Aukum öryggi starfsfólks í verslun

VR, LÍV og SVÞ hafa tekið höndum saman til að stuðla að auknu öryggi verslunarfólks á Íslandi en bæði starfsfólk í verslun og atvinnurekendur hafa áhyggjur af vaxandi ofbeldi og áreitni gagnvart verslunarfólki í starfi. Fulltrúar allra aðila undirrituðu í dag, 16. júní, minnisblað sem leggur grunninn að frekara samstarfi á þessum vettvangi. Framsýn á aðild að samkomulaginu fyrir sína félagsmenn.

VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Samtök verslunar og þjónustu sammælast um það í minnisblaðinu að setja á laggirnar vinnuhóp sem í munu sitja fulltrúar bæði launafólks og atvinnurekenda. Verkefni hópsins eur meðal annars að draga fram þær áskoranir og hættur sem varða öryggi starfsfólks verslana. Vinnuhópurinn mun taka saman yfirlit yfir aðgerðir sem fyrirtæki hafa gripið til, verklag og viðmið sem gagnast gætu öðrum fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Þá mun hópurinn setja saman lista með hugmyndum um önnur viðbrögð eða vinnulag sem gagnast gæti í baráttunni gegn ofbeldi í verslun.
Fyrirhugað er að starfi vinnuhópsins ljúki fyrir lok október 2025. LÍV, VR og SVÞ munu nýta niðurstöðurnar til frekara samstarfs og samtals við stjórnvöld.

Í könnun VR meðal félagsfólks kom fram að yfir helmingur allra VR félaga hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum, eða 54%. Svipað hlutfall á við um sölu- og afgreiðslufólk. Könnunin var gerð haustið 2023 (sjá hér frétt um könnunina). 
Sjá minnisblaðið hér.

Áhugaverð störf í boði hjá Þingeyjarsveit

Leikskóladeildin Krílabær á Laugum auglýsir lausar stöður frá miðjum ágúst 2025:

  • Tvær 80-100% stöður leikskólakennara.
  • Eina 60% stöðu við matseld og aðstoð á deild.

Krílabær er önnur tveggja leikskóladeilda Þingeyjarskóla sem er samrekinn leik- og grunnskóli í Þingeyjarsveit. Nemendur Krílabæjar eru 6 talsins. Áhersla er lögð á góð tengsl, tákn með tali og unnið er eftir stefnunni um jákvæðan aga

80-100% stöður leikskólakennara

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Að vinna að uppeldi og menntun leikskólabarna samkvæmt stefnu og skipulagi skólans.
  • Vinna í nánu samstarfi við foreldra/forráðafólk nemenda.
  • Sinna verkefnum er varða uppeldi og menntun nemenda sem yfirmaður leikskólans felur honum.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Leikskólakennaramenntun, uppeldismenntun eða önnur menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
  • Færni í samskiptum.
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð.
  • Góð íslenskukunnátta.

Við leitum að starfsfólki sem:

  • Treystir sér í faglega og metnaðarfulla vinnu.
  • Hefur brennandi áhuga á að starfa með börnum og ber virðingu fyrir þeim.

60% staða við matseld og aðstoð á deild

Möguleiki er á hærra starfshlutfalli með meiri viðveru á deild.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Elda og bera fram hollan og góðan mat fyrir nemendur og starfsfólk Krílabæjar, u.þ.b. 10 manna hóp í samræmi við matseðil yfirmatráðs Þingeyjarskóla.
  • Ganga frá eftir matartíma og  þrífa og sótthreinsa eldhús samkvæmt gæðahandbók mötuneytis Þingeyjarskóla.
  • Aðstoða yfirmatráð Þingeyjarskóla við pantanir fyrir Krílabæ og taka á móti vörum.
  • Taka þátt í uppeldi og umönnun barnanna í Krílabæ.

Við leitum að starfsfólki sem:

  • Vill vinna eftir ítrustu kröfum um hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla.
  • Er lausnamiðað og vill vinna í teymi
  • Ber virðingu fyrir börnum.

Umsóknarfrestur er til og með 26. júní 2025 og skulu umsóknir berast á netfangið nanna@thingskoli.is. Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um. Frekari upplýsingar um störfin veitir Nanna Marteinsdóttir leikskólastjóri Þingeyjarskóla í gegnum tölvupóst nanna@thingskoli.is  og í síma 464-3590/898-0790.

