Hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn hefur verið unnið á vöktum við vinnslu á síld og makríl frá því um 27. júlí sl. Reiknað er með því að vertíðinn klárist um 10. október. Eftir það verða tekin stórþrif í nokkra daga og svo byrjað vinnslu á þorsk og ufsa. Það stefnir því í að það verði sama og ekkert stoppað áður en hafin verður bolfiskvinnsla á ný.
Vertíðin hefur gengið vel og virðist vera mikið af bæði makríl og norsk íslenskri síld í hafinu við Ísland. Þegar vinnsla á makríl og síld er í gangi hjá Ísfélaginu er unnið á vöktum allan sólarhringinn og þá meira en tvöfaldast starfsmannafjöldinn. Eru það um 120 manns sem koma að starfseminni á sólarhring. Kemur fólk víða að til starfa og eins eru margir heimamenn sem nýta sér þetta tækifæri til að drýgja tekjurnar.
mynd: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir