Fréttir af aðalfundi Framsýnar –  Hátíðarhöldin 1. maí vel sótt

Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023. Eftir hátíðarhöldin í höllinni í fyrra var ákveðið að breyta til og færa hátíðina á Fosshótel Húsavík til prufu. Ástæðan er að fólki hefur frekar fækkað sem sækir viðburði sem þennan auk þess sem samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Þeir sem eldri eru hafa verið mjög duglegir við að sækja hátíðarhöldin meðan þeir sem yngri eru búa ekki yfir sama áhuga sem og erlendir félagsmenn. Þess vegna var ákveðið að færa hátíðarhöldin á hótelið þar sem góð þjónusta er í boði til að halda samkomu sem þessa. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Óhætt er að segja að breytingarnar hafi tekist vel og voru hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík vel sótt og öllum til mikils sóma. Salurinn á Fosshótel Húsavík hefur þegar verið tekinn frá fyrir hátíðarhöldin á næsta ári.

Norðurþing hækkar laun ungmenna í Vinnuskólanum

Framsýn óskaði nýlega eftir upplýsingum frá Norðurþingi um hækkanir á launum ungmenna í Vinnuskóla sveitarfélagsins milli ára. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykkti Reykjavíkurborg að hækka ekki laun ungmenna í Vinnuskóla Reykjavíkur milli ára sem er með miklum ólíkindum og rúmlega það. Reyndar til mikillar skammar fyrir sitjandi borgarstjórn.

Samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi hækka laun Vinnuskólans um 9% milli ára sem er í takt við almennar launahækkanir starfsmanna sveitarfélaga sem starfa eftir launatöflu SGS/Framsýnar og Sambands ísl. sveitarfélaga sem er afar ánægjulegt. Framsýn hefur komið þeim skilaboðum á framfæri við Norðurþing að mikilvægt sé að gera samanburð á launakjörum ungmenna í Vinnuskólum á landinu með það að markmiði að Norðurþing verði örugglega samanburðarhæft við önnur sambærileg sveitarfélög hvað varðar launakjör ungmenna í Vinnuskólum. Þeirri málaleitan hefur verið vel tekið af hálfu sveitarfélagsins.

Ekkert smá hress –  framtíðin björt

Í morgun komu nemendur úr Vinnuskólanum á Húsavík í heimsókn til stéttarfélaganna. Tilgangurinn með heimsókninni var að fræðast um starfsemi stéttarfélaga og réttindi þeirra á vinnumarkaði. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, tók vel á móti ungu gestunum sem tóku virkan þátt í kynningunni með fyrirspurnum og öðrum skemmtilegheitum. Heimsóknin var í alla staði mjög skemmtileg og rúmlega það.  Ekki þarf að taka sérstaklega fram að kynning sem þessi er ekki síst mikilvæg fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar –  21 milljón í námsstyrki til félagsmanna

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2022 fengu 327 félagsmenn greiddar kr. 21.394,858,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2021 var kr. 21.959.258,-.

Námsstyrkir árið 2022 skiptast þannig milli fræðslusjóða sem Framsýn á aðild að:

198 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt                                                     kr. 13.197.541,-.

    6 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt                                                           kr.      354.410,-.

  14 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt                                                        kr.      698.693,-.

 71 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði LÍV                                                kr.   4.408.067,-.

 35 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt                                                      kr.   2.436.147,-.

3 styrkir voru greiddir úr Fræðslusjóði Framsýnar á árinu 2022, samtals kr. 300.000,-.

Samtals fengu félagsmenn því greiddar kr. 21.394,858,- í námsstyrki á árinu 2022.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um í kjarasamningum. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn. Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á félagssvæðinu. Þó nokkuð er um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar eftir fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.  Þá eru starfsmenn stéttarfélaganna reglulega beðnir um að kenna á námskeiðum er tengjast vinnurétti.

Félagsmenn Framsýnar samþykktu ríkissamninginn

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 15. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 16.-21. júní. Á kjörskrá voru 1.418 manns og var kjörsókn 24,26%. Já sögðu 92,44%, nei sögðu 4,65% og 2,91% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum.

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: Framsýn stéttarfélag, AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagið Hlíf.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu

Kjarasamningur SGS og ríkisins 2023-2024

Kauptaxtar 1. apríl 2023 – 31. mars 2024

Falleg kveðja frá Stórutjarnaskóla

Framsýn færði nýlega Tónlistardeild Stórutjarnaskóla gjöf vegna aðkomu nemenda skólans að hátíðahöldunum 1. maí sem fram fóru á Fosshótel Húsavík á baráttudegi verkafólks.  Félaginu hefur borist þakkarbréf þar sem fram kemur þakklæti fyrir höfðinglega gjöf sem beri vott um hlýhug gefanda. Þakkað er fyrir gjöfina. Fram kemur að búið er að fjárfesta í fiðlu og cajontrommu sem mun nýtast tónlistarnemum skólans afar vel að sögn stjórnenda skólans um leið og óskað er eftir áframhaldandi farsælu samstarfi.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – við förum í fríið!

