Samkomulag ASÍ og SA um hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði:

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna hækkar um 3,5% í þremur áföngum til 2018, það er þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands:

• 1. júlí 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 0,5% stig
• 1. júlí 2017 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% stig
• Hækkun um 0,5% þann 1. júlí nk. mun renna í samtryggingu sjóðsfélaga
• Frá 1. júlí 2017 getur fólk ráðstafað allt að 2% stigum í bundinn séreignarsparnað
• Frá 1. júlí 2018 getur fólk ráðstafað allt að 3,5% stigum í bundinn séreignarsparnað

Samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var 21. janúar 2016 hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð um samtals 3,5% stig á samningstímanum. Hækkunin kemur til framkvæmda í þremur áföngum, 0,5% stig þann 1. júlí 2016, 1,5% stig þann 1. júlí 2017 og um 1,5% stig þann 1. júlí 2018 og nær til þeirra lífeyrissjóða sem starfa á grundvelli kjarasamnings þessara aðila um lífeyrismál frá árinu 1969 og 1995. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt samningi þessum verður þá samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekanda.
Samkvæmt samningi aðila frá 21. janúar 2016 verður einstaklingum heimilt að ráðstafa, að hluta eða fullu, auknu framlagi launagreiðanda í bundinn séreignasparnað í stað samtryggingar til að auðvelda launafólki starfslok og auka sveigjanleika.
Atvinnurekendum verður áfram skylt að skila öllu skyldutryggingariðgjaldinu til lífeyrissjóðs viðkomandi launamanns. Sjóðfélagar munu því snúa sér beint til viðkomandi lífeyrissjóðs ef þeir óska eftir því að nýta sér þennan rétt, en lífeyrissjóðir sem starfa á grundvelli kjarasamninga ASÍ og SA munu setja upp sérstakar deildir um þessa bundnu séreign.
Ljóst er að núverandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða hefur ekki að geyma ákvæði sem heimilar sjóðsfélögum eða lífeyrissjóðum að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í bundna séreign. Einnig er ljóst að tíminn fram til 1. júlí 2016 er ekki nægur til að lífeyrissjóðirnir geti sett upp gagnsætt og skilvirkt kerfi svo sjóðsfélagar geti tekið upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta skyldutryggingariðgjalds í bundna séreign og áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna.
Því er óhjákvæmilegt annað en að fresta gildistöku heimildar til ráðstöfunar í bundna séreign til 1. júlí 2017 en þá verði launamanni heimilt að ráðstafa allt að 2% stigum í bundna séreign. Frá og með 1. júlí 2018 verði launamanni heimilt að ráðstafa til viðbótar allt að 1,5% stigum til bundinnar séreignar eða samtals allt að 3,5% stigum.
Hækkun framlags atvinnurekenda til lífeyrissjóðs um 0,5% frá og með 1. júlí 2016 verður fyrst um sinn ráðstafað í samtryggingu viðkomandi lífeyrissjóðs þar til valrétturinn tekur gildi frá og með 1. júlí 2017.

Samkomulag ASÍ og SA um framkvæmd á hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði á grundvelli samnings aðila frá 21. janúar 2016 – dags. 15.6.2016

Allt til fyrirmyndar hjá Garðvík

Starfsmenn Framsýnar áttu ánægjulegan vinnustaðafund með starfsfólki Garðvíkur á dögunum. Eigandi Garðvíkur, Guðmundur Vilhjálmsson, óskaði eftir fundi með fulltrúum Framsýnar til þess að kynna starfsmönnum sínum þau réttindi og skyldur sem þau hafa.

Þetta er gott framtak og þökkum við fyrir okkur. Við bendum eigendum fyrirtækja á starfssvæði Framsýnar að hægt er að bóka fundi sem þennann með því að hafa samband á Skrifstofu stéttarfélaganna.

felagslidar1606 002 felagslidar1606 010 felagslidar1606 007 felagslidar1606 012

Hækkun á endurgreiðslum til félagsmanna úr Fræðslusjóðnum Landsmennt

Ákveðið hefur verið að hækka endurgreiðslur til félagsmanna úr Fræðslusjóðnum Landsmennt frá 1. júlí 2016. Hámark endurgreiðslna til félagsmanna á ári hækkar úr kr. 70.000,- í kr. 75.000.-. Þeir félagsmenn sem nýtta sér ekki réttinn í þrjú ár eiga rétt á þreföldum styrk sem nemur allt að kr. 225.000.-. Breytingin gildir gagnvart námi/námskeiði sem hefst eftir 1.júlí 2016. Með þessari breytingu verður hámark einstaklingsstyrkja Landsmenntar eins og hjá Starfsafli, Sveitamennt, Ríkismennt, Flóamennt og fleiri sambærilegum sjóðum.

Guðni Th. Jóhannesson fundar

Forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson hélt framboðsfund í fundarsal Skrifstofu stéttarfélaganna í hádeginu í dag, 14. júní.

Guðni er á ferð um landið um þessar mundir og fljótlega eftir að fundi lauk hélt hann af stað til Dalvíkur þar sem næsti fundur er fyrirhugaður. Siglufjörður tekur svo á móti Guðna í kvöld.

Góð mæting var á fundinn en um 120 manns stútfylltu salinn í hádeginu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson færði Guðna ritsafnið „Fyrir neðan Bakka og ofan” eftir Þór Indriðason sem fjallar um starfsemi stéttarfélaga í Þingeyjarsýslu, atvinnumál og stjórnmál.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Fjárhagsleg afkoma félagsins var mjög góð á árinu 2015.

Rekstrarafgangur var á flestum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 8% milli rekstrarára. Rekstrarútgjöld félagsins hækkuðu einnig milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 174.674.441,- sem er aukning um 11,5% milli ára. Rekstrargjöld námu 132.890.938,- sem er aukning um 7,1% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja svo og kostnaðar vegna samninga. Fjármagnstekjur námu kr. 49.202.806,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 144.730.043,- á móti kr. 124.077.077,- á árinu 2014.

