Norðurþing tekur tillit til athugasemda vegna gjaldskrárhækkana

Töluvert hefur verið um að fjölskyldufólk með börn á framfæri hafi verið í sambandi við Skrifstofu stéttarfélaganna vegna gjaldskrárbreytinga hjá Norðurþingi um síðustu áramót. Í allt of mörgum tilfellum hafa hækkanirnar komið sér afar illa við fólk enda um að ræða verulegar hækkanir í ákveðnum tilfellum. Eftir samtöl við stjórnendur sveitarfélagsins og skoðun þeirra á kvörtunum viðkomandi íbúa hefur Fjölskylduráð Norðurþings ákveðið að endurskoða afsláttarkjörin á milli leikskóla og Frístundar sem ber að fagna enda afar erfitt fyrir marga að taka á sig verulegar hækkanir, jafnvel sem nema tugum prósenta.

Eftirfarandi var bókað í Fjölskylduráði, samkvæmt ákvörðun ráðsins er málið komið í leiðréttingafarveg:

Tillaga að endurskoðun á afsláttarkjörum á milli leikskóla og Frístundar. Málsnúmer 202402093

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar tillögu Jónasar Þórs Viðarssonar, fyrir hönd V lista, og Ísaks Más Aðalsteinssonar, fyrir hönd S lista, um að tenging afsláttakjara á milli leikskóla og frístundar fyrir 1.-4. bekk verði endurskoðuð, þ.e. að systkinaafsláttur fyrir systkini í leikskóla og Frístund verði settur á eins og áður var.

Helena Eydís Ingólfsdóttir, fyrir hönd D lista, Bylgja Steingrímsdóttir og Hanna Jóna Stefánsdóttir fyrir hönd B lista leggja fram eftirfarandi breytingartillögu um að tenging afsláttarkjara á milli leikskóla og frístundar fyrir 1.-4. bekk verði aftur komið á, afsláttarkjör verði 30% fyrir barn nr. 2 og 70% fyrir barn nr. 3. Ákvörðunin verði afturvirk til síðustu áramóta.

Jafnframt leggja undirritaðar til að tekjuviðmið verði endurskoðuð að nokkrum mánuðum liðnum þannig að þau endurspegli á sem bestan hátt tekjur íbúa sveitarfélagsins.

Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.

Fræðslufulltrúa er falið að uppfæra gjaldskrár og starfsreglur leikskóla og frístundar til samræmis og leggja fyrir ráðið.

Samninganefnd Framsýnar boðuð saman til fundar

Ákveðið hefur verið að kalla Samninganefnd Framsýnar saman til skyndifundar á morgun, föstudag, kl. 17:00. Í nefndinni eru rúmlega þrjátíu félagsmenn frá vinnustöðum á félagssvæðinu. Tilgangur fundarins er að fara yfir stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að og næstu skref. Þá verður tekið fyrir atvik sem átti sér stað í vikunni í Karphúsinu og tengist kjaraviðræðunum. Fyrir fundinum liggur tillaga um að ráðist verði í aðgerðir á félagssvæði Framsýnar til að knýja á um gerð kjarasamnings en verkafólk hefur verið án samnings frá 1. febrúar 2024. Framsýn telur ástandið ólíðandi með öllu. Nánari fréttir af fundinum verða birtar á heimasíðunni eftir fundinn á morgun.

Höfðinglegar móttökur

Starfsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fóru í náms- og kynnisferð til Færeyja um síðustu helgi. Með í för voru makar starfsmanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsemi verkalýðsfélaga og stöðu verkafólks og sjómanna í Færeyjum auk þess að heimsækja Aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum. Sendinefndinni frá Húsavík var alls staðar mjög vel tekið sem full ástæða er til að þakka kærlega fyrir.