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið á liðnum árum með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Framsýn á tvö orlofshús,  á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og fjórar íbúðir í Kópavogi, eina á Akureyri og eina í Reykjavík. Orlofshúsið í Dranghólaskógi hefur verið notað í leiguskiptum á sumrin fyrir annað orlofshús í Svignaskarði í Borgarfirði sem er í eigu Eflingar. Leiguskiptin hafa komið vel út. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð í gegnum Hrunabúð sf. að Garðarsbraut 26, efri hæð sem hefur verið útleigu. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 45.000 fyrir viku dvöl í þeim húsum sem félagið er með á leigu hjá öðrum aðilum. Þá fengu 86 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.441.806,-. Árið áður fengu 78 félagsmenn þessa styrki, samtals kr. 1.506.910,-. Ekki var boðið upp á sumarferð 2022 þar sem ekki náðist þátttaka í sögu- og gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur Framsýnar við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Þá gekk Framsýn frá samningi við Icelandair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningurinn felur í sér að flugfélagið veitir stéttarfélaginu 10% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiðir stéttarfélagið flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá Icelandair.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Stöndum vaktina með vinnustaðaeftirliti

Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Í heimsfaraldrinum var starfið lagt niður tímabundið. Félögin hafa nú endurráðið í starfið. Hugmyndin er að tveir starfsmenn sinni starfinu í hlutastörfum með öðrum störfum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig vilja stéttarfélögin halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – vantar fólk og húsnæði

Á árinu 2022 var atvinnuástandið á félagssvæði Framsýnar með miklum ágætum enda flestar atvinnugreinar búnar að ná sér eftir heimsfaraldurinn. Eins og staðan er í dag vantar starfsfólk til starfa í flestar atvinnugreinar. Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur verið ferðaþjónusta, iðnaður, sjávarútvegur, landbúnaður og opinber þjónusta. Framsýn hefur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun um að veita atvinnuleitendum á félagssvæðinu góða þjónustu. Hvað það varðar hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna lagt starfsmanni Vinnumálastofnunar til skrifstofu að kostnaðarlausu en stofnunin hefur séð um að greiða starfsmanninum laun. Núverandi starfsmaður hefur bæði starfsstöðvar á Akureyri og Húsavík. Það er, hann er í hlutastarfi á Húsavík. Það sem stendur atvinnulífinu fyrir þrifum á svæðinu er vöntun á starfsmönnum og íbúðarhúsnæði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – PCC greiðir mest til félagsins

Fyrirtækið PCC BakkiSilicon hf. greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2022 eða samtals um kr. 34,6 milljónir, það er heldur meira en sveitarfélagið Norðurþing. Árið 2021 greiddi Sveitarfélagið Norðurþing mest allra fyrirtækja eða um 25,7 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar og í starfsmenntasjóði atvinnulífsins. Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2022 eftir röð:

PCC BakkiSilicon hf.

Sveitarfélagið Norðurþing

GPG. Seafood ehf.

Þingeyjarsveit

Hvammur, heimili aldraðra

Norðlenska matarborðið ehf.

Íslandshótel hf.

Ríkissjóður Íslands

Eimskip ehf.

Samherji fiskeldi ehf.

Samkaup hf.

Kjarasamningur undirritaður og verkfalli aflýst hjá STH

Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á áttunda tímanum í morgun. Lauk þar með 14 klukkustunda samningatörn samninganefndar BSRB. Verkfallsaðgerðum 2500 félagsmanna aðildarfélaga BSRB í 30 sveitarfélögum hefur verið aflýst.

Mánaðarlaun hækka að lágmarki um 35.000 kr. og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr. Samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu á fjórða tímanum í nótt. Auk þess var samið um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um 7000 félagsmanna BSRB.

„Það hefur verið magnað að upplifa kraftinn, samstöðuna og baráttuþrekið meðal félagsfólks okkar síðustu vikur sem og stuðning samfélagsins,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Margt jákvætt má finna í samningnum. „Við getum verið hóflega sátt við þessa niðurstöðu. Lægstu laun hækka verulega auk þess sem við fengum sáttagreiðslu samþykkta og hækkun á tiltekin starfsheiti.“

Félögin sem gera kjarasamninginn eru:

Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi

FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu

Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu

Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu

Starfsmannafélag Garðabæjar

Starfsmannafélag Húsavíkur

Starfsmannafélag Hafnarfjarðar

Starfsmannafélag Mosfellsbæjar

Starfsmannafélag Kópavogs

Starfsmannafélag Suðurnesja

Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar

Á næstu dögum munu aðildarfélög BSRB, þar á meðal Starfsmannafélag Húsavíkur, kynna samningana fyrir sínu félagsfólki. Eftir það verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna. Frekari upplýsingar verður hægt að nálgast á heimasíðu stéttarfélaganna.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagsmönnum fjölgar og fjölgar

Aðalfundur Framsýnar var haldinn 25. maí og var hann nokkuð vel sóttur.  Á næstu dögum munum við gera grein fyrir helstu málefnum fundarins í stuttum fréttum. Reyndar er þegar komin inn ein frétt á heimasíðuna um hækkun styrkja til félagsmanna úr sjúkrasjóði sem samþykkt var á aðalfundinum sem mikil ánægja er með.

Á aðalfundinum kom fram að alls greiddu 3.016 launamenn til Framsýnar á árinu 2022 en greiðandi félagar voru 2.731 árið 2021. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði því umtalsvert milli ára sem staðfestir að atvinnulífið er að taka við sér eftir heimsfaraldurinn auk þess sem mikil ásókn er í félagið enda félagið eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Án efa á félagsmönnum eftir að fjölga enn frekar á komandi árum. Af þeim sem greiddu félagsgjald til Framsýnar á síðasta ári voru 1.843 karlar og 1.173 konur, sem skiptist þannig að konur eru 39% og karlar 61% félagsmanna. Athygli vekur að karlmönnum heldur áfram að fjölga á kostnað kvenna. Hér á árum áður var kynjaskiptingin nánast jöfn. Vissulega hefur það áhrif að starfsmenn PCC á Bakka eru í miklum meirihluta karlmenn, en verksmiðjan hóf starfsemi 2018. Þá virðist sem erlendum karlmönnum í ferðaþjónustu sé einnig að fjölga umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Full ástæða er til að greina þessa þróun betur enda áhugaverð. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 302, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Fjölmennustu hóparnir innan Framsýnar starfa við matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, almenn verslunarstörf, iðnað og hjá ríki og sveitarfélögum. Félagsmenn Framsýnar stéttarfélags voru samtals 3.318 þann 31. desember 2022, það er greiðandi og gjaldfrjálsir félagsmenn.

