Aðalfundur Framsýnar samþykkti að gefa Félagi eldri Mývetninga bekk

Framsýn hefur í gegnum tíðina stutt við íþrótta- og menningarstarf á félagssvæðinu með því að leggja fjármagn í ýmis áhugaverð  verkefni sem koma samfélaginu til góða á einn eða annan hátt. Eitt þeirra verkefna er í gangi þessa dagana og tengist Mývatnssveitinni fögru. Félag eldri Mývetninga hefur undanfarið unnið að því að koma upp bekkjum við hjólreiða- og göngustíg sem verið er að leggja umhverfis Mývatn. Verkefnið er unnið í samvinnu við Þingeyjarsveit og Vegagerðina. Eru bekkirnir frá Steinsmiðju Akureyrar, þeir eru algjörlega viðhaldsfríir, úr granít og í náttúrulitum sem falla vel að umhverfinu. Kveikjan að hugmyndinni er sú að gestir og gangandi sem leið eiga um stíginn hafi möguleika á að tylla sér niður og hvíla lúin bein og njóta þeirrar einstöku náttúruperlu sem Mývatnssveitin sannarlega er. Félagið hefur þegar keypt tvo bekki og hefur óskað eftir stuðningi við verkefnið og höfðar þar sérstaklega til fyrirtækja með starfsemi í Mývatnssveit; en einnig félagasamtaka og einstaklinga.

Á aðalfundi Framsýnar fyrir helgina var samþykkt samhljóða að leggja þessu verðuga verkefni lið með því að fjárfesta í einum bekk um leið og Framsýn óskar Félagi eldri Mývetninga góðs gengis með þetta frábæra verkefni sem mun án efa koma flestum til góða, það er heimamönnum og öllum þeim fjölda ferðamanna sem leggja leið sína í eina fallegustu sveit landsins ef ekki fallegustu sveit landsins.

Deila á