Kristján Ingi Jónsson sem starfað hefur sem þjónustufulltrúi á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hefur ráðið sig til starfa hjá Slökkviliði Norðurþings.
Kristján Ingi hefur lengi komið að starfi er tengist almannaþjónustu. Sem dæmi má nefna að hann er formaður björgunarsveitarinnar Núpa og sat í stjórn Öxarfjarðardeildar Rauða kross Íslands til margra ára. Í dag situr hann í Neyðarvarnanefnd Rauða krossins í Þingeyjarsýslum auk þess að vera á útkallsskrá hjá slökkviliði Norðurþings. Þá kláraði hann grunnnám í sjúkraflutningum frá Sjúkraflutningaskólanum árið 2018. Hann hefur nú ákveðið að sölsa um og taka við starfi sem er á hans áhugasviði enda með mikla reynslu á þessu sviði. Kristján mun hefja störf hjá slökkviliðinu 1. nóvember nk.
Kristján Ingi hefur verið góður liðsmaður á Skrifstofu stéttarfélaganna og fallið vel inn í starfsmannahópinn. Á næstu dögum verður auglýst eftir nýjum starfsmanni í stað Kristjáns Inga á Skrifstofu stéttarfélaganna. Í boði er áhugavert og krefjandi starf með heimsins besta samstarfsfólki.