Heiðrun sjómanna í Hlyn

Að venju sér Sjómannadeild Framsýnar um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík sem er á morgun sunnudag. Í ár verða tvær hetjur hafsins heiðraðir fyrir vel unnin störf til fjölda ára til sjós. Heiðrunin fer fram í sjómannadagskaffinu í Hlyn, það er í félagsaðstöðu eldri borgara að Garðarsbraut 44. Heiðrunin sjálf fer fram kl. 15:00 en húsið opnar kl. 14:00 fyrir kaffiveitingar, sjá frekar auglýsingu í Skránni.

 

Örlagaríkir dagar á Alþingi

Nú er lokaspretturinn á Alþingi fyrir sumarfrí og þrefað og samið um hvaða mál ná framgangi og hver ekki. Það er áhugavert að fylgjast með því, þar sem þetta eru síðustu þinglok á þessu kjarasamningstímabili og því síðustu forvöð að gera þær lagabreytingar sem lýst var yfir að ætti að gera í tengslum við kjarasamningana 2019.

Förum aðeins yfir þetta:

Frumvarp sem kemur í veg fyrir kennitöluflakk hefur ekki enn fengist samþykkt þó enginn hafi í raun lýst andstöðu við það og það er ekki einu sinni til umræðu núna. Hvar tregðan liggur er óskiljanlegt en frumvarpið hefur dagað uppi trekk í trekk.

Frumvarp um ný starfskjaralög var lagt fram núna en verður ekki afgreitt. Þó margt sé til bóta í því frumvarpi er ljóst að mörg aðildarfélög innan ASÍ hafa fært rök fyrir því að frumvarpið taki ekki á launaþjófnaði eins og lofað var og því hefur ASÍ ekki þrýst á að frumvarpið nái fram að ganga.

Frumvarp um lífeyrismál sem lofað hefur verið síðan 2016 er loksins komið á lokametrana eftir miklar umræður en þar eru loksins lögfest 15,5% iðgjöld í lífeyrissjóði á almenna markaðnum eins og á hinum opinbera. Það er ekkert launungarmál að það hafa verið töluverð átök um frumvarpið innan verkalýðshreyfingarinnar. Einhverjir vilja sérhagsmuni og sértryggingu, á meðan aðrir vilja félagslega nálgun og samtryggingu. Niðurstaðan er tilgreind séreign, þar sem farið er bil beggja og í raun vísað til lífeyrissjóðanna að útfæra hvernig farið verður með tilgreinda séreign. Það er augljóst að búið er að finna málamiðlun og nauðsynlegt er að klára málið. Það gengur einfaldlega ekki að lífeyrisréttindi launafólks á almenna markaðnum eigi sér ekki lagastoð, að bara launafólk á hinum opinbera markaði búi að slíkum réttindum.

Frumvarp um húsaleigulög gengur allt of skammt, en er samt liður í þeirri vegferð að koma böndum á leigumarkaðinn. Skilyrði fyrir því er að skrá leigusamninga í gagnagrunn og það er lagt til í frumvarpinu. Að auki er búið að lofa enn frekari lagabótum í haust eftir nýlegt samráð í húsnæðismálum. Það er því afar mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Frumvarp um vexti og verðtryggingu hefur dagað uppi í þinginu og þótti mörgum það ekki ganga nógu langt í þá átt að afnema svokölluð 40 ára lán. Frumvarpið er ekki til umræðu núna og því ekki í pakkanum sem verið er að semja um.

Þó tíundaðir séu hér nokkrir veigamiklir málaflokkar sem hafa orðið hornreka eftir síðustu kjarasamninga þá er líka vert að hafa það í huga að ýmislegt fleira hefur vissulega áunnist á tímabilinu: Breytingar á skattkerfinu, fæðingarorlof, bætt í tilfærslukerfin eins og barnabætur og fleira. Það er hins vegar ljóst að gengið verður til kjarasamninga með töluvert magn af óuppfylltum loforðum enn og aftur. Vonandi verður sá listi styttri en stefnir í núna og vona ég innilega að það náist að klára lífeyrisfrumvarpið og frumvarp um ný húsaleigulög. Svo skrifar forseti ASÍ.

