Upplýsandi fundur um lífeyrismál

Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn, stóðu fyrir kynningarfundi í byrjun mars um lífeyrismál og breytingar sem fyrirhugaðar eru á samþykktum Lsj. Stapa. Í upphafi fundar fór formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, nokkrum orðum um mikilvægi þess að félagsmenn væru vel inn í sínum málum er varðaði lífeyrisréttindi. Þess vegna hefði hann viljað sjá miklu fleiri sjóðfélaga á þessum mikilvæga fundi. Hann sagði fundinn haldinn í samstarfi við Lsj. Stapa. Því næst gaf hann gestum fundarins þeim Jóhanni Steinari og Jónu Finndísi orðið en þau skiptu með sér kynningunni á lífslíkum sjóðfélaga með tilliti til eftirlauna og örorku auk þess að fjalla um stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. Nýlega var lögð fram ný spá um lífslíkur fólks sem gerir ráð fyrir því að lífslíkur haldi áfram að hækka til framtíðar. Spáin hefur veruleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða. Frummælendur gerðu auk þess grein fyrir þeim hugmyndum sem unnið er eftir við að innleiða hækkandi lífslíkur í samþykktir sjóðsins. Reiknað er með því að tillögur þess efnis verði lagðar fyrir ársfund sjóðsins í vor. Áður verða þær til umræðu á fulltrúaráðsfundi, það er fyrir ársfundinn. Þau gerðu einnig grein fyrir rekstri sjóðsins og ávöxtun á nýliðnu ári. Jóhann Steinar og Jóna Finndís fengu fjölmargar spurningar frá áhugasömum fundarmönnum sem þau svöruðu eftir bestu getu. Eftir góðar og upplýsandi umræður þökkuðu gestirnir fundarmönnum fyrir góða þátttöku í umræðunum um leið og fundarmenn þökkuðu þeim sömuleiðis fyrir komuna. Hægt verður að fræðast betur um fyrirhugaðar breytingar á réttindakerfi sjóðsins inn á heimasíðu Lsj. Stapa, www.stapi.is.

Gengið frá samningi við LS og SSÚ

Undirritaður hefur verið nýr kjarasamningur fyrir starfsfólk sem vinnur við uppstokkun eða beitningu í landi og netavinnu, en viðræður um nýjan samning hafa staðið yfir frá því í lok janúar. Samningurinn er á milli Starfsgreinasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda og Samtaka smærri útgerða hins vegar sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. nóvember 2022 og til 31. janúar 2024, sbr. kjarasamning SGS og SA sem undirritaður var 3. desember sl. Samkvæmt nýjum samningi hækkar kauptrygging frá 1. nóvember 2022 um 44.959 kr. og verður 448.224 kr., en upphæðin miðast við 15. launaflokk og 5 ára starfsaldursþrep í launatöflu SGS og SA. Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Vissulega hefur dregið verulega úr beitningu í landi á félagssvæði Framsýnar, miðað við hér á árum áður þegar flestir skúrar neðan við bakkan á Húsavík voru fullir af öflugum beitningamönnum. Það sama á við um Raufarhöfn. Það er því við hæfi að birta eina góða mynd frá síðustu öld með þessari frétt.

Trúnaðarmannanámskeið í mars

Stéttarfélögin standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði dagana 16 – 17. mars nk. Námskeiðið verður haldið á Húsavík. Skráning fer fram hjá Félagmálaskóla alþýðu og  þar er hægt að skrá sig inn á Mínar síður eða með rafrænum skilríkjum   https://www.felagsmalaskoli.is/ eða með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.  Námskeiðin eru trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu og eru bæði fræðandi og skemmtileg. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga trúnaðarmenn rétt á að sækja slík námskeið á vinnutíma án skerðingar launa. Rétt er að taka fram að trúnaðarmenn halda launum meðan þeir eru á námskeiðinu auk þess sem þeir búa utan Húsavíkur eiga rétt á gistingu og fæði.