Formaður Sjómannasambands Færeyja, Jan Højgaard, bauð gestunum í heimsókn í höfuðstöðvar sambandsins í Þórshöfn þar sem hann fór yfir stöðu sjómanna og komandi kjaraviðræður við atvinnurekendur. Fækkað hefur í sambandinu á undanförnum árum sem á sér þær helstu skýringar að fiskiskipum hefur fækkað um leið og þau hafa orðið stærri og öflugri. Sama þróun hefur verið á Íslandi. Þá þáði hópurinn boð til ræðismanns Íslands í Þórshöfn sem fór yfir hlutverk sitt og skrifstofunnar í Færeyjum sem og efnahagsástandið. Virkilega áhugaverð heimsókn. Það voru þær Ágústa Gísladóttir aðalræðismaður Íslands og Brynja Ósk Birgisdóttir fulltrúi sem tóku á móti gestunum og fóru yfir stöðu mála í Færeyjum. Þá var komið að því að heimsækja Færeyska verkamannasambandið sem lagði mikið upp úr því að taka vel á móti hópnum frá Íslandi. Formaður sambandsins, Georg F. Hansen fór fyrir fulltrúum stéttarfélaganna í Færeyjum, þau voru: Elin Sørensen, Maud Túgvustein, Amy Mortensen, Sonja Jógvansdóttir og  Jan Højgaard formaður Sjómannasambandsins sem valdi að taka jafnframt þátt í móttökunni hjá Færeyska verkamannasambandinu. Eftir góða kynningu á málefnum verkafólks í Færeyjum var gestunum boðið í kynnisferð um Færeyjar og í hádegisverð. Nýjustu göngin í Færeyjum voru meðal annars skoðuð en þau liggja til Sandeyjar sem eru um 11 km löng. Göngin eru glæsileg í alla staði en eins og kunnugt er leggja Færeyingar mikið upp úr góðum samgöngum á sjó og landi, eitthvað sem við Íslendingar gætum lært af. Að sjálfsögðu fannst forsvarsmönnum Færeyska verkamannasambandsins við hæfi að sýna gestunum frá Íslandi þorpið Húsavík enda komandi frá Húsavík á Íslandi. Ekki má svo gleyma því að heiðurshjónin Hilmar Joensen og frú Gunnvør Joensen frá Nolsoy, sem er rétt við Þórshöfn, litu til gestana frá Húsavík sem dvöldu á Hótel Hafnia meðan á ferðinni stóð. Formaður Framsýnar og Hilmar störfuðu um tíma saman að samnorrænu verkefni er tengist sjávarbyggðum og menningarlífi í smærri byggðalögum á Norðurlöndunum. Ferðir sem þessar eru mjög mikilvægar enda alltaf áhugavert að fræðast um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar í öðrum löndum um leið og þeim býðst að fræðast um stöðuna á Íslandi sem vakti reyndar athygli hjá þeim en fulltrúar Framsýnar fóru yfir stöðuna á Íslandi og yfirstandandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.

Flogið áfram til Húsavíkur

Vegagerðin hefur samið við flugfélagið Mýflug um flug frá Reykjavík til Húsavíkur út mars. Þrátt fyrir þessar breytingar verða engar áþreifanlegar breytingar á þjónustu við farþega, s.s. bókanir sem fara áfram í gegnum bókunarvél Ernis. Flognar verða fimm ferðir í viku á tímabilinu 1. mars til 31. mars. Flogið verður fjóra daga í viku milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugvélar af gerðinni Beechcraft King Air B200, sem er 9 farþegasæta vél, og Jetstream 32, sem tekur 19 farþega í sæti, verða notaðar í þetta verkefni. Flugleiðir þessar eru styrktar sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á þessum leiðum á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðunum. Framsýn mun halda áfram að berjast fyrir því að stjórnvöld komi að því að styðja við bakið á þessari flugleið til framtíðar enda afar mikilvægt að svo verði fyrir íbúa á svæðinu og alla þá fjölmörgu aðra sem treysta á flugið um Húsavíkurflugvöll. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að stéttarfélagsfargjöldin gilda áfram fyrir félagsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Fundað með þingmanni