Á hvaða vegferð eru stjórnvöld?

Það er með miklum ólíkindum að stjórnvöld ætli að slá sig til riddara með því að laga kjör öryrkja með því að ráðast á lífeyrisréttindi verkafólks þegar það fer á eftirlaun. Vissulega er það kaldhæðnislegt að kostnaðurinn sem mun leggjast á lífeyrisréttindi verkafólks nemur skv. umsögn Samtaka atvinnulífsins 8,8 milljörðum á ári sem er nánast sama upphæð og veiðileyfisgjöldin eiga að skila þjóðarbúinu! Sérstaklega fimm lífeyrissjóðir verkafólks verða fyrir barðinu á þessu glórulausa frumvarpi þ.e.a.s Stapi lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrisjóður Vestmannaeyja en allir þessir sjóðir munu þurfa að skerða ellilífeyri og réttindaávinnsluna umtalsvert eða frá 5% upp í allt að 7,5% skv. mati tryggingarstærðfræðings verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins skrifar um málið á Vísi. Lesa má greinina hér að neðan en full ástæða er til að koma í veg fyrir þennan gjörning. Markmiðið með frumvarpinu er að rýra eftirlaun verkafólks sem margir hverjir hafa greitt í lífeyrissjóð alla sína æfi.

https://www.visir.is/g/20252738906d?fbclid=IwY2xjawK8BppleHRuA2FlbQIxMQBicmlkETBLendQeEljNzBrbWt2S3dIAR5Aw7Ywb2ODGu6cX17Ed8fDp1C8zGeqBEYOcd1AgOfIX5MBrF6rG8SDhowXPg_aem_ziZPInnXMTT1d3FCwG4h4A

Könnun frá Vörðu um stöðu launafólks

Félagsmönnum Framsýnar, STH og Þingiðnar hefur borist tölvupóstur sem inniheldur hlekk á könnun frá Vörðu-Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um stöðu launafólks á Íslandi. Könnunin, sem er ætluð aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB, er nú framkvæmd fimmta árið í röð. Skorað er á félagsmenn stéttarfélaganna að taka þátt í könnuninni.

Félagsfólk er hvatt til að svara könnuninni.

Meðferð persónuupplýsinga er samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem og persónuverndarstefnu Vörðu. Persónuupplýsingar eru aðskildar frá svörum og þess gætt í öllum greiningum að þær séu ekki persónugreinanlegar.

Þau sem kunna að hafa spurningar um könnunina geta sent tölvupóst á rannvinn@rannvinn.is.

Vorskýrsla Kjaratölfræðinefndar 2025

Kjarasamningar til ársins 2028 hafa verið undirritaðir fyrir nær allt launafólk bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði í yfirstandandi samningalotu sem hófst í febrúar 2024. Samningar fyrir flest launafólk voru gerðir á tímabilinu mars til september 2024. Síðasti stóri samningurinn í lotunni sem var gerður í febrúar 2025 fól í sér þá nýlundu að vera sameiginlegur samningur ríkis og sveitarfélaga við öll aðildarfélög KÍ. Hann byggði á innanhússtillögu ríkissáttasemjara og er nokkuð frábrugðinn öðrum samningum í lotunni. Í heildina má áætla að gerðir hafi verið nærri 250 kjarasamningar í núverandi samningalotu á vettvangi þeirra aðila sem aðild eiga að Kjaratölfræðinefnd og var félagsfólk á kjörskrám stéttarfélaga í þessum samningum tæplega 189 þúsund.

Sundurliðuð gögn KTN um launaþróun liggja fyrir til janúar 2025 og er töluverður munur á þróun milli markaða frá upphafi samningalotunnar í febrúar 2024. Laun hækkuðu mest á almenna markaðnum þar sem tvær kjarasamningsbundnar hækkanir komu til framkvæmda en minna á opinberum markaði þar sem aðeins ein hækkun var á tímabilinu og samningum kennara var ólokið. Önnur hækkun á opinberum vinnumarkaði kom til framkvæmda í apríl 2025 og samningum kennara lauk í febrúar sem ekki endurspeglast í gögnum KTN að þessu sinni.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu kjaratölfræðinefndar þar sem fjallað er um þróun efnahagsmála og launa,  vinnumarkaðsmál og kjarasamninga.

