Sjálfkrafa fyrning orlofs er ólögmæt

Evrópudómstóllinn hefur staðfest með óyggjandi hætti að sjálfkrafa fyrning áunnins orlofs sé ólögmæt hafi atvinnurekandi í raun ekki sett starfsmann sinn í aðstöðu til að nýta sér hið áunna orlof. Dómurinn staðfestir þannig þá túlkun lögfræðinga ASÍ á samningsákvæðum tiltekinna kjarasamninga, að atvinnurekendur bera þá frumskyldu að sjá til þess að starfsmenn sínir taki það launaða orlof sem þeir eiga rétt á og geti hvorki hirt af þeim frídaga né orlofsfé.

Stundum hefur borið á því að atvinnurekendur, þar með talið hið opinbera, telji að áunnið orlof, bæði áunnir frídagar og réttur til greiðslu orlofsfjár vegna þeirra sömu daga, fyrnist sjálfkrafa hafi orlof ekki verið tekið. Þetta hefur verið byggt á túlkun þeirra á 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 þar sem segir: „Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt.“ ASÍ hefur ætíð verið ósammála þessari túlkun á þeirri einföldu forsendu á atvinnurendur bera þá óumdeildu skyldu að sjá til þess að starfsmenn þeirra taki lög- og kjarasamningsbundið orlof og hvíld frá störfum. Sjá hér um orlofsreglur á vinnuréttarvef ASÍ.

Evrópudómstóllinn hefur nú skorið úr öllum vafa hér um með dómi frá 22.9 2022 í málinu nr. C‑120/21. ( CURIA – Documents (europa.eu). Fyrir dómstólnum lá spurning frá áfrýjunarrétti í Þýskalandi þar sem óskað var álits á því hvort þýsk löggjöf sem mælti fyrir um sjálfkrafa fyrningu orlofs sem ekki hafði verið tekið, að liðnum þremur árum frá því réttur til þess stofnaðist, stæðist ákvæði tilskipunar ESB um orlof nr. 2003/88 og stofnsáttmála ESB, hefði atvinnurekandi ekki í reynd veitt starfsmanni sínum tækifæri til orlofstöku með því að upplýsa hann um rétt sinn og bjóða honum að taka orlof. Niðurstaðan var mjög skýr: „7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um tiltekna þætti í skipulagi vinnutíma og 2. mgr. 31. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi verður að túlka þannig að það standi í vegi fyrir innlendri löggjöf þar sem réttur til launaðs árlegs orlofs sem launamaður öðlast á tilteknu viðmiðunartímabili fyrnist eftir þriggja ára tímabil sem hefst í lok þess árs sem sá réttur stofnast, hafi atvinnurekandi ekki í raun ekki sett starfsmanninn í aðstöðu til að nýta sér þann rétt.

Í síðustu kjarasamningum við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg var sett inn samningsákvæði hér um þar sem efnislega segir að „Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“ ASÍ hefur þegar ritað þessum opinberu atvinnurekendum og tilkynnt þeim að ákvæði þetta sé ekki hægt að túlka þannig að launafólk verði sjálfkrafa svipt þessum réttindum sínum eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu og gefið þeim tækifæri til þess að leiðrétta túlkun sína á samningsákvæðinu. Þeim tilmælum var hafnað en þau verða nú ítrekuð enda liggur fyrir skýr dómsniðurstaða um ólögmæti þeirrar túlkunar sem atvinnurekendur vilja hafa á ákvæðinu.

 Aðalfundur Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn þriðjudaginn 23. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins, lagabreytingar og hækkanir á styrkjum til félagsmanna.

Dagskrá:

1.Venjuleg aðalfundarstörf

  1. Kjör á starfsmönnum fundarins
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  5. Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
  6. Lagabreytingar
  7. Ákvörðun árgjalda
  8. Laun stjórnar, annara stjórna og nefnda
  9. Kosning löggilts endurskoðanda

2. Hækkanir á styrkjum til félagsmanna

3. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Stjórn Þingiðnar

STH félagar – Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir

Á hádegi í dag, miðvikudaginn 26. apríl, hefjast atkvæðagreiðslur um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu ellefu aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fyrstu verkfallsaðgerðir eru áformaðar í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ þar sem starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila mun leggja niður störf, verði það niðurstaða atkvæðagreiðslnanna. Kosningu lýkur á hádegi á laugardag og niðurstöður verða kynntar í kjölfarið.

Kjaradeilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga, sem vinna m.a. á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið frá 1. janúar. Þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga neitar að leiðrétta augljósa mismunun á launum starfsfólks, og fundir með ríkissáttasemjara hafa engu skilað, er næsta skref að félagsfólk greiði atkvæði um verkfallsaðgerðir svo knýja megi viðsemjendur okkar til samninga.