Trúnaðarmannanámskeiðiðn hafa verið vel sótt af félagsmönnum. Á öllum vinnustöðum þar sem starfa 5 eða fleiri starfsmenn eiga að vera starfandi trúnaðarmenn. Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Áríðandi fundur – Kynningarfundur um lífslíkur og lífeyrismál

Framsýn og Þingiðn standa fyrir sameiginlegum fundi um lífeyrismál fimmtudaginn 2. mars kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Lsj. Stapa. Fyrir hönd sjóðsins verða á fundinum Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmdastjóri og Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs.

Fundarefni: Hækkandi lífslíkur og skuldbindingar lífeyrissjóða

Nýlega var lögð fram ný spá um lífslíkur fólks sem gerir ráð fyrir því að lífslíkur haldi áfram að hækka til framtíðar. Spáin hefur veruleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða og munu starfsmenn sjóðsins gera grein fyrir þeim hugmyndum sem unnið er eftir við að innleiða hækkandi lífslíkur í samþykktir sjóðsins. Búast má við að tillögur að slíkum breytingum verði lagðar fyrir ársfund Stapa í vor. Þá munu starfsmenn sjóðsins einnig gera grein fyrir rekstri sjóðsins og ávöxtun á nýliðnu ári og svara spurningum fundargesta.

Stéttarfélögin skora á félagsmenn að mæta á fundinn og fræðast um lífslíkur og lífeyrissréttindi framtíðarinnar.

Framsýn stéttarfélag

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

6.1% beiðna til VIRK uppfylla kröfur WHO um kulnun

Haustið 2020 var ýtt út vör rannsóknar- og þróunarverkefni innan VIRK tengdu kulnun. Markmið verkefnisins er að byggja upp dýpri þekkingu á fyrirbærinu kulnun í starfi og er stuðst við nýlega skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO).

Niðurstöður úr þróunarverkefninu á árinu 2022 eru þær helstar að 58% umsækjenda töldu sig glíma við einkenni kulnunar, kulnun var nefnd sem ein ástæða tilvísunar í 14,1% beiðna lækna til VIRK en við nánari athugun þá uppfylltu 6,1% beiðnanna skilyrði WHO um kulnun.

Rannsóknar- og þróunarverkefnið er enn í fullum gangi og til stendur að gera frekari rannsóknir á þessu sviði í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Þá hefur verið ákveðið að koma á laggirnar Þekkingarsetri VIRK um kulnun.

Sjá nánar í frétt á vef VIRK.

Ert  þú á aldrinum 16-35 ára og vilt þú koma að því að móta verkalýðshreyfinguna til framtíðar?

ASÍ-UNG sem Framsýn og Þingiðn eiga aðild að stendur fyrir fræðslu- og tengsladögum á Stracta Hótel, Hellu dagana 30. – 31. mars nk. Viðburðurinn er ætlaður félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára sem hafa áhuga á réttindamálum og/eða verkalýðsmálum. Síðast þegar slíkur viðburður var haldinn var góð þátttaka og skapaðist skemmtilegt andrúmsloft. Hvetjum endilega unga félagsmenn innan Framsýnar og Þingiðnar til að gefa kost á sér á fræðslu og tengsladagana. Það er ykkar að taka við starfinu og leiða það áfram til frekari sigra fyrir vinnandi fólk og þá félagsmenn sem eru hættir á vinnumarkaði enda sé áhugi til staðar hjá ykkur. Rétt er að taka fram að allur kostnaður við fundinn, ferðir, gisting, fæði og vinnutap er greitt af stéttarfélögunum. Öll aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa rétt til að senda fulltrúa á viðburðinn á vegum ASÍ-UNG á Stracta Hótel, Hellu. Skráning og nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þá er einnig hægt að fá frekari upplýsingar með því að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is.  

