Góð þátttaka í kaffiboði Framsýnar

Framsýn stóð fyrir kaffiboði síðasta laugardag, 1. júní, í Félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn. Um er að ræða árvissan viðburð sem notið hefur töluveðra vinsælda meðal bæjarbúa. Um 130 manns komu og þáðu kaffi, konfekt og tertu sem Kvenfélagið á Raufarhöfn lagði til. Auk þess að snæða góða tertu gafst heimamönnum tækifæri á að ræða við formann og varaformann félagsins um allt milli himins og jarðar en þeir voru á staðnum. Sá mikli höfðingi Helgi Ólafsson varð 95 ára þann 31. maí. Í tilefni af því færði Aðalsteinn Árni honum blómvönd frá Framsýn. Með þeim á myndinni er eiginkona Helga, Stella Þorláksdóttir. Ástæða er til að þakka heimamönnum fyrir komuna og aðstoðina við kaffiboðið.

Elva Björk Óskarsdóttir og Svala Gestsdóttir fá sérstakar þakkir fyrir hjálpina en þær héldu utanum kaffiboðið. Frábærar báðar tvær.
Deila á