Gleðin við völd á Þeistareykjum

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði í gær hornstein að Þeistareykjavirkjun, fyrstu jarðvarmavirkjun sem Landsvirkjun reisir frá grunni. Fjölmenni var við athöfnina, sem fór fram í stöðvarhúsinu.

Á Þeistareykjum er nú verið að reisa 90 MWraf jarðvarmavirkjun í tveimur áföngum. Stefnt er að því að ljúka fyrri áfanga haustið 2017 og þeim seinni á fyrri hluta árs 2018. Þeistareykjavirkjun verður 17. aflstöð Landsvirkjunar.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, setti athöfnina. Hann sagði í ávarpi sínu að bygging Þeistareykjavirkjunar markaði tímamót fyrir iðnað og atvinnustarfsemi á svæðinu, enda væri traust aðgengi að rafmagni forsenda fyrir uppbyggingu af því tagi sem hafin væri og fyrirhuguð á næstu misserum og árum. Þá kom fram í máli Jónasar að leitast hefði verið við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdanna og jafnframt að lögð hefði verið höfuðáhersla á öryggismál við alla þætti hennar, í samræmi við öryggisstefnu fyrirtækisins. Að síðustu óskaði hann Íslendingum öllum til hamingju með þennan merka áfanga.

Í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, kom fram að um væri að ræða mikilvægan áfanga fyrir fyrirtækið, sem hefði það hlutverk að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem því væri trúað fyrir, með með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Með þetta hlutverk í huga hefði fyrirtækið lagt mikið upp úr vandlegum undirbúningi og rannsóknum á svæðinu, líkt og við aðrar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Hann þakkaði nærsamfélaginu á norðausturhorninu, verktökum, eftirlitsaðilum og aðilum vinnumarkaðarins fyrir gott samstarf við framkvæmdina.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sagði að allar forsendur væru fyrir því að Þeistareykjavirkjun yrði lyftistöng fyrir samfélagið á Norðausturlandi og öllum Íslendingum til heilla. Framkvæmdin væri til vitnis um það hve Landsvirkjun væri mikilvægt fyrirtæki þegar kæmi að því að skapa grundvallarskilyrði fyrir vöxt og viðhald atvinnulífs í landinu, sem væri stór þáttur í því að tryggja Íslendingum þau lífskjör sem þeir hafa átt að venjast.

Valur Knútsson, yfirverkefnastjóri Þeistareykjavirkjunar, lýsti framkvæmdunum, en hönnun Þeistareykjavirkjunar hófst á haustmánuðum 2011 og hófust framkvæmdir vorið 2015. Fram kom m.a. hjá Val að við framkvæmdina setji Landsvirkjun öryggis- og umhverfismál í öndvegi. Rekin sé svokölluð „núll slysa stefna“ á framkvæmdasvæðinu, sem hafi það markmið að allir starfsmenn komi heilir heim að loknum vinnudegi.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskaði Landsvirkjun og Íslendingum öllum til hamingju með Þeistareykjavirkjun. Hann lagði í ávarpi sínu áherslu á að sjónarmið um sjálfbærni réðu ferðinni við nýtingu náttúruauðlinda Íslendinga. Þörf væri á langtímahugsun og ná þyrfti sátt um jafnvægi á milli nýtingar og verndar. Guðni sagði ánægjulegt að Íslendingar hefðu samþykkt niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í París á síðasta ári, en þjóðin hefði einmitt lagt sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar með nýtingu endurnýjanlegrar orku í stað kolefnaeldsneytis.

Hildur Ríkarðsdóttir verkefnisstjóri og Einar Erlingsson staðarverkfræðingur aðstoðuðu forsetann við hornsteinslagninguna.

Fyrsta djúpa rannsóknarholan boruð 2002

Tilurð Þeistareykjavirkjunar má rekja allt til síðustu aldar, en árið 1999 stofnuðu Orkuveita Húsavíkur, Hita- og vatnsveita Akureyrar, Rafveita Akureyrar, Aðaldælahreppur og Reykdælahreppur Þeistareyki ehf. Þremur árum síðar var fyrsta djúpa rannsóknarholan boruð, og gaf hún 6 MWraf.

Landsvirkjun kom að verkefninu árið 2005, þegar fyrirtækið keypti tæplega þriðjungshlut í Þeistareykjum ehf. Landnýtingar- og verndaráætlun fyrir Þeistareykjasvæðið var unnin í samstarfi sveitarfélaga og orkufyrirtækja árið 2006. Við mótun hennar var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Í kjölfarið var unnið Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007–2025. Lögð var áhersla á að samþætta nýtingu og vernd þannig að tekið yrði tillit til náttúrufars og náttúruverndarsjónarmiða við virkjanaframkvæmdir og mannvirkjagerð.

Árið 2008 var heildaraflgeta borhola á svæðinu orðin ríflega 45 MWraf og á næstu tveimur árum jók Landsvirkjun hlut sinn í félaginu upp í 97%. 2010 var mat á umhverfisáhrifum 200 MWraf virkjunar samþykkt og 2013 var Þeistareykjavirkjun raðað í nýtingarflokk rammaáætlunar. Árið 2014 sameinuðust Þeistareykir ehf. Landsvirkjun og í fyrravor hófust framkvæmdir við virkjunina.