Góðar hækkanir á styrkjum til félagsmanna Framsýnar úr sjúkrasjóði

Vegna aðhalds í rekstri og góðrar afkomu Framsýnar samþykkti aðalfundur félagsins, sem fram fór í lok maí, að stórhækka styrki úr sjúkrasjóði félagsins. Þannig vill félagið koma til móts við félagsmenn sem fyrir hafa eina bestu styrki úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum sem þekkjast meðal almennra stéttarfélaga á Íslandi. Samþykkt var að hækka eftirfarandi bótaflokka í starfsreglum sjúkrasjóðs frá og með 1. júní 2023 fyrir félagsmenn á vinnumarkaði. Þá komi til hækkun á útfararstyrk aðstandenda félagsmanna sem falla frá eftir fimm ár frá því að þeir hættu að greiða félagsgjald til félagsins. Fram að þeim tíma hafa aðstandendur fullan rétt eins og viðkomandi hafi verið á vinnumarkaði þegar hann féll frá:

Núverandi úthlutunareglur verða þær sömu en hlutfall endurgreiðslna úr sjúkrasjóði taka þessum breytingum:

  • Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 150.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 130.000,-. Með starfslokum er átt við að sjóðfélagar láti af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
  • Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 40.000,- í stað kr. 35.000,-.
  • Fæðingarstyrkur hækki og verði kr. 160.000,-. Var áður kr. 150.000,-.
  • Niðurgreiðslur til félagsmanna sem fara í glasafrjóvgun verði kr. 160.000,-. Var áður kr.  150.000,-.
  • Styrkir til félagsmanna vegna aðgerða á augum verði kr. 70.000,-. Var áður kr. 60.000,-.
  • Gleraugnastyrkur til félagsmanna verði kr. 70.000,-. Sama regla gildi fyrir þá sem kaupa sér linsur. Var áður kr. 60.000,-.
  • Styrkur til félagsmanna vegna kaupa á heyrnatækjum verði kr. 100.000,-. Var áður kr. 80.000,-. Upphæðin getur samtals orðið kr. 200.000,- vegna kaupa á tveimur tekjum. Var áður kr. 160.000,-.

Framtíðin er björt – fyrstu skrefin á vinnumarkaði

Þessir ungu og mögnuðu drengir eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaði. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa byrjað í Vinnuskóla Norðurþings í vikunni. Myndin er tekin við höfuðstöðvar stéttarfélaganna í morgun.  Þeir sögðust ætla að taka á því í sumar og safna sér inn pening fyrir veturinn. Greinilega hörkunaglar hér á ferð.

Félagsmenn með 10% afslátt hjá Frumherja

Framsýn er með samning við Frumherja um að félagsmenn fái 10% afslátt við skoðun á ökutækjum. Til þess að virkja afsláttinn þurfa félagsmenn að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og nálgast afsláttarmiða sem þeir framvísa við skoðun hjá Frumherja. Einnig er hægt að senda staðfestingu á því að menn séu félagsmenn í netpósti. Samkomulag Framsýnar gildir einnig fyrir félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur.  

Verkföll hafin hjá félagsmönnum STH

Víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í 29 sveitarfélögum hófust mánudaginn 5. júní. Þar á meðal hjá félagsmönnum Starfsmannafélags Húsavíkur sem starfa í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík. Verkföllin ná m.a. til starfsfólks í leikskólum, sundlaugum, íþróttamannvirkjum, þjónustumiðstöðvum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum og höfnum í 29 sveitarfélögum víðs vegar um landið. Um 2500 manns taka þátt í aðgerðunum sem eru umfangsmiklar og munu raska starfsemi sveitarfélaga og lífi fólks verulega. Áhrif verkfallanna mun gæta á að minnsta kosti 150 starfsstöðvum um allt land. Ekki er gripið til verkfallanna af léttúð heldur til að knýja fram kröfur gagnvart sveitarfélögum landsins sem neita að leiðrétta launamisrétti gagnvart starfsfólki sínu.

„Ábyrgð okkar allra er mikil og hefur BSRB lagt fram fjölmargar tillögur til að ná sátt. Þótt eitthvað hafi þokast í samningsátt á samningafundum síðustu daga neitar Samband íslenskra sveitarfélaga enn að koma til móts við réttláta kröfu okkar um sömu laun fyrir sömu störf. Það eru gríðarleg vonbrigði að við höfum ekki náð lengra og ljóst að mikill þungi færist í aðgerðir okkar frá og með morgundeginum og þar til lausn fæst í málið,” sagði Sonja formaður BSRB eftir árangurslausan fund hjá ríkissáttasemjara.

Hægt er að skoða yfirlit yfir aðgerðir hér.

STH stofnar vinnudeilusjóð og hækkar styrki

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur var haldinn í lok maí. Fundurinn var að venju líflegur enda mörg mál á dagskrá fundarins. Hermína Hreiðarsdóttir var endurkjörin sem formaður félagsins. Reyndar var sitjandi stjórn endurkjörin. Samþykktar voru verulegar breytingar á lögum félagsins. Stofnaður var vinnudeilusjóður með sérstöku framlagi kr. 500.000. Þá var gengið frá starfsreglum fyrir vinnudeilusjóðinn, ferðasjóð félagsins og úthlutunarreglum fyrir heilsueflingarstyrk sem félagsmönnum stendur til boða enda hafi þeir þegar notað þann rétt sem þeir eiga í Styrktarsjóði BSRB. Þá gekk rekstur félagsins vel á árinu enda starfið innan félagsins um þessar mundir með miklum ágætum. Hér má lesa um það helsta sem fram kom á fundinum en formaður félagsins gerði fundarmönnum grein fyrir helstu málefnum félagsins á umliðnu ári. Fjármálastjóri félagsins, Elísabet Gunnarsdóttir, fór yfir ársreikninga félagsins. Þá gerði Fanney Hreinsdóttir grein fyrir afmælisferð sem er í skoðun í tilefni af 60 ára afmæli félagsins í haust.