Greiðslur til fólks í fæðingarorlofi 2022

Mik­il gleði og ham­ingja fylg­ir því þegar nýtt barn kem­ur í heim­inn. Það að sækja um fæðing­ar­or­lof get­ur þó verið stjarn­fræðilega flókið fyr­ir marga verðandi for­eldra. Ferlið er stund­um rugl­ings­legt og það er óþarfa haus­verk­ur fyr­ir verðandi for­eldra sem hafa í nógu að snú­ast. Núna er hægt að sækja um fæðing­ar­or­lof á net­inu.

Verðandi for­eldr­ar, sem eru á vinnu­markaði og sjálf­stætt starf­andi, geta nú sótt um fæðing­ar­or­lof á ein­fald­an hátt. Um­sókn­ar­ferlið fer í gegn­um is­land.is. Ný sta­f­ræn um­sókn um fæðing­ar­or­lof hef­ur síðustu miss­eri verið í vinnslu í sam­starfi við Vinnu­mála­stofn­un og er enn í stöðugri þróun. Ferlið sæk­ir sjálf­krafa öll þau gögn sem þurfa að fylgja um­sókn­inni og send­ir sjálf­krafa áfram til maka og at­vinnu­rek­anda til samþykkt­ar. Enn er unnið að þróun um­sókn­ar fyr­ir aðra hópa, ein­stak­linga sem hafa verið á at­vinnu­leys­is­bót­um eða eru að koma úr fæðing­ar­or­lofi.

Hverj­ir hafa rétt til fæðing­ar­or­lofs?

For­eldri sem er í meira en 25% starfs­hlut­falli á rétt á launuðu fæðing­ar­or­lofi í sex mánuði. Greiðslur frá fæðing­ar­or­lofs­sjóði eru tekju­tengd­ar og fær fólk 80% af meðaltali heild­ar­launa síðustu 12 mánuði. Þessu 12 mánaða tíma­bili lýk­ur sex mánuðum áður en barnið kem­ur í heim­inn.

Fólk sem á von á barni, til dæm­is 17. ág­úst 2022, þarf að gefa upp tekj­ur á tíma­bil­inu 17. mars 2021 til 17. mars 2022. Meðaltal launa fólks á þessu tíma­bili gilda í reikn­ingi til or­lofs.

Sam­kvæmt heimasíðu fæðing­ar­or­lofs­sjóðs eru lægstu greiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði fæðing­ar­styrk­ir. Fæðinga­styrk­ir eru fyr­ir for­eldra sem eru utan vinnu­markaðar eða í námi.

Fólk utan vinnu­markaðar eða í minna en 25% starfi á rétt á 87.062 kr. á mánuði í fæðing­ar­styrk. Ef fólk er í 75-100% námi fær það 199.522 kr. á mánuði í fæðinga­styrk.

Fæðing­ar­or­lof for­eldr­is í fullu or­lofi eru 80% af meðaltali heild­ar­launa. Þó aldrei hærri en 600.000 kr. á mánuði. Töl­urn­ar miðast við 2022 og er barns­haf­andi for­eldr­um bent á að klára sta­f­ræna um­sókn á und­an maka sín­um.

Heimild mbl.is

Aðalfundur Þingiðnar – þriðjudaginn 14. júní

Aðalfundur Þingiðar verður haldinn þriðjudaginn 14. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.

Dagskrá:

 1.Venjuleg aðalfundarstörf

 • Kjör á starfsmönnum fundarins
 • Skýrsla stjórnar
 • Ársreikningar
 • Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
 • Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
 • Lagabreytingar
 • Ákvörðun árgjalda
 • Laun stjórnar, annara stjórna og nefnda
 • Kosning löggilts endurskoðanda
 1. Hækkanir á styrkjum úr sjúkrasjóði

3.  Réttindi  félagsmanna við starfslok

 4. Önnur mál

 

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

 

Stjórn Þingiðnar

 

 

 

 

Framsýn með kaffiboð á Raufarhöfn

Í tilefni af Sjómannadeginum um næstu helgi stendur Framsýn fyrir kaffiboði í Kaupfélaginu á Raufarhöfn föstudaginn 10. júní. Kaffi og tertur í boði frá Kvenfélagi Raufarhafnar. Opið hús verður frá kl. 16:00 til 18:00. Allir velkomnir og rúmlega það. Sjáumst í stuði á föstudaginn. Fulltrúar frá Framsýn verða á staðnum hressir að vanda.

