Fréttir af aðalfundi Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar var haldinn 29. apríl í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Óvenjugóð mæting var á fundinn. Formaður stjórnar, Jónas Kristjánsson, gerði grein fyrir starfsemi félagsins milli aðalfunda, þar kom fram m.a:

„Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi og þing á vegum félagsins s.s. á vegum Lsj. Stapa, Lsj. Birtu, Húsfélags Þorrasala, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þriðjudaginn 21. nóvember stóð Þingiðn og Framsýn fyrir sameiginlegum félagsfundi um kjaramál, flugsamgöngur og íbúðakaup. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun um kaup á orlofsíbúð: „Félagsfundur Þingiðnar, haldinn 21. nóvember 2023, samþykkir að heimila stjórn félagsins að kaupa orlofsíbúð að Hraunholti 22, 640 Húsavík, enda standist hún kröfur félagsins um orlofsíbúðir. Um er að ræða 4 herbergja íbúð á einni hæð í tvíbýli. Íbúðin sjálf er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr fylgir íbúðinni. Eignin afhendist fullbúin með lóð 1. ágúst 2024 eða eftir nánara samkomulagi. Kaupverð kr. 69.350.000,-.“Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins milli aðalfunda: Jónas Kristjánsson formaður, Vigfús Þór Leifsson varaformaður og aðrir stjórnarmenn Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Jónas Hallgrímsson.

Fullgildir félagsmenn:
Félagsmenn í Þingiðn voru samtals 109 þann 31. desember 2023, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi fullgildir félagsmenn voru 99. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á félagssvæðinu sem tryggt hefur gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna. Reyndar er vöntun á iðnaðarmönnum til starfa í flestar greinar innan félagsins.

Fjármál:

Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2023 námu kr. 19.141.488 sem er um 8,7 % hækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 22.659.666. Ef tekið er tillit til leiðréttinga frá fyrri árum var upphæðin 17.921.907 og 1,6% hækkun. Rekstrargjöld voru kr. 23.221.654 og hækkuðu um 10,7% frá síðasta ári. Þetta þýðir að tap var af rekstri fyrir fjármagnsliði. Stærsti einstaki útgjaldaliður félagsins eru bætur og styrkir úr sjúkrasjóði. Árið 2023 voru alls greiddir úr sjúkrasjóði 69 styrkir eða sjúkradagpeningar til félagsmanna kr. 7.754.665. Árið áður voru einnig greiddir 69 styrkir. Fjármagnstekjur hækkuðu lítillega eða úr kr. 14.287.573 árið 2022 í kr. 15.211.667 árið 2023 sem gerir um 6,5% hækkun. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 14.649.678 en hann var kr. 14.040.907 árið áður. Útistandandi iðgjöld lækkuðu um fimm miljónir milli ára sem er mjög ánægjulegt. Heildareignir í árslok voru kr. 289.996.214 og eigið fé nam kr. 280.207.702, hefur það aukist um 5,5% frá fyrra ári. Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.851.896.

Orlofsmál:

