Verður áætlunarfluginu til Húsavíkur bjargað?

Framsýn stéttarfélag hefur lagt mikið upp úr því að viðhalda fluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur áfram eftir 1. október en Flugfélagið Ernir hefur boðað að hætta fluginu frá þeim tíma á rekstrarforsendum. Öll önnur áætlunarflug á Íslandi eru eða hafa notið ríkisábyrgðar eða njóta ríkisstyrka í dag. Það vekur að sjálfsögðu furðu að það skuli ekki gilda fyrir flug til Húsavíkur líka. Forsvarsmenn Framsýnar hafa fundað út og suður undanfarnar vikur með ráðamönnum þjóðarinnar, sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum flugfélagsins með það að markmiði að viðhalda flugi áfram til Húsavíkur. Í gær fundaði formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, með framkvæmdastjóra og verðandi framkvæmdastjóra Ernis auk þess að funda með fjármálastjóra og stjórnarformanni Ernis um málið. Þá mun hann funda með fjármálaráðherra eftir helgina með það að markmiði að koma skoðunum heimamanna á framfæri, það er að stjórnvöld tryggi áframhaldandi flug til Húsavíkur. Í það minnsta ætlar Framsýn að leggja sitt að mörkum að tryggja áframhaldandi flug milli þessara landshluta enda miklir hagsmunir í húfi.  

Deila á