Eins og kunnugt er hefur Framsýn alla tíð lagt mikið upp úr því að eiga gott samstarf við þingmenn kjördæmisins um málefni íbúa og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum enda eitt af hlutverkum félagsins að vinna að því efla svæðið á flestum sviðum til búsetu. Hvað það varðar, biðlaði Framsýn nýlega til þingmanna kjördæmisins um að koma að því með félaginu og öðrum stéttarfélögun á svæðinu að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Viðbrögð þingmanna hafa valdið miklum vonbrigðum svo ekki sé meira sagt með fáeinum undantekningum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG svaraði kalli félagsins ásamt Kára Gautasyni framkvæmdastjóra þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með því að óska eftir fundi með formanni Framsýnar til að kynna sér málið frekar. Komu þau við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær. Góðar umræður urðu um mikilvægi þess að fluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði viðhaldið með stuðningi frá ríkinu. Þá urðu umræður um atvinnu- og velferðarmál og yfirstandandi kjaraviðræður verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins sem eru í uppnámi um þessar mundir. Þrátt fyrir það er líklegt að viðræðum verði fram haldið á allra næstu dögum. Það mun væntanlega skýrast betur síðar í dag.

Nafnar í góðum gír

Hvolpurinn Kúti kom í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á dögunum. Tilgangurinn var ekki að leita eftir upplýsingum um helstu réttindi á vinnumarkaði, þess stað snerist heimsóknin um að heimsækja nafna sinn Kúta formann Framsýnar. Vel fór á með þeim nöfnum en hvolpurinn er ættaður frá einu þekktasta ræktunarbúi landsins í hundarækt, Ketilsstöðum á Tjörnesi. Kúti er framtíðar smalahundur og hefur fengið nýtt heimili þar sem honum er ætlað stórt hlutverk. Nokkuð er um að húsdýr og önnur dýr séu skýrð í höfuðið á formanni Framsýnar. Nýlega mátti m.a. sjá auglýsingu á netmiðli  þar sem Kúti var auglýstur til sölu, um var að ræða hestfolald sem fæddist 1. maí á baráttudegi verkafólks.  Eigandanum fannst því við hæfi að skýra folaldið í höfuðið á verkalýðsforingjanum á Húsavík. Þá hefur forystuhrúturinn Kúti vakið athygli en hann er til heimils á sauðfjárbúi sunnan við Húsavík og er að gera það gott.

Fjölmenningarfulltrúi Norðurþings – upplýsingar

Nele Marie Beitelstein hefur verið ráðin í starf fjölmenningarfulltrúa Norðurþings.

Fjölmenningarfulltrúi Norðurþings ber ábyrgð á málefnumsem snerta nýbúa og innflytendur í Norðurþingi.

Ef þú vilt bóka fund með henni til að hjálpa þér við að koma þér fyrir í samfélagi okkar og ræða hugleiðingar sem þú gætir haft varðandi skóla, íþróttir, tómstundir, leyfi, skráningar, félagsþjónustu á vegum sveitarfélagsins o.fl., vinsamlegast hafðu samband við hana í síma eða tölvupósti. Þú getur líka óskað eftir fundi eða einfaldlega komið við á skrifstofu sveitarfélagsins og óskað eftir samtali.

Tengiliðaupplýsingar:

nele@nordurthing.is

Síma 464 6113, Símatími mánudaga – föstudaga 8:00 – 14:00.

Skrifstofa er í stjórnsýsluhúsi Norðurþings, Ketilsbraut 7-9, 640 Húsavík. Opnunartími er mánudaga – fimmtudaga 10:00 – 14:00, föstudaga 10:00 – 13:00.

Multicultural representative of Norðurþing

Nele Marie Beitelstein has been hired as the multicultural representative of Norðurþing.

The multicultural representative is responsible for the matters of new residents and immigrants in the municipality of Norðurþing .

If you would like to book a meeting with her to help you settle into our community and discuss any concerns you may have regarding schools, sports, leisure, licensing, registration, community services etc. please contact her by phone and email. You can also ask for a meeting or simply stop by at the municipality office for direct contact. 

Contact Information:

nele@nordurthing.is

By phone 464 6113, Telephone hours are Monday – Friday 8:00 – 14:00.