Verði verkfallsboðun samþykkt verður fyrsta lota þeirra 15. og 16. maí í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.

„Þessi staða kemur okkur mjög á óvart enda fórum við fram með mjög hófsamar kröfur til skamms tíma. Hins vegar virðist Samband íslenskra sveitarfélaga hafa skilið eftir samningsviljann heima og sýnir starfsfólki sveitarfélaga ótrúlega óbilgirni. Um er að ræða hreina mismunun þar sem fólk sem vinnur jafnvel sömu störf, á sama vinnustað, með sömu starfsheiti er boðið upp á misjöfn kjör. Auðvitað sættir sig enginn við slíkt.“ Segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Fleiri aðildarfélög koma til með að boða til atkvæðagreiðslna á næstu dögum en aðgerðir eru auk þess fyrirhugaðar í Hafnafirði, Ölfusi, Árborg, Vestmanneyjum, Reykjanesbæ og víðar um landið þar til samningar nást.

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 25. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Dagskrá:

1.   Venjuleg aðalfundarstörf

  1. Félagaskrá
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Ársreikningar
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
  5. Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
  6. Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
  7. Lagabreytingar
  8. Ákvörðun árgjalda
  9. Laun aðalstjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

2. Breytingar á samþykktum sjúkrasjóðs

3. Önnur mál

Tillögur stjórnar og trúnaðarráðs sem liggja fyrir aðalfundinum eru aðgengilegar félagsmönnum á Skrifstofu stéttarfélaganna skv. 32. gr. félagslaga.

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
„Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.“ Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Kaffiveitingar verða í boði sem og smá glaðningur til fundargesta frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi!

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Kaffiveitingar verða í boði sem og smá glaðningur til fundargesta frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi!

Stjórn Framsýnar

Framsýn fundar í dag

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar í dag kl. 17:00. Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins. Stjórn Framsýnar-ung tekur einnig þátt í fundinum.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Innganga nýrra félaga

3. Aðalfundur félagsins

4. Ársfundur Lsj. Stapa

5. Hátíðarhöldin 1. maí

6. Úthlutun orlofshúsa/íbúða

7. Aðalfundur Húsfélagsins í Asparfelli

8. Kjarasamningur sjómanna

9. Afsláttarkjör hjá Frumherja

10. Kjarasamningur við Landsvirkjun

11. Orlofsbyggðin Illugastöðum

12. Ljósmyndir félagsins

13. Fundur með landvörðum

14. Mærudagar – stuðningur

15. Erindi frá Play

16. Þing ASÍ

17. Önnur mál

Skytturnar þrjár

Framsýn bauð félagsmönnum á Raufarhöfn upp á samtöl við forsvarsmenn félagsins á föstudaginn. Fullbókað var í viðtalstímana. Þau voru á staðnum Aðalsteinn Árni formaður og nýráðnir starfsmenn stéttarfélaganna Kristján Ingi og Agnieszka. Formaður Framsýnar tók jafnframt einn teamsfund í leiðinni með landvörðum innan félagsins.

Aðalfundur STH miðvikudaginn 24. maí

Hér með er boðað til aðalfundar Starfsmannafélags Húsavíkur miðvikudaginn 24. maí 2023. Fundurinn hefst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Undanfarið hefur verið unnið að því að endurskoða félagslög STH. Sérstakur félagsfundur var haldinn um boðaðar breytingar. Lögin verða endanlega tekin til afgreiðslu á aðalfundinum. Hægt er að nálgast lögin á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:


1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
2. Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
3. Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
4. Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
5. Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
6. Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
7. Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar
8. Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
9. Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd
10. Önnur mál, sem fram koma á fundinum

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum um starfsemi félagsins og væntanlega afmælisferð í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Þá geta félagsmenn nálgast afmælistösku á fundinum eða á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stjórn STH

100% samþykki hjá starfsmönnum Landsvirkjunar

Þann 5. apríl sl. var gengið frá skammtíma kjarasamningi  milli aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjunar með gildistíma frá 1. nóvember 2022.  Samningurinn gildir til 31. janúar 2024. Kjarasamningurinn er sambærilegur samningi SGS og SA sem var undirritaður í byrjun desember 2022. Samningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá Landsvirkjun á Þeistareykjum, Laxárvirkjun og Kröflu. Atkvæðagreiðslu um samninginn lauk í gær. Alls greiddu 50% starfsmanna atkvæði, það er níu af átján starfsmönnum. Já sögðu 100% starfsmanna og skoðast hann því samþykktur.  