Marta Sif fékk góða kosningu

Á starfsmannafundi meðal starfsmanna á Berjaya Mývatn Hotel í dag var Marta Sif Baldvinsdóttir kjörin trúnaðarmaður starfsmanna til tveggja ára. Að sjálfsögðu fögnuðu samstarfsmenn með henni en hún gaf kost á sér sem trúnaðarmaður. Ekki er ólíklegt að um 50 starfsmenn komi til með að starfa á hótelinu í sumar enda ganga bókanir vel fyrir ferðaþjónustutímabilið 2023 sem er að hefjast á næstu vikum. Með henni á myndinni er Verca Nebeská sem var greinilega ánægð með nýja trúnaðarmanninn enda Marta Sif frábær í alla staði.

Berjaya Mývatn Hotel til fyrirmyndar

Forsvarsmenn Berjaya Mývatn Hotels óskuðu eftir kynningu á kjarasamningum og starfsemi Framsýnar fyrir um 20 nýja starfsmenn sem ráðnir hafa verið til starfa síðustu daga. Hótelið verður opnað um næstu mánaðamót. Starfsmenn stéttarfélaganna, þau Kristján Ingi og Agnieszka, áttu ánægjulega stund í dag með starfsmönnum hótelsins. Kynningin fór vel fram og voru starfsmenn mjög ánægðir með heimsóknina frá Framsýn. Auk þess að fá góða kynningu var gengið frá kjöri á nýjum trúnaðarmanni. Kosningu hlaut Marta Sif Baldvinsdóttir og bjóðum við hana velkomna til starfa. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar fyrirtæki hafa frumkvæði af því að leita til stéttarfélaganna eftir kynningu á réttindum starfsmanna og starfsemi stéttarfélaga.

Skemmtilegur dagur framundan

Öskudagur sem er upphafsdagur lönguföstu er í dag. Hefð er fyrir því á þessum degi að börn, unglingar og jafnvel fullorðnir gangi milli verslana og stofnana og taki lagið fyrir starfsmenn. Starfsfólkið á Skrifstofu stéttarfélaganna er komið í stellingar með það að markmiði að taka vel á móti þeim fjölmenna hópi sem ætla má að heimsæki skrifstofuna í dag. Að sjálfsögðu og rúmlega það verður tekið vel á móti gestum dagsins sem án efa verða fjölmargir. Allir velkomnir.  

Hvað þýðir verkbann?

Stjórn Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) hef­ur samþykkt ein­róma að leggja það til við aðild­ar fyr­ir­tæki sín að setja alls­herj­ar­verk­bann á Efl­ingu og hefst at­kvæðagreiðsla um til­lög­una í dag. Verði hún staðfest tek­ur verk­bannið gildi viku síðar, en þá mega eng­ir þeirra liðlega 20 þúsund manna, sem starfa eft­ir kjara­samn­ing­um Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á al­menn­um vinnu­markaði, sækja vinnu og þeir þiggja ekki laun eða önnur rétt­indi meðan á því stend­ur. Þetta eru viðbrögð SA við því að upp úr samningaviðræðum slitnaði við stétt­ar­fé­lagið Efl­ingu í gær, en frest­uð verk­föll Efl­ing­ar hóf­ust að nýju á miðnætti. 

Fyrirspurnir hafa borist til Framsýnar í dag hvernig svona verkbann virki. Á vef ASÍ er fjallað nokkuð ítarlega um verkbönn, þar segir meðal annars:

„Um framkvæmd verkbanns gilda að flestu leyti sömu sjónarmið og um framkvæmd verkfalls. Meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi falla niður þann tíma sem verkbann varir og rakna við þegar því líkur. Vinna er ekki innt af hendi og laun eru ekki greidd.

