Húsavíkurkirkja máluð

Framkvæmdir standa nú yfir við Húsavíkurkirkju. Verið er að mála kirkjuna en síðast var það gert fyrir rúmum áratug. Það er fyrirtækið Fagmál sem sér um málninguna að þessu sinni. Við jafn hátt hús og kirkjan er dugir nú ekki annað en að hafa stærðarinnar vinnuvélar til aðstoðar. Hér má sjá mynd af lyftunni sem Fagmál notar í verkinu en hún er í eigu Trésmiðjunnar Rein. Einnig má sjá tvo starfsmenn Fagmáls við sín störf.Frissi5 Frissi4 Frissi3 Frissi2

Gengið frá breytingum á kjörum starfsmanna við Hvalaskoðun

Rétt í þessu skrifuðu Framsýn, stéttarfélag og Samtök atvinnulífsins undir breytingar á kjörum háseta um borð í hvalaskoðunarbátum sem gerðir eru út frá Húsavík. Um er að ræða hækkun upp á um 3,4% frá fyrri samningi sem tekur gildi frá 21. júlí. Starfsmenn geta fengið frekari upplýsingar um samkomulagið á Skrifstofu stéttarfélaganna.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Óska eftir mjög góðu samstarfi

Fulltrúi ELNOS á Íslandi sem kemur til með að sjá um að reisa möstur og leiðara (línu) frá Kröflu að Þeistareykjum og áfram að verksmiðjunni á Bakka fundaði með fulltrúum Framsýnar í gær. Á fundinum kom fram mjög sterkur vilji fyrirtækisins til að hafa alla hluti í lagi er snertir verkefni fyrirtækisins á Íslandi. Áætlað er að um 70 starfsmenn komi að verkinu sem hefst í september og lýkur seint á næsta ári. Starfsmennirnir sem flestir koma frá Bosníu eru rafvirkjar og iðnaðarmenn.

Formaður tekur sér sumarfrí

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, verður í sumarfríi frá 25. júlí til 12. ágúst. Viðskiptavinir Skrifstofu stéttarfélaganna eru beðnir um að snúa sér til annarra starfsmanna á skrifstofunni þurfi þeir á aðstoð eða upplýsingum að halda. Nánari upplýsingar um starfsmenn og netföng þeirra eru inn á heimasíðu stéttarfélaganna, www.framsyn.is

Farið yfir málin með Vinnumálastofnun

Í gær áttu fulltrúar Framsýnar fund með fulltrúum Vinnumálastofnunar. Tilefni fundarins var að fara yfir stöðu mála er tengjast uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík. Fjöldi undirverktaka kemur að verkefninu. Því miður hafa komið upp nokkur brot er tengjast fyrst og fremst launakjörum starfsmanna. Á fundinum í gær kom fram mikill vilji aðila til að vinna samana að þessum málum, það er að verktakar fari að lögum og virði kjarasamninga.

vinnumal0716 021

Unnur Sverrisdóttir aðstoðarforstjóri og Vilmar Pétursson mannauðsstjóri Vinnumálastofnunar funduðu með fulltrúum Framsýnar í gær þar sem málefni er tengjast uppbyggingunni á svæðinu voru til umræðu en nokkur kjarasamningsbrot hafa komið upp sem eru til skoðunar.

Ánægjulegur fundur á Bakka

Í gærkvöldi, 19. júlí, tók Framsýn þátt í fundi sem haldin var á vegum SMS Group og PCC á Bakka. Í ljósi þess að margir starfsmenn eru nýkomnir á Bakka og fjöldi starfsmanna þar er nú að nálgast hámark var ákveðið að smala saman nokkrum lykilaðilum á svæðinu og kynna svæðið fyrir nýju starfsmönnunum. Þessir aðilar voru auk PCC og SMS, Norðurþing, Völsungur, Lögreglan, Slökkviliðið, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Framsýn. Allir þessir aðilar kynntu sína starfsemi á svæðinu með aðstoð glærusýningar sem hópurinn vann saman á síðustu vikum. Það var svo Agnieszka Szczodrowska eða Aga eins og hún er jafnan kölluð sem túlkaði af stakri snilld það sem fram fór fyrir pólskumælandi gesti fundarins sem raunar var stór meirihluti viðstaddra.