Í árslok 2015 var tekjuafgangur félagsins kr. 84.993.286,- en var kr. 65.635.375,- árið 2014.

Heildareignir félagsins námu kr. 1.639.705.386,- í árslok 2015 samanborið við kr. 1.545.510.950,- í árslok 2014.

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 41.996.843,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.101.145,- til rekstrarins.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þess ber að geta að skuld Norðurvíkur sem komst í þrot var afskrifuð á árinu 2015 þar sem ekki náðist upp í kröfuna.

Stjórn Framsýnar fundar á fimmtudaginn kl 18:00

Stjórn Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar, fimmtudaginn 16. júní kl. 18:00. Um er að ræða fyrsta fundinn eftir aðalfund en nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins á aðalfundinum. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Aðalfundur félagsins
4. Vinnustaðaeftirlit
5. Ungliðar-Framsýn UNG
6. Sumarkaffi á Raufarhöfn
7. Ályktun um Reykjavíkurflugvöll
8. Félagsliðafundur
9. Fundur með stjórnanda Samkaupa
10. Framkvæmdir G-26
11. Kjarasamningur um öryggismál
12. Sumarferð stéttarfélaganna
13. Kjör fulltrúa á aðalfund Rifóss hf.
14. Mærudagar-styrkur
15. Erlendir starfsmenn/Bæklingar-fatnaður
16. Önnur mál

Starfsfólk vantar í mötuneyti á Þeistareykjum!

Vegna fjölgunar starfsmanna á Þeistareykjum vantar fólk til starfa í mötuneyti LNS Saga á svæðinu. Um er að ræða öflugt mötuneyti, eitt það besta á svæðinu. Áhugasömum er bent á að hafa samband við yfirmann mötuneytisins Gauta Árnason í síma 8422125 sem veitir frekari upplýsingar.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagið félagslega mjög sterkt

Eins og fram kemur í skýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Styrkur félagsins kemur ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum, gangnamiðum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn og trúnaðarmannaráði. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu öflugasta stéttarfélagi innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga. Til hamingju félagar.

Félagsliðar – hvað er nú það?

Undanfarnar vikur hafa stjórnarkonur í Félagi íslenskra félagsliða, þær Ólöf Bára Sæmundsdóttir og Guðrún Geirsdóttir verið á herferð um landið og boðað til funda með félagsliðum. Í síðustu viku var röðin komin að Húsavík og var fundurinn haldinn í sal stéttarfélaganna á Garðarsbraut 26. Tilgangur kynningarfundanna er að kynna félag íslenskra félagsliða og kanna vilja fólks innan stéttarinnar til að stofna eigið stéttarfélag.
Á fundinum var einnig rætt um menntun félagsliða og nauðsyn þess að gera störf þeirra sýnilegri, en þó að þekking fólks á störfum félagsliða hafi aukist á síðustu árum virðist námið ekki alls staðar metið sem skildi. Ekki er tekið tillit til félagsliða í mönnunarmódelum stofnanna og þar af leiðandi síður auglýst eftir fólki með félagsliðamenntun. Starfsvettvangur félagsliða er reyndar mjög fjölbreyttur en segja má að hann felist að mestu leiti í því að styðja og efla sjálfstæða félagslega virkni, á heilbrigðis- félags- og menntunarsviði, í aðstoð og umönnun, ávallt með vilja og þarfir skjólstæðingsins að leiðarljósi.
Fagmenntun félagsliða á Íslandi hófst árið 1998 með þróunarverkefni Borgarholtsskóla, Félagsmálaráðuneytisins og stéttarfélaga og innan stéttarinnar eru í dag eru um 1000 félagsliðar. Stéttin mætir vaxandi þörf í samfélaginu fyrir sérþekkinguna sem námið veitir og benda má á að samkvæmt greiningu sem Starfsgreinasamband Íslands vann á fræðsluþörf fyrir aðstoðarfólk fatlaðs fólks kemur fram að nám félagsliða uppfyllir þær gæðakröfur sem gerðar eru á Norðurlöndunum um menntun fyrir aðstoðarfólk.
Á fundinum var einnig var rætt um mikilvægi þess að félagsliðar verði löggilt heilbrigðisstétt. Nauðsynlegt er fyrir framgang stéttarinnar að hún fái sömu viðurkenningu og aðrar fagstéttir innan heilbrigðisgeirans og ekki síður fyrir gæði þjónustu við ört vaxandi hóp fólks í þjóðfélaginu sem þarf á aðstoð og umönnun að halda. Kom fram í máli stjórnarkvenna að fulltrúar félagsliða hafi fundað með heilbrigðisráðherra í nóvember 2015, en síðan hafi ekkert af því máli spurst.
Fundurinn tókst í alla staði vel og niðurstaða hans var helst sú að samvinna og samheldni sé það sem mestu máli skiptir í baráttunni fyrir viðurkenningu stéttarinnar og náist að halda henni muni það leiða félagsliðastéttina til áframhaldandi góðra verka.

Eftirfarandi myndir voru teknar á fundi sem Félag íslenskra félagsliða boðaði til á Húsavík fyrir helgina. Nokkrir félagsliðar eru starfandi á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

felagslidar1606 013felagslidar1606 015felagslidar1606 017felagslidar1606 018felagslidar1606 020

Úr ársskýrslu Framsýnar: Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2015 eftir röð:

Samkvæmt ársskýrslu Framsýnar greiddu þessi fyrirtæki og stofnanir mest til félagsins á árinu 2015.

GPG. Seafood ehf.
Sveitarfélagið Norðurþing
Brim hf.
Norðlenska matarborðið ehf.
Ríkisjóður Íslands
Þingeyjarsveit
Hvammur, heimil aldraðra
Norðursigling ehf.
HB Grandi hf.
Eimskip Íslands ehf.

GPG-Seafood greiddi mest allra atvinnurekenda í iðgjöld til Framsýnar eða samtals kr. 11 milljónir árið 2015. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagsmönnum fjölgar og fjölgar, eru nú 2705

Alls greiddu 2.455 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2015 en greiðandi félagar voru 2.378 árið 2014. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði milli ára. Af þeim sem greiddu til félagsins voru 1.237 karlar og 1.218 konur sem skiptast þannig, konur eru 49,6% og karlar 50,4%.

Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.

Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 250, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði.

Þá má geta þess að 431 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 30 á milli ára. Árið 2014 greiddu 401 launagreiðendur til félagsins.

Félagsmenn þann 31. desember 2015 voru samtals 2.705.

 

Hefur þú gengið frá inngöngubeiðni í Framsýn?

Á árinu 2015 greiddu til Framsýnar- stéttarfélags 2455 launamenn iðgjöld skv. ákvæðum kjarasamninga. Félagið gætir hagsmuna þeirra allra gagnvart atvinnurekendum í héraði og fer með umboð þeirra í samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á landsvísu. Allir sem greitt er af til félagsins afla sér réttinda í sjóðum þess og njóta verndar þeirra kjarasamninga sem félagið gerir og allir sem greitt er af eru færðir á félagaskrá sem fullgildir félagsmenn nema þeir óski eftir því að vera ekki á henni. Það athugist að einungis fullgildir félagsmenn njóta kosningaréttar og kjörgengis í félaginu. Hér með er þeim tilmælum beint til þeirra launamanna sem greiddu iðgjöld til félagsins á árinu 2016 en vilja ekki vera á félagsskrá sem fullgildir félagsmenn að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík sem allra fyrst.

Stjórn Framsýnar- stéttarfélags

 

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagsmenn fengu greiddar 102 milljónir í atvinnuleysisbætur

Atvinnuástandið á félagssvæðinu hefur verið með miklum ágætum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi. Við gerð þessar skýrslu var óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um fjölda þeirra félagsmanna sem fengu atvinnuleysisbætur á síðasta ári og upphæð atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni fengu 157 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2015 samtals kr. 102.582.480,-. Með mótframlagi kr. 8.206.598,- námu heildargreiðslur alls kr. 110.789.078,-.

Það fer ekki framhjá neinum að miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á „Stór Húsavíkursvæðinu“. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka er á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að það sé mikið líf og fjör á svæðinu og lítið sem ekkert atvinnuleysi.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagsmenn spöruðu sér 36 milljónir

Í gegnum tíðna hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.

Framsýn- stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og þrjár íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík. Gerðar hafa verið nokkrar viðhalds breytingar á orlofshúsi félagsins í Dranghólaskógi. Komin er ný eldhúsinnrétting og nýtt hjónarúm.

Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl.

Þá fengu 59 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 852.334,-.

Félagið stóð fyrir sumarferð að Holuhrauni sumarið 2015 sem tókst í alla staði mjög vel.

Til skoðunar er að taka á leigu orlofshús á Spáni síðar í sumar fyrir félagsmenn. Samningaviðræður standa yfir við eigendur orlofsíbúðarinnar. Takist samningar verður íbúðin auglýst á heimasíðu stéttarfélaganna.

Félagsmönnum stendur til boða að kaupa miða í hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2015:

Seldir flugmiðar 3.420 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 33.858.000,-
Seldir miðar í göng 2.582 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 903.700,-
Seldir gistimiðar 701 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 1.542.200,-
Samtals sparnaður fyrir félagsmenn kr. 36.303.900,-

Úr ársskýrslu Framsýnar: Félagsmenn fengu greiddar 12,8 milljónir í starfsmenntastyrki

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2015 fengu 311 félagsmenn greiddar 12.807.117,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2014 var kr. 12.439.189,-.

Námsstyrkir árið 2014 skiptast þannig milli sjóða:
142 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt kr. 5.951.280,-.
5 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt kr. 277.737,-.
20 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt kr. 813.383,-.
54 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks kr. 2.314.455,-.
51 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt kr. 2.208.594,-.

Að auki fengu 40 félagsmenn sérstaka styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 1.241.668,-. Getið er um þá í ársreikningum félagsins.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði kjarasamninga. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur átt gott samstarf við Þekkingarnet Þingeyinga um námskeiðahald á árinu 2015, það er dyravarðanámskeið og námskeið í skyndihjálp.

Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldskóla á félagssvæðinu.

Úr ársskýrslu Framsýnar: Aðalsteinn Árni áfram formaður

Á aðalfundinum var gengið frá kjöri félagsmanna í trúnaðarstöður á vegum félagsins fyrir næstu tvö ár. Eftirfarandi aðilar voru kjörnir til að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.

Stjórn og nefndir Framsýnar árin 2016-2018

Aðalstjórn:
Formaður:
Aðalsteinn Árni Baldursson Skrifstofa stéttarfélaganna Húsavík
Varaformaður:
Ósk Helgadóttir Stórutjarnaskóli
Ritari:
Jóna Matthíasdóttir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf.
Gjaldkeri:
Jakob Hjaltalín Öryggismiðstöð Íslands hf.

Meðstjórnendur:
Svava Árnadóttir Norðurþing – Raufarhöfn
Torfi Aðalsteinsson Jarðboranir hf.
Sigurveig Arnardóttir Hvammur- heimili aldraðra
Agnes Einarsdóttir Hótel Laxá ehf.
Dómhildur Antonsdóttir Sjóvá – Almennar tryggingar hf.
Einar Friðbergsson Borgarhólsskóli
Gunnþórunn Þorgrímsdóttir Leikskólinn Grænuvellir
María Jónsdóttir Reykfiskur ehf.
Þórir Stefánsson Vegagerð ríkisins

Trúnaðarmannaráð:
Aðalsteinn Gíslason Reykfiskur ehf.
Daria Machnikowska LNS- Saga ehf.
Edílon Númi Sigurðarson GPG- Fiskverkun Raufarhöfn
Eysteinn Heiðar Kristjánsson Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Guðmunda Steina Jósefsdóttir Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Guðný Grímsdóttir Útgerðarfélag Akureyringa ehf.
Kristín Eva Benediktsdóttir Silfurstjarnan hf.
Kristján Þorvarðarson HB – Grandi hf.
Ragnhildur Jónsdóttir Norðurþing
Sigrún Arngrímsdóttir Húsmóðir
Sverrir Einarsson Öryggismiðstöð Íslands hf.
Valgeir Páll Guðmundsson Sjóvá- Almennar tryggingar hf.
Þórdís Jónsdóttir Þingeyjarskóli
Þráinn Þráinsson Olíuverslun Íslands hf.
Ölver Þráinsson Norðlenska Matarborið ehf.