Uppfærður heildarkjarasamningur SGS og SA

Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu nýjan kjarasamning í desember 20022 vegna starfa á almennum vinnumarkaði. Um var að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar 2024 þar sem lögð var megináhersla á launaliðinn og því er ekki um að ræða miklar efnislegar breytingar frá fyrri samningi. 

Að undanförnu hafa samningsaðilar unnið að því að uppfæra heildarkjarasamninginn m.t.t. þeirra atriða sem samið var um í desember síðastliðnum og er þeirri vinnu nú lokið. Vefútgáfa heildarkjarasamningsins er tilbúin og aðgengileg á vef SGS.

Vinna að uppfærðri útgáfu kjarasamnings SGS og SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi er hafin og verður uppfærður samningur aðgengilegur á heimasíðu SGS um leið og þeirri vinnu er lokið.

Kjaraviðræður í hnút

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum Starfsmannafélags Húsavíkur sem er í samfloti við tíu önnur aðildarfélög BSRB, og Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Deilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga, sem vinna m.a. á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið frá 1. janúar.

Kjaradeilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara en fundir undir hans stjórn hafa engu skilað. Því hefur ekki verið boðað til frekari fundarhalda. Félögin eru um þessar mundir að ræða næstu skref við trúnaðarmenn og félagsfólk til að knýja megi fram nauðsynlegar og sanngjarnar kjarabætur fyrir starfsfólk sveitarfélaga.

Sömu laun fyrir sömu störf frá 1. janúar!

Lagabreytingar til umræðu hjá STH

Starfsmannafélag Húsavíkur stóð fyrir félagsfundi í gær um drög að breytingum á félagslögum. Stjórn félagsins hafði áður komið að málinu með aðstoð starfsmanna félagsins og lögmanna. Búið er að gera verulegar breytingar á lögunum sem verða til umræðu og endanlegrar afgreiðslu á aðalfundi félagsins sem væntanlega verður haldinn 24. maí nk. Fundurinn verður nánar auglýstur um helgina.

Félagar í STH samþykktu kjarasamninginn við ríkið

Kjörstjórn Starfsmannafélags Húsavíkur kom saman til fundar í morgun. Tilgangurinn var að telja í atkvæðagreiðslu um kjarasamning félagsins við ríkið. Starfsmannafélagið ásamt 14 öðrum aðildarfélögum BSRB skrifuðu undir samkomulag við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs 31. mars um framlengingu og breytingar á kjarasamningi aðila. Um skammtímasamning er að ræða með gildistíma frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Atkvæðagreiðsla um samninginn hófst miðvikudaginn 5. apríl og lauk í morgun kl. 09:00. Á kjörskrá voru 26 félagsmenn. Alls greiddu 15,4% félagsmanna atkvæði um samninginn sem var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Fróðleiksfúsir nemendur á Stórutjörnum

Fulltrúar frá Framsýn voru beðnir um að vera með kynningu um vinnumarkaðinn og starfsemi stéttarfélaga fyrir nemendur í elstu árgöngunum í Stórutjarnaskóla. Stórutjarnaskóli er í Ljósavatnsskarði og er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli með um 40 nemendur frá eins árs til 16 ára aldurs. Skólinn er Grænfánaskóli og Heilsueflandiskóli. Kynningin gekk vel og voru nemendur fróðleiksfúsir um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði en þau verða fljótlega fullgild á vinnumarkaði. Það var Kristján Ingi Jónsson starfsmaður stéttarfélaganna sem fór fyrir fræðslunni og svaraði spurningum nemenda.  

Ársfundur Stapa 2023 – vilt þú vera fulltrúi Framsýnar?

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs verður haldinn miðvikudaginn 3. maí nk. í Menningarhúsinu Hofi kl. 14:00. Á fundinum verða tekin fyrir venjuleg ársfundarstörf.

Framsýn á rétt á 10 fulltrúum á ársfundinn. Hér með er skorað á félagsmenn að gefa kost á sér á ársfundinn fh. félagsins. Áhugasamir sjóðfélagar eru beðnir um að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is vilji þeir gefa kost á sér á ársfundinn, það er fyrir 18. apríl nk.

Verði fulltrúar Framsýnar sem sækja fundinn fyrir vinnutapi mun Framsýn greiða viðkomandi vinnutapið og ferðakostnað.

Rétt er að taka fram að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum og vonast stjórn sjóðsins eftir að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Stjórn Framsýnar

Niceair – Upplýsingar varðandi ónotaða flugmiða

Eins og kunnugt er hefur Niceair aflýst flugi og gert hlé á allri sinni starfsemi um óákveðinn tíma. Í tilkynningu frá Niceair í byrjun mánaðarins kemur fram:

„Vegna óviðráðanlegra aðstæðna neyðumst við til að fella niður öll flug Niceair frá og með 6. apríl nk.

