N1 opnar nýja verslun á Húsavík

N1 opnaði nýtt verslunarrými á Héðinsbraut 2, Húsavík. Nýja verslunin selur ýmiskonar olíur, hlífðarfatnað og ýmsar rekstrarvörur. Starfsfólki stéttarfélaganna var boðið að mæta á opnun verslunarinnar. Boðið var þáð og var Erlu Torfadóttur, yfirmanni N1 á Húsavík, færður blómvöndur í tilefni dagsins.

Hér að neðan má sjá myndir frá opnuninni.

IMG_9757 IMG_9752 IMG_9749 IMG_9747

Þingiðn: Góð staða félagsins og ályktað um Verkmenntaskólann

Ár 2016, þriðjudaginn 31. maí var aðalfundur Þingiðnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn hófst kl. 20:00. Mættir voru 12 félagar auk þriggja starfsmanna félagsins.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
Skýrsla stjórnar
Ársreikningar
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Lagabreytingar
Ákvörðun árgjalda
Laun stjórnar
Kosning löggilts endurskoðanda

2. Atvinnumál
Frummælandi: Aðalsteinn Árni Baldursson

3. Önnur mál
Hækkun á starfsmennastyrkjum til félagsmanna

Niðurstöður fundarins:
Formaður bauð fundarmenn velkomna, hann gerði tillögu um Aðalstein Árna sem fundarstjóra og Aðalstein J. sem fundarritara. Hann gat þess einnig að á borðum fundarmanna væri gjöf frá félaginu, um væri að ræða kjötvörur frá Viðbót á Húsavík. Því næst gaf hann boltann yfir á fundarstjórann. Aðalsteinn Árni þakkaði traustið og spurði fundarmenn hvort þeir gerðu athugasemdir við boðun fundarins, svo reyndist ekki vera og var því fundurinn úrskurðaður löglegur.

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Skýrsla stjórnar
Jónas Kristjánsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar:

Fundir Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 27. maí 2015 eru eftirfarandi:

Stjórnarfundir 5
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 1
Sameiginlegir fundir með Framsýn 2
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 5
Fundir í 1. maí nefnd 1
Fundir skoðunarmanna reikninga 1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12
Félagsfundir 1
Samtals fundir 28

Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.

Félagatal Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2015 voru 88 talsins. Greiðandi einstaklingar voru 88 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 86 og konur 2. Greiðandi félagsmönnum hefur fjölgað verulega undanfarna mánuði þrátt fyrir að þeir hafi ekki skráð sig í félagið. Um er að ræða erlenda starfsmenn sem illa gengur að fá sín iðnréttindi metin á Íslandi. Vonandi fjölgar þeim sem greiða til félagsins á árinu 2016 vegna mikilla framkvæmda á „Stór Húsavíkursvæðinu.“

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um er að ræða hækkun milli ára. Á árinu 2015 fengu samtals 48 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó ber að geta þess að ekkert náðist úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðast krafan því töpuð.

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framboðið sumarið 2016 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 12 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 152.413. Stéttarfélögin stóðu fyrir tveggja daga ferð í Holuhraun síðastliðið haust. Ferðin gekk vel. Samningur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum við Flugfélagið Erni er reglulega endurnýjaður enda afar mikilvægt að viðhalda þeim samningi, félagsmönnum til hagsbóta.

Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 206.450. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn, þess í stað þarf félagið að greiða fræðslustyrki úr félagssjóði félagsins. Fyrir þessum fundi liggur fyrir tillaga um að jafna að fullu réttindi félagsmanna til starfsmenntastyrkja á við félagsmenn Framsýnar sem hafa aðgengi að fræðslusjóðnum Landsmennt. Þingiðn hefur ekki sambærilegan aðgang að fræðslusjóði eins og fram hefur komið. Stjórn Þingiðnar telur að félagið eigi að skoða stofnun á starfsmennasjóði innan félagsins sem væri fjármagnaður með sérstöku framlagi frá félagsmönnum í gegnum félagsgjaldið. Sjóðnum væri ætlað að styrkja félagsmenn vegna náms eða námskeiða sem þeir sækja auk þess styðja félagsmenn til náms- og kynnisferða. Málið verður skoðað milli aðalfunda.

Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 1.892.101 sem skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir kr. 681.819
Sjúkradagpeningar kr. 1.210.282 (þar af kr. 600.00 í fæðingarstyrki)

Vegna góðrar stöðu sjóðsins er vilji til þess innan stjórnar að hækka ákveðnar greiðslur úr sjóðnum til félagsmanna. Tillagan gengur út á að gera það í samráði við stjórn Framsýnar þannig að reglurnar verði sambærilegar eins og þær eru nú þegar. Geri aðalfundurinn ekki athugasemdir við það er mikilvægt að aðalfundurinn heimili stjórn félagsins að klára málið gagnvart félagsmönnum.