Grunntímakaup, sem best endurspeglar umsamdar launahækkanir, hækkaði um 10,2% á almennum markaði á tímabilinu frá janúar 2024 til janúar 2025 en hækkunin nam 5,7% hjá ríki og Reykjavíkurborg og 6,1% hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur. Í samningalotunni var almennt farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana og eru launahækkanir því hlutfallslega mestar á lægri laun.

Að teknu tilliti til verðlagsþróunar hafði kaupmáttur grunntímakaups í janúar 2025 aukist um 4,2% frá upphafi samningalotunnar. Á almennum vinnumarkaði var kaupmáttaraukningin 5,3%, hjá ríki og Reykjavíkurborg 1,0% og hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur um 1,4%.

Áhersla á krónutöluhækkanir í kjarasamningum á undanförnum árum hefur leitt til þess að munur á hæstu og lægstu launum á vinnumarkaði hefur dregist saman og lækkuðu tíundastuðlar markvert á árunum 2019-2022. Á síðustu tveimur árum hefur sú þróun haldið áfram á opinberum vinnumarkaði en lítilsháttar viðsnúningur orðið á almennum markaði. 

Í skýrslu kjaratölfræðinefndar er einnig fjallað um efnahags- og vinnumarkaðsmál. Þar er meðal annars umfjöllun um þróun verðlags, vaxta, opinberra fjármála og framleiðni. Auk umfjöllunar um þróun vinnumarkaðar, atvinnuþátttöku ólíkra hópa og búferlaflutninga og hagsveiflur.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 2,7% árið 2023 og 2,8% í fyrra sem er mun meira en kaupmáttur launa. Háir vextir og verðhækkanir hafa þrengt að mörgum heimilum en fjárhagsstaða heimilanna er heilt yfir sterk og vanskil lítil í sögulegu tilliti.

Dregið hefur úr spennu á vinnumarkaði og starfandi fólki fjölgar hægar en áður. Atvinnuástandið er áfram gott og atvinnuþátttaka mikil. Á síðustu áratugum er töluverð fylgni milli hagsveiflna og búferlaflutninga þannig að þegar hægist um í efnahagslífinu dregur úr flutningi fólks til landsins og eru vísbendingar um að svo sé einnig nú.

Munur á hlutfalli starfandi kvenna og karla er meiri meðal þeirra sem eru með ung börn á framfæri en í öðrum hópum. Þó dregið hafi úr þeim mun á undanförnum áratugum er enn mun meiri munur á atvinnuþátttöku kynjanna í þessum hópi en hjá þeim sem ekki hafa börn á framfæri.

Vorskýrslu KTN og fylgigögn má finna á vef kjaratölfræðinefndar ktn.is

Nánari upplýsingar veitir Hrafnhildur Arnkelsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar í síma: 860 1961.

Ungur nemur, gamall temur

Nemendur úr Vinnuskólanum á Húsavík komu í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í gærmorgun. Tilgangurinn var að fá kynningu á starfsemi félagsins og fræðast um vinnumarkaðinn nú þegar þau eru að stiga sín fyrstu skref út í atvinnulífið. Aðalsteinn J. Halldórsson tók vel á móti gestunum og fór yfir viðfangsefni dagsins með þeim. Virkilega ánægjuleg heimsókn.

Framsýn kallar eftir frekari uppbyggingu Bjargs á Húsavík

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar stéttarfélags þriðjudaginn 3. júní var samþykkt samhljóða að fela formanni félagsins að skrifa sveitarfélaginu Norðurþingi og Bjargi íbúðafélagi bréf og hvetja til þess að samstarfsaðilar haldi áfram uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á Húsavík að norræni fyrirmynd.

Mikil gleði og hamingja er með raðhúsið sem reis á methraða við Lyngholtið á Húsavík í vor sem Norðurþing og Bjarg stóðu að. Sé tekið mið af þeim mikla fjölda umsækjenda um íbúðirnar sex í raðhúsinu er greinilega mikil þörf fyrir frekari uppbyggingu á íbúðum sem þessum en yfir 40 einstaklingar sóttust eftir því að komast inn í húsnæðið samkvæmt upplýsingum frá Bjargi.