Við hörmum þau óþægindi sem af þessu hljótast. 

Endurgreiðslur farmiða sem greiddir voru með debet- og kreditkortum munu skila sér á næstu dögum.

Öðrum farþegum er vinsamlegast bent á að senda erindi með upplýsingum um bókunarnúmer á niceair@niceair.is

Chairman of Framsýn trade union visits Raufarhöfn

Chairman of Framsýn trade union, Aðalsteinn Árni Baldursson will be answering questions at the Stjórnsýsluhús in Raufarhöfn on Wednesday 19 April from 15:00 to 17:00. Everyone welcome.

                                                                      Framsýn trade union

Przewodniczący związków zawodowych Framsýn z wizytą w Raufarhöfn

Przewodniczący związków zawodowych Framsýn, Aðalsteinn Árni Baldursson będzie odpowiadał na pytania w Stjórnsýsluhús w Raufarhöfn w środę, 19 kwietnia, w godzinach 15:00- 17:00. Wszystkich serdecznie zapraszamy do rozmowy.

                                                         Związki zawodowe Framsýn

Raufarhöfn

Formaður Framsýnar með viðtalstíma

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, verður til viðtals í stjórnsýsluhúsinu á Raufarhöfn fyrir félagsmenn miðvikudaginn 19. apríl. Hann verður á staðnum kl. 15:00 til 17:00. Allir velkomnir.

Framsýn stéttarfélag

Afmælisgjöf til félagsmanna STH – 60 ára afmæli

Starfsmannafélag Húsavíkur var stofnað 26. október 1963. Fyrsti forsvarsmaður félagsins var Páll Kristjánsson. Um 100 félagsmenn eru í félaginu. Félagið er stéttarfélag starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem nær yfir sveitarfélög í Þingeyjarsýslum. Í tilefni af afmælinu hefur verið ákveðið að færa félagsmönnum að gjöf veglega tösku sem þeir geta nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna. Síðan er til skoðunar að fara í afmælisferð í haust. Ferðin verður nánar auglýst síðar.

Samkomulag um frestun niðurfellingar orlofsdaga

Í síðustu kjarasamningum aðildarfélaga BSRB var samið um breytingar á orlofskafla kjarasamninga. Þar var öllum tryggður 30 daga orlofsréttur, óháð aldri og starfsaldri. Meðal þeirra markmiða sem bjuggu að baki breytingunni var að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt en safni orlofsdögum ekki upp. Samkvæmt lögum er flutningur orlofs milli ára óheimill en með breytingunum var því starfsfólki sem átti uppsafnað orlof gefinn þriggja ára aðlögunartími til að nýta sína uppsöfnuðu orlofsdaga, að hámarki 60 talsins, þrátt fyrir bann við flutningi milli ára.

Fljótlega eftir gerð síðustu kjarasamninga breyttust aðstæður á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ein af birtingarmyndum þess var óhóflegt álag á starfsfólk, undirmönnun stofnana og mun minna svigrúm fyrir fólk til þess að fara í orlof og vinna á uppsöfnuðu orlofi. Af þeim sökum hafa mörg ekki náð að vinna upp sitt uppsafnaða orlof á sl. þremur árum og einhver hafa jafnvel safnað upp enn fleiri orlofsdögum.

Með hliðsjón af framangreindu hefur verið tekin ákvörðun, í samráði við opinbera atvinnurekendur, að fresta niðurfellingu orlofsdaga. Í tilfelli starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar hefur niðurfellingu verið frestað til 30. apríl 2024 en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frestað niðurfellingu um ótilgreindan tíma og munu stjórnendur innan sveitarfélaga gera skriflegt samkomulag við starfsfólk sitt um töku uppsafnaðs orlofs. Þetta ákvæði nær til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur.

Bætt þjónusta við félagsmenn – hleðsla í boði

Þingiðn og Framsýn hafa komið sér upp hleðslustöðvum í Þorrasölum fyrir félagsmenn, það er í tveimur bílastæðum í bílakjallaranum. Bæði verður hægt að hlaða í bílakjallaranum í hleðslustöðvum stéttarfélaganna og í sameiginlegum hleðslustöðvum á bílaplaninu sem íbúar og gestir hafa aðgengi að. Tveimur stöðvum hefur verið komið fyrir á bílaplaninu. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna, þar er einnig hægt að fá sérstök kort sem menn þurfa að nálgast til að geta hlaðið bílana. Í skoðun er að virkja stöðvarnar þannig að menn geti hlaðið bílana með sínum greiðslukortum. Þá er reiknað með að menn noti sína eigin kapla við hleðsluna þar sem þeir fylgja ekki með hleðslustöðvunum.