Fullgildir félagsmenn:
Fullgildir félagsmenn í Stafsmannafélagi Húsavíkur þann 31. desember 2022 voru 107, það er þeir sem greiddu til félagsins 2022. Það er 38 karlar og 69 konur. Þess ber að geta að fjöldi virkra félagsmanna STH sem greiddu í félagssjóð í janúar 2023 skv. félagatali í DK voru 76 en voru 81 á sama tíma í fyrra. Félagsmönnum hefur fækkað aðeins milli ára. Samkvæmt lögum BSRB skal tala fulltrúa miðast við félagatölu eins og hún reyndist í janúar það ár sem halda skal þing BSRB.

Fjármál:

Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2022 námu kr. 13.134.738,-  en voru kr. 13.091.405,- árið á undan.

Rekstrargjöld voru kr. 11.214.580,- og lækkuðu því lítillega milli ára úr kr. 11.252.700,-. Fjármunatekjur voru kr. 1.046.576,- samanborið við kr. 186.024,- árið á undan. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.705.534,- samanborið við kr. 4.559.429,- tekjuafgang frá fyrra ári. Heildareignir í árslok voru kr. 80.712.792,- og eigið fé nam kr. 79.019.134,-. Hefur það aukist um 7,8% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Starfsmannafélagsins í rekstrarkostnaði nam kr. 2.656.994,-.

Orlofsmál:

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. STH á eina íbúð í Sólheimum og gengur rekstur hennar vel. Stjórnin hefur haft til skoðunar að selja íbúðina og kaupa aðra í hennar stað. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin. Auk íbúðarinnar í Sólheimum á félagið eitt orlofshús á Eiðum, líkt og með íbúð félagsins í Sólheimum hefur rekstur orlofshússins gengið vel. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna sér um að halda utan um úthlutun og rekstur á eignunum. Þá fengu 7 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 148.105,-.

Fræðslumál og heilsurækt:

Á síðasta ári voru greiddir 12 styrkir til félagsmanna úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 810.901,-. Þá fengu félagsmenn greiddar kr. 110.000,- í heilsustyrki frá félaginu.

Kjaramál:

Kjarasamningsgerð hefur tekið töluverðan tíma undanfarna mánuði og hefur ýmislegt gengið á, m.a. hafa starfsmannafélög innan BSRB boðað til verkfalla sem standa yfir um þessar mundir. Stjórn STH fór í að móta kröfugerð félagsins sem var lögð fram á fundi sem BSRB stóð fyrir á Laugabakka í nóvember á síðasta ári um kjaramál og kröfugerð gangvart ríkinu og sveitarfélögum. Í upphafi viðræðnanna fór STH þess á leit við BSRB  að það gæti hagsmuna félagsins gagnavart samninganefndum ríkis og sveitarfélaga þar sem búið er að leggja niður Samflotið sem var samstarfsvettvangur nokkurra starfsmannafélaga innan BSRB um kjaramál. Nokkur af þeim hafa þegar sameinast Kili starfsmannafélagi og því er ekki lengur grundvöllur fyrir Samflotinu. Þann 31. mars 2023 skrifaði Starfsmannafélag Húsavíkur ásamt öðrum starfsmannafélögum undir samkomulag við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs um framlengingu og breytingar á kjarasamningi milli aðila. Samningurinn nær til 14 aðildarfélaga BSRB og þar á meðal STH. Um skammtímasamning er að ræða sem er með gildistíma frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Atkvæðagreiðsla um samninginn hófst miðvikudaginn 5. apríl og var hægt að kjósa um samninginn á Skrifstofu stéttarfélaganna. Kosningu lauk föstudaginn 14. apríl klukkan 09:00. Á kjörskrá voru 26 og nýttu 4 kosningarétt sinn eða 15,4% þeirra sem voru á kjörskrá. Samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Full ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af samningaviðræðum starfsmannafélaganna við Samband íslenskra sveitarfélaga. Allt er í hnút og því samþykktu félögin að boða til verkfalla til að knýja á um gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn sveitarfélaga. Félagsmenn STH sem starfa hjá Norðurþing mega búast við því að þurfa að taka þátt í verkfallsaðgerðum á næstu vikum semjist ekki á allra næstu dögum. Formaður félagsins hefur verið í góðu sambandi við þá sem fara fyrir viðræðunum við Samband ísl. sveitarfélaga fh. starfsmannafélaganna innan BSRB og upplýst stjórnarmenn STH um stöðuna á hverjum tíma.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit:

Atvinnuástandið hjá félagsmönnum hefur almennt verið með miklum ágætum. Ekki er að sjá að sveitarfélögin á svæðinu muni draga úr starfsemi á komandi árum. Því ætti atvinnuástandið að haldast áfram gott.

Hátíðarhöldin 1. maí:

Stéttarfélögin stóðu að þessu sinni fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík 1. maí 2023. Eftir hátíðarhöldin í höllinni í fyrra var ákveðið að breyta til og færa hátíðina á Fosshótel Húsavík til prufu. Ástæðan er að fólki hefur frekar fækkað sem sækir viðburði sem þennan auk þess sem samfélagsgerðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Þeir sem eldri eru hafa verið mjög duglegir við að sækja hátíðarhöldin meðan þeir sem yngri eru búa ekki yfir sama áhuga sem og erlendir félagsmenn. Þess vegna var ákveðið að færa hátíðarhöldin á hótelið þar sem góð þjónusta er í boði til að halda samkomu sem þessa. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki ásamt góðum gestum. Ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar auk þess sem þekktir og óþekktir tónlistarmenn tendruðu fram áhugaverða tónlist og söng. Þá var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð. Óhætt er að segja að breytingarnar hafi tekist vel og voru hátíðarhöldin á Fosshótel Húsavík vel sótt og öllum til mikils sóma. Salurinn á Fosshótel Húsavík hefur þegar verið tekinn frá fyrir hátíðarhöldin á næsta ári.

