Góðar hækkanir á styrkjum til félagsmanna Framsýnar úr sjúkrasjóði

Vegna aðhalds í rekstri og góðrar afkomu Framsýnar samþykkti aðalfundur félagsins, sem fram fór í lok maí, að stórhækka styrki úr sjúkrasjóði félagsins. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn sem fyrir hafa eina bestu styrki úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum sem þekkjast meðal almennra stéttarfélaga á Íslandi. Samþykkt var að hækka eftirfarandi bótaflokka í starfsreglum sjúkrasjóðs frá og með 1. júní 2023 fyrir félagsmenn á vinnumarkaði. Þá komi til hækkun á útfararstyrk aðstandenda félagsmanna sem falla frá eftir fimm ár frá því að þeir hættu að greiða félagsgjald til félagsins. Fram að þeim tíma hafa aðstandendur fullan rétt eins og viðkomandi hafi verið á vinnumarkaði þegar hann féll frá:

Núverandi úthlutunareglur verða þær sömu en hlutfall endurgreiðslna úr sjúkrasjóði taka þessum breytingum:

  • Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 150.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 130.000,-. Með starfslokum er átt við að sjóðfélagar láti af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
  • Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 40.000,- í stað kr. 35.000,-.
  • Fæðingarstyrkur hækki og verði kr. 160.000,-. Var áður kr. 150.000,-.
  • Niðurgreiðslur til félagsmanna sem fara í glasafrjóvgun verði kr. 160.000,-. Var áður kr.  150.000,-.
  • Styrkir til félagsmanna vegna aðgerða á augum verði kr. 70.000,-. Var áður kr. 60.000,-.
  • Gleraugnastyrkur til félagsmanna verði kr. 70.000,-. Sama regla gildi fyrir þá sem kaupa sér linsur. Var áður kr. 60.000,-.
  • Styrkur til félagsmanna vegna kaupa á heyrnatækjum verði kr. 100.000,-. Var áður kr. 80.000,-. Upphæðin getur samtals orðið kr. 200.000,- vegna kaupa á tveimur tekjum. Var áður kr. 160.000,-.
Deila á