Hagstofan hefur tekið saman áhugaverðar upplýsingar um heildartekjur einstaklinga árið 2022 sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/tekjur-skattframtol-2022/
Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali árið 2022, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði. Það er um 9% hækkun frá fyrra ári, sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6%. Miðgildi heildartekna var um 6,6 milljónir króna á ári, sem sýnir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 554 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 10,7%, en með tilliti til raunhækkunar var hækkunin 2,2%. Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi, tæpar 7,4 milljónir króna í Fjarðarbyggð, 7,3 milljónir í Kópavogi og í Reykjavík rúmlega 6,9 milljónir króna. Fjórtán sveitarfélög höfðu miðgildi heildartekna undir 6 milljónum króna og eitt var undir 5 milljónum króna. Norðurþing skorar nokkuð hátt á landsvísu, þar eru árstekjur einstaklinga/miðgildi tæplega 6,7 milljónir. Sé miðað við Norðurland eru heildartekjur einstaklinga á Norðurlandi þær hæstu meðal íbúa Norðurþings. Tvö önnur sveitarfélög eru á félagssvæði stéttarfélaganna á Húsavík, það er annars vegar Þingeyjarsveit þar sem miðgildið er um 5,9 milljónir og Tjörneshreppur þar sem miðgildið er um 5,1 milljón á ársgrundvelli.