Verður áætlunarfluginu til Húsavíkur bjargað?

Framsýn stéttarfélag hefur lagt mikið upp úr því að viðhalda fluginu milli Húsavíkur og Reykjavíkur áfram eftir 1. október en Flugfélagið Ernir hefur boðað að hætta fluginu frá þeim tíma á rekstrarforsendum. Öll önnur áætlunarflug á Íslandi eru eða hafa notið ríkisábyrgðar eða njóta ríkisstyrka í dag. Það vekur að sjálfsögðu furðu að það skuli ekki gilda fyrir flug til Húsavíkur líka. Forsvarsmenn Framsýnar hafa fundað út og suður undanfarnar vikur með ráðamönnum þjóðarinnar, sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum flugfélagsins með það að markmiði að viðhalda flugi áfram til Húsavíkur. Í gær fundaði formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, með framkvæmdastjóra og verðandi framkvæmdastjóra Ernis auk þess að funda með fjármálastjóra og stjórnarformanni Ernis um málið. Þá mun hann funda með fjármálaráðherra eftir helgina með það að markmiði að koma skoðunum heimamanna á framfæri, það er að stjórnvöld tryggi áframhaldandi flug til Húsavíkur. Í það minnsta ætlar Framsýn að leggja sitt að mörkum að tryggja áframhaldandi flug milli þessara landshluta enda miklir hagsmunir í húfi.  

Fundað með starfsmönnum sveitarfélaga um nýjan kjarasamning- mikilvægt að menn kjósi um samninginn

Nýlega var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum. Öll aðildarfélög SGS, 18 talsins, eiga aðild að samningnum. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 til 31. mars 2024, en fyrri samningur milli aðila rennur út þann 30. september næstkomandi.

Nýr samningur veitir kjarabætur fyrir einstök starfsheiti á leikskólum og í heimaþjónustu frá 1. október ásamt því að samið var um sérstakar launauppbætur á lægstu launaflokka 117-130 sem verða greiddar afturvirkt frá 1. apríl. Ný launatafla með starfaröðun upp í launaflokk 200 mun taka gildi frá 1. október, en hækkanir til SGS-félaga eru þegar komnar inn í töfluna frá 1. janúar 2023.  Desemberuppbót hækkar og verður kr. 131.000. Í samninginn eru færðar ýmsar breytingar sem unnið hefur verið að í samstarfsnefnd á árinu og eru þegar komnar til framkvæmda. T.a.m. voru gerðar breytingar á vaktahvatanum sem ætlað er að tryggja jafnari vaktahvata til handa þeim hópi sem er með mestan fjölda og fjölbreytileika vakta á hverju launatímabili.

Á heimasíðu SGS má finna kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann. Aðildarfélög SGS veita einnig upplýsingar um samninginn og sjá um að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum.

Hér er hægt að komast beint inn á innskráningu á kosningavefinn.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 fimmtudaginn 14. september til kl. 09:00 þann 26. september 2023.

Framsýn hefur undanfarið staðið fyrir kynningarfundum um samninginn, einn slíkur var haldinn á Húsavík í gær. Meðfylgjandi mynd er tekin á fundinum. Framsýn skorar á félagsmenn að kjósa um samninginn, verði hann ekki samþykktur stendur starfsmönnum sveitarfélaga ekki til launahækkanir að þessu sinni.

Munaðarlausir Þingeyingar

Það var flaggað í heila stöng þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur vorið 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi góðra samgangna. Það varðar ekki síst íbúa í hinum dreifðu byggðum Þingeyjarsýslna allt til Þórshafnar á Langanesi, sem búa við það hlutskipti að þurfa að sækja verslun, almenna þjónustu, sem og heilbrigðisþjónustu um langan veg. 

Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með nokkrum hléum. Meðal þeirra var Flugfélag Íslands sem lagði Húsavíkurflugið af og beindi farþegum sem hugðust leggja leið sína til Reykjavíkur um Akureyrarflugvöll. Eðlilega voru Þingeyingar ekki ánægðir með þessa ákvörðun flugfélagsins á sínum tíma, enda um verulega þjónustuskerðingu að ræða fyrir íbúa á svæðinu, austan Vaðlaheiðar.

