Desemberuppbót til atvinnuleitenda

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sett reglugerð um greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Óskert desemberuppbót er 60.616. Nýmæli er að atvinnuleitendur með börn á framfæri fá jafnframt sérstaka uppbót sem nemur 4% af óskertri desemberuppbót, eða rúmum 2.400 kr. fyrir hvert barn yngra en 18 ára.

Rétt á fullri desemberuppbót eiga þeir atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins, hafa verið skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2016 og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember. Greiðsla desemberuppbótar til þeirra sem eiga ekki fullan bótarétt reiknast í hlutfalli við rétt þeirra til atvinnuleysisbóta á árinu og fjölda mánuða sem viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Uppbót vegna barns eða barna tekur engum skerðingum, heldur nemur í öllum tilvikum 4% af óskertri desemberuppbót sem eru rúmar 2.400 kr. fyrir hvert barn.

 

Deila á