Stjórn sjúkrasjóðs:
Aðalsteinn Árni Baldursson (sjálfkj.)
Einar Friðbergsson
Dómhildur Antonsdóttir

Varamenn:
Ósk Helgadóttir (sjálfkj.)
Jónína Hermannsdóttir
Guðrún Steingrímsdóttir

Stjórn fræðslusjóðs:
Gunnþórunn Þorgrímsdóttir
Jakob G. Hjaltalín
María Jónsdóttir

Varamenn:
Aðalsteinn Gíslason
Ragnhildur Jónsdóttir

Stjórn orlofssjóðs:
Kristbjörg Sigurðardóttir
Örn Jensson
Ásgerður Arnardóttir

Varamenn:
Þráinn Þráinsson
Svava Árnadóttir

Stjórn vinnudeilusjóðs:
Ósk Helgadóttir
Jakob Hjaltalín
Kjartan Traustason

Varamenn:
Gunnar Sigurðsson
Guðný Þorbergsdóttir

Laganefnd:
Ósk Helgadóttir
Agnes Einarsdóttir
Torfi Aðalsteinsson

Varamenn:
María Jónsdóttir
Sigrún Arngrímsdóttir

Kjörstjórn:
Svala Björgvinsdóttir
Þórður Adamsson

Varamenn:
Birgitta Bjarney Svavarsdóttir
Garðar Jónasson

Skoðunarmenn reikninga:
Þorsteinn Ragnarsson
Pétur Helgi Pétursson

Varamaður:
Rúnar Þórarinsson

Siðanefnd:
Ari Páll Pálsson, formaður
Þóra Jónasdóttir
Fanney Óskarsdóttir

Varamenn:
Friðrika Illugadóttir
Friðrik Steingrímsson

Fulltrúar Framsýnar í 1. maí nefnd:
Aðalsteinn Árni Baldursson
Svava Árnadóttir

Varamenn:
Valgeir Páll Guðmundsson
Jóna Matthíasdóttir

Framsýn gefur Félagi eldri borgara kr. 1.000.000

Á aðalfundi Framsýnar sem fram fór á miðvikudagskvöldið afhendi formaður félagsins Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni kr. 1.000.000 að gjöf vegna kaupa félagsins á félagsaðstöðu að Garðarsbraut 44 á Húsavík, neðri hæð. Um leið og hann sagði Framsýn óska Félagi eldri borgara til hamingju með húsnæðið og frumkvæði félagsins að skapa eldri borgurum félagsaðstöðu í skapandi starfi til framtíðar sem margir hverjir væru félagsmenn í Framsýn.

adalfundurfram0616 013
Hafliði Jósteinsson fulltrúi Félags eldri borgara tók við gjöfinni og þakkaði vel fyrir sig og félagið. Hann sagði gjöfina koma að mjög góðum notum en unnið væri að því að skapa eldri borgurum á svæðinu viðunandi félagsaðstöðu á Húsavík.

„Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring“.

Formaður Framsýnar flutti ávarp á aðalfundinum í gær þar sem hann fór yfir starfsemi félagsins sem var óvenjuleg öflug á síðasta starfsári. Hér má lesa ávarp formanns.