 Framsýn stéttarfélag

Aðalfundur STH – Mánudaginn 13. júní

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn mánudaginn 13. júní kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.

 Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
  a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
  b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
  c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
  d) Lagabreytingar
  e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
  f) Kosning félagslegra endurskoðenda samkvæmt 6. grein
  g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
  h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

 

 1. Íbúð félagsins í Sólheimum

 

 1. Greiðslur félagsmanna/sveitarfélaga í kjarasamningsbundna sjóði

 

 1. Önnur mál

 

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.

 

Stjórn STH

Fréttir af ársfundi Lsj. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í gær, miðvikudaginn 1. júní, í Menningarhúsinu Hofi. Mæting á fundinn var góð en sjóðfélögum var einnig gefinn kostur á að fylgjast með fundinum í vefútsendingu. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. Fundarstjóri var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson.

Tryggvi Jóhannsson stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmastjóri fór yfir ársreikning og áritanir ásamt því að gera grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Jóhann Steinar fór einnig yfir fjárfestingarstefnu og hluthafastefnu sjóðsins í fjarveru fjárfestingastjóra.

Á fundinum voru lagðar fram fjórar tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins. Einar Ingimundarson lögmaður og Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs, gerðu grein fyrir þeim breytingum og voru þær allar samþykktar.

Farið var yfir starfskjarastefnu sjóðsins sem er óbreytt frá fyrra ári og var hún samþykkt samhljóða. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og tillaga að breytingu stjórnarlauna frá fyrra ári, í samræmi við hækkun á launavísitölu.

Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 4. maí sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson (varaformaður), Guðný Hrund Karlsdóttir, Oddný María Gunnarsdóttir og Sverrir Mar Albertsson.

Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (formaður), Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.

Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.

Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Jens Garðar Helgason, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Þórarinn G. Sverrisson.

Gögn frá ársfundinum:

Guðný Hrund í stjórn Lsj. Stapa

Ársfundur Lsj. Stapa fór fram í Hofi á Akureyri í dag. Að venju var kosið í stjórn sjóðsins. Framsýn samþykkti að tilnefna Guðnýju Hrund Karlsdóttir í stjórn sjóðsins til tveggja ára fh. sjóðfélaga í Þingeyjarsýslum. Guðný Hrund er félagsmaður í Framsýn stéttarfélagi.

Guðný Hrund Karlsdóttir er viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) að mennt með viðbótar MA gráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum. Hún hefur fjölbreytta reynslu frá einkageiranum og hinu opinbera.

Guðný Hrund er stofnandi og framkvæmdastjóri bókhalds- og ráðgjafafyrirtækisins Tvíhliða bókhald ehf. og situr í stjórn Íslandspósts. Hún var sveitarstjóri á Raufarhöfn 2002-2006 og í Húnaþingi Vestra 2014-2019. Áður starfaði hún hjá Streng hf., Maritech og WiseDynamics í Reykjavík, Akureyri, Noregi og Kanada sem viðskipta- og verkefnastjóri við innleiðingu viðskiptahugbúnaðar viðskiptavina í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.

Guðný  Hrund hefur sinnt fjölmörgum trúnaðar- og ábyrgðastöðum m.a. í stjórn Hafnarsambands Íslands, Eignarhaldafélags Brunabótafélags Íslands, Fallorku, Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins og sem formaður stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa.

Faðir Guðnýjar Hrundar er Karl Steinar Guðnason fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í um tvo áratugi og varaformaður Verkamannasambands Íslands. Móðir Guðnýjar er Þórdís Þormóðsdóttir félagsráðgjafi.

Aðalfundir STH og Þingiðnar

Félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur skulu reikna með aðalfundum félaganna um miðjan júní. Reiknað er með að endurskoðendur félaganna skili bókhaldinu af sér í lok þessar viku og þá verði hægt að tímasetja fundina. Sjá frekari upplýsingar um endanlegar tímasetningar inn á heimasíðunni eftir helgina.

