Aðalfundur Framsýnar var haldinn 25. maí og var hann nokkuð vel sóttur. Á næstu dögum munum við gera grein fyrir helstu málefnum fundarins í stuttum fréttum. Reyndar er þegar komin inn ein frétt á heimasíðuna um hækkun styrkja til félagsmanna úr sjúkrasjóði sem samþykkt var á aðalfundinum sem mikil ánægja er með.
Á aðalfundinum kom fram að alls greiddu 3.016 launamenn til Framsýnar á árinu 2022 en greiðandi félagar voru 2.731 árið 2021. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði því umtalsvert milli ára sem staðfestir að atvinnulífið er að taka við sér eftir heimsfaraldurinn auk þess sem mikil ásókn er í félagið enda félagið eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Án efa á félagsmönnum eftir að fjölga enn frekar á komandi árum. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.843 karlar og 1.173 konur, sem skiptist þannig að konur eru 39% og karlar 61% félagsmanna. Athygli vekur að karlmönnum heldur áfram að fjölga á kostnað kvenna. Hér á árum áður var kynjaskiptingin nánast jöfn. Vissulega hefur það áhrif að starfsmenn PCC á Bakka eru í miklum meirihluta karlmenn, en verksmiðjan hóf starfsemi 2018. Þá virðist sem erlendum karlmönnum í ferðaþjónustu sé einnig að fjölga umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Full ástæða er til að greina þessa þróun betur enda áhugaverð. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 302, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 3.318 þann 31. desember 2022, það er greiðandi og gjaldfrjálsir félagsmenn.