Framsýn horfir sérstaklega til þess að leiguheimili Bjargs eru ætluð fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum auk þess að hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB samkvæmt viðmiðunarreglum Bjargs.

Þess er vænst að sveitarfélagið Norðurþing og Bjarg íbúðafélag taki mjög jákvætt í erindi Framsýnar og hefji undirbúning að frekari uppbyggingu á Húsavík enda þörfin mikil.

Skrifað undir í morgun við FSH           

Stjórnendur Framsýnar og Framhaldsskólans á Húsavík hafa undanfarið átt í viðræðum um nýjan stofnanasamning fyrir starfsmenn skólans sem starfa eftir kjarasamningi félagsins. Viðræðurnar hafa gengið mjög vel og kláruðust þær í morgun með undirskrift aðila.  Breytingarnar koma til með að veita stjórnendum skólans aukið svigrúm til að launasetja starfsmenn í launatöflu m.v. hæfni, ábyrgð, reynslu og menntun sem gagnast í starfi. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, þakkaði Valgerði Gunnars skólameistara fyrir ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina, sem hefur verið farsælt í alla staði, en hún lætur af störfum í sumar sem skólameistari FSH. Í hennar tíð hefur skólinn tekið verulegum breytingum, búið er að taka skólahúsnæðið allt í gegn og er hann orðinn mjög aðlaðandi fyrir nemendur og kennara. Full ástæða er til að hvetja ungt fólk sem útskrifast úr Borgarhólsskóla að hefja nám við skólann. Frábær skóli.

Fundað með nefndum, ráðum, stjórnvöldum og sveitarstjórnum

Forsvarsmenn PCC leita nú allra ráða til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins á Bakka en eins og fram hefur komið var stórum hluta af starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp þann 1. júní sl. í hópuppsögn. Uppsagnirnar eru tilkomnar, ekki síst, vegna verðfals á erlendum mörkuðum sem nemur tugum prósenta. Þá hefur flutningur á málmi frá Kína til frekari vinnslu í álverum á Íslandi jafnframt skaðað rekstur fyrirtækisins. Fundað hefur verið með nefndum Alþingis, þingmönnum, ráðherrum og sveitarstjórnarmönnum svo eitthvað sé nefnd. Að sjálfsögðu taka talsmenn Framsýnar og Þingiðnar reglulega fundi með stjórnendum fyrirtækisins um stöðuna. Einn slíkur fundur er fyrirhugaður í fyrramálið. Afar mikilvægt er fyrir þjóðarbúið að tryggja frekari rekstur fyrirtækisins á Húsavík enda umsvif þess mikil á svæðinu auk þess sem það skapar töluverðar gjaldeyristekjur.

Líf við Húsavíkurhöfn

Töluvert er um ferðamenn á Húsavík um þessar mundir og verður svo vonandi áfram. Í morgun komu tvö skemmtiferðaskip til hafnar á Húsavík fulllestuð af ferðamönnum. Von er á mörgum skemmtiferðaskipum í sumar enda fullt af fallegu fólki í Þingeyjarsýslum sem vert er að skoða svo ekki sé talað um allar náttúruperlunnar.

Samningaviðræður í gangi við Náttúruverndarstofnun

Starfsgreinasamband Íslands á nú í viðræðum við Náttúruverndarstofnun um stofnanasamning fyrir landverði sem eru í stéttarfélögum innan sambandsins, þar á meðal Framsýnar. Náttúruverndarstofnun tók nýlega við verkefnum sem snúa að náttúruvernd, lífríkis- og veiðistjórnun hjá Umhverfisstofnun og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Stofnunin fer með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá sinnir stofnunin samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á ofangreindum sviðum.

Starfsgreinasambandið var fyrir með stofnanasamning við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun sem eftir sameiningu nefnist Náttúruverndarstofnun. Því þarf að semja við nýja stofnun. Formaður Framsýnar er í samninganefnd Starfsgreinasambandsins sem fer fyrir samningnum fh. aðildarfélaga sambandsins sem hafa landverði innan sinna raða. Viðræður hafa gengið nokkuð vel, ekki er ólíklegt að skrifað verði undir nýjan stofnanasamning síðar í þessum mánuði. Meðfylgjandi mynd er tekin í morgun þegar samningsaðilar sátu á samningafundi á Teams.  