Fundurinn heppnaðist með ágætum. Það var ánægjulegt að finna áhuga nýs fólks á svæðinu að taka þátt í samfélaginu og setja sitt mark á svæðið. Sérstaklega var ánægjulegt fyrir okkur starfsmenn Framsýnar að sjá starfsmenn hafa mikinn áhuga á sínum réttindum sem launþegar en mikil aðsókn var í básinn sem Framsýn hafði fyrir sitt kynningarefni að fundi loknum.sms0716 019 sms0716 015 sms0716 012 sms0716 006 sms0716 004

Skýrsla, í kjölfar kjarasamninga

Út er komin skýrslan Í kjölfar kjarasamninga sem fjallar um launaþróun eftir samningssviðum og viðsemjendum á tímabilinu 2006 til 2015. Skýrslan er samstarfsverkefni þeirra heildarsamtaka á vinnumarkaði sem aðild eiga að Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (Salek). Skýrslan er sú þriðja í röðinni sem fjallar um viðfangsefnið en þær fyrri báru nafnið Í aðdraganda kjarasamninga og voru gefnar út í október 2013 og febrúar 2015, í þann mund er viðræður voru að hefjast um endurnýjun kjarasamninga.

Niðurstöður skýrslunnar eru ekki hluti af reglubundinni upplýsingagjöf Hagstofunnar heldur byggja á sérvinnslu úr gagnasafni stofnunarinnar samkvæmt beiðni Salek. Hagstofan birtir ársfjórðungslega upplýsingar um launaþróun í heild á almennum markaði, hjá ríkinu og sveitarfélögunum en í þessari skýrslu er miðað við nóvembermánuði ár hvert og upplýsingar eru mun ítarlegri en tíðkast.

Þakkir berast til Framsýnar

Starf Framsýnar hefur lengi vakið mikla athygli á landsvísu enda eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Síðustu daga hefur félagið verið töluvert í umræðunni þar sem það tekur fast á kjarasamningsbrotum, ekki síst erlendra undirverktaka sem eru við störf á félagssvæðinu við mannvirkjagerð. Baráttukveðjur berast ekki síst með netpósti og þá eru dæmi um að einstaklingar hafi komið sínum kveðjum á framfæri með blómum. Á myndinni má sjá nafnanna, Aðalstein Árna og Aðalstein Jóhannes með blómvönd sem barst félaginu eftir hádegi í dag eftir umfjöllun fjölmiðla um vinnustaðaeftirlit félagsins. Full ástæða er til að þakka fyrir baráttukveðjur og hvatningu fólks til félagsins hvað þessi mál varðar. Að gefnu tilefni er rétt að árétta að Framsýn á mjög gott samstarf við verkkaupa og stærstu íslensku verktakana sem hafa yfirumsjón með flestum verkum á svæðinu. Því miður hafa nokkrir erlendir undirverktakar verið staðnir að því að virða ekki íslenska kjarasamninga sem að sjálfsögðu verður ekki liðið.

 

Bæklingar um réttindi félagsmanna á ensku og pólsku.

Framsýn hefur látið prenta nýja bæklinga á íslensku, ensku og pólsku varðandi helstu réttindi starfsmanna í ferðaþjónustu og úr sjúkrasjóði og starfsmenntasjóðum sem Framsýn á aðild að. Einnig eru í bæklingunum hagnýtar upplýsingar um þjónustu Framsýnar. Félagsmenn geta nálgast bæklingana á Skrifstofu stéttarfélaganna.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Bæklingarnir eru á aðgengilegu formi fyrir félagsmenn og á þremur tungumálum.

Vel tekið í erindi Einingar- Iðju

Stjórn Framsýnar, stéttarfélags fjallaði fyrir helgina um beiðni Einingar- Iðju um aukið samstarf stéttarfélaganna. Í bréfi Einingar- Iðju til Framsýnar kemur fram að áhugi sé innan félagsins að efla samvinnu þessara tveggja félaga á Norðurlandi.