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags 15. júní 2022

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn miðvikudaginn 15. júní kl. 20:00 í fundarsal félagsins að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
 • Félagaskrá
 • Skýrsla stjórnar
 • Ársreikningar
 • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
 • Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
 • Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
 • Lagabreytingar
 • Ákvörðun árgjalda
 • Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins 
 1. Önnur mál
 • Heiðrun félagsmanna
 • Réttindi félagsmanna við starfslok
 • Kröfugerðir félagsins SGS/LÍV gagnvart Samtökum atvinnulífsins lagðar fram

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Félagsmenn geta nálgast tillögur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar sem liggja fyrir fundinum á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Húsavík 31. maí 2022

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar

Kynning fyrir HSN

Framsýn svaraði kalli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands með að halda kynninu á kjarasamningum og lögum er tengjast kjörum starfsmanna HSN á Húsavík. Aðalsteinn J. Halldórsson tók að sér að sjá um kynninguna fyrir Framsýn en hún var ætluð nýliðum sem eru um þessar mundir að hefja störf hjá stofnuninni.

Algjör samstaða hjá verslunarmönnum VR/LÍV

Landssamband ísl. verslunarmanna stóð fyrir formannafundi í Reykjavík í gær um mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Mjög gott hljóð var í fundarmönnum og mikill samhljómur var meðal þeirra. Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á aðild að LÍV og fulltrúi frá félaginu tók þátt í fundinum. Mótuð voru drög að kröfugerð sem verður til frekari skoðunar hjá aðildarfélögum LÍV áður en gengið verður frá henni endanlega. Félögin hafa tíma til 3. júní til að koma frekari athugasemdum/ábendingum á framfæri varðandi endanlega kröfugerð. Fullur vilji er til þess að kröfugerð VR/LÍV verði sameiginleg, það er að aðildarfélög LÍV fari sameiginlega fram í kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins sem hefjast á næstu vikum og mánuðum.

Unga fólkið með bros á vör í sveitaferð

Um 80 börn og starfsmenn Leikskólans Grænuvalla á Húsavík gerðu sér ferð í Grobbholt í vikunni. Um er að ræða árvissa heimsókn á hverju vori. Í Grobbholti er haldinn smá dýragarður; Kindur, endur, hænur, dúfur og kanínur. Að sjálfsögðu var mikil gleði hjá unga fólkinu sem leit við í vikunni enda sauðburður í gangi og mikið að skoða. Á hverju vori hefur verið vinsælt hjá börnum á leikskólaaldri og reyndar á grunnskólaaldi líka að líta við í Grobbholti og skoða dýrin enda alltaf allir velkomnir í heimsókn. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru úr heimsókn leikskólabarna í Grobbholt og eldri barna á grunnskólaaldri sem voru á ferðinni á sama tíma.

Megn óánægja með útboð HSN á ræstingum

Því miður hafa stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands ekki séð ástæðu til að svara erindi Framsýnar frá 10. maí 2022 varðandi beiðni um upplýsingar er varða sparnaðartillögur til að bregðast við fjárhagsvandanum hjá HSN.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar 17. maí kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð HSN varðandi útboð á þrifum. Samþykkt var að ítreka fyrra bréf og álykta um málið. Þá hefur Framsýn falið Hagdeild ASÍ að yfirfara útreikninga stofnunarinnar sem kynntir voru á starfsmannafundi með starfsfólki við ræstingar. Þar kom fram að töluverður sparnaður væri fólginn í því að bjóða þrifin út. Framsýn dregur verulega í efa að útreikningarnir séu réttir. Vitað er að starfsfólk við þrif og ræstingar hefur auk þess komið að öðrum störfum s.s. í bítibúrinu og þrifum utan stofnunar HSN.

Hagdeild ASÍ er tilbúin að yfirfara útreikningana fyrir Framsýn enda fái hagdeildin aðgengi að útboðsgögnunum. Það er í hverju útboðið var fólgið er snýr að starfsemi HSN á Húsavík og hvort allir þeir verkþættir sem ræstingarfólkið hefur séð um fram að þessu hafi verið með í útboðinu eða eitthvað undanskilið. Til viðbótar má geta þess, samkvæmt heimildum Framsýnar eru þessi kaup HSN á þrifaþjónustu virðisaukaskyld sem felur í sér aukakostnað fyrir stofnunina þar sem hún fær hann ekki endurgreiddan.

Hér má lesa ályktun fundarins:

Ályktun

-Um útboð HSN á ræstingum-

 „Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fordæmir þá ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) að bjóða út ræstingar á vegum stofnunarinnar á Norðurlandi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er um að ræða viðbrögð stjórnenda við fjárhagsvanda HSN.