Fyrirlestur fyrir félagsmenn í Rótarskoti

Félagar í Rótarskoti í Norðaustri óskuðu nýlega eftir kynningu á starfsemi Framsýnar. Góður hópur félagsmanna kom í heimsókn síðasta miðvikudag í þeim tilgangi að fræðast um starfsemina. Rótarskot var formlega stofnað 6. nóvember 2023 en klúbburinn er fyrsti Satellite klúbbur landsins og er stofnaður með fulltingi Rótarýklúbbs Húsavíkur. Stofnfélagar voru 11, 6 karlar og 5 konur.  Klúbburinn fundar tvisvar í mánuði, fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar.  Fyrsta miðvikudag mánaðarins hittast félagar víðsvegar um svæðið þar sem þeir fá kynningu í fjölbreyttum heimsóknum til fyrirtækja, félagasamtaka eða einkaaðila sem vinna áhugavert starf.  Í vikunni var komið að því að heimsækja Framsýn og forvitnast um starfsemi félagsins sem gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Um er að ræða mjög áhugavert starf hjá Rótarskoti og þess má geta að Soffía Gísladóttir, sem er félagi í Rótarskoti, er fyrsta íslenska konan til þess að taka sæti í stjórn Rotary International en hún mun taka sæti árin 2026-2028. Hún situr í stjórninni fyrir svæði 17 og 18; Norðurlöndin, Grænland, Færeyjar, Álandseyjar, Eystrasaltsríkin, Pólland og Rússland. Eins og kunnugt er situr Soffía auk þess í sveitarstjórn Norðurþings en hún er búsett í Kelduhverfi. Það var virkilega ánægjulegt að fá félagsmenn Rótarskots í heimsókn og sköpuðust áhugaverðar og góðar umræður um starfsemi Framsýnar. Takk fyrir komuna ágætu félagar í Rótarskoti.

Skólameistarar litu við

Klemenz Sæmundsson skólameistari og  Ásdís V. Pálsdóttir aðstoðarskólameistari Fisktækniskóla Íslands litu við hjá formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna, í gær en þau eru á fundi skólameistara sem haldinn er á Húsavík. Góðar umræður urðu um uppbyggingu á námi í sjávarútvegi en skólinn er með höfuðstöðvar í Sandgerði, áður Grindavík. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í sjávarútvegi á framhaldsskólastigi. Námið er hagnýtt tveggja ára gunnnám sem byggt er upp sem önnur hver önn í skóla og hin á vinnustað. Í starfsnámi er leitast við að bjóða nemendum upp á val um vinnustað /vetfang með hliðsjón af áhugasviði hvers og eins t.d sjómennsku, fiskvinnslu eða fiskeldi. Einnig er boðið upp á styttra nám og námskeið er tengist sjávarútvegi. Til fróðleiks má geta þess að Ásdís og Aðalsteinn Árni stunduðu saman nám í gæðastjórnun hér á árum áður þegar þau störfuðu bæði hjá fyrirtækjum í fiskvinnslu, Fiskiðjusamlagi Húsavíkur og Síldarvinnslunni á Neskaupstað. Sjávarútvegsráðuneytið stóð að náminu með erlendu ráðgjafafyrirtæki og fór kennslan fram í lotum auk þess sem það var að hluta verklegt.

Vinnumálastofnun með kynningu á Bakka

Framsýn stóð fyrir því að fulltrúar frá Vinnumálastofnun funduðu með starfsmönnum PCC á Bakka í dag í samstarfi við trúnaðarmenn starfsmanna. Tilefnið er að fara yfir helstu atriði sem starfsmenn fyrirtækisins þurfa að hafa í huga nú þegar búið er að segja þeim upp vegna rekstrarerfiðleika hjá fyrirtækinu. Fundurinn stendur yfir í þessum töluðu orðum. Eins og fram hefur komið var um 80 starfsmönnum sagt upp í hópuppsögn sem kemur til framkvæmda í sumar. Um er að ræða mikið áfall fyrir starfsmenn og reyndar samfélagið allt enda stór og mikilvægur vinnustaður á Norðurlandi.

