá er í 48. gr. kveðið á um að þegar vinnustöðvun standi yfir hjá einhverjum félagsmanni megi enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.
Þá getur framkvæmdastjórn SA, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.
Ófélagsbundnir atvinnurekendur hafa sjálfstæðan rétt til að fyrirskipa verkbann og félag eða samband sem stendur að verkbanni getur ekki hindrað að slíkir atvinnurekendur haldi áfram starfsemi sinni. Samþykktir SA taka þó á þessu í 48. gr. Þar segir að ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.
Þá getur stjórnin ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.“
Nú kl. 14:00 hófst atkvæðagreiðsla um kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Sjómenn innan Framsýnar fara inn á slóðina https://mitt.asa.is/Poll/Poll/Detail/144 og kjósa um samninginn. Atkvæðagreiðslan stendur til
kl. 15:00 þann 10. mars 2023. Hver einstaklingur sem er á kjörskrá getur aðeins kosið einu sinni.
Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands f.h. aðildarfélaga þess, hefst föstudaginn 17. febrúar næstkomandi kl. 14:00. Kosningunni lýkur föstudaginn 10. mars kl. 15:00 og verður niðurstaða kosninganna tilkynnt til ríkissáttasemjara fyrir kl. 16:00 þann dag. Sjómenn innan Framsýnar falla undir þennan kjarasamning.
Þegar kosning er hafin má búast við að einhverjir sem ekki eru á kjörskránni telji sig eiga rétt á að kjósa og kæri sig inn á kjörskrá. Það gera þeir með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.
Sjómannadeild Framsýnar stendur fyrir kynningarfundi fimmtudaginn 16. febrúar kl. 15:00 um nýgerðan kjarasamning sjómanna og SFS. Fundurinn verður haldinn í samstarfi við Sjómannafélag Eyjafjarðar að Skipagötu 14, 4-hæð, á Akureyri. Gestur fundarins verður Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands. Sætaferð verður frá Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík kl. 14:00. Einnig er hægt að nálgast allar upplýsingar um samninginn og kynningarefni inn á heimasíðu Framsýnar. Þeir sjómenn sem ætla að nýta sér sætaferðina til Akureyrar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir fimmtudaginn.
Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudag. Kjaramál og staðan í hreyfingunni verða til umræðu auk orlofskosta sem verða í boði fyrir félagsmenn í sumar. Þá verður nýgerður kjarasamningur sjómanna tekinn til umræðu og farið yfir fyrirkomulagið á atkvæðagreiðslu um samninginn.
Dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Kjarasamningur sjómanna
4. Kjarasamningar ríki/sveitarfélög
5. Veðurathugunarmenn-stofnanasamningur
6. Undirbúningsviðræður við SA
7. Gjald vegna orlofshúsa 2023
8. Málefni Asparfells
9. Trúnaðarmannanámskeið
10. Staða verkalýðshreyfingarinnar
11. Embætti ríkissáttasemjara
12. Formannafundur SGS
13. Kjaraviðræður við Landsvirkjun
14. Önnur mál
Að venju taka stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur þátt í að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn fari þeir á leiksýningarnar sem verða í boði í vetur hjá Leikfélagi Húsavíkur og Leikdeild Eflingar í Reykjadal. Allir félagsmenn eiga rétt á þessum niðurgreiðslum, það er greiðandi félagsmenn og þeir sem hættir eru á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Leikfélögin ætla að sýna afar vinsæl verk, það er Ávaxtakörfuna sem er eitt vinsælasta íslenska barnaleikrit allra tíma sem Leikfélag Húsavíkur býður upp á og hið frábæra leikrit, Gauragangur, sem verður í boði Leikdeildar Eflingar. Já það þarf engum að leiðast á næstu vikum og mánuðum þar sem frábærar leiksýningar eru í boði. Félögum í ofangreindum stéttarfélögum gefst kostur á að fá afsláttarmiða hjá félögunum. Félagsmenn fá kr. 1.000 í afslátt enda komi þeir við á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir sýninguna og fái afsláttarmiða. Ekki er í boði að koma eftir á og fá afsláttarmiða, það er eftir sýningunna.
Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður rétt fyrir miðnætti þann 9. febrúar 2023. Formaður Framsýnar var á staðnum og skrifaði undir kjarasamninginn. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst þann 17. febrúar næstkomandi og lýkur kl. 15:00 þann 10. mars næstkomandi. Mikilvægt er að sjómenn kynni sér vel innihald samningsins áður en atkvæði um hann eru greidd. Framsýn á aðild að samningum og tóku Jakob G. Hjaltalín formaður Sjómannadeildar félagsins og Aðalsteinn Árni formaður félagsins þátt í viðræðunum. Hér að neðan er hægt að nálgast kjarasamninginn og kynningu á honum.
Stjórn Framsýnar hefur verið boðuð til fundar næsta þriðjudag ásamt stjórn Framsýnar-ung. Til umræðu á fundinum verða orlofsmál, viðhald á orlofseignum, kjaramál, atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna og endalausar árásir Eflingar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands.
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar neikvæða og ofstækiskennda orðræðu í tengslum við kjaraviðræður, nú síðast í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Mikilvægt er að álitamál fái viðhlítandi meðferð og ótækt er að ágreiningur sé nýttur til að hafa í frammi haturskennd og viðurstyggileg ummæli í garð tiltekinna einstaklinga, hópa og samtaka. Eðlilegt er að tekist sé á um hin ýmsu álitaefni og að fram komi ólík sýn til margra grunnþátta samfélagsins. Þetta á augljóslega við um þær reglubundnu kjaraviðræður sem fram fara í landinu og þá hagsmuni sem þar eru í húfi.
Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur til stillingar og varar við því að kjaradeila, eðlilegur og viðtekinn framgangsmáti á vinnumarkaði, sé túlkuð á þann veg að réttmætt sé að ausa fúkyrðum og hatri yfir þau sem að þessum verkefnum koma.
Alþýðusamband Íslands mun ávallt fordæma slíka framgöngu og hér eftir sem hingað til standa vörð um þau gildi lýðræðis og mannvirðingar sem liggja hreyfingu launafólks til grundvallar.“
Meðan lítið gengur í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru mörg önnur aðildarfélög Alþýðusambandsins í viðræðum við sína viðsemjendur. Sem dæmi má nefna, þá hafa samtök sjómanna verið í viðræðum við SFS en sjómenn hafa verið samningslausir frá ársbyrjun 2020. Þá eru viðræður hafnar við Samtök atvinnulífsins um þau atriði/kröfur sem ákveðið var að bíða með þegar aðildarfélög ASÍ gengu frá skammtímasamningi við Samtök atvinnulífsins í desember. Marmiðið er að klára þessar viðræður á næstu mánuðum, það er áður en kjarasamningarnir losna í ársbyrjun 2024. Á morgun verða viðræður í Reykjavík um menntamál í kjarasamningi SA og SGS. Vitað er að LÍV/VR hafa einnig tekið umræðu um þessi mál og munu gera það áfram. Síðan á föstudaginn verða haldnir undirbúningsfundir vegna kröfugerðar aðildarfélaga SGS sem hafa ákveðið að fara saman í kjaraviðræður við ríkið og sveitarfélögin, það er fyrir utan Eflingu sem ætlar að halda utan um sín mál er varðar þessa kjarasamninga. Viðræðum samningsaðila verður síðan haldið áfram næstu vikurnar og mánuðina. Formaður Framsýnar hefur verið virkur í þessum viðræðum sem fulltrúi félagsins og verður í Reykjavík næstu dagana vegna þessa.
Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri starfsmenn. Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við viðkomandi stéttarfélag, Framsýn, Þingiðn eða Starfsmannafélag Húsavíkur. Eftir kosningu fær trúnaðarmaður og atvinnurekandi senda staðfestingu á kjöri.
Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna 4646600 eða með því að senda tölvupóst á kuti@framsyn.is varðandi frekari upplýsingar og aðstoð við kjör á trúnaðarmanni.