 Hvað það varðar er athyglisvert að verða vitni að því að stjórnendur HSN hyggist taka á hallarekstrinum með því að setja krumlurnar í vasa þeirra lægst launuðu hjá stofnuninni. Þannig verði hægt að halda úti eðlilegri heilbrigðisþjónustu fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar, það er með því að segja ræstingafólkinu upp störfum.

 Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar dregur verulega í efa að útreikningur HSN sé réttur hvað varðar sparnað stofnunarinnar við að bjóða ræstingarnar út. Félagið hefur þegar óskað eftir upplýsingum frá HSN um útboðið og jafnframt falið Hagdeild ASÍ að yfirfara gögnin. Þess er vænst að Framsýn fái aðgang að gögnunum til að sannreyna framkomnar upplýsingar frá HSN um sparnað og upplýsingar um hvort/hvaða frekari sparnaðartillögur eru fyrirhugaðar.“

 

 

Kæru vinir og velunnarar

Okkur Fagraneskots fjölskyldunni langar til að bjóða ykkur velkomin heim til okkar í fjárhúsin, sunnudaginn 22. Maí 2022. Við ætlum að opna dyrnar og taka á móti öllum frá kl.11:00 til 15:00 sem áhuga hafa að sjá sauðburðar lífið og bjóða upp á kleinur og kakó. Við eflum til styrktar dags vegna þess að nú er að verða liðið hálft ár frá því Rán og fjölskyldunni hennar bárust þær erfiðu fréttir um slæmt ástand tvíburana þeirra. Móðir náttúra var ekki sanngjörn og annar tvíburinn bjó við lífshættulegar aðstæður í móðurkviði og var frá upphafi ekki hugað líf og þar af leiðandi var bróðirinn einnig í lífshættu. Rán er Pollýanna að eðlisfari og hefur alltaf reynt að vera hörð í gegnum allt sem lífið á hana kastar, hún hefur sýnt svo mikla þrautseigju og þolinmæði þrátt fyrir að alltaf blæs vindurinn á móti. En nú þarf hún á aðstoð okkar að halda.

24 . Mars 2022 voru drengirnir tveir sóttir með keisaraskurði á 29 viku meðgöngu og hafa barist hetjulega fyrir lífi sínu á vökudeild síðan og koma öllum á landspítalanum stanslaust á óvart.

Þetta er búið að vera langt ferli sem ekki sér fyrir endann á, þau Rán og Shay verða að meta alltaf einn dag í einu og hafa gert meira og minna allt þetta ár. Þau búa í lítilli sjúkraíbúð í Reykjavík og fengu hann Atlas loksins til sín um Páskana eftir langan aðskilnað. Það er ekki vitað en hvenær þau snúa heim aftur, en vonandi hafa tvíburarnir fljótlega heilsu til að verða fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri þá kæmist fjölskyldan allavega aðeins nær heimahögunum.

Það hafa fylgt þessu margar áskoranir á meðgöngunni, eins og t.d. Sjúkraferðir til Svíþjóðar, mörg flug til að sækja læknisþjónustu, flutningur til Reykjavíkur, atvinnu tap, röskun á heimilislífi svo ekki sé talað um áföllin sem fylgja því að vita ekki hvort börnin þín lifa eða deyja

Það er nógu erfitt líkamlega og andlega að standa í svona baráttu og okkur finnst að ekki ætti að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á allt saman. Því langar okkur að biðla til ykkar hvort þið séuð í stakk búin að veita litla fjárhagsaðstoð henni Rán og fjölskyldunni litlu.

Við munum vera með söfnunarbauk í fjárhúsunum sem hægt verður að setja pening í á staðnum en einnig höfum við opnað styrktarreikning  til að safna inn á fyrir þau.

Reikningsnúmer: 1110 – 05 – 250441

Kennitala: 240594 – 4129

Frekari upplýsingar er hægt að afla hjá Patrycju Mariu í símanúmer 8645652.

