Á baráttudegi verkalýðsins, þann 1. maí er hefð fyrir því að stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standi fyrir veglegri hátíð í tilefni dagsins og bjóði til veislu. Hátíðin í ár var haldin á Fosshótel Húsavík í fyrsta en vonandi ekki síðasta sinn og var einstaklega vel heppnuð. Boðið var til tónlistarveislu þar sem fram kom úrval frábærra tónlistarmanna úr ýmsum áttum. Meðal þeirra sem stigu þar á stokk var strengjahljómsveitin Tjarnastrengir úr Stórutjarnaskóla undir stjórn Mariku Alavere deildarstjóra tónlistardeildarinnar. Hljómsveitin samanstendur af fimm fiðlunemendum og einum píanónemenda og varð til vegna þátttöku nemenda á Nótunni 2023, Uppskeruhátíð tónlistarskólanna, sem haldin var í Hörpunni síðastliðinn vetur. Góður rómur var gerður að flutningi stelpnanna, sem stóðu sig auðvitað með mikilli prýði. Á vortónleikum nemenda í tónlistardeild Stórutjarnaskóla nýverið afhenti Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar tónlistardeildinni kr. 100.000 styrk fyrir hönd Framsýnar til kaupa á fiðlu, en þannig vildi félagið þakka Tjarnastrengjum og Mariku fyrir þeirra tillag til baráttudags verkalýðsins. Á meðfylgjandi myndum má annars vegar sjá Tjarnastrengi spila á hátíðarhöldunum á Húsavík og hins vegar þegar Ósk Helgadóttir afhendi tónlistardeildinni gjöfina frá Framsýn. Marika Alavere tók við gjöfinni og þakkaði Framsýn kærlega fyrir þessa veglegu gjöf. Mynd: Jónas Reynir.