The office is located in the administrative building of Norðurþing, Ketilsbraut 7-9, 640 Húsavík. Opening hours are Monday – Thursday 10:00 – 14:00, Friday 10.00 – 13:00.

Rzecznik miedzykulturowy  – informacje

Nele Marie Beitelstein została zatrudniona w funkcji rzecznika miedzykulturowego dla gminy Norðurþing.

Rzecznik międzykulturowy zajmuje się sprawami dotyczacymi osób nowo przybyłych oraz imigrantów zmieszkałych w gminie Norðurþing.

Jeśli chcesz uzyskać praktyczne wskazówki dotyczace naszej spoleczności oraz zaczerpnąć informacji o szkołach, organizacjach i zajęciach sportowych oraz pozaszkolnych, pozwoleniach, sprawach urzędowych, gminnej pomocy społecznej i wiele innych wskazówek, proszę zajrzyj do nas, do urzędu gminnego Norðurþing mieszczącego się przy ulicy Ketilsbraut 7-9 w Húsavíku.

Dane kontaktowe:

nele@nordurthing.is

Tel. 464 6113, Dyżury telefoniczne: poniedziałek – piątek 8:00 – 14:00.

Biuro znajduje się w budynku gminnym Norðurþing, Ketilsbraut 7-9, 640 Húsavík.

Godziny otwarcia: poniedziałek – czwartek 10:00 – 14:00, piątek 10:00 – 13:00.

Einhugur um að efla samstarfið um fjölmenningarmál

Nele Marie Beitelstein sem ráðin hefur verið í starf fjölmenningarfulltrúa Norðurþings fundaði með starfsmönnum stéttarfélaganna í vikunni. Vilji er til þess að efla samstarfið milli aðila með það að markmiði að gera samfélagið okkar betra fyrir alla þá sem velja að flytja inn og svæðið og setjast hér að. Eins og kunnugt er hefur erlendum íbúum fjölgað verulega á félagssvæði stéttarfélaganna sem nær yfir sveitarfélögin, Norðurþing, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit. Stéttarfélögin hafa þegar brugðist við þessu með því að ráða Agnieszku Szczodrowsku til starfa hjá stéttarfélögunum en hún kom til starfa á síðasta ári.

Nele er með BA gráðu Visual arts, music og Fjölmiðlun og MA próf í Hagnýt fjölmiðla og Menningarfræðum frá háskólanum í Merseburg í Þýskalandi. Nele hefur starfað í ferðaþjónustu og nú síðast sinnt stöðu fjölmenningarfulltrúa sveitarfélagsins í afleysingu. Nele hefur jafnframt sinnt félagsstörfum fyrir Rauða krossinn sem og öðrum félagsstörfum.

Allir í leikhús – Leikdeild Eflingar klikkar ekki

Þá er komið að því. Leikdeild Umf. Eflingar frumsýnir leikverkið „Í gegnum tíðina“ 1. mars næstkomandi. Verkið er í leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen. Leikskáldið í Reykjadal, sjálfur Hörður Þór Benónýsson, skrifaði leikritið sem fjallar um líf fjölskyldu á árunum milli ca 1950-1990 og er söngdagskrá með lögum frá þessum tíma fléttað inn í söguna. Já sæll, bara frábært! 

Að sjálfsögðu ætla stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og STH að niðurgreiða miða á sýninguna fyrir félagsmenn á öllum aldri. Félagsmenn fá kr. 1.000,- í afslátt per miða en fullt verð er kr. 3.800,-. En munið, félagsmenn sem vonandi fjölmenna á sýninguna, þurfa að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna áður en þeir fara á sýninguna. Á skrifstofunni fá þeir afsláttarmiða sem þeir framvísa síðan við innganginn þegar þeir greiða fyrir miðann. Ekki flókið, skorum á alla að skella sér á leikritið á Breiðumýri, örugglega frábær kvöldstund.

Vinsamlegur fundur með Samkaupum

Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hittust á fundi síðasta mánudag til að ræða verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík,  umræður urðu reyndar líka um verslun Samkaupa í Mývatnssveit. Fram kom að ekki stendur til að breyta þeirri verslun frá því sem nú er undir merkjum Krambúðar.