Kröfugerð Framsýnar samþykkt

Mikil vinna hefur farið fram innan Samninganefndar Framsýnar að móta kröfugerð félagsins vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Félagið hefur þegar samþykkt að veita Starfsgreinasambandi Íslands og Landssambandi ísl. Verslunarmanna umboð til að semja fyrir hönd félagsins. Því fylgir að formaður Framsýnar verði virkur í kjaraviðræðunum og gæti hagsmuna félagsmanna. Undirbúningur vegna mótunar kröfugerðarinnar fór þannig fram að auglýst var eftir áherslum félagsmanna, trúnaðarmenn á vinnustöðum voru virkjaðir og þá hefur Samninganefnd félagsins haldið nokkra undirbúnings fundi. Á fundi samninganefndarinnar í gær var eftirfarandi kröfugerð samþykkt samhljóða:

Formáli:

Að mati Samninganefndar Framsýnar stéttarfélags eru Lífskjarasamningarnir einir merkilegustu kjarasamningar sem gerðir hafa verið allt frá undirritun Þjóðarsáttasamningana 2. febrúar 1990. Sérstaklega hvað varðar að jafna launakjör í landinu. Megininntak samningsins var að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar.

Að mati Framsýnar náðust þessi markmið að mestu leiti, þrátt fyrir að nokkuð skorti á að ríkisstjórnin hafi staðið við gefin loforð s.s. um að setja skýrar reglur um févíti þegar fyrirtæki standa ekki við gerða kjarasamninga.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks.

Lífskjarasamningurinn byggði á svokallaðri krónutöluleið sem að mati Samninganefndar Framsýnar er besta leiðin til að jafna lífskjörin í landinu. Aðrir hópar launafólks, sem búa við mannsæmandi kjör og rúmlega það verða að hafa skilning á viðleitni stéttarfélaga láglaunafólks að auka jöfnuð í landinu.  Það gera þeir best með því að taka heilshugar undir kröfuna um að allir eigi að geta séð sér farborða með sínu vinnuframlagi. Menn eiga ekki að þurfa að taka að sér aukavinnu til að geta framfleytt sér. Það eiga allir að geta lifað af fullu starfi sem og af örorku- og lífeyrisgreiðslum. Að mati Samninganefndar Framsýnar er ekki annað boðlegt.

Sem áður er mikilvægt að samningsaðilar í samráði við stjórnvöld vinni áfram að því að verja kaupmátt launa, vinni gegn verðbólgu og tryggi lægri vexti til frambúðar.

 

Áherslur Samninganefndar Framsýnar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins:

 1. Öll aðildarfélög SGS standi saman að mótun kröfugerðar sambandsins og fari sameinuð í kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.
 2. Samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendur byggja á. Það er með aðkomu stjórnvalda/sveitarfélaga og markmiðið verði að tryggja kaupmátt launa.
 3. Samið verði um hagvaxtarauka.
 4. Samið verði um krónutöluhækkun og launakjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði hækkuð að lágmarki til jafns við opinbera starfsmenn sem gegna sambærilegum störfum og félagsmenn aðildarfélaga SGS á almenna vinnumarkaðinum.
 5. Samið verði um raunverulega vinnutímastyttingu líkt og LÍV samdi um í síðustu kjarasamningum. Sala á neysluhléum er ekki vinnutímastytting, stytta þarf raun vinnutíma.
 6. Tekin verði upp ný launatafla enda núverandi launatafla óvirk.
 7. Almenn kjör í kjarasamningi SA og SGS verði jöfnuð við kjarasamninga opinberra starfsmanna s.s. veikinda- og orlofsréttur. Öllum verði tryggður 30 daga orlofsréttur. Opnað verði á frekari veikindarétt starfsmanna vegna maka/foreldra.
 8. Hvað varðar aðkomu stjórnvalda að kjarasamningunum er mikilvægt að áhersla verði lögð á að auka jöfnuð í búsetuskilyrðum burt séð frá búsetu. Sérstaklega er hér verið að tala um aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi á framhalds- og háskólastigi svo ekki sé talað um þann mikla flutningskostnað sem fylgir því að búa á landsbyggðinni, fjarri Reykjavík.
 9. Stjórnvöld komi að því með verkalýðshreyfingunni að skapa leigjendum og íbúðarkaupendum á lágmarkskjörum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, sem stillt verði af í samræmi við fjárhagslega getu þeirra á hverjum tíma. Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks um land allt.
 10. Samið verði um hærri framlög fyrirtækja í Fræðslusjóðinn Landsmennt. Greiðslur fyrirtækja til Landsmenntar eru mun lægri en greiðslur ríkis og sveitarfélaga í Sveitamennt og Ríkismennt. (Framlag í dag: Landsmennt 0,3% – Sveitamennt 0,82% – Ríkismennt 0,82%).
 11. Samninganefnd Framsýnar áskilur sér rétt til að koma með tillögur við einstakar greinar í þeim kjarasamningum sem eru undir í þeim viðræðum sem eru framundan við SA.
 12. Þess er vænst að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningum fyrir 1. nóvember 2022, það er þegar núgildandi kjarasamningar renna út. Ef ekki gildi kjarasamningurinn frá þeim tíma.
 13. Framsýn stéttarfélag mun leggja sitt að mörkum til að þau metnaðarfullu markmið sem tiltekin eru í kröfugerð félagsins nái fram að ganga gagnvart aðildarfyrirtækjum SA og stjórnvöldum, það er ríki og sveitarfélögum.