Stjórn Framsýnar fundar á morgun

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar á morgun til ræða nokkur mál s.s. stöðuna hjá PCC Á Bakka og önnur aðkallandi mál. Dagskrá fundarins er hér að neðan:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Málefni PCC
  3. Fundur með forstjóra Icelandair
  4. Garðræktarfélag Reykhverfinga hf. (Vottun)
  5. Kjör á trúnaðarmanni GR- Linda Urychova
  6. Sumarkaffi Raufarhöfn
  7. Kjör á fulltrúa á þing SSÍ 30. – 31. október
  8. Bjarg-íbúðafélag: Frekari uppbygging á Húsavík
  9. Kvennaráðstefna Reykjanesbæ
  10. Ungliðafræðsla ASÍ
  11. Gjöf-bekkir (Hús-Kóp-Rauf)
  12. FSH- stofnanasamningur
  13. Leyfi- garðskúr við Túngötu 3
  14. Þingeyjarsveit – Breytingar á starfskjörum hjá starfsmönnum á leikskólum
  15. Þingeyjarsveit – Túlkun á hvíldartímaákvæðum starfsmanna  
  16. Önnur mál

Vel heppnað stefnumót

Framsýn stéttarfélag stóð fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á laugardaginn í Félagsheimilinu Hnitbjörg. Um er að ræða árlegan viðburð á vegum félagsins sem er afar vinsæll meðal heimamanna. Gestum stendur til boða að eiga samtal við forsvarsmenn Framsýnar auk þess sem þeim er boðið upp á veglegar veitingar sem kvenfélagið á staðnum hefur séð um að miklum myndarskap. Mjög góð mæting var á stefnumótið og fylltist félagsheimilið um tíma. Framsýn þakkar fyrir sig, glæsileg samkoma.

Vel heppnuð Kvennaráðstefna ASÍ – Aga og Ósk á staðnum

Kvennaráðstefna ASÍ var haldin fyrir helgina í Reykjanesbæ, það er  27.-28. maí á kvennaárinu 2025. Þar voru samankomnar um 65 konur víðsvegar af landinu til að ræða málin og kjarna meginviðfangsefni kvenna í verkalýðshreyfingunni undir yfirskriftinni: Kvenfrelsi og stéttabarátta á Kvennaári. Á ráðstefnunni var kvennasamstöðunni fagnað og áréttað mikilvægi þess að efla hana og rækta. Á ráðstefnunni var rætt um Kvennaárið, stöðu kvenna í samfélaginu og innan hreyfingar og var unnið í þremur málstofum. Málstofurnar fjölluðu um 1) Samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs, 2) Launamun kynjanna og 3) Mismunun og ójöfnuð. Mikil stemning skapaðist og samhugur kvenna á milli þvert á félög og atvinnugreinar. Konur í Verkalýðs- og sjómannasambandi Keflavíkur og nágrennis voru höfðingjar heim að sækja og mættu ráðstefnugestum af mikilli gestrisni. Niðurstöður kvennaráðstefnu ASÍ verða sendar miðstjórn sambandsins. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar og Agnieszka Szczodrowska starfsmaður stéttarfélaganna voru með erindi á ráðstefnunni auk þess að vera fulltrúar Framsýnar. Að þeirra sögn fór ráðstefnan mjög vel fram.

Ánægjuleg vinnustaðaheimsókn

Forsvarsmenn Framsýnar fóru í vinnustaðaheimsókn í morgun til Garðræktarfélags Reykhverfinga en þar starfa um 20 starfsmenn. Byrjað var á því að funda með eigendum fyrirtækisins áður en boðað var til starfsmannafundar þar sem farið var yfir nokkur mál er snerta starfsemina á Hveravöllum sem er afar blómleg. Starfsmenn enduðu á því að kjósa sér trúnaðarmenn. Linda Urychova var kjörin félagslegur trúnaðarmaður og Martin Bartusek öryggistrúnaðarmaður. Það var virkilega ánægjulegt að heimsækja starfsmenn og stjórnendur félagsins enda gefandi að vinna í upphituðum gróðurhúsum í góðu starfsumhverfi. Garðræktarfélagið og Framsýn hafa ákveðið að vinna að ákveðnu verkefni er snýr að vottun sem kynnt verður frekar síðar.