Kjaramál
Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 29. maí 2015 með gildistíma til 31. desember 2018. Félagið stóð fyrir kynningarfundi um samninginn 8. júlí 2015 og var gestur fundarins Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður Samiðnar. Kjarasamningurinn var samþykktur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan aðildarfélaga Samiðnar. Ákveðið var að taka kjarasamninginn til endurskoðunar í janúar 2016 þar sem forsendur hans voru brostnar. Í kjölfarið var gengið frá nýjum kjarasamningi milli aðildarfélaga ASÍ og SA sem tók gildi 1. janúar 2016 í stað 1. maí 2016. Hækkun sem koma átti til 1. maí upp á 5,5% var hækkuð upp í 6,2% og flýtt til 1. janúar 2016.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum iðnaðarmönnum enda miklar framkvæmdir í gangi á svæðinu. Vissulega fylgja ógnanir slíkum framkvæmdum varðandi undirboð sérstaklega er varðar laun og starfsréttindi. Vegna þessa samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið, það er í vinnustaðaeftirlit. Ráðin var Aðalsteinn J. Halldórsson og hefur hann þegar hafið störf. Samiðn, Rafiðnarsambandið og VM hafa samþykkt að koma að ráðningunni í 18 mánuði. Landssamböndin greiða hvert um sig kr. 15.000 á mánuði. Þá hafa Landsvirkjun og Landsnet samþykkt að vera einnig með í ráðningunni með framlagi, sömuleiðis í 18 mánuði. Landsvirkjun mun greiða mánaðarlega kr. 75.000. Landsnet hefur hins vegar ekki gefið endanlega upp hvað þeir ætla að greiða. Ekki er ólíklegt að framlög þessara aðila tekki um 50% af kostnaðinum við starfsmanninn. Stéttarfélögin hafa fengið mikið lof fyrir framgöngu sína í vinnustaðaeftirlitinu svo vitnað sé í nýlega Fréttamola ASÍ. Þar kemur fram:

„Þá má margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki síst útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni.“

Til viðbótar má geta þess að fulltrúar stéttarfélaganna hafa verið beðnir um að fara með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hér Norðanlands í vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum. Lögreglan var hér á ferðinni á dögunum. Farið var í vinnustaðaeftirlit á framkvæmdasvæðið á Bakka. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ætla sér að halda uppi öflugu vinnustaðaeftirliti og munu í sumar veita eftirlitinu forystu með lögreglunni, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun. Þá mun Ríkisskattstjóri senda fulltrúa í eftirlitsferðirnar komi þeir því við vegna starfsmanna skorts.

Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2016. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 700 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi.
Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið kom að því ásamt öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna og útibúi Íslandsbanka á Húsavík að færa Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hátíðar matarstell að gjöf fyrir jólahátíðina 2015. Félagið kom að því að styrkja kaup Félags eldri borgara á félagsaðstöðu á Húsavík. Hlutur félagsins var kr. 200.000,-. Félagið niðurgreiddi í vetur leikhúsmiða fyrir félagsmenn á leikritið Dýrin í Hálsaskógi í leikgerð Leikfélags Húsavíkur. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna sömdu við N1 um afsláttarkjör fyrir félagsmenn.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin skrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009.
Ferli starfsendurhæfingar hjá Virk – starfsendurhæfingarsjóði.
Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.

Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.

Framfærslustaða einstaklinga við lok þjónustu hjá Virk – allt landið.

Flest fyrirtæki og stofnanir hafa verið í jákvæðum samskiptum við Virk um málefni starfsmanna sinna sem eru í samvinnu við Virk. Afar gleðilegt er að nokkur hafa átt frumkvæði að því að bjóða störf og samvinnu um ný tækifæri á vinnumarkaði. Allar nánari upplýsingar um starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að nálgast á heimasíðu sjóðsins www.virk.is og hjá ráðgjafa Virk í Þingeyjarsýslum, Ágústi Sigurð Óskarssyni í síma 464-6608 og netfangi virk@framsyn.is.

Málefni skrifstofunnar Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Þá er greinilegt að framkvæmdirnar sem hafnar eru á svæðinu s.s. á Þeystareykjum og Bakka kalla á aukna notkun á fundarsal stéttarfélaganna þar sem verktakar og aðrir þeir sem koma að framkvæmdunum hafa verið duglegir við að fá aðstöðuna fyrir fundi og námskeið sem tengjast framkvæmdunum

Húsnæði stéttarfélaganna
Stéttarfélögin hafa boðið út breytingar á efri hæðinni að Garðarsbraut 26. Eitt tilboð barst í breytingarnar upp á 33. milljónir. Kostnaðaráætlunin var upp á 27. milljónir. Ef um semst við verktakan H-3 verður ráðist í breytingarnar í sumar, það er ef aðilar ná saman um kostnaðaráætlunina.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

b) Ársreikningar
Huld Aðalbjarnardóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins auk þess að leggja fram tölfræðilegar upplýsingar úr bókhaldi félagsins sem eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar.
Fram kom að félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um væri að ræða hækkun milli ára. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Huld sagði launagreiðendur almennt samviskusama við að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó bæri að geta þess að ekkert hefði náðist út úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðaðist krafan því töpuð.

c) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Tillaga Kjörnefndar skoðast samþykkt þar sem ekki hafa borist aðrar tillögur um menn í trúnaðarstöður fyrir félagið fyrir næsta kjörtímabil.

d) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Fundarstjóri gaf orðið frjálst um skýrslu stjórnar og reikninga. Nokkrar fyrirspurnir komu fram frá fundarmönnum sem formaður og starfsmenn félagsins svöruðu. Því næst var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða. Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi: Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári. Tillagan var samþykkt samhljóða.
e) Lagabreytingar
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.

f) Ákvörðun árgjalda
Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum var samþykkt.

g) Laun stjórnar
Tillaga stjórnar um að laun stjórnar með óbreytt milli ára var samþykkt samhljóða. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

h) Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2016 var samþykkt samhljóða.

2. Atvinnumál
Aðalsteinn Á. Baldursson fór yfir stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og þróun hennar og íbúafjölda svæðisins síðastliðinn tíu ár. Frásögnin byrjaði á tölulegum upplýsingum um íbúafækkun svæðisins sem sýnd var með myndrænum hætti. Þar mátti sjá að íbúum hefur enn verið að fækka síðustu misserin. Sömuleiðis sýndi Aðalsteinn fram á breytingu á starfasamsetningu atvinnulífsins en mikil breyting hefur orðið á henni.

Aðalsteinn fór ennfremur yfir stóriðjusögu svæðisins sem byrjaði með staðarvali Alcoa og vali á Bakkalóðinni sem svo breyttist í verksmiðju PCC á Bakka sem nú er í smíðum. Miklar áskoranir biðu stéttarfélaganna með þessum framkvæmdum og fór Aðalsteinn yfir eftirlitsstarfið síðan framkvæmdir hófust. Einnig var farið yfir stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu og þær áskoranir sem aukin vöxtur hennar hefur ollið. Nokkrar umræður urðu meðal fundargesta í kjölfarið á erindi Aðalsteins.

3. Önnur mál
a) Starfsmenntastyrkir til félagsmanna
Fundarstjóri gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu: Tillaga er um að félagsmenn njóti sömu réttinda til endurgreiðsla frá félaginu vegna kostnaðar þeirra við nám eða námskeið og félagsmenn Framsýnar hafa í gegnum fræðslusjóðinn Landsmennt. Styrkir Þingiðnar koma úr félagssjóði, enda taki Iðan ekki þátt í kostnaði félagsmanna við nám eða námskeið sem þeir stunda. Tillagan var samþykkt samhljóða.

b) Samræming á reglugerð sjúkrasjóðs
Tillaga er um að stjórn Þingiðnar fái heimild til að samræma reglugerð Sjúkrasjóðs Þingiðnar við samþykktar breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar sem samþykktar verða á aðalfundi Framsýnar 8. júní 2016. Tillagan var samþykkt samhljóða.

c) Ályktun um stöðu Verkmenntaskólans
Umræður urðu um stöðu Verkmenntaskólans á Akureyri. Eftir umræður var eftirfarandi ályktun lögð fram og samþykkt samhljóða:
„Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu verknáms í landinu. Fyrir liggur að ungt fólk velur frekar bóknám að loknum grunnskóla en verknám.
Meðal skólafólks er atvinnuleysi helst til staðar hjá fólki sem velur bóknám að loknu grunnskólanámi, engu að síður skráir verulegur meirihluti sig í þess háttar nám. Eðlilegt er að hlutfallið á milli þeirra sem velja bóknám og verknám sé jafnara þar sem gríðarleg vöntun er á fólki til starfa með slíka menntun. Þessari vöntun hefur verið mætt með innflutningi á iðnmenntuðu fólki. Lausnin felst ekki því, lausnin felst í því að setja aukin kraft í verknám á Íslandi. Fréttir berast af alvarlegum fjárhagsvandræðum Verkmenntaskólans á Akureyri. Staða skólans nú um stundir er sú að kennarar segja hann nánast gjaldþrota samkvæmt ályktun kennarafélags skólans frá 18. maí síðastliðnum. Skólinn er helsta verknámsstofnun landsbyggðarinnar og það er hrein aðför að verknámi á landsbyggðinni að staðan sé þessi. Þingiðn skorar á stjórnvöld að leysa fjárhagsvandræði skólans til framtíðar eins fljótt og auðið er.“

Fleira ekki gert – fundi slitið

Fundarstjóri: Aðalsteinn Á. Baldursson Fundarritari: Aðalsteinn J. Halldórsson

Óánægja með frestun Dettifossvegar

Á síðasta fundi stjórnar- og trúnaðarmannaráði Framsýnar var rædd óánægja með frestun Dettifossvegar. Eins og vitað er þá er vinna við veginn komin vel á veg og til stóð að klára veginn á allra næstu misserum. Nú hafa stjórnvöld hinsvegar ákveðið að fresta frekari framkvæmdum við Dettifossveg og ekkert er vitað hvenær til stendur að klára framkvæmdina en þó er ljóst að þessi frestun þýðir einhverra ára bið í viðbót. Þetta er áfall fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og stendur í vegi fyrir frekari þróun hennar.