Spyrja má að því hvernig fari með fyrirframgreidd laun, hafi verkbann verið boðað, og hvort atvinnurekandi geti þannig komið sér undan samningsbundnum launagreiðslum með verkbannsboðun. Úr þessu deiluefni var skorið í Félagsdómi 12/1984(IX:95). Málsatvik voru þau að Félag bókagerðarmanna hafði verið í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn boðaði verkbann á blaðamenn sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Skyldi verkbann hefjast þann 4. október. Samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands eru laun greidd fyrirfram fyrsta hvers mánaðar. Þegar verkbann hafði verið boðað greiddi fyrirtækið einungis laun vegna fyrstu þriggja daga mánaðarins. Félagið höfðaði mál gegn fyrirtækinu og krafðist þess að þessi framkvæmd yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins var sú að fallist var á það með fyrirtækinu að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa eigi ekki að skýra svo bókstaflega að það hafi átt að tryggja félagsmönnum BÍ launagreiðslur fyrir tímabil, sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Var Nútíminn því sýknaður af kröfu félagsins.

Það er á valdi þess aðila sem fyrirskipar verkbann að ákveða hversu víðtækt það skuli vera. Hann getur ákveðið að það skuli koma til framkvæmda í áföngum eða eftir atvikum að það skuli einungis taka til tiltekinna verkþátta eða starfsgreina. Verkbann getur þó aldrei orðið víðtækara en upphaflega var ákveðið.

Ágreiningur getur komið upp um það atriði hverjir megi vinna í verkbanni eins og er með verkföll.

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) er m.a. fjallað um það hvernig félagsmenn þess skuli bregðast við í vinnustöðvun.

Í 47. gr. samþykktanna segir að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega, sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum. Greinin kveður líka á um að sama skuli gilda viðvíkjandi verkbanni eða verkfalli erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

Þá er í 48. gr. kveðið á um að þegar vinnustöðvun standi yfir hjá einhverjum félagsmanni megi enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.

Þá getur framkvæmdastjórn SA, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.

Ófélagsbundnir atvinnurekendur hafa sjálfstæðan rétt til að fyrirskipa verkbann og félag eða samband sem stendur að verkbanni getur ekki hindrað að slíkir atvinnurekendur haldi áfram starfsemi sinni. Samþykktir SA taka þó á þessu í 48. gr. Þar segir að ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.

Þá getur stjórnin ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.“

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna að hefjast

Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands f.h. aðildarfélaga þess, hefst föstudaginn 17. febrúar næstkomandi kl. 14:00. Kosningunni lýkur föstudaginn 10. mars kl. 15:00 og verður niðurstaða kosninganna tilkynnt til ríkissáttasemjara fyrir kl. 16:00 þann dag. Sjómenn innan Framsýnar falla undir þennan kjarasamning.

Þegar kosning er hafin má búast við að einhverjir sem ekki eru á kjörskránni telji sig eiga rétt á að kjósa og kæri sig inn á kjörskrá. Það gera þeir með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Kynningarfundur um kjarasamning sjómanna

Sjómannadeild Framsýnar stendur fyrir kynningarfundi fimmtudaginn 16. febrúar kl. 15:00 um nýgerðan kjarasamning sjómanna og SFS. Fundurinn verður haldinn í samstarfi við Sjómannafélag Eyjafjarðar að Skipagötu 14, 4-hæð, á Akureyri. Gestur fundarins verður Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands. Sætaferð verður frá Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík kl. 14:00. Einnig er hægt að nálgast allar upplýsingar um samninginn og kynningarefni inn á heimasíðu Framsýnar. Þeir sjómenn sem ætla að nýta sér sætaferðina til Akureyrar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir fimmtudaginn.