Starfsemi félagsins:

STH hefur komið að nokkrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn. Ráðist var í löngu tímabæra endurskoðun á lögum félagsins. Lögin verða tekin til afgreiðslu á fundinum. Stjórnin fór í að gera upp milli sjóða innan félagsins. Á sínum tíma stofnaðist skuld milli sjóða hjá STH. Ferðasjóður skuldaði öðrum sjóðum um 1,3 milljónir. Stjórnin fól fjármálastjóra félagsins að gera skuldina upp við aðra sjóði félagsins fyrir árslok 2022 sem gekk eftir.

Hugmyndir hafa verið uppi meðal starfsmannafélaga að sameina mannauðssjóði á vegum félaganna. Ágreiningur hefur verið uppi um hvort sameinaður sjóður eigi að vera með heimili á Akureyri eða á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn STH hefur verið þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að hafa sameinaðan sjóð með aðsetur á Akureyri. Stjórnin fól starfsmönnum félagsins að gera drög að reglugerð fyrir Starfsmenntasjóð félagsins. Reglugerðin verður tekin til afgreiðslu á aðalfundinum. Starfsmannafélag Húsavíkur var stofnað 26. október 1963 og verður því 60 ára í haust. Fyrsti forsvarsmaður félagsins var Páll Kristjánsson. Til stendur að minnast þessara tímamóta með afmælisferð til útlanda. Ferðanefnd vinur að því að finna góða ferð á árinu. Þeirra verður einnig minnst með afmælisgjöf til félagsmanna. Félagsmönnum stendur til boða að eignast tösku frá félaginu vegna þessara tímamóta í starfi félagsins. Stjórnin gekk frá starfsreglum fyrir Ferðasjóð STH sem fjármagnaður er með framlögum frá Norðurþing samkvæmt samkomulagi þess efnis. Starfsreglur sjóðsins verða teknar til umræðu og afgreiðslu á aðalfundinum. Umræður urðu innan stjórnar um mikilvægi þess að stofna vinnudeilusjóð. Ákveðið var að leggja tillögu þess efnis fyrir aðalfund félagsins til umræðu og afgreiðslu. Formaður STH hafði frumkvæði að því að stofna Facebook síðu fyrir félagið. Hugmyndin með síðunni er að auka upplýsingastreymi til félagsmanna. Gengið var frá samkomulagi við Norðurþing um þriggja daga vetrarfrí er varðar eldri starfsmenn sem fallið hafði út úr kjarasamningnum vegna mistaka að mati félagsins. Ekki er vitað hvenær það gerðist.

Samkomulag við Flugfélagið Erni:

Stéttarfélögin eru með samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselja til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félögin hafa sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan félögin hófu að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með nýlega endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið tókst félögunum að tryggja félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2023. Verð til félagsmanna í dag er kr. 15.000,- per flugmiða/kóða.

Húsnæði stéttarfélaganna:

Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs:

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Ágúst Sigurður Óskarsson, ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur annast þá þjónustu. Hann er ávallt reiðubúinn til að veita félagsmönnum nánari upplýsingar um starfsemina en markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. 

Innkaupastefna stéttarfélaganna:

Á síðasta ári samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna sameiginlega innkaupastefnu fyrir félögin, en þar er um að ræða ákveðið frumkvæði þar sem ekki er vitað til þess að önnur stéttarfélög hafi komið sér upp slíkri stefnu. Lögfræðingar stéttarfélaganna komu að því að móta stefnuna með forsvarsmönnum og starfsmönnum stéttarfélaganna. Fram kom ánægja hjá þeim með frumkvæði stéttarfélaganna að móta sér reglur varðandi það að tryggja hagkvæmni í kaupum á vörum og þjónustu fyrir stéttarfélögin, en ekki síður að stuðla með þessu að góðu viðskiptasiðferði.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Þingiðn og Framsýn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Þess ber að geta að Linda M. Baldursdóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn. Hann var valinn úr hópi 21 umsækjenda um starfið. Þá var jafnframt ákveðið að ráða Agnieszku Szczodrowska í hlutastarf við almenn skrifstofustörf, þýðingar og vinnustaðaeftirlit frá og með 1. febrúar 2023. Agnieszka verður í 50% starfi. Hugmyndin með hennar ráðningu er ekki síst að bæta þjónustu við erlenda félagsmenn sem fjölgar ár frá ári á félagssvæðinu. Full ástæða er til að þakka Lindu fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Linda var góður liðsmaður.  Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

Aðrar samþykktir frá fundinum:

Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 1% af launum var samþykkt samhljóða.

Guðrún Ósk Brynjarsdóttir og Helga Þuríður Árnadóttir voru tilnefndar í stjórn Vinnudeilusjóðs sem var stofnaður á fundinum. Með þeim í stjórn verður formaður félagsins á hverjum tíma.

Ákveðið var að hækka heilsueflingarstyrk félagsins. Það er að hann hækki til félagsmanna úr kr. 10.000,- í kr. 17.000,-. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Kosið var um formann, ritara og varamann til tveggja ára samkvæmt lögum félagsins. Sömu aðilar og verið hafa í þessum embættum gáfu kost á sér áfram, það er Hermína, Bergljót og Berglind. Ekki komu fram aðrar tillögur. Stjórnin verður því eftirfarandi á komandi starfsári:

Aðalstjórn:

Nafn:                                                    Staða:

Hermína Hreiðarsdóttir                Formaður

Bergljót Friðbjarnardóttir             Ritari

Fanney Hreinsdóttir                       Gjaldkeri

Varamenn:

Berglind Erlingsdóttir                     Meðstjórnandi

Sylvía Ægisdóttir                              Meðstjórnandi

Tillaga um að Sveinn Hreinsson, Arna Þórarinsdóttir og Guðrún Ósk Brynjarsdóttir verði í orlofs- og starfskjaranefnd félagsins fyrir starfsárið 2023 var samþykkt samhljóða.


