Framsýn skorar á Erni að viðhalda áætlunarflugi til Húsavíkur

Á dögunum fór þessi yfirlýsing frá Framsýn til stjórnenda Flugfélagsins Ernis:

„Framsýn hefur komið að því með Erni að byggja upp flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur með samkomulagi milli félagsins og flugfélagsins. Eins og kunnugt er hefur Framsýn fjárfest í flugkóðum með staðgreiðslu/magnkaupum gegn því að fá kóðana á sérkjörum. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum og verið báðum til hagsbóta. Með þessum pósti vill Framsýn hvetja stjórnendur flugfélagsins til þess að viðhalda áfram flugi á flugleiðinni Reykjavík – Húsavík.  Að mati Framsýnar á farþegum bara eftir að fjölga, þar kemur til sterk ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum og verulegur uppgangur í atvinnulífinu sem ekki er séð fyrir endann á.  Þá er Framsýn reiðubúið til frekara samstarfs um kaup á flugkóðum verði það til að efla frekar flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Húsavíkur.“

Til viðbótar má geta þess að fulltrúar Framsýnar hafa verið í stöðugu sambandi við eigendur flugfélagsins, sveitarstjórnarmenn og fjölda fólks á svæðinu frá Vaðlaheiði til Þórshafnar sem hafa miklar áhyggjur af stöðinni. Þá hefur verið fundað með þingmönnum og þeim boðið frekari kynning á málinu sem þeir hafa ekki þegið hjá Framsýn sem þekkir afar vel til málsins. Vissulega vekur athygli að þingmenn kjördæmisins telji ekki ástæðu til að tjá sig um málið sem er gríðarlegt atvinnu- og byggðamál á Norðurlandi eystra. Hugsanlega telja þeir mikilvægara að koma í veg fyrir samruna MA og VMA.

Deila á