Framkvæmdir

Á undanförnum árum hefur verið unnið að undirbúningsframkvæmdum á svæðinu. Má þar nefna lagningu aðkomuvegar frá Húsavík, jarðvegsframkvæmdir við stöðvarhússgrunn, lagningu vatnsveitu og uppbyggingu innviða. Árið 2014 voru boraðar vatnstöku-, niðurrennslis- og svelgholur ásamt rannsóknarholum til að efla enn frekar rannsóknir á grunnvatni.

Árið 2015 hófst bygging stöðvarhúss og lagning gufuveitu. Stöðvarhúsið samanstendur af tveimur vélasölum, þjónustubyggingu og verkstæði. Einnig er unnið að uppbyggingu skiljustöðvar, niðurrennslismannvirkja og dælustöðvar fyrir kaldavatnsveitu. Eftir að byggingu stöðvarhúss lýkur mun vinna við rafbúnað, stjórnkerfi og vélar virkjunarinnar taka við á verkstað. Þegar mest lætur verða rúmlega 200 manns í vinnu á Þeistareykjum á vegum Landsvirkjunar.

Helstu verktakar og framkvæmdaaðilar

LNS Saga og LNS A/S – Verktaki við byggingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu

Jarðboranir ehf. – Borun vinnsluhola

Fuji Electric/Balcke-Dürr – Framleiðsla og uppsetning vélbúnaðar og kalda enda

ABB – Framleiðsla og uppsetning stjórnkerfis

Tamini – Framleiðsla spenna

Rafeyri – Stöðvarveitur

Vélsmiðjan Héðinn – Framleiðsla skilja

Nú þegar eru til staðar á Þeistareykjum sjö vinnsluholur sem knýja munu aflvél fyrsta áfanga og verið er að bora fleiri vinnsluholur til að afla gufu fyrir annan áfanga framkvæmdarinnar. Sem fyrr segir á 90 MWraf stöð að vera komin í gagnið um vorið 2018.

Umhverfismál

Við allan undirbúning og framkvæmd Þeistareykjavirkjunar hefur verið tekið mið af sérstöðu svæðisins og áhersla lögð á umhverfismál. Þeistareykir voru nær ósnortið svæði ef frá voru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja til að tryggja að þeim svæðum verði ekki raskað.

Við hönnun virkjunar var hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins og fara framkvæmdir fram samhliða uppbyggingu. Má þar nefna sáningu í vegfláa Þeistareykjavegar og nýtingu gróðurþekju af framkvæmdasvæðum til klæðningar jarðvegsmana og vegfláa. Jafnframt er hafin uppgræðsla lands til mótvægis við það land sem fer undir mannvirki.

Mikil áhersla hefur verið lögð á góð samskipti við heimamenn með almennum fundum, útgáfu fréttabréfs og opnu húsi á verkstað til að auka samráð og upplýsingagjöf.

Viðamiklar rannsóknir og vöktun

Reglubundin vöktun umhverfisþátta er hafin á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum og næsta nágrenni. Markmiðið er að þekkja grunnástand umhverfisþátta svæðisins áður en rekstur virkjunar hefst og vakta þá síðan á rekstrartíma virkjunarinnar. Þannig verður hægt að meta hvort og þá hvernig rekstur jarðvarmavirkjunar hefur áhrif á umhverfi sitt. Yfirborðsjarðhiti, jarðhitakerfið, grunnvatn, loftgæði, hljóðvist, fuglar og gróður eru meðal þeirra umhverfisþátta sem eru vaktaðir.

Sjálfbærniverkefni

Árið 2015 var sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi endurvakið í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og var Þekkingarnet Þingeyinga ráðið til að halda utan um verkefnið. Landsnet og hagsmunasamtök í ferðaþjónustu eiga nú einnig aðild að verkefninu. Markmið verkefnisins er að fylgjast með þróun samfélags, umhverfis og efnahags á svæðinu tengt uppbyggingu Þeistareykjavirkjunar, iðnaðarframkvæmdum á Bakka og auknum umsvifum í ferðaþjónustu.

Staðsetning

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum tilheyrir Þingeyjarsveit og er um 25 km suðaustur af Húsavík. Almennt er talað um að Þeistareykjasvæðið afmarkist af Höfuðreiðarmúla í norðri og Hólasandi í suðri. Svæðið markast af hamrabeltum Lambafjalla í vestri og Bæjarfjalli og Ketilfjalli í austri. Í norðri er Sæluhúsmúli og þar austur af heiðarlönd Kelduhverfis og Þeistareykjabunga.

Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru í gær en viðburðurinn á Þeistareykjum var tilkomu mikill.

theystareykir0916-007theystareykir0916-015theystareykir0916-019theystareykir0916-024theystareykir0916-028
theystareykir0916-040
theystareykir0916-044

Deila á