Þannig samþykkt á fundi Samninganefndar Framsýnar stéttarfélags þriðjudaginn 17. maí 2022.

 

Fjölmörg mál á dagskrá stjórnarfundar Framsýnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar í dag. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðuð á fundinn.

 

 1. Inntaka nýrra félaga
 2. Kröfugerð félagsins/undirbúningsfundur
 3. Aðalfundur félagsins
 4. Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
 5. Hátíðarhöldin 1. maí
 6. Uppsagnir á HSN
 7. Stofnanasamningar
 8. ASÍ-UNG fundur
 9. Heiðursviðurkenningar
 10. Bónussamningur PCC
 11. Samningur við Flugfélagið Erni
 12. Hátíðarhöld sjómannadagsins
 13. Ársfundur Lsj. Stapa
 14. Kjör trúnaðarmanns á Bakka/yfirtrúnaðarmaður
 15. Heimsóknir frambjóðenda
 16. Stjórnarmaður í Þekkingarnet Þingeyinga
 17. Formannafundur LÍV 24. Maí
 18. Stuðningur við flóttafólk frá Úkraínu
 19. Bankaviðskipti
 20. Aðalfundur Sparisjóðs –Þingeyinga
 21. Íbúð G-26
 22. Önnur mál
 23. a) Asparfell-aðalfundur

Nokkrar vikur lausar í sumarhúsum í sumar

Eftir úthlutun sumarhúsa eru nokkrar vikur lausar víða um land. Þá eru einnig lausar vikur í íbúðum stéttarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstur kemur, fyrstur fær!

Eiðar: Þrjár vikur lausar

 1. til 10 júní – 5. til 12. ágúst – 19. til 26. ágúst

Einarsstaðir: Tvær vikur lausar

 1. til 10 júní – 10. til 17. júní

Bjarkarsel: Fjórar vikur

 1. til 17. júní – 17. til 24. júní – 29. til 5. ágúst – 12. til 19. ágúst

Mörk: Ein vika

 1. til 17. júní

Kjarnaskógur: Fjórar vikur

 1. júlí til 5. ágúst – 5. til 12. ágúst – 12. til 19 ágúst – 19. til 26. ágúst

Illugastaðir: Tvær vikur

 1. til 12. ágúst – 12. til 19. ágúst

 

Öflugir frambjóðendur í kjöri – nýtum rétt okkar til að kjósa

Það var virkilega ánægjulegt að fá frambjóðendur frá öllum þeim framboðum sem bjóða fram lista í sveitarfélaginu Norðurþingi í heimsókn á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Reynsluboltana frá Framsókn, unga og efnilega fólkið úr forystusveit VG og Samfylkingarinnar, sameinaða sjálfstæðismenn og forystusveit M – Listans sem hefur líkt og hin framboðin sterkar skoðanir á málefnum sveitarfélagsins og hvað betur má fara í rekstrinum.  Starfsfólk stéttarfélaganna þakkar frambjóðendum fyrir komuna með ósk um gott samstarf á komandi kjörtímabili.  Á morgun er kosið til sveitastjórna. Rétturinn til að kjósa er ekki sjálfsagður og lýðræði stendur höllum fæti víða í heiminum – nýtum réttinn okkar og skilum okkar atkvæði á morgun kæru landsmenn til sjávar og sveita.