Tillaga um að Fanney Hreinsdóttir, Arna Þórarinsdóttir og Eyrún Sveinsdóttir verði í Ferðanefnd félagsins fyrir starfsárið 2023 var samþykkt samhljóða.

Undir þessum lið var einnig gengið frá því að fulltrúar STH í starfsmenntasjóði verði Bergljót Friðbjarnardóttir og Hermína Hreiðarsdóttir. Norðurþing tilnefnir sína fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Kjör félagsmanna sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið:

Tillaga var lögð fram um að laun stjórnar og varastjórnar fyrir setinn stjórnarfund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Formaður hafi einn tíma til viðbótar í yfirvinnu per fund vegna undirbúnings og frágangs stjórnarfunda. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Tillaga var lögð fram um að formaður á hverjum tíma hafi fasta greiðslu kr. 30.000,- á mánuði fyrir störf sín sem formaður félagsins samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Tillagan var samþykkt samhljóða. Fram að þessu hefur ekki verið greitt sérstaklega fyrir formennsku í félaginu.

Tillaga var lögð fram um að laun fyrir aðrar fastar stjórnir og nefndir per setinn fund verði tveir tímar á yfirvinnutaxta samkvæmt launatöflu STH og Sambands íslenskra sveitarfélaga: Skrifstofuvinna II með 8% álagi. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Hér má síðan lesa nýsamþykkt lög STH og reglugerð Vinnudeilusjóð:

Lög Starfsmannafélags Húsavíkur

1. gr. Heiti félagsins og varnarþing
Félagið heitir Starfsmannafélag Húsavíkur (skammstafað STH). Heimili þess og varnarþing er á Húsavík.

2. gr. Tilgangur og starfssvæði
Félagið er stéttar- og hagsmunafélag starfsmanna ríkis og sveitarfélaga á félagssvæðinu, sem nær yfir sveitarfélögin Norðurþing, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit. Einnig starfsmanna sjálfseignarstofnana á félagssvæðinu, sem eru að meirihluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og vinna í almannaþágu og taka laun eftir kjarasamningum félagsins.

Tilgangur félagsins er m.a.:

a)  Að fara með umboð félagsins við gerð kjarasamninga samkvæmt lögum og reglugerðum um kjarasamninga og við aðrar sameiginlegar ákvarðanir félagsmanna.

b)  Að sinna hagsmunagæslu félagsmanna í öllu því er varðar laun, önnur kjör og starfsréttindi hvers konar.

c)   Að skapa bætta félagslega aðstöðu og m.a. starfrækja orlofsíbúðir.

e)  Að stuðla að samvinnu opinberra starfsmanna og samtaka launafólks.

c)   Koma fram opinberlega fyrir hönd félagsmanna.

d)  Að starfa að öðrum þeim málum sem að mati stjórnar mega verða félagsmönnum til heilla.

3. gr. Félagsaðild
Rétt til inngöngu í félagið eiga:

a)  Einstaklingar sem starfa hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu.

b)  Einstaklingar sem starfa hjá stofnunum ríkisins á félagssvæðinu.

c)   Einstaklingar, sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum á félagssvæðinu, sbr. 2. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.

d)  Einstaklingar sem starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum á félagssvæðinu sem starfa í almannaþágu, enda hafi viðkomandi stofnun eða starfsemi áður verið á vegum sveitarfélags, ríkis eða sjálfseignarstofnunnar.

e)  Einstaklingar sem starfa hjá félagasamtökum sem starfa í almannaþágu eða á grundvelli almannafjár.

f)   Stjórninni er heimilt að samþykkja einstaklinga sem starfa utan almannaþjónustu og eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi að undangenginni umræðu innan stjórnar um lögmætar aðstæður þar að baki.

g)  Einstaklingur sem uppfyllir eitthvert af ofangreindum skilyrðum til þess að geta orðið félagsmaður og greiðir félagsgjald til félagsins, telst þar með félagsmaður.

4. gr. Félagsaðild við atvinnuleysi og starfslokGangi félagsmaður úr þjónustu stofnanna ríkisins, sveitarfélaga, sjálfseignastofnanna eða félaga sem falla undir ákvæði 3. gr. eða hætti störfum hjá atvinnurekanda telst hann ekki lengur í félaginu.


Félagsmaður, sem verður atvinnulaus, á rétt til áframhaldandi félagsaðildar meðan hann er á skrá sem atvinnulaus, enda eigi hann ekki aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiða félagsgjald en heimilt er stjórn félagsins að fella það niður að hluta eða öllu leyti, komi fram beiðni um það.


Félagsmaður sem lætur af starfi meðan hann er félagsmaður fyrir aldursakir, vegna veikinda eða hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta, heldur réttindum skv. samþykktum í lífeyrisdeild ef hann kýs, en skal vera gjaldfrjáls.


Rísi deila um lögmæti uppsagnar félagsmanns úr starfi telst hann vera félagsmaður þar til hún er til lykta leidd.


Félagsmenn sem ráðnir eru til starfa hjá félaginu eða heildarsamtökum opinberra starfsmanna, halda enn fremur óskertum félagsréttindum meðan þeir gegna slíku starfi.

5. gr. Virkir félagsmenn
Þeir félagsmenn sem greiða félagsgjöld til STH teljast virkir félagsmenn. Einungis virkir félagsmenn geta boðið sig fram, verið skipaðir og tekið að sér trúnaðarstörf fyrir STH, sjóði, nefndir og ráð, ásamt nefndum BSRB.


Verði lengra en þriggja mánaða rof á greiðslu félagsgjalds félagsmanns til félagsins leiðir það sjálfkrafa til þess að félagsmaðurinn er leystur frá öllum trúnaðarstörfum fyrir STH, sjóði, nefndir og ráð ásamt nefndum BSRB.


Stjórn STH er þó heimilt að veita tímabundna undanþágu að hámarki 6 mánuði í senn til
áframhaldandi trúnaðarstarfa þrátt fyrir að félagsmaður sé ekki virkur félagsmaður. Grein þessi á ekki við um starfsmenn meðan ráðning varir.