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Verkalýðsfélagi Þórshafnar hafa í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Stéttarfélögin eru með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið á liðnum árum með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3. Þá eiga Þingiðn og Framsýn saman íbúð í gegnum Hrunabúð sf. að Garðarsbraut 26, efri hæð sem hefur verið útleigu. Til viðbótar þessu er rétt að geta þess að Framsýn og Þingiðn eru með í byggingu parhús að Hraunholti 26-28 á Húsavík sem verður tilbúið til leigu fyrir félagsmenn 1. ágúst 2024. Mikil ánægja er með þessa ákvörðun félaganna, það er að auka framboð á orlofsíbúðum fyrir félagsmenn. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum  sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000,- fyrir viku dvöl í þeim húsum sem félagið er með á leigu hjá öðrum aðilum. Þá fengu 15 félagsmenn endurgreiðslur á árinu 2023 vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 362.940,-. Árið á undan fengu 20 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 302.300,-. Ekki var boðið upp á sumarferð á vegum stéttarfélaganna 2023. Unnið er að því að skipuleggja ferð í sumar á Langanes. Ferðin verður auglýst frekar þegar nær líður sumri. Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða á hótelum/gistiheimilum og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 17.500,- per flugmiða sem er gríðarleg kjarabót fyrir félagsmenn stéttarfélaganna. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur hafi verið samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma. Veruleg óvissa er með frekara áætlunarflug til Húsavíkur, þar sem ekki er vitað um frekari aðkomu stjórnvalda hvað varðar ríkisstyrki á þessari flugleið. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa margítrekað talað fyrir mikilvægi þess að flugsamgöngum verði viðhaldið. Því miður hefur farið lítið fyrir áhuga þingmanna kjördæmisins að berjast fyrir því með félögunum og öðrum heimamönnum að tryggja flugsamgöngurnar í sessi, ekki síst fyrir íbúa og atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Þann 1. apríl sl. var áætlunarflugi til Húsavíkur hætt þar sem Flugfélagið Ernir treysti sér ekki til að halda fluginu áfram nema Vegagerðin kæmi með áframhaldandi ríkisstuðning. Vegagerðin hefur boðað að svo verði ekki nema hvað það komi til greina að bjóða út flug til Húsavíkur yfir þrjá mánuði yfir veturinn, des-jan-feb. Afstaða Vegagerðarinnar er óásættanleg. Vonir voru bundnar við ríkisstyrkt flug til Húsavíkur á ársgrundvelli, til vara í sex mánuði yfir vetrartímann. Aðra mánuði væri flogið á markaðslegum forsendum. Stéttarfélögin munu halda áfram að vinna að málinu en staðan varðandi frekari flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur er verulega slæm. Þá eru stéttarfélögin með samning við Icelandair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn milli landa. Samningurinn felur í sér að Icelandair veitir stéttarfélaginu 10 til 20% afslátt frá fullu verði. Á móti niðurgreiða stéttarfélögin flugmiðana til félagsmanna. Það er, félagsmenn geta verslað gjafabréf í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna sem gefur þeim góð afsláttarkjör upp í fullt fargjald hjá flugfélaginu. Nýlega var ráðist í að kaupa ný húsgögn í íbúð félagsins í Þorrasölum. Skipt var um húsgögn í stofu, það er sófasett, sófaborð og skáp. Kostnaðurinn er um kr. 750.000,-. Formaður félagsins gekk í málið ásamt starfsmanni félagsins.

Þorrasalir 1-3:

Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum 1-3 í Kópavogi og gengur rekstur hennar mjög vel. Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Komið hefur verið upp hleðslustöð fyrir gesti íbúðar félagsins í Þorrasölum. Þá eru einnig til staðar tvær stöðvar á bílaplaninu sem eru í eigu húsfélagsins. Fjölbýlishúsið var málað síðasta sumar. Framkvæmdin var á vegum húsfélagsins. Þá er til skoðunar að mála íbúð félagsins síðar á árinu, eða næsta vetur ásamt íbúðum Framsýnar í Þorrasölum.

Fræðslumál:

Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018.

Á síðasta ári fengu 6 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 317.200,-. Samþykkt var að hækka styrki úr starfsmenntasjóði frá og með síðustu áramótum til samræmis við úthlutunarreglur Fræðslusjóðsins Landamenntar sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Sjóðurinn stendur vel og því taldi stjórnin eðlilegt að hækka námstyrki til félagsmanna. Tillaga þess efnis liggur fyrir aðalfundinum.

Málefni sjúkrasjóðs:

Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 7.754.665,- á árinu 2023. Árið 2022 voru greiddar kr. 6.620.793,- í styrki til félagsmanna. Greiðslur til félagsmanna hækkuðu því aðeins milli ára.

Kjaramál:

Samiðn gekk frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins 7. mars síðastliðinn. Þingiðn átti aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Sameiginleg atkvæðagreiðsla aðildarfélaga Samiðnar stóð yfir frá 12.-19. mars 2024. Samningurinn var samþykktir með miklum meirihluta með gildistíma frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Alls voru 689 félagsmenn Samiðnar á kjörskrá, þar af 75 í Þingiðn. Kjörsókn var 39,6%. Atkvæði greiddu 273 félagsmenn innan Samiðnar. Já sögðu 78,4%. Nei sögðu 16,5% og 5,1% tóku ekki afstöðu. Samningurinn skoðast því samþykktur og hefur þegar tekið gildi.