Ágætu félagar
Í dag höldum við aðalfund Framsýnar, stéttarfélags sem stofnað var 1. maí 2008 við sameiningu stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum.
Eins og sjá má í fyrirliggjandi ársskýrslu var starf félagsins umfangsmikið á umliðnu starfsári eins og reyndar undanfarin ár.
Með þessu ávarpi er hugmyndin að stikla á stóru varðandi fjölbreytta starfsemi Framsýnar um leið og fundarmenn eru beðnir um að kynna sér starfsemina með því að lesa skýrsluna sem liggur frammi á borðum fundarmanna.
Alls greiddu 2.455 einstaklingar til félagsins og fer félagsmönnum fjölgandi, ekki síst vegna framkvæmdanna á svæðinu er tengjast uppbyggingunni á Bakka. Af þeim sem greiddu til félagsins voru 1.237 karlar og 1.218 konur sem skiptast þannig, konur eru 49,6% og karlar 50,4% af félagsmönnum.
Við þessar tölur bætast svo gjaldfrjálsir félagsmenn sem voru samtals 250 um síðustu áramót, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru lengur á vinnumarkaði.
Félagsmenn þann 31. desember 2015 voru því samtals 2.705. Fjölmennustu atvinnugreinarnar eru matvælavinnsla, ferðaþjónusta og opinber þjónusta.
Þá má geta þess að 431 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 30 á milli ára. Af þeim greiddi GPG-Seafood ehf. mest eða samtals um 11 milljónir árið 2015, innifalin eru kjarasamningsbundin gjöld fyrirtækisins og félagsgjöld starfsmanna.
Öflugt starf félagsins kallar á fundi enda var mikið fundað á vegum félagsins á starfsárinu. Auk þess tóku fulltrúar félagsins virkan þátt í starfsemi þeirra sambanda sem félagið á aðild að sem eru Alþýðusamband Íslands, Alþýðusamband Norðurlands, Starfsgreinasamband Íslands, Landssamband íslenskra verslunarmanna og Sjómannasamband Íslands.
Þá hafa nokkrir fulltrúar félagsins verið valdir til að sitja í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóða.
Til að efla innra starf félagsins stóð félagið fyrir fjölmennu trúnaðarmannanámskeiði á Húsavík í febrúar 2016 í samstarfi við MFA.
Félagið sendi frá sér 10 ályktanir og áskoranir milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni. Flestar þeirra vöktu töluverða athygli.
Góðir gestir komu í heimsókn, það er miðstjórn ASÍ, framkvæmdastjórn SGS og stjórn Landsmenntar. Auk þess að funda á Húsavík fóru þessir aðilar í skoðanaferðir um uppbyggingarsvæðið á og við Húsavík.
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar ásamt starfsmönnum stéttarfélaganna fóru í náms- og kynnisferð til verkalýðssamtaka í Finnlandi í september 2015. Ferðin gekk í alla staði mjög vel og var vel tekið á móti gestunum frá Íslandi. Þeir sem fóru í ferðina kostuðu hana að mestu sjálfir. Slíkar ferðir eru mikilvægar í starfi félagsins, en nokkrar slíkar ferðir hafa verið farnar á síðustu 9 árum.
Eins og fram kemur í ársreikningum félagsins, sem farið verður sérstaklega yfir hér á eftir, varð rekstrarafgangur á öllum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 16,6% milli rekstrarára.
Rekstrartekjur félagsins námu kr. 174.674.441,- sem er aukning um 11,5% milli ára. Rekstrargjöld námu 132.890.938,- sem er aukning um 7,1% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja svo og kostnaðar vegna samninga.
Fjármagnstekjur námu kr. 49.202.806,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 144.730.043,- á móti kr. 124.077.077,- á árinu 2014. Í árslok 2015 var tekjuafgangur félagsins kr. 84.993.286,- en var kr. 65.635.375,- árið 2014.
Heildareignir félagsins námu kr. 1.639.705.386,- í árslok 2015 samanborið við kr. 1.545.510.950,- í árslok 2014.
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 41.996.843,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.101.145,- til rekstrarins.
Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.
Þrátt fyrir að höfuðstóll Framsýnar sé til fyrirmyndar skal tekið fram að eitt stórt verkfall félagsmanna gengi verulega á eignir félagsins. Það á einnig við um hugsanleg ytri áföll eins og fjármálakreppu.
Sterk staða félagsins gerir það að verkum að félagsmenn fá að njóta þess með ýmsum hætti. Ég nefni að á árinu 2015 voru 1000 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði félagsins. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 37.246.877. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 30.197.469,-. Styrkir úr sjúkrasjóði félagsins hækkuðu því milli ára um 7 milljónir.
Fyrir þessum fundi liggja tillögur um að auka enn frekar réttindi félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins með endurgreiðslum sem án efa eiga eftir að koma félagsmönnum til góða.
Kjaramál voru verulega umfangsmikil í starfi félagsins á síðasta starfsári enda flestir kjarasamningar félagsmanna lausir. Eftir verkföll landsbyggðarfélaganna innan Starfsgreinasambandsins gekk sambandið og LÍV frá nýjum kjarasamningum 29. maí 2015 við Samtök atvinnulífsins með gildistíma frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018. Framsýn var aðili að samningnum.
Reyndar hafði félagið áður samið við tugi fyrirtækja á félagssvæðinu þegar stefndi í verkfall, fyrirtækin vildu koma sér hjá verkfalli með því að semja beint við félagið um kaup og kjör starfsmanna án aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Þau lýstu því formlega yfir í viðræðum við forsvarsmenn Framsýnar að þeir styddu kröfur félagsins um lágmarkslaun upp á kr. 300.000. Enda reyndist kjarasamningur Framsýnar við fyrirtækin mun hagstæðari fyrir félagsmenn en kjarasamningur SGS og SA. sem undirritaður var síðar.
Félagsmenn sem áttu í hlut voru afar ánægðir með framgöngu félagsins sem færði þeim umtalsverðar kjarabætur. Þá vakti athygli víða um land og meðal fjölmiðla að félag norður í landi hefði tekist ætlunarverk sitt að hækka verulega laun félagsmanna með sérsamningi heima í héraði. Almennt fögnuðu menn þessum árangri félagsins.
Það var því nokkuð undarlegt að upplifa skammir frá ákveðnum öflum innan Alþýðusambands Íslands sem gerðu athugasemdir við að Framsýn semdi heima í héraði. Skammir frá Samtökum atvinnulífsins komu hins vegar ekki á óvart enda óttuðust þeir að samstaða atvinnurekenda myndi bresta eins og hún gerði víða um land.
Það er vissulega umhugsunarefni ef staðan er orðin sú að tilteknir verkalýðsforkólfar líti á verkalýðshreyfinguna sem stofnun en ekki afl til góða verka fyrir launþega í landinu. Einhverjir myndu segja að það væri komin veruleg þreyta í slíka einstaklinga og það væri því kominn tími fyrir þá að skipta um vinnu þar sem starfskraftar þeirra nýttust betur.
Sama hvaða skoðanir menn hafa er löngu tímabært að endurnýjun eigi sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar. Menn geta ekki horft upp á það öllu lengur að Alþýðusamband Íslands, samnefnari hreyfingarinnar, hafi innan við 20% traust meðal þjóðarinnar. Það er eitthvað mikið að og við því þarf að bregðast eigi síðar en strax.
Hvað varðar kjarasamninginn sem var undirritaður milli SGS/LÍV og Samtaka atvinnulífsins var niðurstaðan viðunandi á þeim tíma og var kjarasamningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal allra aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og LÍV. Eitt atriði skyggði þó verulega á samninginn. Það var nýtt viðmið varðandi launakjör ungmenna sem héldu ekki sínu hlutfalli af launum 18 ára, hlutfallið var lækkað og miðast nú við 20 ára lífaldur.