6. gr. Skyldur félagsmanna
Allir félagar eru skyldir til að hlýða lögum og lögmætum samþykktum félagsins.

Þyki sannað að félagsmaður hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið félaginu tjóni, getur aðalfundur vikið honum úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

7. gr. Úrsögn úr félaginu
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg tilkynning til stjórnar og öðlast hún gildi frá þeim tíma er hún berst félagsstjórn, enda sé félagsmaður þá skuldlaus við félagið. Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli lýkur.


Halda skal aukaskrá yfir þá sem ekki eru félagsmenn, en greiða gjald til félagsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og hafa tilkynnt það skriflega, að þeir óski ekki eftir að vera félagsmenn.

Þeir sem á aukaskrá eru, njóta ekki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda svo sem aðildar að sjóðum félagsins, en taka laun eftir kjarasamningi félagsins og njóta þjónustu samkvæmt honum.

Ef sá sem á aukaskrá er óskar eftir að gerast félagsmaður skal hann tilkynna það stjórn félagsins skriflega og telst þá félagsmaður frá því tilkynningin berst stjórninni.

8. gr. Stjórnarkjör, undirnefndir og kjör skoðunarmanna
Stjórn félagsins skal skipuð 3 aðalmönnum og 2 varamönnum.

Skulu þeir kosnir annað hvert ár, til tveggja ára í senn, óhlutbundinni kosningu, á aðalfundi félagsins. Formaður, ritari og einn varamaður skal kosinn annað árið og hitt árið gjaldkeri og einn varamaður.

Komi til þess að aðalmaður í stjórn láti varanlega af störfum áður en kjörtímabil hans er úti skal stjórnin þegar í stað boða til auka félagsfundar sem kýs nýjan aðalmann í stjórn í hans stað fram að næsta aðalfundi.

Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs. Stjórn er heimilt að skipa undirnefndir vegna sérverkefna sem stjórn hefur á borði sínu.

9. gr. Störf stjórnar
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda.

Formaður kallar saman félagsfundi og stjórnarfundi og stjórnar þeim og er hann forsvarsmaður félagsins. Þó er formanni heimilt að skipa annan fundarstjóra.  Jafnframt veitir hann móttöku á erindum og bréfum til félagsins og annast samskipti fyrir þess hönd nema hann ákveði annað s.s. að fela skrifstofu félagsins að sjá um það.

Ritari heldur gerðabók og færir í hana ágrip af því, sem gerist á stjórnar- og félagsfundum. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni eða fundarstjóra.

Heimilt er að skrá fundargerðir rafrænt í tölvu í stað þess að þær séu færðar í sérstakar fundargerðarbækur. Skulu fundargerðir stjórnarfunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta reglulegan fund.

Heimilt er að taka fundi félagsins upp á hljóð- og/eða mynd en fundargerðir skulu engu að síður skráðar. Þess skal gætt að lög um persónuvernd séu virt komi til þess að fundir séu hljóðritaðir, teknar upp á myndband eða sjónvarpað.

Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum. Stjórn skal sjá svo um að fjármál séu í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna.

Heimilt er að fela öðrum aðila að annast rekstur og skrifstofuhald fyrir félagið, samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.

10. gr. Kjör trúnaðarmanna
Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt 28. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn STH þegar í stað.

11. gr. Félagsfundir
Boða skal til félagsfundar svo oft sem stjórnin telur þörf á.

Þá geta félagsmenn, skriflega, krafist þess að fundur verði haldinn í félaginu og er stjórninni skylt að taka það til greina, ef 1/5 hluti félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni. Er þá formanni skylt að boða til fundar innan 7 daga frá því er honum barst krafan.

12. gr. Boðun félags- og aðalfunda
Félagsfundir skulu boðaðir með auglýsingum eða á annan viðurkenndan hátt, s.s. á heimasíðu félagsins, með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara og aðalfundir með minnst sjö sólarhringa fyrirvara. Jafnan skal tilgreina fundarefni í fundarboði.

Allir félags- og aðalfundir eru lögmætir, ef boðaðir hafa verið samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar.

13. gr. Félagsgjald
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ákvörðun árgjalds skal fara fram á aðalfundi.

14. gr. Aðalfundur
Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert fyrir lok maí. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:

  1. Kjör á starfsmönnum fundarins
  2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
  3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
  4. Ákvörðun félagsgjalds
  5. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
  6. Lagabreytingar, ef þær liggja fyrir
  7. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna samkvæmt 8. grein
  8. Kosning fulltrúa í orlofsnefnd, ferðanefnd og starfskjaranefnd
  9. Kosning fulltrúa á þing BSRB
  10. Ákvörðun um laun stjórnar, annarra stjórna, ráða og nefnda
  11. Önnur mál

Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt fundarsköpum BSRB. Afl atkvæða ræður, en mál fellur á jöfnum atkvæðum. Falli atkvæði jöfn í kosningu gildir hlutkestisreglan.

15. gr. Fundarsköp
Fundum skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður útslitum mála nema við lagabreytingar þarf 3/5 hluta greiddra atkvæða fundarmanna til þess að breyting sé löglega samþykkt.

16. gr. Samninganefnd

Samninganefnd félagsins skal skipuð af aðalfundi. Verði því ekki við komið, getur stjórnin á hverjum tíma skipað samninganefnd.

Samninganefndin hefur yfirumsjón með gerð einstakra kjarasamninga við fyrirtæki, ríkið, sveitarfélög, sjálfseignastofnanir auk stofnanasamninga.

Þegar kemur að samningum fyrir einstaka hópa skal samninganefndin skipta sér niður og fá til liðs við sig trúnaðarmenn eða félagsmenn sem starfa á þeim vettvangi sem um ræðir.

Ákvarðanir um kaup og kjör sem varða einn hópinn sérstaklega skulu einungis bornar undir hann.