Þá kom félagið að sérkjarasamningi við PCC á Bakka, ásamt Framsýn stéttarfélagi. Sá samningur var sömuleiðis samþykktur í atkvæðagreiðslu enda hluti af aðalkjarasamningi félaganna við Samtök atvinnulífsins og því með sama gildistíma, það er til 31. janúar 2028.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit:

Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu.

Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Fullur vilji er til þess að halda áfram úti öflugu vinnustaðaeftirliti í fullu samráði við Alþýðusamband Íslands og helstu eftirlitsaðila í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Lögreglan hefur óskað eftir auknu samstarfi við stéttarfélögin hvað varðar vinnustaðaeftirlit. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna.

Starfsemi félagsins:

Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.

Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.

Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi. Formaður Þingiðnar þáði heimboð forseta Íslands, Guðna T. Jóhannessonar til Bessastaða, í tilefni fullveldisdagsins 1. desember. Til móttökunnar voru boðnir formenn launþegasamtaka ASÍ og BSRB. Formenn stéttarfélaganna, Framsýnar, Þingiðnar og STH þáðu öll boð forseta, sem hélt þar tölu og bauð gestum að skoða húsakynni á Bessastöðum. Félagið kom að því að halda tveggja daga trúnaðarmannanámskeið í mars 2024, það er með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Félaginu barst beiðni frá Gólfklúbbi Húsavíkur um styrk vegna kaupa á golfhermi fyrir starfsemina sem verður í nýju húsnæði klúbbsins við völlinn. Stjórnin samþykkti að styrkja verkefnið um kr. 200.000,-. Önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna komu að verkefninu með samtals kr. 300.000,-. Samþykkt var að heimila formanni félagsins að úthluta allt að kr. 400.000.- á árinu 2024 úr skúffusjóði formanns.

Húsnæði stéttarfélaganna:

Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru flest skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Heildarvelta félagsins árið 2023 var kr. 10,7 milljónir samanborið við kr. 10,2 milljóna veltu árið 2022. Tekjuafgangur ársins nam kr. 1,6 samanborið við kr. 1,6 milljón árið 2022.

Til viðbótar eiga Framsýn og Þingiðn íbúð að Garðarsbraut 26, efri hæð sem fellur undir rekstur Hrunabúðar. Íbúðin sem um ræðir er alls um 180 fm. Á síðasta ári var gengið í að útbúa nýtt skrifstofurými við hliðina á íbúðinni sem hafði áður verið ófrágengið fram að því og ekki í fastri útleigu. Um er að ræða um 50 fm. húsnæði. Verkinu er þegar lokið og hefur PwC fært sig um set og tekið húsnæðið á leigu en þeir voru áður með tvær skrifstofur á leigu í Hrunabúð. Önnur þeirra er komin í útleigu. Einn starfsmaður starfaði hjá félaginu á árinu í hlutastarfi við þrif og ræstingar. Þess utan eru reiknuð stjórnunarlaun á rekstur Hrunabúðar og fram koma í ársreikningi húsfélagsins.

Merki félagsins:

Til skoðunar hefur verið að breyta um félagsmerki. Núverandi merki þykir of „þungt“. Leitað var til

Bjarka Lúðvíkssonar sem er grafískur hönnuður með að gera merki fyrir félagið. Sá hinn sami hannaði merki Framsýnar. Borist hafa nokkrar tillögur frá honum. Eftir umræður í stjórn félagsins var samþykkt að vísa málinu til aðalfundar félagsins til afgreiðslu. Hvað merkið varðar sem varð fyrir valinu hjá stjórn táknar það klaufhamar eða eins og segir í umsögn um merkið frá hönnuðinum;  „Grafískur klaufhamar sem gæti líka verið blóm með litlu broti í hringnum sem túlkar skugga af sólinni. Hringurinn gæti verið sólin.“ Á aðalfundinum kemur í ljós hvort fundarmenn telji ástæðu til að skipta um félagsmerki eða ekki.