Erindinu var mjög vel tekið af stjórn Framsýnar og var formanni falið að vera í sambandi við formann Einingar- Iðju með að koma á sameiginlegum fundi stjórna félaganna í haust þar sem málið verði til umræðu, það er hugsanlegt samstarf um viðfangsefni félaganna á hverjum tíma.

Húsnæðismál til umræðu á stjórnarfundi Framsýnar- Bæjarstjóri Norðurþings gestur fundarins

Bæjarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon ásamt Snæbirni Sigurðarsyni starfsmanni sveitarfélagsins voru gestir á fundi stjórnar Framsýnar í vikunni þar sem húsnæðismál voru m.a. til umræðu en mikil vöntun er á íbúðarhúsnæði á Húsavík. Álitið er að vanti um 100 nýjar íbúðir inn á markaðinn til að mæta þörfinni sem skapast við uppbygginguna á svæðinu, ekki síst er tengist framkvæmdunum á Bakka.
Framsýn og Norðurþing hafa átt með sér mjög gott samstarf um að leita leiða til að bæta úr fyrirliggjandi vanda. Á stjórnarfundi Framsýnar var samþykkt að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands um hugmyndir þeirra um sérstakt íbúðafélag. Eins og kunnugt er hefur Alþýðusamband Íslands beitt sér í húsnæðismálum félagsmanna innan aðildarfélaga sambandsins. Nægir þar að nefna viljayfirlýsingu um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði sem undirrituð var af forsvarsmönnum Alþýðusambandsins og Hafnafjarðarbæjar. Verkefnið verður unnið á grundvelli laga um almennar leiguíbúðir sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní síðastliðinn. Þá er vitað að Alþýðusambandið og Reykjarvíkur¬borg hafa sömuleiðis undirritað samkomulag sem gengur í sömu átt og viljayfirlýsingin sem undirrituð var við Hafnafjarðarbæ.
Í máli forsesta ASÍ, svo vitnað sé í ummæli hans í Morgunblaðinu er ætlunin með þessu og stofnun íbúðafélags að koma til móts við þá tekjulægstu „Mark¬hóp¬ur¬inn eru þeir í hópi hinna tekju¬lægstu, sem eru að nota upp und¬ir helm¬ing tekna sinna til að borga leigu,“

Eins og fram kemur í þessari frétt á heimasíðunni er áhugi fyrir því innan Framsýnar að bjóða forsvarsmönnum ASÍ til fundar við félagið og stjórnendur Norðurþings um markmið þeirra viljayfirlýsinga sem þegar hafa verið gerðar við sveitarfélög og möguleikana á því að ganga frá sambærilegri yfirlýsingu við Norðurþing og þau önnur sveitarfélög á svæðinu sem telja ávinning að því. Fulltrúum annarra sveitarstjórna á félagssvæðinu verður boðið að taka þátt í fundinum. Stefnt er að því að halda fundinn í ágúst.

framsynstjorn0716 004
Framsýn stefnir að fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands og sveitarfélaga á félagssvæðinu til að ræða hugsanlegt samstarf um uppbyggingu á leiguhúsnæði í Þingeyjarsýslum. Reiknað er með að fundurinn verði haldinn í ágúst. Á myndinni má sjá fulltrúa Norðurþings og stjórnarmenn í Framsýn ræða húsnæðismál í sveitarfélaginu og í héraðinu öllu.

Eining-Iðja óskar eftir auknu samstarfi

Nú klukkan 17:00 hefst stjórnarfundur hjá Framsýn. Gestur fundarins verður Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings. Nokkur stór mál eru til umræðu s.s. aðkoma félagsins að Sparisjóði Þingeyinga, húsnæðismál á Húsavík, útgáfumál félagsins, launakjör aðila vinnumarkaðarins, fundir með lögreglu og verktökum á svæðinu og þá hefur verkalýðsfélagið Eining- Iðja óskað eftir auknu samstarfi félaganna. Reikna má með að fundurinn standi fram eftir kvöldi.

pcc0615 023

 

 

 

 

 

 

 

 

Það verður víða komið við á fundinum í kvöld enda mörg mál á dagskrá fundarins. Gestur fundarins verður Kristján Þór Magnússon bæjarstóri Norðurþings. Tilefnið er að ræða stöðu húsnæðismála á Húsavík og hugsanlegt samstarf Norðurþings og Framsýnar hvað það varðar.