Til viðbótar má geta þess að stéttarfélögin standa reglulega fyrir trúnaðarmannanámskeiðum. Næsta námskeið verður haldið á Húsavík 16.- 17. mars nk. Skráning á námskeiðið er hafin. Námskeiðið er trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu auk þess sem þeir halda launum meðan á trúnaðarmannanámskeiðinu stendur.
Á meðfylgjandi mynd er Sigurður Erlingsson sem nýlega var kjörinn trúnaðarmaður meðal starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs. Með honum á myndinni er Linda Ársælsdóttir samstarfsmaður hjá þjóðgarðinum.
Rétt í þessu var undirritaður nýr kjarasamningur milli Framsýnar/Þingiðnar og PCC á Bakka. Samningurinn gildir frá 1. nóvember sl. til 31. janúar 2024. Kjarasamningurinn er sambærilegur kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands/Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem um 86% félagsmanna Framsýnar samþykktu í atkvæðagreiðslu. Samningurinn var einnig samþykktur af félagsmönnum Þingiðnar í rafrænni atkvæðagreiðslu. Ánægja er með samninginn meðal starfsmanna og stjórnenda fyrirtækisins. Þá var ákveðið að taka önnur atriði en laun til umræðu í haust, það er fyrir utan bónuskerfið sem þegar er hafin endurskoðun á. Trúnaðarmenn starfsmanna og stjórnendur PCC munu þróa kerfið áfram í samráði við Samtök atvinnulífsins og stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn. Alls koma starfsmenn frá 16 þjóðlöndum, Íslendingar og Pólverjar eru fjölmennastir. Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag þegar sérkjarasamningurinn var undirritaður í höfuðstöðvum PCC á Bakka.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun verðbólgunnar. Miðstjórn telur gagnrýnivert að stjórnvöld hafi kosið að leiða hjá sér ábendingar og varnaðarorð um að hækkun ýmissa skatta og gjalda um áramót myndu koma af fullum þunga niður á almenningi í formi minni kaupmáttar, verðbólgu og vaxtahækkana. Sú spurning gerist sífellt áleitnari hvort íslenskir ráðamenn hafi með öllu glatað sambandi við líf almennings í landinu.
Verðbólga mælist nú 9,9% og hefur aftur náð því hámarki sem mældist í júlímánuði. Greiningar leiða í ljós að stærstur hluti hækkunar janúarmánaðar má rekja til ákvarðana ríkisstjórnar um að auka álögur, gjöld og skatta. Þær ákvarðanir geta síðar kallað fram stýrivaxtahækkun af hálfu Seðlabanka Íslands og myndu skila sér af fullum þunga heim til almennings í formi aukinnar greiðslubyrði lána.
Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsir furðu á þeim málflutningi stjórnvalda að hækkanir þessar séu með öllu eðlilegar. Það eru þær ekki. Þær auka allan framfærslu- og rekstrarkostnað almennings sem var óheyrilegur fyrir. Þessar aðgerðir bitna af mestum þunga á láglaunafólki og um leið og hinum fátæku er refsað er efnafólki og völdum atvinnugreinum hlíft.
Miðstjórn minnir launafólk á að þær aðgerðir stjórnvalda sem nú rýra kjör þess og lífsgæði eru mannanna verk. Engin lögmál mæla fyrir um að almenningur skuli jafnan bera byrðarnar þegar á móti blæs. Ólíkt því sem á við víðast hvar í nágrannaríkjum fer verðbólga á Íslandi enn vaxandi. Erlendis hafa ráðamenn markvisst unnið að því að kynda ekki verðbólgubálið. Þar vinna stjórnvöld að því að lina áhrif „afkomukreppunnar” svonefndu á almenning. Slíkar aðgerðir skortir mjög á Íslandi nú um stundir.