Félagssvæðið:

Félagið hefur átt í deilum við Félag Málmiðnarmanna á Akureyri eftir að félagið tók ákvörðun um að stækka félagssvæðið yfir félagssvæði Þingiðnar fyrir nokkrum árum. Á aðalfundi Þingiðnar 2023 var ákveðið að svara þessum yfirgangi með því að stækka félagssvæðið með sambærilegum hætti og FMA gerði á sínum tíma. Síðan þá hefur afgreiðsla málsins verið hjá ASÍ sem ber að taka fyrir allar lagabreytingar. Því miður virðist sem það hafi verið mistök hjá ASÍ að samþykkja breytingarnar hjá FMA þar sem þeir eru í miklum vandræðum með afgreiðsluna á lagabreytingum Þingiðnar. Forseti ASÍ og lögmenn sambandsins hafa verið með málið til skoðunar og hafa nú lagt fram tillögu að lausn málsins sem verður til afgreiðslu á aðalfundinum. Stjórn Þingiðnar hefur fallist á að ljúka málinu með þessum hætti. Það er hins vegar aðalfundarins að afgreiða málið endanlega.

Málefni skrifstofunnar:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 7 starfsmenn með starfsmanni Virk í 5,8 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn/Þingiðn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Þess ber að geta að Kristján Ingi Jónsson hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hans stað var Aðalsteinn J. Halldórsson ráðinn til starfa frá og með 1. nóvember 2023, en hann starfaði áður á Skrifstofu stéttarfélaganna frá árinu 2016 til ársins 2020 og hefur frá þeim tíma hefur hann verið í afleysingum hjá félögunum. Full ástæða er til að þakka Kristjáni fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna. Starfsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fóru í náms- og kynnisferð til Færeyja í febrúar 2024 ásamt formanni Þingiðnar. Með í för voru makar formanns og starfsmanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um starfsemi verkalýðsfélaga og stöðu verkafólks og sjómanna í Færeyjum auk þess að heimsækja Aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum. Sendinefndinni frá Húsavík var alls staðar mjög vel tekið og full ástæða er til að þakka frændum okkar í Færeyjum kærlega fyrir frábærar móttökurnar. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.“

Lagabreytingar:

Undir liðnum lagabreytingar urðu umræður um samskipti félagsins við Félag málmiðnarmanna á Akureyri um félagssvæði félaganna. Formaður gerði fundarmönnum grein fyrir því að Laganefnd ASÍ hefði ekki staðfest lagabreytingu félagsins sem samþykkt var á síðasta aðalfundi um stækkun á félagssvæðinu. Þingiðn hefði ákveðið að ráðast í þessa lagabreytingu til að mæta yfirgangi FMA. Í kjölfarið hefðu orðið töluverðar umræður hjá ASÍ um lagabreytingarnar. Eftir samræður innan ASÍ og með formönnum Þiniðnar og FMA hefði orðið til yfirlýsing sem væri til afgreiðslu á fundinum. Sagðist formaður þegar vera búinn að skrifa undir hana með fyrirvara um að formaður FMA gerði það einnig. Þrátt fyrir loforð þess efnis hefði formaður FMA ekki skrifað undir yfirlýsinguna. Formaður fór síðan yfir yfirlýsinguna:

„Við undirritaðir formenn f.h. Þingiðnar og FMA, lýsum því hér með yfir að stjórnir félaganna munu leggja fyrir aðalfundi/aukaaðalfundi félaganna á árinu 2024, tillögur þess að efnis að lagabreytingar FMA  annars vegar og hins vegar Þingiðnar sem nú bíða afgreiðslu miðstjórnar þar sem félagssvæðum félaganna var breytt svo þau skarast, verði breytt til fyrra horfs þ.a. að félagssvæði félaganna verði þau sömu og voru fyrir lagabreytingarnar.