Varðandi verslunina Nettó á Húsavík þá gerðu forsvarsmenn Framsýnar grein fyrir umræðu í samfélaginu um óánægju heimamanna með stöðu mála. Töldu þeir mikilvægt að núverandi verslun yrði gerð aðgengilegri með breytingum á uppsetningu verslunarinnar og vöruúrvalið tæki mið af þörfum viðskiptavina á hverjum tíma. Heimafólk kvartaði oft yfir því að það væri skortur á dagvörum í versluninni sem gerði það að verkum að fólk færi í auknum mæli til Akureyrar í verslunarferðir. Þá væru verslunarkeðjur á Akureyri auk þess farnar að bjóða upp á heimsendingaþjónustu til Húsavíkur þar sem þær fyndu fyrir óánægju viðskiptavina Nettó á Húsavík með verslunina.

Samkaup hefur gefið það út að til standi að byggja upp öflugan verslunarkjarna á svæðinu. Framsýn legði mikið upp úr því að áherslur félagsins næðu fram að ganga, öflugur matvörumarkaður væri forsendan fyrir því að önnur verslun þrifist á Húsavík. Að þessum markmiðum væri félagið tilbúið að vinna með Samkaupum og öðrum verslunareigendum á Húsavík og í næsta nágrenni. Þá væri afar mikilvægt að Samkaup skipti við framleiðendur í Þingeyjarsýslum og kæmi jafnframt að því að styrkja samfélagið almennt með framlögum s.s. til æskulýðs, íþrótta og menningarmála.

Forsvarsmenn Samkaupa tóku ábendingum Framsýnar mjög vel. „Verslunarfermetrar að Garðarsbraut 64 eru of fáir og er það stóra áskorun okkar í dag“ segir Gunnar Egill Forstjóri Samkaupa.  Á síðustu árum hafa margir kostir verið skoðaðir á svæðinu með tilliti til fjölgun verslunarfermetra. Má þar nefna að flytja núverandi verslanir á einn stað annarsstaðar í bænum eða byggja við annað hvort Garðarsbraut 5 eða 64. Hafa þessar umleitanir síðustu ára ekki leitt til árangurs og þeim því hætt. Því hafði forstjóri Samkaupa samband við sveitastjóra Norðurþings síðasta haust og óskaði eftir samtali um lóðir sem vænlegt væri að byggja á til framtíðar. Leiddi þetta samtal til þess að nú stendur yfir skipulagsvinna varðandi lóð í landi Húsavíkur við Norðausturveg og stefnt þar að uppbyggingu verslunarkjarna með 1.300 fermetra Nettó verslunar auk annarrar þjónustu.

„Núverandi verslunarrými að Garðarsbraut 64 hefur verið stækkað tvívegis síðustu ár en góð verslun heimamanna og gesta hefur enn á ný gert verslunarrýmið of lítið. Stjórnendur og starfsfólk okkar hefur staðið sig frábærlega á svæðinu við þjónustu við viðskiptavini að mínu mati. En í ljósi stöðunnar munu þau ráðast í í endurskoðun á vöruvali verslunarinnar, breyta uppröðun eins og kostur er og rýmka núverandi rými eins og kostur er þangað til ný verslun getur risið. Samkaup hefur stutt við bakið á mörgum samfélagslegum verkefnum á svæðinu síðustu ár og verslað við heimaaðila eins og kostur er og mun gera það áfram“ segir Gunnar að lokum.

Forsvarsmenn Samkaupa og Framsýnar sammæltust um að vera í góðu sambandi hvað það varðar að efla verslunarrekstur á Húsavík. Framsýn mun fylgja málinu eftir af fullum þunga íbúum til hagsbóta.

Kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda strax – flugsamgöngur í verulegri hættu

Komi ekki til kraftaverk verður áætlunarflugi til Húsavíkur hætt um næstu mánaðamót á vegum Flugfélagsins Ernis. Það sem af er vetri hefur flugfélagið fengið tímabundinn ríkisstyrk með fluginu til Húsavíkur sem klárast um næstu mánaðamót. Full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Forsvarsmenn Framsýnar hafa verið í sambandi við stjórnendur flugfélagsins, sveitastjórnarmenn stjórnvöld og þingmenn Norðausturkjördæmis með það að markmiði að mynda breiðfylkingu um áframhaldandi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir Þingeyinga og alla þá sem treysta þurfa á öruggar flugsamgöngur milli landshluta að fluginu verði viðhaldið.

Framsýn hefur þegar komið áhyggjum sínum á framfæri við þingmenn kjördæmisins og forsvarsmenn ríkistjórnarinnar með meðfylgjandi bréfi:  

Ágætu þingmenn

Flugfélagið Ernir hóf að fljúga til Húsavíkur í apríl 2012. Þá höfðu flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur legið niðri í tæp 12 ár. Frá þeim tíma hafa forsvarsmenn flugfélagsins átt mjög gott samstarf við heimamenn um flugið enda mikilvæg samgönguæð milli landshluta.

Forsvarsmenn fyrirtækja, sveitarfélaga, stéttarfélaga, ríkisstofnana, sem og íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið.

Hvað ákall heimamanna varðar um viðunandi samgöngur, hefur Framsýn stéttarfélag nánast frá upphafi komið að því að styrkja flugleiðina Reykjavík-Húsavík með magnkaupum á flugmiðum fyrir sína félagsmenn, sem eru rúmlega þrjú þúsund, auk þess sem félagið hefur komið að markaðssetningu flugfélagsins hvað varðar áætlunarflug til Húsavíkur.

Markmið Framsýnar hefur verið að tryggja flugsamgöngur inn á svæðið og tryggja um leið flugfargjöld á viðráðanlegu verði fyrir félagsmenn, sem margir hverjir hafa lítið á milli handanna. Almennt má segja að mikil ánægja hafi verið meðal félagsmanna Framsýnar og íbúa í Þingeyjarsýslum með frumkvæði félagsins að stuðla að því að tryggja flugsamgöngur í góðu samstarfi við aðra hagsmunaaðila. Vissulega hefur gefið á móti, en fram að þessu hafa menn komist klakklaust í gegnum brimskaflana hvað áætlunarflugið varðar.

Eins og þingmönnum er vel kunnugt um hefur rekstrargrundvöllur fyrir innanlandsflugi ekki verið upp á marga fiska og því hefur ríkið þurft að koma að því að ríkisstyrkja nokkrar flugleiðir með útboðum eða með sértækum aðgerðum, s.s. til Vestmannaeyja og Húsavíkur. Styrkurinn til Húsavíkur kom til á síðasta ári þegar núverandi eigendur Flugfélagsins Ernis gáfu út að þeir væru að gefast upp á flugi til Húsavíkur nema til kæmi ríkisstuðningur á flugleiðinni, líkt og væri með annað áætlunarflug til smærri staða á Íslandi. Í kjölfarið kom Vegagerðin að því tímabundið að styrkja flugleiðina.

Nú er svo komið að áætlunarflugi til Húsavíkur verður hætt um næstu mánaðamót fáist ekki frekari stuðningur frá ríkinu. Undirritaður fh. Framsýnar hefur fundað með forsvarsmönnum flugfélagsins síðustu daga, þar sem þetta hefur verið staðfest. Fari svo að fluginu verði hætt, sem flest virðist því miður benda til, er um að ræða gríðarlegt reiðarslag fyrir Þingeyinga og alla þá aðra sem eiga erindi inn á svæðið.

Höfum í huga að fjölmargir þurfa að reiða sig á flugið fyrir utan svokallaða hagsmunaaðila sem nefndir eru hér að ofan, það er allur sá fjöldi sem þarf af heilsufarsástæðum að leita lækninga og sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treystir á öruggar flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Svo ekki sé talað um útgjöldin sem munu stóraukast, ekki síst hjá efnalitlu fólki, hætti áætlunarflugið um mánaðamótin.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar fimmtudaginn 15. febrúar var formanni félagsins falið að skrifa þingmönnum kjördæmisins bréf þar sem kallað verði eftir stuðningi þeirra við að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Þess er vænst að þingmenn svari ákalli Þingeyinga og gangi til liðs við heimamenn í þessu mikilvæga í atvinnu- og  byggðamáli.