Aðeins eitt félag innan Starfsgreinasambandsins mótmælti þessari breytingu, það var Framsýn. Breytingin fór því í gegn við mikla óánægju ungs fólks sem taldi á sér brotið og fram kom m.a. á félagsfundi um kjaramál sem Framsýn boðaði til. Að mínu mati er um alvarlegt mannréttindabrot að ræða þar sem þessum aldurhópi er ætlað að skila sömu vinnu og þeim sem eldri eru en ekki sömu launum fyrir sömu vinnu. Það er full ástæða til að gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega.
Rétt er að þakka öllum þeim sem komu að því að standa verkfallsvaktina fyrir þeirra framlag en í flestum tilfellum fóru atvinnurekendur og félagsmenn Framsýnar að lögum og virtu verkfallið. Framsýn hélt uppi öflugri verkfallsvakt. Tveir menn, öðrum fremri, stóðu sig frábærlega og fyrir það ber að þakka. Hér er átt við félaganna Jakob Gunnar Hjaltalín og Sverri Einarsson sem stóðu vaktina eins og engin væri morgundagurinn.
Eins og oft áður komu aðrir hópar launafólks í kjölfar aðildarfélaga ASÍ og sömdu mun betur við sína viðsemjendur. Það varð til þess að forsendur kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ og SA brustu. Í kjölfarið gengu aðilar frá nýjum kjarasamningi eftir áramótin 2016 með gildistíma frá 1. janúar í stað 1. maí 2016. Samþykkt var að hækkun sem vera átti 5,5% þann 1. maí yrði 6,2% frá 1. janúar 2016. Þá áttu allir sem falla undir kjarasamninginn að fá að lágmarki kr. 15.000,- í launahækkun á grunnlaun.
Árið 2015 var mikið samningaár eins og fram hefur komið. Gengið var frá kjarasamningum fyrir flesta félagsmenn Framsýnar til viðbótar þeim sem falla undir kjarasamninga Starfsgreinasambands Íslands/LÍV og Samtaka atvinnulífsins. Það er fyrir ríkisstarfsmenn, starfsmenn sveitarfélaga, landbúnaðarverkamenn, starfsmenn Landsvirkjunar, starfsmenn Eddu hótela og beitningamenn svo eitthvað sé nefnd.
Því miður hefur sjómannasamtökunum enn ekki tekist að semja við SFS/LÍÚ um nýjan kjarasamning. Viðræður hafa þó verið nokkuð jákvæðar síðustu vikurnar. Vonandi leiðir það til þess að samningar takist á komandi mánuðum.
Full ástæða er til þess að hafa verulegar áhyggjur af svokölluðu Salek samkomulagi sem þegar er farið að hafa neikvæð áhrif á kjarabaráttu verkafólks. Verði það endanlega staðfest í kyrrþey eins og hugmyndir ákveðinna afla ganga út á er verið að færa samningsréttinn frá almennum félagsmönnun inn á borð sérstaks Þjóðhagsráðs sem ætlað er að skammta launafólki launahækkanir eftir þeirra eigin geðþótta. Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er grunnréttur stéttarfélaga að semja um kjör sinna skjólstæðinga, þess vegna ekki síst, er mikilvægt að komið verði í veg fyrir þetta óafturkræfa slys. Því miður virðist sem allt of mörg stéttarfélög innan Alþýðusambandsins ætli að leiða hjá sér þann alvarleika sem því fylgir að Salek samkomulagið nái fram að ganga. Framsýn verður því að stiga fram og mótmæla þessum gjörningi sem á sér ekki stoð eða fyrirmynd í lögum.
Varðandi atvinnuástandið á félagssvæðinu þá hefur það verið með miklum ágætum og lítið um atvinnuleysi. Á síðasta ári fengu 157 félagsmenn greiddar atvinnuleysisbætur samtals kr. 102.582.480,-. Með mótframlagi kr. 8.206.598,- námu heildargreiðslur alls kr. 110.789.078,-.
Það fer ekki framhjá neinum að miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á „Stór Húsavíkursvæðinu“. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka er á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að það sé mikið líf og fjör á svæðinu.
Til viðbótar þeim miklu framkvæmdum sem eru í gangi og tengjast framkvæmdunum á Bakka er mikið annað í vinnslu. Ástæða er til að nefna uppgang í ferðaþjónustunni og í verslun og þjónustu. Samkaup hefur verið að taka sínar verslanir í gegn á Húsavík, sömuleiðis Olís og þá er verið að endurbyggja Fosshótel Húsavík og tveir nýir veitingastaðir eru að opna um þessar mundir á Húsavík. Sömuleiðis er mikil uppgangur víða í héraðinu í ferðaþjónustu. Þar ber hæðst fyrirhugaðar byggingar á tveimur hótelum í Mývatnssveit.
Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður. Ekki er annað sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.
Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum. Fulltrúum félagsins hefur verið boðið að sitja í öryggisnefndum á vegum verktakana og verkkaupana og sitja þeir nú í flestum þeirra.
Það er alveg ljóst að nú ríður á að Framsýn standi undir nafni og komi í veg fyrir kjarasamningsbrot sem fylgja sérstaklega uppbyggingu í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.
Það er skoðun félagsins að fast hafi verið tekið á þessum málum á vegum félagsins með fundum með verkkaupum, verktökum og starfsfólki í byggingariðnaði. Stöðvuð hafa verið nokkur kjarasamningsbrot í fæðingu, þá er vitað að verktakar á svæðinu gera sér fulla grein fyrir eftirliti stéttarfélaganna og samstarfsaðila.
Stéttarfélögin tóku ákvörðun um að ráða starfsmann í vinnustaðaeftirlit í mars á þessu ári auk þess að kaupa bifreið til að þjóna verkefninu. Verkefninu er ætlað að standa í tvö ár og verður þá endurskoðað. Í starfið var ráðinn Aðalsteinn J. Halldórsson. Eftirlitið hefur farið vel á stað og þegar vakið töluverða athygli. Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, lögreglan og embætti Ríkisskattstjóra taka þátt í eftirlitinu. Aðilar frá þessum aðilum og stéttarfélögunum munu fara í reglulegar vinnustaðaheimsóknir í sumar og kynna sér stöðu mála, þegar hefur verið farið í þrjár skipulagðar ferðir.
Nokkrir aðilar hafa samþykkt að koma með formlegum hætti að eftirlitinu með fjárstuðningi. Það er; VM, Samiðn, Rafiðnarsambandið, Landsvirkjun og Landsnet.
Þá er rétt að geta þess að eftirlitið hefur þegar skilað félögunum umtalsverðum tekjum þar sem það var ætlun sumra verktaka/fyrirtækja að greiða ekki gjöld til stéttarfélaga af erlendum starfsmönnum. Meirihluti fyrirtækjanna sem eiga í hlut hafa nú fallist á það.
Horft verður sérstaklega til fyrirtækja í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Þá hefur félagið haft verulegar áhyggjur af fjölgun erlendra sjálfboðaliða á svæðinu. Fyrirtæki víða um land sem stunda efnahagslega starfsemi hafa auglýst á erlendum síðum eftir sjálfboðaliðum upp á fæði og gistingu. Laun hafa ekki verið í boði eins og ber að greiða samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Því miður eru fyrirtæki á félagssvæði Framsýnar sem stundað hafa þessa vafasömu iðju. Félagið hefur tekið hart á þessum brotum og sett sig í samband við þau fyrirtæki sem eiga í hlut og falla undir félagssvæðið.
Framsýn hefur fengið töluvert lof fyrir framgöngu sína í vinnustaðaeftirlitinu svo vitnað sé í nýlega Fréttamola ASÍ þar sem komið er inn á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Þar kemur fram:
„Þá má margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki síst útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni.“

