Hvetja til samninga sjómanna og að fyrirtæki í fiskvinnslu haldi fólki á launaskrá í verkfalli sjómanna

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi til að ræða stöðuna, það er verkfall sjómanna og ákvörðun sumra fiskvinnslufyrirtækja að senda starfsfólk heim á atvinnuleysisbætur þrátt fyrir metgróða í greininni í stað þess að halda þeim á launaskrá. Dæmi eru um að fyrirtæki í fiskvinnslu fullyrði að það sé hagstæðara fyrir starfsfólk að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum sem er fásinna. Sé það rétt eins og ákveðin fyrirtæki hafa haldið fram er það ámælisvert fyrir verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins að það sé hagstæðara að vera á atvinnuleyisbótum en að vera á launaskrá hjá viðkomandi fyrirtækjum. Hér má lesa ályktunina:

Ályktun

Um verkfall sjómanna og lokun fiskvinnslufyrirtækja

 Framsýn, stéttarfélag hvetur forystu Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) að setjast þegar niður við samningaborðið með það að markmiði að ná fram ásættanlegum kjarasamningi fyrir sjómenn.

Sanngjarnar kröfur sjómanna eiga ekki að þurfa að standa í vegi fyrir því að gengið verði frá nýjum kjarasamningi. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu SFS að spyrna við fótum og kenna gengi krónunnar um óánægju sjómanna með sín kjör, vandinn er mun stærri en það og endurspeglast í kröfugerð sjómanna.

Framsýn gagnrýnir þau fiskvinnslufyrirtæki sem beina starfsfólki á atvinnuleysisbætur vegna verkfalls sjómanna, fyrirtæki sem bera því jafnvel við og alhæfa að starfsfólkið sé betur komið á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Fyrirtæki sem skilað hafa sögulegum rekstrarhagnaði.

Framsýn hvetur fiskvinnslufyrirtæki til að halda starfsmönnum á launaskrá í verkfalli sjómanna og virða þannig sjálfsögð réttindi vinnandi fólks.

 

 

 

 

 

 

Deila á