Allt frá fyrstu tíð hefur Framsýn stéttarfélag fylgst vel með framvindu mála varðandi flugið ásamt hagsmunaaðilum sem talað hafa fyrir mikilvægi flugsamgangna milli þessara landshluta, enda flugleiðin á milli Húsavíkur og Reykjavíkur mikilvægur hlekkur í framtíðar uppbyggingu svæðisins.

Framsýn steig mikilvægt skref vorið 2014 með því að gera samkomulag við Flugfélagið Erni um aðgengi félagsmanna að ódýrum flugfargjöldum enda kostnaðarsamur liður í heimilisbókhaldinu hjá mörgum. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið uppfærður reglulega með hagsmuni félagsmanna og samfélagsins í Þingeyjarsýslum að leiðarljósi. Samningsaðilar eru sammála um að báðir aðilar hafi hagnast á samstarfinu.

Frá árinu 2012 hafa allt að 20.000 farþegar flogið um Húsavíkurflugvöll á ári með Flugfélaginu Erni. Farþegafjöldinn náði hámarki árið 2016. Á þeim tíma stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu í tengslum við uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum. Eðlilega er farþegafjöldinn ekki sá sami í dag og hann var á þeim tíma. Verði fluginu viðhaldið er alveg ljóst að farþegum um Húsavíkurflugvöll á bara eftir að fjölga, enda fyrirsjáanlegur gríðarlegur uppgangur í atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum á komandi árum.

Ljóst er að heimamenn hafa verulegar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum síðustu daga, ekki síst frá stéttarfélögum sem leitt hafa umræðuna, ferðaþjónustuaðilum, Húsavíkurstofu, SSNE, Þingeyjarsveit og Norðurþingi.

Með þessari grein vil ég skora á þingmenn Norðausturkjördæmis að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur með fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu. Komi ekki til opinbers stuðnings, með sambærilegum hætti og til annarra flugvalla á Íslandi, mun áætlunarflug til Húsavíkur leggjast af um næstu mánaðamót.

Ætla þingmenn Norðausturkjördæmis virkilega að láta það gerast á sinni vakt að áætlunarflug og jafnvel sjúkraflug til Húsavíkur leggist af?

Hafa þingmenn engar áhyggjur af stöðu flugmála, nú þegar stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir geti ekki mætt þeim mikla mótbyr sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi?

Nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti. Þá þekkja flestir söguna að því þegar Flugleiðir fengu fyrir fáeinum árum ríkisábyrgð upp á 16 milljarða. Á svipuðum tíma var ákveðið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni, auk sjúkraflugsins sem Mýflug hefur séð um til fjölda ára með miklum ágætum. Vaknið þingmenn!

Framsýn hefur á fundum með stjórnvöldum talað fyrir því að flugsamgöngur við Húsavík verði tryggðar með sambærilegum hætti og gert er í dag til annarra áfangastaða á Íslandi. Stjórnvöld geta ekki komið sér hjá því að styðja við bakið á þeirri áætlunarleið líkt og gert er til flestra annarra áætlunarstaða innanlands. Það stenst einfaldlega hvorki skoðun né samkeppnissjónarmið.

Um er að ræða afar mikilvægt mál fyrir íbúa Þingeyjarsýslna og aðra þá sem velja að ferðast til og frá svæðinu, svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treystir á öruggt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll.  Þá er ótalinn sá mikli fjöldi fólks sem neyðist til að ferðast landshorna á milli með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til að leita sér sérfræðiþjónustu sem stendur þeim einungis til boða í Reykjavík. Heimamenn munu því sannarlega ekki skorast undan því að styðja vel við flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur, enda sparar flugið bæði tíma, fé og fyrirhöfn.