Miklar framkvæmdir á svæðinu kalla á úrbætur í húsnæðismálum. Framsýn hefur haft verulegar áhyggjur af stöðu húsnæðismála á Húsavík sem þegar eru farin að standa frekari fólksfjölgun á svæðinu fyrir þrifum. Framsýn hefur lýst yfir áhuga á því að koma að því að stofna húsnæðissamvinnufélag í anda hugmynda ASÍ og þeirra frumvarpa sem bíða afgreiðslu frá Alþingi. Eitt er víst að hlutaðeigandi aðilar verða að bregðast við núverandi ástandi sem er ekki viðunandi. Húsnæðismálin verða ein af stóru málunum sem tekin verða fyrir á vetfangi Framsýnar á næstu mánuðum og árum.
Enn og aftur komum við að því hvað traustur fjárhagur skilar félagsmönnum miklu þegar við skoðum orlofsmálin og hvað er í boði fyrir félagsmenn. Ég nefni að á síðasta ári spöruðu félagsmenn sér um 36 milljónir vegna kaupa á gistimiðum, flugmiðum og miðum í hvalfjargöng sem skiptast þannig:
Seldir flugmiðar 3.420 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 33.858.000,-
Seldir miðar í göng 2.582 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 903.700,-
Seldir gistimiðar 701 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 1.542.200,-
Samtals sparnaður fyrir félagsmenn kr. 36.303.900,-
Eins og sjá má er sparnaður félagsmanna verulegur. Til viðbótar má gera þess að samningur félagsins við Flugfélagið Erni er ein besta kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félagið hefur sparað félagsmönnum um 50 milljónir síðan félagið tók að selja félagsmönnum flugmiða á sérkjörum frá flugfélaginu haustið 2013. Með samkomulagi við flugfélagið hefur Framsýn tryggt að verðið kr. 8.900 mun haldast út árið 2016 sem eru ánægjuleg tíðindi.
Þá má geta þess að félagið hefur í gegnum tíðina átt gott samstarf við önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna um orlofsmál og boðið upp á orlofshús um land allt auk íbúða og orlofshúsa sem eru í eigu félaganna.
Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 59 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 852.334,-. Félagið stóð fyrir sumarferð að Holuhrauni sumarið 2015 sem tókst í alla staði mjög vel.
Þá er til skoðunar er að taka á leigu orlofshús á Spáni síðar í sumar fyrir félagsmenn. Samningaviðræður standa yfir við eigendur orlofsíbúðarinnar. Takist samningar verður íbúðin auglýst á heimasíðu stéttarfélaganna á vildarkjörum.
Varðandi starfsmenntamálin þá er félaginu mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2015 fengu 311 félagsmenn greiddar 12.807.117,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Þar af fengu félagsmenn sérstaka styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar upp á 1,2 milljónir.
Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði kjarasamninga. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.
Þess má geta að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldskóla á félagssvæðinu.
Þegar kemur að hátíðarhöldunum 1. maí minnist ég oft orða Helga Bjarnasonar fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Húsavíkur, sem sagði þegar ég tók við sem formaður árið 1994, að hann hefði mestar áhyggjur á því við skiptin að mér tækist ekki sem formanni að viðhalda þeim glæsileika og menningu sem fylgd hefði hátíðarhöldunum á Húsavík fram að þessu.
Án efa urðu þessi orð til þess að stjórn Verkalýðsfélags Húsavíkur, síðar Framsýnar hefur lagt mikið upp úr glæsilegum hátíðarhöldum 1. maí sbr. ný yfirstaðinn hátíðarhöld þar sem um 700 manns komu í höllina og nutu þess sem var í boði. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum er ávalt leggja mikið upp úr baráttudegi verkafólks, ekki síst til minningar um þá sem mörkuðu sporin í verkalýðsbaráttu Þingeyinga.
Félagið stóð ekki bara fyrir fjölmennum hátíðarhöldum á Húsavík á baráttu- og hátíðardegi verkafólks heldur stóð félagið einnig fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn, föstudaginn fyrir Sjómannadaginn, þar sem flestir bæjabúar mættu og skemmtu sér vel og nutu veitinga. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna voru með opið hús á aðventunni þar sem gestum og gangandi var boðið upp á veitingar og tónlistaratriði. Fjölmargir þáðu boðið.
Ég neita því ekki að við erum afar stolt að því að hafa staðið fyrir samkomu/hátíðarfundi til að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og verkamanna á síðasta ári. Haldið var upp á afmælið þann 1. desember 2015 í fundarsal stéttarfélaganna sem tókst afar vel og var húsfyllir á fundinum. Dagskráin byggðist á ræðum og tónlistaratriðum. Fundurinn var félaginu til mikils sóma enda töldu fjölmargir ástæðu til að þakka félaginu fyrir að standa fyrir fundi um þennan merka atburð í sögu þjóðarinnar.
Eins og kunnugt er eru starfandi tvær öflugar deildir innan félagsins, það er Sjómannadeild Framsýnar þar sem Jakob Gunnar Hjaltalín stendur í brúnni á sterkri stjórn og Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar þar sem Jóna Matthíasdóttir stendur vaktina. Deildirnar hafa komið að ýmsum málum á starfsárinu s.s. kjaramálum. Þá sér Sjómannadeild Framsýnar um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn sem er fastur liður í starfsemi deildarinnar.
Árið 2008 var Virk – starfsendurhæfingarsjóður stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins. Markmið með sjóðnum er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.