Oddviti Tjörneshrepps, Aðalsteinn J. Halldórsson og formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, gengu frá nýjum kjarasamningi í morgun. Um er að ræða skammtímasamning með gildistíma frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Hækkanirnar í samningnum eru þær sömu og Starfsgreinasamband Íslands samdi um við Samband ísl. sveitarfélaga á dögunum. Í kjarasamningunum 2019 samþykkti Tjörneshreppur að veita Sambandi ísl. sveitarfélaga ekki samningsumboð fyrir hreppinn. Þess í stað samþykkti sveitarstjórnin á þeim tíma að ganga til viðræðna við Framsýn um gerð á nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn sem gekk eftir. Kjarasamningurinn frá árinu 2019 var í morgun framlengdur til 31. janúar 2024 eins og fram kemur í fréttinni.
Fjölmennur hópur nemenda úr 10. bekk Borgarhólsskóla kom í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga, það er um þrjátíu nemendur ásamt kennurum. Þrátt fyrir leiðindaveður tóku þau sér göngutúr úr skólanum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Fulltrúi stéttarfélaganna fór yfir tilgang og markmið stéttarfélaga á vinnumarkaði auk þess að fara yfir innihald kjarasamninga. Nemendurnir meðtóku fræðsluna og spurðu út í hitt og þetta er tengis tilgangi stéttarfélaga og réttindum þeirra á vinnumarkaði. Það er ánægjulegt til þess að vita að grunn- og framhaldsskólar á svæðinu hafa lagt mikið upp úr því að fá forystumenn stéttarfélaga inn í skólana með fræðslu.
Nú er unnið hörðum höndum að því að klára framlengingu á sérkjarasamningi Framsýnar/Þingiðnar og PCC á Bakka. Viðræður hafa gengið nokkuð vel. Vilji er til þess að framlengja núverandi samning aðila til 31. janúar 2024. Reiknað er með að skrifað verði undir nýjan samning í næstu viku. Á myndinni má sjá trúnaðarmenn starfsmanna, þau Ingimar og Sigrúnu, sem setið hafa á fundi í morgun með formanni Framsýnar og yfirfarið tilboð PCC. Til stendur að svara tilboðinu síðar í dag og halda vinnunni áfram næstu daga.
Þá er komið að því, páskarnir framundan með tilheyrandi gleði og hamingju. Að venju verðum við með sérstaka páskaúthlutun á íbúðum stéttarfélaganna. Það er á íbúðum félaganna í Reykjavík, Kópavogi og Akureyri. Frestur til að skila inn umsóknum um dvöl í íbúðunum um páskana er til 1. mars. Þá verða umsóknirnar teknar fyrir og íbúðunum úthlutað. Þeir sem sækja um fyrir þann tíma sitja fyrir við úthlutun á íbúðunum. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda skilaboð á netfangið kristjan@framsyn.is
Í síðustu kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinsambands Íslands, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, var samið um sérstakt framlag frá sveitarfélögum og stofnunum þess í sérstakan Félagsmannasjóð starfsmanna. Framsýn er ætlað að taka við greiðslunum frá sveitarfélögunum og greiða þær áfram til starfsmanna, það er 1. febrúar ár hvert. Þetta fyrirkomulag hefur núna verið í þrjú ár. Fyrstu tvö árin hélt Starfsgreinasambandið utan um sjóðinn og sá um að greiða út til félagsmanna en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að stéttarfélögin innan SGS myndu taka við sjóðnum og sjá um að greiða út úr honum til sinna félagsmanna.
Í gær var komið að því að greiða út úr sjóðnum til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra fyrir árið 2022. Samtals námu greiðslur úr sjóðnum 24 milljónum sem fóru til 497 félagsmanna. Forsenda þess að Framsýn geti greitt úr sjóðnum er að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá félaginu, þannig ef einhver hefur ekki fengið greitt en telur sig eiga inni hjá sjóðnum þá þarf viðkomandi að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og við skoðum málið. Rétt er að geta að stéttarfélagið hefur ekki tekið staðgreiðslu af upphæðinni en greiðsla þessi fer inná skattaskýrslu næsta árs sem þá reiknar staðgreiðslu hjá hverjum og einum. Félagsmenn Framsýnar sem fengu greitt í gær eiga allir að hafa fengið kvittun í tölvupósti um greiðsluna.