Ályktað um flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Á fundinum urðu miklar umræður um flugsamgöngur og mikilvægi þess að þær verði áfram greiðar milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ákveðið var að álykta um málið:

„Um leið og Framsýn stéttarfélag fagnar því að samkomulag hafi náðst um áframhaldandi flug til Húsavíkur með aðkomu Vegagerðarinnar telur félagið afar mikilvægt að fundin verði varanleg leið til að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur í framtíðinni.

Samkvæmt yfirlýsingum frá Vegagerðinni og Flugfélaginu Erni hafa aðilar komist að samkomulagi um að tryggja flug til Húsavíkur fram að næstu áramótum, sem dugar skammt.

Fljótlega eftir að Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur árið 2012 gerði Framsýn samkomulag við flugfélagið um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn sem þyrftu að fljúga í einkaerindum milli landshluta, ekki síst vegna veikinda. Samstarfið hefur verið afar farsælt og þýðingarmikið fyrir báða aðila. Þess vegna ekki síst hefur Framsýn lagt mikla vinnu í að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur við Þingeyjarsýslur. Á þeirri vegferð hefur m.a. verið fundað með ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarmönnum, SSNE og ferðaþjónustuaðilum í Þingeyjarsýslum.

Framsýn mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og þakkar  þeim fjölmörgu aðilum sem sett hafa sig í samband við félagið síðustu daga og þakkað fyrir framlag þess í gegnum tíðina við að tryggja öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Fyrir það ber að þakka, enda er samstaða heimamanna lykillinn að því að ná eyrum fjárveitingavaldsins til að festa í sessi nútímasamgöngur milli landshluta.“

Deila á