Hvað það varðar hafa forsvarsmenn Framsýnar fundað með forsætisráðherra, samgöngumálaráðherra og þingmönnum kjördæmisins varðandi áhyggjur félagsins, auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart varðandi fákeppnina sem er að myndast í innanlandsfluginu á vakt núverandi stjórnvalda.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp sem voru samþykkt á Alþingi haustið 2020 og varða ríkisaðstoð til handa Icelandair er skýrt tekið fram að á þeim mörkuðum sem félagið og dótturfélög þess starfa, hafi eftirlitið verulegar áhyggjur af áhrifum ríkisaðstoðarinnar á samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Þar kemur einnig fram að Air Iceland Connect (nú Icelandair) njóti mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Það er á stærstu flugleiðum innanlands frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugfélagið hafi nánast haft einokunarstöðu á flugi innanlands allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Ljóst sé að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect/Icelandair myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni í innanlandsflugi segir jafnframt í umsögninni.

Spurt er, hvernig ætla þingmenn að bregðast við stöðunni sem endurspeglast í áliti Samkeppniseftirlitsins um að ríkisábyrgð gæti haft skaðleg áhrif á minni flugfélög á Íslandi, sem nú hefur gengið eftir?

Þá er spurt, ætlið þið að taka málið upp til umræðu á Alþingi, þar sem áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru að raungerast? 

Til viðbótar má geta þess að þegar talað er um að unnið hafi verið gegn starfsemi Flugfélagsins Ernis er við hæfi að vitna t.d. í nýlegt viðtal sem Viðskiptablaðið tók við Hörð Guðmundsson fyrrverandi eiganda  flugfélagsins sem segir í viðtalinu að heimsfaraldurinn hafi verið flugfélaginu mjög erfiður;

 „Hann var erfiðari fyrir okkur en sem dæmi Flugfélag Íslands, sem sameinaðist móðurfélaginu nokkrum dögum áður en lögin um hlutabótaleiðina voru samþykkt. Þar með gat Flugfélag Íslands sagt upp öllu sínu fólki og ríkið borgaði uppsagnarfrestinn ásamt öllum kostnaði. Þetta gátum við ekki gert. Ef við ætluðum að segja einhverjum upp þá urðum við að borga viðkomandi 100% laun. Þessi tími reyndist okkur mjög erfiður.“

Að lokum þetta. Ég kalla eftir því að þingmenn Norðausturkjördæmis gefi upp afstöðu sína til frekari ætlunarflugs milli Reykjavíkur og Húsavíkur.

Eruð þið í liði með Þingeyingum að tryggja öruggar flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur frá og með 1. október 2023 eða ekki?

Ég skal fúslega viðurkenna að ég reikna ekki með svörum við þessari grein frá ráðherra samgöngumála eða þingmönnum kjördæmisins. Því miður virðist áhugaleysið vera nánast algjört, það mun skýrast á næstu dögum hvort það reynist vera rétt eða ekki. Vonandi hef ég rangt fyrir mér um að Þingeyingar séu munaðarlausir.

Aðalsteinn Á. Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Starfsmenn sveitarfélaga – kjósum um samninginn

Þann 12. september, var undirritaður nýr kjarasamningur milli SGS/Framsýnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 þegar núverandi samningur rennur út til 31. mars 2024. Með því að fara inn á heimasíðu stéttarfélaganna; framsyn.is er hægt að nálgast helstu upplýsingar um samninginn og þar er einnig hægt að kjósa um samninginn en atkvæðagreiðslan er rafræn. Atkvæðagreiðslunni lýkur kl. 09:00 þann 26. september næstkomandi.

Framsýn stendur fyrir kynningarfundi um kjarasamninginn í fundarsal stéttarfélaganna fimmtudaginn 21. september kl. 18:00. Í boði er að tengjast fundinum í gegnum teams fyrir þá sem komast ekki á fundinn. Þeim sem það vilja er bent á að senda ósk þess efnis á netfangið kuti@framsyn.is tímanlega fyrir fundinn. Afar mikilvægt er að félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu kynni sér samninginn vel og greiði atkvæði.

