Starfsgreinasamband Íslands (SGS) telur einsýnt að ekki verði komist lengra í viðræðum við samninganefnd ríkisins vegna endurnýjunar kjarasamnings SGS og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs sem rann út 31. mars 2023. Samningsaðilar hafa á undanförnum vikum átt fjölmarga fundi þar sem SGS hefur komið kröfum sínum málefnalega á framfæri við samninganefnd ríkisins, en án árangurs.
Í ljósi þess hversu langt er á milli aðila lítur SGS svo á að ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Jafnframt var farið fram á það við ríkissáttasemjara að hann boði til fundar eins fljótt og auðið er, enda óásættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir sanngjörnum kjarabótum. Þess ber að geta að Framsýn á aðild að þessum kjarasamningi fyrir sína félagsmenn.