Góð reynsla er af starfseminni á svæðinu enda heldur traustur maður utan um starfið, Ágúst Sigurður Óskarsson. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest.
Mikið er lagt upp úr að þjónustan hjá Virk sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag eru rúmlega 6 stöðugildi á skrifstofunni. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í hlutastörfum við að fylgjast með orlofsíbúðum á vegum félagsins.
Til skoðunar er að gera umtalsverðar breytingar á samstarfssamningi Verkalýðsfélags Þórshafar og stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Samningurinn er í vinnslu og mun væntanlega þýða að Verkalýðsfélag Þórshafnar mun taka í auknum mæli yfir ákveðin verkefni sem félagið hefur falið Skrifstofu stéttarfélaganna fram að þessu með samstarfssamningnum. Framsýn leggur mikið upp úr áframhaldandi góðu samstarfi við Verkalýðsfélag Þórshafnar.
Vonir standa til að hægt verði að ráðast í breytingar á efri hæðinni að Garðarsbraut 26 í sumar enda semjist við verktakann um verð. Húseignin er í eigu aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Til stendur að gera um átta skrifstofur sem verði tilbúnar í haust til útleigu. Kostnaðaráætlunin hljóðar upp á 27 milljónir. Eitt tilboð kom í framkvæmdina upp á 33 milljónir.
Ágætu félagar
Eins og fram kemur í ársskýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Það er borin mikil virðing fyrir félaginu sem skorar hátt í trausti félagsmanna og reyndar langt út fyrir það, það er hlustað á boðskap Framsýnar eins og forseti Íslands orðaði það í ræðu á Húsavík þegar 100 ára afmæli stéttarbaráttu í Þingeyjarsýslum var fagnað.
Styrkur félagsins kemur ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum, gangnamiðum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í Framsýn, stéttarfélagi.
Ekki hefur vantað að félagið hafi verið virkt í samfélaginu og styrkt góð málefni. Ég nefni sem dæmi að aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ásamt Íslandsbanka færðu Skógarbrekku, sem er deild innan HSN á Húsavík, hátíðar matarstell fyrir jólin 2015. Leikhúsmiðar voru niðurgreiddir til félagsmanna á sýninguna Dýrin í Hálsaskógi í leikgerð Leikfélags Húsavíkur. Leikritið var til sýningar eftir áramótin 2016. Samið var við N1 um sérstök afsláttarkjör fyrir félagsmenn.
Félagið hefur tekið þátt í verkefni á vegum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Lionsklúbbs Húsavíkur sem snýr að markvissu forvarnarverkefni gegn ristilkrabbameini í 55 ára einstaklingum í Þingeyjarsýslum. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna skuldbundu sig til að leggja fram eina milljón í verkefnið sem ætlað er að standa í fimm ár. Til umræðu er framlengja verkefnið í fimm ár í viðbót og hafa stéttarfélögin skuldbundið sig til að halda sambærilegum stuðningi áfram sem tryggir félagsmönnum gjaldfrjálsa skoðun.
Þá samþykkti félagið nýlega að færa Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni gjöf vegna kaupa félagsins á félagsaðstöðu kr. 1.000.000,-. Önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna komu einnig að því að styrkja þetta áhugaverða verkefni. Gjöfin verður afhent á aðalfundinum.
Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti mjög virkri heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna um réttindi þeirra og fréttir af starfseminni sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir.
Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn og trúnaðarmannaráði.
Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og taktföst hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.
Gleymum því heldur ekki að okkur ber að vinna sérstaklega með ungum félagsmönnum á vinnumarkaði, þannig að þeir hafi áhuga fyrir því að starfa innan félagsins og leggja sitt að mörkum til að móta félagið til framtíðar, ekki síst þeim til framdráttar. Hvernig gerum við það? Væntanlega með samtölum við ungt fólk varðandi þeirra sýn á starfið og þróun stéttarfélaga. Við eigum ekki segja þeim hvernig við viljum hafa hlutina, þess í stað eiga þau að segja okkur hvernig þau sjái fyrir sér framtíðina hvað þessi mál varðar. Við eigum að hlusta.
Hér á eftir munu tvö glæsileg ungmenni sem vöktu töluverða athygli á fundi sem Starfsgreinasambandið boðaði til á dögunum með ungu fólki segja frá fundinum og þeim áherslum sem þar komu fram. Aðalbjörn og Sigurbjörg Arna voru fulltrúar Framsýnar á fundinum.
Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi, einu öflugasta stéttarfélagi innan Starfsgreinasambands Íslands svo vitnað sé í kannanir sem gerðar hafa verið um viðhorf fólks til stéttarfélaga.
Reglulega fáum við t.d. óskir frá launþegum um inngöngu sem starfa utan félagssvæðis Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau stéttarfélög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi einstaklingur starfar á. Þessa reglu vill Framsýn almennt virða.
Að lokum vil ég óska félagsmönnum til hamingju með starfsemi félagsins á umliðnu starfsári með von um að starf félagsins haldi áfram að eflast félagsmönnum og samfélaginu til góða um leið og ég þakka öllum þeim sem starfað hafa fyrir félagið fyrir þeirra frábæra og óeigingjarna starf. Takk og aftur takk.

adalfundurfram0616 002

Menn voru sammála um að fundurinn í hefði verið upplýsandi og góður.