Fundað með lögreglunni

Að frumkvæði Framsýnar var haldinn fundur með lögreglunni til að fara yfir mál sem komið hafa inn á borð félagsins og varða alvarleg brot á vinnumarkaði á félagsvæðinu. Fundurinn var haldinn í vikunni. Framsýn hefur einnig talið ástæðu til að funda með ákveðnum verkkaupum og verktökum á svæðinu til að gera þeim sömuleiðis grein fyrir nokkrum málum sem félagið hefur verið að vinna að og mun taka föstum tökum svo farið sé að lögum og eftir ákvæðum kjarasamninga. Því miður hafa komið upp nokkur alvarleg mál í eftirlitsferðum Framsýnar um félagssvæðið á undanförnum vikum.

Stjórn Framsýnar fundar á miðvikudaginn

Það verður lítið um sumarfrí hjá stjórnendum Framsýnar í sumar. Boðað hefur verið til fundar á miðvikudaginn til að fara yfir nokkur mál sem bíða afgreiðslu félagsins. Sjá dagskrá fundarins:

1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Erindi frá Einingu-Iðju um samstarf
4. Fundur með lögreglunni
5. Aðkoma félagsins að Sparisjóði Þingeyinga
6. Erindi varðandi kaup á íbúð
7. Erindi varðandi uppbyggingu á Raufarhöfn
8. Leiga á íbúð fyrir félagsmenn á Spáni
9. Launakjör aðila vinnumarkaðarins
10. Framsýn-ung: Fundargerð
11. Samkomulag við RSÍ
12. Útgáfa bæklinga
13. Samstarf félagsins við VÞ
14. Þing ASÍ í haust
15. Önnur mál

FRAMSÝN-UNG með stjórnarfund

Innan Framsýnar er starfandi Ungliðaráð Framsýnar sem skipað er til eins árs í senn af stjórn- og trúnaðarmannaráði félagsins. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG. Hlutverk ungliðaráðsins er að starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags.Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Kristín Eva Benediktsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Aðalbjörn Jóhannsson og Eva Sól Pétursdóttir sitja í stjórn FRMASÝN-UNG. Þau komu saman til stjórnarfundar fyrir helgina þar sem þau fóru yfir verkefnin sem eru framundan á vegum ráðsins. Aðalbjörn er formaður og Eva Sól ritari. Á myndina vantar Kristínu Evu sem komst ekki á fundinn.

Sjómenn athugið

Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er hafin. Sjómenn innan Framsýnar sem starfa eftir samningnum við fiskveiðar eiga að hafa fengið kjörgögn í hendur. Þeir sem telja sig hafa rétt til að kjósa en hafa ekki fengið kjörgögn í hendur eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Rétt er að taka fram að samningurinn nær ekki til sjómanna á smábátum.  Sjómannadeild Framsýnar

Launagreiðendur takið eftir – hækkun á mótframlagi í lífeyrissjóði

Í kjarasamningi milli aðildarfélaga ASÍ o.fl. og SA frá 21. janúar 2016 var kveðið á um hækkað mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóði, f.o.m. 1. júlí 2016. Í kjarasamningnum var kveðið á um þrepaskipta hækkun mótframlags launagreiðenda í lífeyrissjóð og tekur fyrsta breytingin gildi 1. júlí nk. Hækkunin gildir um þá sem eru aðilar að framangreindum kjarasamningi. Framlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkar og verður eftirfarandi:
2016: Framlag launagreiðenda hækkar 1. júlí 2016 um 0,5% og verður 8,5%.
2017: Framlag launagreiðenda hækkar 1. júlí 2017 um 1,5% og verður 10%.
2018: Framlag launagreiðenda hækkar 1. júlí 2018 um 1,5% og verður 11,5%.
Frá og með 1. júlí 2016 hækkar því mótframlag launagreiðenda, vegna starfsmanna, í samtryggingarsjóð úr 8% í 8,5%. Eru launagreiðendur hvattir til að gera viðeigandi breytingar í launakerfum sínum hið fyrsta.