Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að flóttafólk í sérstaklega berskjaldaðri stöðu, eins og t.d. þolendur mansals, sé sent út á götuna, svipt allri þjónustu og ekki gefinn kostur á að sjá sér farborða í íslensku samfélagi.
Með því að útiloka flóttafólk frá samfélagslegri þjónustu eykst hætta á að viðkomandi sæti misneytingu sökum jaðarsetningar og allsleysis. Algjörri útskúfun úr samfélagi manna fylgja margvíslegar aðrar hættur og ógnir við líf og velferð þeirra sem lögin segja verðskulda svo ómannúðlega meðferð.
Miðstjórn minnir á að umrætt flóttafólk hefur iðulega dvalið árum saman hér á landi þar sem kerfi ríkisvaldsins hafa ekki ráðið við að tryggja eðlilegan málsmeðferðarhraða né sjá til þess að til staðar sé öruggur móttökustaður. Með því móti hefur íslenska ríkið tekið á sig ábyrgð á lífi og velferð þessa fólks og frá þeirri ábyrgð getur ríkisvaldið ekki hlaupist nú.
Verkalýðshreyfingin sem stærsta mannréttindahreyfing í heimi getur ekki setið hjá í málum sem þessu. Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að standa undir ábyrgð sinni og taka á þeim áskorunum sem við blasa í málaflokknum með mannúð og mildi að leiðarljósi.