Skorað er á stjórnvöld að endurskoða þessa ákvörðun sína.

Jákvæð umfjöllun um stéttarfélögin í Fréttamolum ASÍ

Í nýjustu útgáfu fréttamola ASÍ er jákvæð umfjöllun um starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslu og framgöngu þeirra í kjara- og réttindamálum. Sýnilegt er á skrifunum að frammistaða stéttarfélaganna þykir vasklegri en gengur og gerist og til eftirbreytni. Þetta er afar ánægjulegt viðurkenning á starfi félaganna og hvetjandi til að halda starfinu áfram af sama eða jafnvel meiri krafti.

Að auki má lesa um heimsókn miðstjórnar ASÍ til Húsavíkur sem greinileg ánægja er með.

Sumarkaffi Framsýnar á Raufarhöfn

Stéttarfélagið Framsýn stendur fyrir sínu árlega sumarkaffi á Raufarhöfn föstudaginn 3. júní í Kaffi Ljósfangi. Gleðin stendur yfir frá kl. 16:00 til 18:00.

Boðið verður upp á heimsins bestu tertur frá Kvenfélagi Raufarhafnar og þá verða forystumenn Framsýnar á staðnum og ræða við fólk og segja brandara ef með þarf.

Að sjálfsögðu eru allir landsmenn velkomnir í kaffið. Sjáumst hress á Raufarhöfn föstudaginn fyrir Sjómannadag.

Framsýn, stéttarfélag

Vorboðarnir ljúfu úr Leikskólanum Grænuvöllum

Hefð er fyrir því að börn á Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík geri sér ferð á vorin á búgarðinn Grobbholt sem er á Skógargerðismelnum á Húsavík. Kindurnar í Grobbholti eru í eigu frístundabænda á Húsavík. Að sögn þeirra er alltaf afar ánægjulegt að fá börnin í heimsókn til að kynnast sauðburði og litlum lömbum sem eru að stíga sín fyrstu skref út í lífið. Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir sem teknar voru í heimsókninni.

leikskoli0616 021leikskoli0616 013leikskoli0616 038leikskoli0616 002leikskoli0616 044leikskoli0616 045leikskoli0616 051leikskoli0616 042leikskoli0616 048leikskoli0616 075leikskoli0616 059leikskoli0616 060

Formaður Framsýnar í viðtali á Bylgjunni

Aðalsteinn Á. Baldursson var í viðtali í útvarpsþættinum „Í bítið” á Bylgjunni 26. maí síðastliðinn. Hann fór yfir áhugaleysi Samtaka atvinnulífsins á vinnustaðaeftirliti, en vinnustaðaeftirlit er stundað af nokkrum öðrum aðilum án aðkomu SA.

Hlusta má á viðtalið með því að smella hér.

Fimmtugur Ágúst

Ágúst Óskarsson, okkar innanbúðarmaður hér á skrifstofunni, fagnaði 50 ára afmæli sínu í gær. Í tilefni af því færði hann vinnufélögum sínum veitingar af miklum höfðingsskap. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í veitingarnar, enda voru þær af gamla skólanum. Við á Skrifstofu sveitarfélaganna þökkum kærlega fyrir okkur. Á myndinni hér að ofan má sjá okkur starfsfólk skrifstofunnar færa Ágústi gjöf í tilefni dagsins. Á myndina vantar Lindu Baldursdóttur.

Vert er að nefna að Ágúst er annálaður áhugamaður um hlaup eins og sumir vita. Á dögunum birti Fréttablaðið viðtal við Ágúst um þetta áhugamál hans og hlaupahópinn Skokka sem er félagsskapur sem lifir góðu lífi á Húsavík nú um stundir.

Lesa má viðtalið hér.

Laun í vinnuskólum

Framsýn kannaði á dögunum hvort sveitarfélögin á starfssvæðinu byðu upp á vinnuskóla í sumar og ef svo, hvaða laun væru í boði.

Í ljós kom að Skútustaðahreppur mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2002. Þau munu fá greiddar 491 krónur á klukkustund. Þingeyjarsveit býður upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 747 krónur greiddar á klukkustund og börn fædd 2002 munu fá 637 krónur á klukkustund. Norðurþing mun bjóða upp á vinnuskóla fyrir börn fædd 2001 og 2002. Börn fædd 2001 munu fá 610 krónur á klukkustund og börn fædd 2002 fá 491 krónu á klukkustund.

Í grein Fréttablaðsins frá 20. maí kemur fram að mjög mismunandi er hversu mikið börn fá greitt fyrir vinnu í vinnuskólum. Snæfellsbær trónir á toppnum í launagreiðslum en þar fá börn fædd 2002 1.078 krónur á klukkustund og börn fædd 2001 1.243 krónur á klukkustund. Stykkishólmur og Grundarfjörður koma í sætunum þar fljótlega á eftir. Lægstu launin fyrir börn fædd 2002 greiðir Hafnarfjörður en þar fá börn á þessum aldri 416 krónur á klukkustund. Lægstu launin fyrir börn fædd 2001 greiðir Reykjavík en þar fá börn í þessum árgangi 464 krónur á klukkustund.