Jafnframt lýsum við því yfir að félögin munu leggja sig fram um að mörk félagssvæða félaganna verði virt þar sem meginreglan er sú að skil iðgjalda og félagsaðild skuli ætíð ráðast af því hvar varanleg störf eru unnin. Félagsmenn sem hins vegar fara tímabundið til starfa á milli félagssvæða frá varanlegri starfsstöð, skulu eiga aðild á því svæði þar sem aðalstarfsstöð er. Félögin eru jafnframt sammála um að þeir félagsmenn félaganna sem nú eru starfandi á félagssvæðum þeirra en sem eru ranglega skráðir með félagsaðild skv. framansögðu skuli færa sig í það félag sem fer með kjarasamninginn á sínu svæði og félögin vinni saman að því að laga félagsaðildina á milli sín eins fljótt og unnt er.

Yfirlýsing þessi er háð tveimur skilyrðum. Í fyrsta lagi að stjórnir félaganna staðfesti hana og í öðru lagi að ASÍ haldi sérstakan fund um skipulagsmál á meðal formanna aðildarfélaganna. Að uppfylltum þessum skilyrðum skuldbinda stjórnir félaganna sig til þess að leggja fram og fylgja eftir þeim lagabreytingum sem yfirlýsing þessi fjallar um.“

Akureyri/Húsavík 12.4  2024

F.h. FMA                                                                                                            F.h. Þingiðnar

Jóhann Rúnar Sigurðsson                                                                            Jónas Kristjánsson

Eftir umræður var samþykkt að veita formanni fullt umboð til að klára málið enda staðfesti FMA sama skilning og afturkalli lagabreytinguna sem felur í sér að félagssvæðið þeirra nái yfir félagssvæði Þingiðnar. Gerist það mun Þingiðn draga lagabreytinguna jafnframt til baka. Formanni var falið að fylgja málinu eftir og klára yfirlýsinguna.

Ákvörðun árgjalda og starfsmenntagjalds:

Samþykkt var að hafa félagsgjaldið óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum og lágmarksfélagsgjaldið verði 0,3% af mánaðarlaunum iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. Þá var samþykkt að félagsmenn greiði 0,3% í starfsmenntasjóð félagsins.

Hækkanir á styrkjum úr sjúkrasjóði:

Í ljósi þess að staða félagsins er góð samþykkti aðalfundurinn að hækka greiðslur úr sjúkrasjóði frá og með 1. maí 2024. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða.

  • Útfararstyrkur til aðstandenda eldri félagsmanna hækki úr kr. 150.000,- í kr. 160.000,-.
  • Styrkur til félagsmanna vegna dvalar á heilsuhælum/Hveragerði hækki úr kr. 110.000,- í kr. 120.000,-.
  • Fæðingarstyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
  • Ættleiðingastyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
  • Þurfi félagsmenn að gangast undir tæknifrjóvgun hækki styrkurinn úr kr. 160.000,- í kr. 200.000,-.
  • Krabbabeinsskoðun taki smávægilegum breytingum. Áfram greitt fyrir hefðbundna skoðun að fullu. Heildarstyrkurinn verði kr. 40.000,- á ári til félagsmanna.
  • Styrkur vegna heilsueflingar félagsmanna hækki úr kr. 40.000,- í kr. 45.000,-. 
  • Þátttaka í ferðakostnaði félagsmanna vegna veikinda, það er þurfi þeir að ferðast til Akureyrar eða Reykjavíkur til lækna eða sérfræðinga, verði aukin um eina ferð. Fari úr þremur ferðum í fjórar.
  • Þátttaka í göngugreiningu félagsmanna verði aukin úr kr. 6.000,- í kr. 10.000,-.
  • Þátttaka vegna Laser eða augnsteinaaðgerða hækki úr kr. 60.000,- í kr. 80.000,- per auga.
  • Gleraugnastyrkur til félagsmanna hækki úr kr. 70.000,- í kr. 90.000,-.
  • Heyrnatækjastyrkir til félagsmanna hækki úr kr. 100.000,- í kr. 125.000,- per eyra.   

Reglur varðandi úthlutun styrkja úr sjúkrasjóði halda sér áfram.

Nýtt félagsmerki:

Formaður gerði fundarmönnum grein fyrir hugmyndum um að félagið taki upp nýtt félagsmerki. Undir umræðum kom fram að flestir voru á því að skipta um merki. Menn voru hins vegar ekkert of ánægðir með tillögurnar sem voru lagðar fram á fundinum. Eftir umræður var samþykkt að skoða málið betur.

Deila á