17. gr. Verkföll og aðrar vinnudeilur
Stjórn, að höfðu samráði við viðkomandi samninganefnd tekur ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls, og fer um boðunina skv. 15. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eða II. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eftir því sem við á.


Samkomulag um kjarasamning skal samninganefnd félagsins undirrita með fyrirvara. Samninganefndin getur þó falið öðrum umboð til þess f.h. félagsins.


Um endanlegt samþykki þeirra félagsmanna sem kjarasamningurinn tekur til, skal viðhafa
allsherjaratkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er.


Samninganefnd tekur ákvörðun um frestun eða afboðun verkfalls eftir undirritun kjarasamnings.

18. gr. Laganefnd
Stjórnin skipar þrjá félagsmenn í lagabreytinganefnd og einn til vara, til tveggja ára í senn. Nefndin skal sjá um endurskoðun á lögum félagsins.

19. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en aðalfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði.

Tillögur til lagabreytinga skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 sólarhringum fyrir aðalfund. Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.

Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 3/5 greiddra atkvæða.

Um leið og samþykkt er breyting á lögum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.

20. gr. Slit félagsins
Félagið má ekki leysa upp nema með samþykkt 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi félagsins enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um félagsslit. Verði félagið leyst upp, ber aðalfundi að ráðstafa eignum þess.  Einnig að tryggja varðveislu á skjölum þess og gerðarbókum.

21. gr. Samþykktir félagsins
Með samþykkt þessara laga falla úr gildi eldri lög STH frá 19. apríl 1994 með breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 25. nóvember 2011. Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 24. maí 2023.

Reglugerð fyrir Vinnudeilusjóð STH

1. grein – Nafn sjóðsinsSjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður Starfsmannafélags Húsavíkur og er eign þess félags. Heimili hans og varnarþing er á Húsavík.

2. grein – Tilgangur sjóðsinsTilgangur sjóðsins er:
a) Að veita fjárhagslega aðstoð þeim félagsmönnum, sem missa atvinnutekjur vegna langvarandi verkfalla eða verkbanna.
b) Að greiða beinan kostnað félagsins vegna vinnudeilna.
c) Að styrkja önnur stéttarfélög, sem eiga í langvarandi vinnudeilum og þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

3. grein – Tekjur sjóðsinsTekjur sjóðsins eru:
a) 10% af innheimtum félags- og vinnuréttindagjöldum.
b) Viðbótarframlag félagssjóðs eftir því sem aðalfundur hverju sinni kann að ákvarða.
c) Vaxtatekjur.
d) Frjáls framlög félagsmanna og annarra.

4. grein – Stjórn sjóðsinsStjórn sjóðsins skal skipuð þremur félagsmönnum kjörnum á aðalfundi og er formaður félagsins sjálfkjörinn formaður stjórnar sjóðsins og varaformaður í forföllum hans.

5. grein – StyrkveitingarStjórnin ákveður styrkveitingar úr sjóðnum. Styrki samkvæmt c-lið 2. greinar má þó því aðeins greiða út, að einnig liggi fyrir samþykki félagsstjórnar. Stjórnin skal halda gerðabók yfir fundi sína, styrkbeiðnir og styrkveitingar. Stjórnin úrskurðar einnig um aðrar greiðslur úr sjóðnum. Um útborganir fer eftir fyrirmælum sjóðsstjórnar.

6. grein – Réttur til styrkveitingarEigi má veita félagsmanni styrk úr sjóðnum nema hann hafi verið fullgildur félagsmaður áður en viðkomandi vinnudeila hófst og sé skuldlaus við félagið.

7. grein – Ágreiningur um úthlutunVerði ágreiningur um úthlutun úr sjóðnum, getur hver einstakur stjórnarmaður vísað málinu til félagsstjórnar, sem þá fellir endanlegan úrskurð.

8. grein – Skoðunarmenn reikninga og endurskoðandiSkoðunarmenn sjóðsins og endurskoðandi, skulu vera þeir sömu og hjá félagssjóði. Ársreikningur skal lagður fram áritaður af þeim.

9. grein – Ávöxtun sjóðsinsStjórn sjóðsins annast vörslu hans og ávöxtun á öruggan hátt, svo sem í tryggum seljanlegum verðbréfum, þátttöku í tryggum sjóðum eða í bönkum og sparisjóðum. Heimilt er sjóðnum að eiga fasteignir undir starfsemi sína eða eiga í fasteignum, sem félagið á eða er meðeigandi í.

10. grein – Breytingar á reglugerðBreytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi félagsins með samþykki 2/3 hluta atkvæða.

Ríkið hunsar kröfur SGS – Framsýn kallar eftir verkföllum

Það er með miklum ólíkindum að samninganefnd ríkisins skuli hunsa sanngjarnar kröfur Starfsgreinasambandsins um sömu laun fyrir sömu vinnu. Samningar hafa nú verið lausir frá 31. mars 2023. Ríkið hefur ekki fallist á að sama launatafla gildi fyrir félagsmenn Starfsgreinasambandsins og aðildarfélaga BSRB sem gegna sambærilegum störfum á ríkisstofnunum. Slík afstaða stenst ekki jafnræði eða jafnlaunavottun. Þess vegna ekki síst er krafa Starfsgreinasambandsins að ríkið komi til móts við félagsmenn aðildarfélaga sambandsins og greiði þeim sömu laun fyrir sömu vinnu og aðrir hópar launafólks fá. Kjaradeilan er á borði ríkissáttasemjara. Framsýn telur vinnubrögð samninganefndar ríkisins með miklum ólíkindum og krefst þess að komið verði til móts við kröfur Starfsgreinasambandsins, ef ekki, hvetur Framsýn til þess að boðað verði þegar í stað til verkfallsaðgerða á ríkistofnunum um landið allt enda 18 stéttarfélög innan sambandsins.  Innan Framsýnar eru um 180 félagsmenn sem starfa hjá ríkinu.