 

SA svarar fyrir sig: Telja sig standa fyrir ábyrgt atvinnulíf

Samtök atvinnulífsins vísa á bug alhæfingum verkalýðshreyfingarinnar um almenna brotastarfsemi, m.a. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, út frá þeim afmörkuðu tilvikum sem upp hafa komið að undanförnu. SA gagnrýna þau harðlega og vinna heilshugar með stjórnvöldum við að stemma stigu við slíkum brotum.
Samskipti verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins um réttindamál launafólks hafa hins vegar nær eingöngu verið með upphrópunum í fjölmiðlum. Engin tölfræði hefur verið lögð fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um umfang eða alvarleika brota á vinnumarkaði til að reyna að átta sig á raunverulegri stöðu mála.
Samtök atvinnulífsins sinna ekki opinberu eftirliti og það er ekki hlutverk samtakanna. Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra og Vinnueftirlitinu ásamt fjölmörgum fleiri eftirlitsaðilum er fyllilega treystandi til að hafa eftirlit með starfandi fyrirtækjum. Verkalýðsfélög gegna hins vegar því eftirlitshlutverki að fylgjast með því að á réttindum félagsmanna þeirra sé ekki brotið og ber að grípa til viðeigandi ráðstafana komi slík mál upp. Ekki er nein ástæða til þess að Samtök atvinnulífsins taki þátt í þessari hagsmunagæslu verkalýðsfélaga fyrir hönd félagsmanna sinna.
Árið 2010 var þó ákveðið að gera tímabundið átak í þessum efnum milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um framkvæmd eftirlits á vinnustöðum í framhaldi af kjarasamningi aðila um upptöku vinnustaðaskírteina í tilteknum atvinnugreinum. Samtök atvinnulífsins réðu tvo starfsmenn til að sinna þessu verkefni einvörðungu og vörðu tugum milljóna króna til þess á árabilinu 2011-2013. Á þessum þremur árum voru 80 prósent allra eftirlitsferða á vegum SA og afgangurinn af hálfu þeirra fjölmörgu starfsmanna verkalýðsfélaga um allt land sem falið hafði verið að sinna verkefninu.
Ásakanir Framsýnar-stéttarfélags í dag um að Samtök atvinnulífsins láti sig þessi mál ekki varða eru bæði marklausar og ómaklegar. Samtök atvinnulífsins eru ávallt reiðubúin til uppbyggilegs samstarfs við verkalýðshreyfinguna um réttindamál á vinnumarkaði og baráttu gegn brotastarfsemi.

Óska eftir formlegu samstarfi við SA um vinnustaðaeftirlit

Framsýn setti sig í samband við Samtök atvinnulífsins í dag og bauð þeim aðkomu að vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Fyrir er félagið í góðu samstarfi við önnur stéttarfélög, lögregluna, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og Ríkisskattstjóra. Í ályktun sem stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sendi frá sér í morgun eru Samtök atvinnulífsins gagnrýnt fyrir áhugaleysi er viðkemur vinnustaðaeftirliti. Með netpósti til Framsýnar í dag er því mótmælt af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Framsýn hefur ákveðið að svara fyrir sig og bjóða samtökunum að vera þátttakendur í öflugu vinnustaðaeftirliti stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hafni þeir því, stendur ályktun Framsýnar um áhugaleysi samtakana. Samþykki SA hins vegar að vera með í eftirlitinu sýna þeir ábyrgð og senda þar með skýr skilaboð út í samfélagið um að undirboð verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði. Nú er að bíða og sjá, hver viðbrögð Samtaka atvinnulífsins verða við erindi Framsýnar um sameiginlegt vinnustaðaeftirlit.

Vilja að Samtök atvinnulífsins vakni til lífsins

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi. Mörg mál voru á dagskrá fundarins, þar á meðal vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna á félagssvæðinu sem gengið hefur vel og mun verða mjög öflugt næstu mánuðina. Það sem vekur hins vegar mikla athygli er værðin sem liggur yfir Borgartúninu í Reykjavík, höfuðstöðvum Samtaka atvinnulífsins. Þar virðist vera enginn áhugi fyrir því að ganga í leið með þeim sem láta sig þessi mál varða og vilja upprætta svindl og svínarí á vinnumarkaði. Fundurinn í gær taldi fulla ástæðu til að senda frá sér ályktun um málið enda eiga Samtök atvinnulífsins ekki að komast upp með að sitja á kantinum og naga neglurnar meðan aðrir verjast áhlaupi fyrirtækja sem ætla sér ekki að virða leikreglur á vinnumarkaði.