Reglulegur stjórnarfundur á morgun

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudag. Kjaramál og staðan í hreyfingunni verða til umræðu auk orlofskosta sem verða í boði fyrir félagsmenn í sumar. Þá verður nýgerður kjarasamningur sjómanna tekinn til umræðu og farið yfir fyrirkomulagið á atkvæðagreiðslu um samninginn.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Kjarasamningur sjómanna

4. Kjarasamningar ríki/sveitarfélög

5. Veðurathugunarmenn-stofnanasamningur

6. Undirbúningsviðræður við SA

7. Gjald vegna orlofshúsa 2023

8. Málefni Asparfells

9. Trúnaðarmannanámskeið

10. Staða verkalýðshreyfingarinnar

11. Embætti ríkissáttasemjara

12. Formannafundur SGS

13. Kjaraviðræður við Landsvirkjun

14. Önnur mál

Allir í leikhús – stéttarfélögin niðurgreiða leikhúsmiða

Að venju taka stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur þátt í að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn fari þeir á leiksýningarnar sem verða í boði í vetur hjá Leikfélagi Húsavíkur og Leikdeild Eflingar í Reykjadal. Allir félagsmenn eiga rétt á þessum niðurgreiðslum, það er greiðandi félagsmenn og þeir sem hættir eru á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Leikfélögin ætla að sýna afar vinsæl verk, það er Ávaxtakörfuna sem er eitt vinsælasta íslenska barnaleikrit allra tíma sem Leikfélag Húsavíkur býður upp á og hið frábæra leikrit, Gauragangur, sem verður í boði Leikdeildar Eflingar. Já það þarf engum að leiðast á næstu vikum og mánuðum þar sem frábærar leiksýningar eru í boði. Félögum í ofangreindum stéttarfélögum gefst kostur á að fá afsláttarmiða hjá félögunum. Félagsmenn fá kr. 1.000 í afslátt enda komi þeir við á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir sýninguna og fái afsláttarmiða. Ekki er í boði að koma eftir á og fá afsláttarmiða, það er eftir sýningunna.

Sjómenn athugið – Nýr kjarasamningur milli SSÍ og SFS

Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður rétt fyrir miðnætti þann 9. febrúar 2023. Formaður Framsýnar var á staðnum og skrifaði undir kjarasamninginn. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst þann 17. febrúar næstkomandi og lýkur kl. 15:00 þann 10. mars næstkomandi. Mikilvægt er að sjómenn kynni sér vel innihald samningsins áður en atkvæði um hann eru greidd. Framsýn á aðild að samningum og tóku Jakob G. Hjaltalín formaður Sjómannadeildar félagsins og Aðalsteinn Árni formaður félagsins þátt í viðræðunum. Hér að neðan er hægt að nálgast kjarasamninginn og kynningu á honum.

Kynning á kjarasamningnum

Kjarasamningurinn

Stjórnarfundur í Framsýn framundan

Stjórn Framsýnar hefur verið boðuð til fundar næsta þriðjudag ásamt stjórn Framsýnar-ung. Til umræðu á fundinum verða orlofsmál, viðhald á orlofseignum, kjaramál, atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna og endalausar árásir Eflingar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands.

ASÍ hefur miklar áhyggjur – ályktar um orðræðuna í deilu Eflingar

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar neikvæða og ofstækiskennda orðræðu í tengslum við kjaraviðræður, nú síðast í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Mikilvægt er að álitamál fái viðhlítandi meðferð og ótækt er að  ágreiningur sé nýttur til að hafa í frammi haturskennd og viðurstyggileg ummæli í garð tiltekinna einstaklinga, hópa og samtaka. Eðlilegt er að tekist sé á um hin ýmsu álitaefni og að fram komi ólík sýn til margra grunnþátta samfélagsins. Þetta á augljóslega við um þær reglubundnu kjaraviðræður sem fram fara í landinu og þá hagsmuni sem þar eru í húfi.

Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur til stillingar og varar við því að kjaradeila, eðlilegur og viðtekinn framgangsmáti á vinnumarkaði, sé túlkuð á þann veg að réttmætt sé að ausa fúkyrðum og hatri yfir þau sem að þessum verkefnum koma.

Alþýðusamband Íslands mun ávallt fordæma slíka framgöngu og hér eftir sem hingað til standa vörð um þau gildi lýðræðis og mannvirðingar sem liggja hreyfingu launafólks til grundvallar.“