Fulltrúar Framsýnar eru reiðubúnir að funda með þingmönnum og/eða veita þeim frekari upplýsingar verði eftir því leitað enda mikilvægt að þingmenn séu vel upplýstir um málið.

Húsavík 16. febrúar 2024

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

The union´s office is closed on 22nd and 23rd of February.

Due to a study and staff tour of the unions’ employees on Thursday and Friday next week, i.e. February 22nd and 23rd, the unions’ office will be closed during this time. Employees will be out of service area during this time. This is not least why it is important that members stop by after the weekend if they have business with the office staff, e.g. regarding renting holiday apartments. We apologize for any inconvenience because of this.

The union´s staff

Sjómenn samþykktu kjarasamninginn

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem undirritaður var þann 6. febrúar, lauk kl. 15:00 í dag. Framsýn á aðild að samningnum fyrir fh. sjómanna innan félagsins.

Á kjörskrá voru 1.104 félagsmenn innan aðildarfélaga Sjómannasambandsins og greiddu 592 atkvæði um samninginn eða 53,62%.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er þessi:

Af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 61,99%, 217 sögðu nei eða 36,66% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1,35%.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Full ástæða er til að óska sjómönnum til hamingju en þeir hafa verið samningslausir frá árslokum 2019.

Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð 22. og 23. febrúar

Vegna náms- og kynnisferðar starfsmanna stéttarfélaganna fimmtudaginn og föstudaginn í næstu viku, það er 22. og 23. febrúar verður Skrifstofa stéttarfélaganna lokuð á þessum tíma. Starfsmenn verða utan þjónustusvæðis á þessum tíma. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að félagsmenn komi við eftir helgina, eigi þeir erindi við starfsmenn skrifstofunnar s.s. vegna leigu á orlofsíbúðum. Beðist er velvirðingar á þessu.

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna

Funda með Samkaup á mánudaginn

Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hafa komið sér saman um að funda á mánudaginn um verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík og á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum en Samkaup rekur þrjár verslanir á svæðinu. Eins og fram hefur komið hefur verið megn óánægja meðal viðskiptavina með Nettóbúðina á Húsavík. Málið var tekið upp á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sem haldinn var í janúar. Þar var skorað á forsvarsmenn félagsins að beita sér í málinu, það er að Samkaup taki sig á og komi til móts við viðskiptavini með betri og hagkvæmari verslun. Málið var einnig til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gærkvöldi. Aðilar, það er Samkaup og Framsýn, hafa þegar haldið einn símafund um málið en munu hittast á formlegum fundi á mánudaginn til að ræða málið frekar. Fyrir liggur að Framsýn mun þrýsta á Samkaup að gera betur í verslunarrekstri á Húsavík og sem fyrst verði hafist handa við að byggja upp nýja verslun með góðu aðgengi fyrir viðskiptavini og vöruverði eins og best gerist í stórmörkuðum á Íslandi.

Þingiðn hefur áhyggjur af stöðu kjaramála

Stjórn Þingiðnar kom saman til fundar í vikunni. Tilefnið var ekki síst að ræða stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem félagið á aðild að enda eitt af aðildarfélögum Samiðnar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum slitnaði upp úr viðræðum aðila þar sem SA felst ekki á forsenduákvæði verkalýðshreyfingarinnar í fjögra ára samningi. Samningaviðræðurnar eru því í hnút. Samhliða kjaraviðræðunum hafa samningsaðilar átt fundi með stjórnvöldum og samtökum sveitarfélaga um aðkomu þeirra að samningunum.