Ályktun
Um áhugaleysi Samtaka Atvinnulífsins fyrir vinnustaðaeftirliti

Undanfarna mánuði hafa Alþýðusamband Íslands og aðildarsamtök þess unnið að sérstöku átaki gegn svartri atvinnustarfssemi og er markmið átaksins að verja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir allt launafólk. Hert eftirlit á vinnustöðum og aukin samvinna við Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og lögregluna hafa skilað miklum árangri.

Stéttarfélagið Framsýn fær mikla hvatningu varðandi hert vinnustaðaeftirlit frá stjórnendum fyrirtækja sem búa við það að vera í samkeppni við önnur fyrirtæki sem ekki fara að lögum.

Þögn Samtaka Atvinnulífsins er ærandi á sama tíma og kjarasamningsbrot og skattaundanskot, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, koma aftur og aftur upp á borð eftirlitsmanna og eru nær daglega í fréttum fjölmiðla.

Framsýn, stéttarfélag skorar á Samtök Atvinnulífsins að axla ábyrgð og taka virkan þátt í verkefninu og álítur það ekki sæmandi samtökum sem ætlað er að gæta hagsmuna ábyrgra fyrirtækja í atvinnurekstri að segja PASS og sitja hjá í svo veigamiklum aðgerðum.

Aðalfundur Framsýnar verður haldinn miðvikudaginn 8. júní kl. 20:00

Aðalfundur Framsýnar, stéttarfélags verður haldinn miðvikudaginn 8. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Félagaskrá
b) Skýrsla stjórnar
c) Ársreikningar
d) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga
e) Kjör í stjórnir, nefndir og ráð
f) Kosning löggilts endurskoðanda/endurskoðunarskrifstofu
g) Lagabreytingar
h) Ákvörðun árgjalda
i) Laun aðalstjórnar, trúnaðarmannaráðs, nefnda og stjórna innan félagsins

2. Atvinnu- og húsnæðismál
Framsögumaður: Aðalsteinn Árni Baldursson

3. Önnur mál

Tillögur til aðalfundarins:
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hefur ákveðið að leggja til breytingar á lögum félagsins er varðar trúnaðarmannaráð auk tillagna um að greitt verði fyrir setu í stjórnum og ráðum innan félagsins. Þá verði ákveðnar greiðslur úr sjúkrasjóði hækkaðar til félagsmanna. Tillögurnar liggja fyrir á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Félagsmenn, látið ykkur ekki vanta á aðalfundinn. Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar og þá fá allir fundarmenn veglega gjöf frá félaginu.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar

 

Tillaga kjörnefndar Þingiðnar fyrir aðalfund 2016.

Tillaga Kjörnefndar Þingiðnar er að eftirtaldir félagsmenn skipi aðalstjórn, aðrar stjórnir, trúnaðarmannaráð, nefndir og ráð á vegum félagsins til næstu tveggja ára frá aðalfundi sem haldinn verður þriðjudaginn 31. maí 2016:

Aðalstjórn (jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs):
Jónas Kristjánsson Formaður Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Leifsson Varaformaður H-3 ehf.
Kristinn Gunnlaugsson Ritari Trésmiðjan Rein ehf.
Þórður Aðalsteinsson Gjaldkeri Trésmiðjan Rein ehf.
Hólmgeir Rúnar Hreinsson Meðstjórnandi Trésmiðjan Rein ehf.

Varastjórn: Vinnustaður:
Gunnólfur Sveinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Eydís Kristjánsdóttir Trésmiðjan Rein ehf.
Daníel Jónsson Gullmolar ehf.
Atli Jespersen Sögin ehf.

Trúnaðarmannaráð:
Sigurjón Sigurðsson H-3 ehf
Karl Sigurðsson Hermann Sigurðsson ehf.
Kristján G. Þorsteinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Andri Rúnarsson Fjallasýn ehf.
Kristinn Jóhann Lund Trésmiðjan Rein ehf.
Sigurður Helgi Ólafsson G.P.G-Fiskverkun ehf.

Varatrúnaðarmannaráð:
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson Norðurpóll ehf.
Kristján Gíslason Norðlenska ehf.
Erlingur S. Bergvinsson Bifreiðaskoðun Íslands ehf.
Jóel Mar Hólmfríðarson H-3 ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga: Kjörstjórn:
Jón Friðrik Einarsson Andri Rúnarsson
Arnþór Haukur Birgisson Gunnólfur Sveinsson
Varamaður: Varamenn:
Steingrímur Hallur Lund Jónas Gestsson
Kristján Gíslason

Kjörnefnd:
Davíð Þórólfsson
Eydís Kristjánsdóttir
Kristján Gíslason

  1. maí nefnd (fulltrúi félagsins í 1.maí nefnd stéttarfélaganna) 

Arnþór Haukur Birgisson

Löggiltur endurskoðandi:
PricewaterhouseCoopers ehf.
Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skila þarf tillögunni fyrir kl. 16:00, mánudaginn 30. maí 2016.