Hvað önnur mál varðar sem voru til umræðu á fundinum var ákveðið að stefna að aðalfundi félagsins í lok apríl. Ákveðið var að skoða með að breyta merki félagsins og nútímavæða það. Framkvæmdir við íbúð félagsins í Hraunholti ganga vel og samþykkt var að skipta kostnaðinum við kaupin milli orlofs- og sjúkrasjóðs. Samþykkt var að hækka námstyrki til félagsmanna verulega og miða við að hækkanir gildi frá 1. janúar 2024. Golfklúbbur Húsavíkur stendur í miklum framkvæmdum við uppbyggingu starfseminnar á Húsavík. Klúbburinn hefur verið að leita eftir stuðningi úr samfélaginu, þar á meðal frá Þingiðn. Umræður urðu um málið. Stjórnin taldi að vel hefði tekist með hátíðarhöldin 1. maí á síðasta ári sem voru flutt úr höllinni á hótelið. Mælt er með því að hátíðarhöldin í ár verði með svipuðu sniði. Félagið stendur fyrir trúnaðarmannanámskeiði í byrjun mars með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Töluverðar umræður urðu um flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem eru í verulegri hættu. Áfram verður barist fyrir því að flugið milli þessara áfangastaði haldi áfram.

Húsavíkurstofa í karphúsinu

Þegar formaður Framsýnar kom í húsnæði ríkissáttasemjara í byrjun síðustu viku var vel tekið á móti honum af Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara en Aðalsteinn Árni hefur tekið þátt í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir síðustu vikurnar með hléum milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Tilefnið var ekki síst að sýna formanni Framsýnar ljósmyndir sem teknar voru á Húsavík í byrjun síðustu aldar af húsum og vinnandi verkafólki. Myndunum hefur verið komið fyrir í karphúsinu, það er í einu af þeim herbergjum þar sem kjaraviðræðurnar fara fram. Svo gæti farið að næstu kjarasamningar verði undirritaðir í herberginu góða sem gengur undir nafninu Húsavíkurstofa hjá forsvarsmönnum Framsýnar.

Sumarhús 2024 -opnað fyrir umsóknir

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús og íbúðir sumarið 2024. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og umsóknareyðublað hér á heimasíðunni. Frestur til að sækja um orlofskosti á vegum félaganna er til 10. apríl 2024. Strax í kjölfarið verður húsunum  úthlutað til félagsmanna. Þá liggur frammi Fréttabréf á Skrifstofu stéttarfélaganna og í öllum helstu verslunum á svæðinu með upplýsingum um orlofskosti stéttarfélaganna, það er allt frá Mývatnssveit til Þórshafnar. Félögin hafa jafnframt áveðið að standa fyrir sumarferð á Langanes um miðjan júní. Ferðin verður auglýst nánar síðar.

Líf og fjör á Öskudaginn

Öskudagurinn á Húsavík hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum manninum í bænum fagra við Sjálfanda. Alls konar karakterar, sumir sælir en aðrir all rosalegir, hafa verið vappandi um göturnar í dag með poka í hönd eða á baki. Heilsað hefur verið upp á fyrirtæki og stofnanir um allar trissur og sungið í skiptum fyrir mæru. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á Skrifstofu stéttarfélaganna en fjöldi barna sem og fullorðnir hafa komið við og tekið lagið. Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Næstu skref í kjarabaráttu félagsmanna til umræðu

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar sem janframt er samninganefnd félagsins kemur saman til fundar á morgun kl. 17:00 í fundarsal félagsins ásamt stjórn Framsýnar-ung. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins en um þrjátíu félagsmenn sitja í þessum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Kjaramál verða án efa fyrirferðarmikil á fundinum enda ósamið er við Samtök atvinnulífsins. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Kjarasamningur sjómanna

4. Staðan í kjaraviðræðum

5. Orlofskostir 2024

6. Varða-rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins

7. Samkaup

8. Tillögur laganefndar

9. Hátíðarhöldin 1. maí

10. Utanlandsferð trúnaðarráðs

11. Flugsamgöngur Hús-Rvk

12. Hraunholt 28

13. ÞÞ-stjórnarkjör

14. Starfsmannaferð

15. Erindi frá Golfklúbbi Húsavíkur

16. Þorrasalir 1-3

17. Útbreiðsla á Fréttabréfinu

18. Bjarg íbúðafélag

19. Önnur mál