Eðvarð afturhald VI „Ertu ölvaður Eðvarð?“

Eðvarð var uppfullur af orku og gleði eftir að hafa gert sér ferð í bæinn. Það var ekki oft sem hann kom núorðið til Reykjavíkur. Stóri ameríski drekinn fór ekki vel innan um allar þessar þrengingar sem voru á ábyrgð spjátrunganna í ráðhúsinu sem ýmist skálduðu eigin eftirnöfn eða kenndu sig við móður sína. Hann var einnig óöruggur að keyra innan um fávitana á reiðhjólunum og sama hvað hann gerði virtist hann fá stöðumælasekt. Og það sem verra var að í þetta sinn var það einn af þessum nýju bindislausu anarkistum á þingi sem sektaði hann! Eðvarð lét þingmanninn að sjálfsögðu vita að hann væri þungavigtarmaður í sínu kjördæmi og hann myndi leggja inn gott orð fyrir anarkistana ef að sektin fengi að hverfa. Fyrirlitningin í háværum hlátri anarkistans sem yfirgaf Eðvarð án þess að virða tilboð hans með efnislegu svari sat ennþá í Eðvarði þegar hann komst loksins á fundinn um „Inngrip stjórnvalda á mörkuðum“. hjá gamla góða Verzlunarráði Loksins voru áherslurnar á réttum stað. Eðvarð hafði reyndar boðist til að taka þátt í pallborðsumræðum enda höfðu ítrekuð ríkisafskipti skattsins, stéttarfélaganna og lífeyrissjóðanna kostað hann stórfé í gegnum tíðina. Því var hafnað en
Eðvarði var þó boðið að koma í smá móttöku fyrir fundinn enda að eigin mati einn af dáðustu sonum íslensks viðskiptalífs. Hann hafi átt tugi ef ekki hundruð félaga í gegnum tíðina sem voru ýmist lifandi, sofandi eða dáin. Í móttökunni hjá verslunarráði hitti Eðvarð marga þjáningarbræður sína sem tóku fljótt við, líklegast of fljótt, að blanda sjeneverinu og kveikja í vindlunum.
Þegar félagarnir komu trallandi út nokkrum tímum síðar með nokkur prómill í blóðinu og vígreifir eftir fundinn um hið hræðilega ríkisvald og glæpi þess gagnvart atvinnulífinu, mætti honum blaðasnápur sem hann hafði eitt sinn þurft að reka af eigninni sinni eftir að hann gerðist full ágengur í spurningum sínum um mál slóvakískra ungmennanna sem að mati Eðvarðs náðu ekki að temja sér íslenskt vinnusiðferði og vanvirtu í leiðinni íslenskar fornbókmenntir. Blaðasnápurinn þekkti Eðvarð um leið og stökk á hann með spurningar um stöðuna í máli slóvakísku ungmennanna. Spurningarnar runnu einhvern veginn saman í eyrum Eðvarðs og honum varð um leið hugsað til samtals við almannatengil sem hann hafði hitt á Rótarí fundi er hann var var í því kunnuglegu ástandi sem hann var nú í. „Það eina sem ég hef um málið“, sagði Eðvarð „er eftirfarandi:. Þetta var rosalega skemmtilegur dagur og flottur fundur. Ég heyrði í formanninum fyrir kvöldmat og þá var hann keikur og hress. Ég veit að hann er bara með sinni konu í kvöld að tjilla, eins og unga fólkið segir. Hann var mjög hress. Það er búið að girða niður um verkalýðsforingjann og bókasafnsvörðinn – pjattrófuna með síða hárið. Þeir standa eins og álfar út úr hól og vita ekkert hvað er að gerast!“
„Ertu ölvaður Eðvarð?“, spurði blaðasnápurinn steinrunninn af undran eftir yfirlýsingu Eðvarðs. Daginn eftir þegar Eðvarð var að reyna að komast út úr borginni en sat fastur í einhverri helvítis þrengingunni heyrði hann í þvoglumæltum sjálfum sér í útvarpinu og svo einhverja spjátrunga hlægja í kjölfarið. Eðvarð teygði sig í sprengitöflurnar og skolaði þeim niður með gúlp-sopa af Canada-Dry. Eins gott að það var ekki fundur í Rótarí fyrr en í næstu viku og guð sé lof hvað landinn er fljótur að gleyma, hugsaði Eðvarð og slökkti á útvarpinu.

Aðalsteinn í stjórn Fiskifélags Íslands

Aðalfundur Fiskifélags Íslands fór fram síðasta föstudag í Reykjavík. Fiskifélagið er sameiginlegur samstarfsvettvangur samtaka í sjávarútvegi með það að markmiði að auka veg og virðingu íslensks sjávarútvegs, efla hag greinarinnar og stuðla að framförum í íslenskum sjávarútvegi. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík. Alls eru níu fulltrúar í stjórn Fiskifélagsins frá samtökum sjómanna, landverkafólks og SFS, samstökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Auk þess er einn áheyrnarfulltrúi frá samtökum sjómanna.

_DSC0073
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar var í stóru hlutverki á Fiskiþinginu, hann var fundarstjóri þingsins, hlaut kjör í stjórn sambandsins auk þess að flytja erindi um starfsmenntun í fiskvinnslu sem fékk mjög góð viðbrögð.

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn miðvikudaginn 1. júní 2016 kl. 20:00, í sal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 Húsavík.

Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf.
2. Önnur mál.

Ársreikningar félagsins liggja frammi á skrifstofu félagsins.

Til félagsmanna STH: Í því skini að auka upplýsingagjöf til félagsmanna er óskað eftir upplýsingum um netföng. Vinsamlega sendið netföng ykkar til formanns félagsins á netfangið thuraigardi@simnet.is

Miðstjórn ASÍ fundar á Húsavík

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundaði 18. maí s.l. í húsnæði stéttarfélaganna á Húsavík. Á fundinum var m.a. fjallað um stöðu frumvarps um almennar íbúðir á Alþingi. Málið er mikið hagsmunamál fyrir allt launafólks, þar sem ásættanleg löggjöf um það efni er forsanda fyrir því að hægt verði að ráðast í stórátak bygginga leiguíbúða á ásættanlegu verði. Þá fjallaði miðstjórn um ríkisfjármálaáætlun 2017 – 2021 sem fjármálaráðherra kynnti nýlega. Á fundinum var áætlunin gagnrýnd harðlega, enda ljóst að hún gengur í veigamiklum atriðum gegn hagsmunum almenns launafólks og markmiðum um öflugt velferðarkerfi og aukin jöfnuð í samfélaginu. Loks varð mikil umræða á fundinum um stöðuna á vinnumarkaði og stöðugt vaxandi tilraunir atvinnurekenda, einkum í landbúnaði og ferðatengdri þjónustu til að komast undan skyldum sínum samkvæmt kjarasamningum og lögum með svokölluðum sjálfboðaliðum. Þessi framganga var gagnrýnd harðlega og lögð áhersla á að spornað verði við þessari þróun með öllum tiltækum ráðum í samstarfi við samtök atvinnurekenda. Þá voru á fundinum nokkur mál til afgreiðslu.
Að loknum fundinum buðu stéttarfélögin á Húsavík miðstjórnarmönnum að skoða framkvæmdirnar á Þeistareykjum, framkvæmdirnar við höfnina í Húsavík og jarðgangnagerðina og uppbygginguna á Bakka. Í upphafi ferðar gerði Aðalsteinn Baldursson miðstjórnarmönnum grein fyrir stöðu atvinnumála í Þingeyjasýslum og gaf góða yfirsýn yfir framkvæmdirnar sem nú eru í gangi og áhrif þeirra í bráð og lengd. Hann hafði síðan með höndum leiðsögn í ferðinni, auk þess sem fulltrúar LNS Sögu á Þeistareykjum og við gangnaframkvæmdirnar gerðu frekari grein fyrir þeim verkefnum. Þá fylgdi öryggisstjóri vegna framkvæmdanna á Bakka hópnum um svæðið og útlistaði þær.
Miðstjórnarmenn eru á einu málið um að fundurinn og ferðin öll hafi heppnast einkar vel. Fróðlegt hafi verið að fá innsýn í framkvæmdirnar og áhrif þeirra á atvinnulíf og samfélag á Húsavík og næsta nágrenni. Þá megi margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki sést útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni. Þá þakkar miðstjórn stéttarfélögunum á Húsavík kærlega fyrir aðstoð við undirbúning ferðarinnar og höfðinglegar móttökur. Sjá myndir frá heimsókninni:asiheimsokn0516 084asiheimsokn0516 087asiheimsokn0516 092asiheimsokn0516 118asiheimsokn0516 145asiheimsokn0516 117asiheimsokn0516 138

RSK á svæðinu – virkt eftirlit í gangi

Fyrir skemmstu fóru fulltrúar frá Ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun í eftirlitsferðir á vinnustaði í byggingariðnaði á félagssvæði Framsýnar og Þingiðnar. Tilgangur heimsóknanna var að kanna hvort fyrirtækin væru með sín mál í lagi gagnvart skattinum og réttindum starfsmanna. Á næstu dögum verður unnið úr þeim gögnum sem söfnuðust í ferðinni. Aðilar munu halda þessum ferðum áfram í sumar. Hvað það varðar verður farið í reglulegar heimsóknir í ferðaþjónustufyrirtæki í byrjun sumars og áfram í sumar. Það á einnig við um aðrar atvinnugreinar. Eftirfarandi myndir voru teknar þegar samstarfsaðilar sem nefndir eru í þessari frétt fóru í vinnustaðaheimsóknir fyrir helgina.

eftirlitrsk0516 009

Aðilar byrjuðu á fundi áður en haldið var í tveggja daga eftirlitsferðir um félagssvæðið.

eftirlitrsk0516 021

Fulltrúar stéttarfélaganna og Vinnumálastofnunar skrá niður upplýsingar um starfsmenn í byggingariðnaði á svæðinu.

eftirlitrsk0516 015

Starfsmenn RSK ræða við fulltrúa frá verktaka á svæðinu. Með þeim er túlkur frá stéttarfélögunum.