Framsýn stéttarfélag

Framsýn kallar eftir betri samgöngum í Þingeyjarsýslum

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um samgöngumál í Þingeyjarsýslum. Þegar málið var til umræðu á fundi félagsins á dögum kom fram megn óánægja með stöðu mála á svæðinu:

„Á sama tíma og ákveðnir þingmenn Norðausturkjördæmis tala fyrir styttingu þjóðvegarins frá Akureyri til Reykjavíkur, fer lítið fyrir áhuga þeirra á að tryggja eðlilegar samgöngur austan Vaðlaheiðar til Akureyrar. Nú er svo komið að brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn, sem verið hefur aðal samgönguæðin til Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar og nærsveita, þolir ekki frekari þungaumferð og hefur henni verið lokað fyrir umferð stærri ökutækja. Þess í stað hefur þungaflutningum verið beint á einbreiða brú á þjóðvegi 1. við Fosshól, sem einnig er löngu hætt að svara kröfum tímans. Umferð þar um er þung og myndast ítrekað langar raðir ökutækja beggja vegna brúarinnar með tilheyrandi slysahættu fyrir vegfarendur. Það bætir ekki úr skák að brúin við Ófeigsstaði hefur að mestu verið lokuð undanfarið fyrir almennri umferð, þar sem nú standa yfir á henni bráðabirgðaviðgerðir.

Framsýn bendir á að góðar samgöngur innan héraðs og til næstu markaðssvæða er lífæð  byggðanna austan Vaðlaheiðar og krefst þess að  hlutaðeigandi aðilar, stjórnvöld, vegagerðin og fjárveitingavaldið hysji upp um sig buxurnar og hefji þegar í stað framkvæmdir við byggingu nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði, sem leysa muni núverandi brú af hólmi. Þá verði flýtt framkvæmdum við nýja brú yfir Skjálfandafljót við Fosshól og brúin færð framar á samgönguáætlun m.a. í ljósi áherslna um greiðar og öruggar samgöngur.

Markmið Framsýnar er að vegasamgöngur í Norðausturkjördæmi verði bættar með góðum tengingum við höfuðborgarsvæðið. Framsýn skorar á stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins að ganga til liðs við félagið hvað þessa sýn varðar í samgöngumálum, með það að markmiði að efla byggð og atvinnulíf í fjórðungnum.“

Nýr kjarasamningur Framsýnar við sveitarfélögin – tökum þátt í atkvæðagreiðslu

Síðastliðinn þriðjudag, 12. september, var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að. Öll aðildarfélög SGS, 18 talsins, eiga aðild að samningnum. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 til 31. mars 2024, en fyrri samningur milli aðila rennur út þann 30. september næstkomandi.

Nýr samningur veitir kjarabætur fyrir einstök starfsheiti á leikskólum og í heimaþjónustu frá 1. október ásamt því að samið var um sérstakar launauppbætur á lægstu launaflokka 117-130 sem verða greiddar afturvirkt frá 1. apríl. Ný launatafla með starfaröðun upp í launaflokk 200 mun taka gildi frá 1. október, en hækkanir til SGS-félaga eru þegar komnar inn í töfluna frá 1. janúar 2023.  Desemberuppbót hækkar og verður kr. 131.000. Í samninginn eru færðar ýmsar breytingar sem unnið hefur verið að í samstarfsnefnd á árinu og eru þegar komnar til framkvæmda. T.a.m. voru gerðar breytingar á vaktahvatanum sem ætlað er að tryggja jafnari vaktahvata til handa þeim hópi sem er með mestan fjölda og fjölbreytileika vakta á hverju launatímabili.

Á heimasíðu SGS má finna kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann. Aðildarfélög SGS veita einnig upplýsingar um samninginn og sjá um að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 fimmtudaginn 14. september til kl. 09:00 þann 26. september 2023.

ÆRANDI ÞÖGN UM HÚSAVÍKURFLUGIÐ

Egill P. Egilsson blaðamaður á Vikublaðinu skrifar áhugaverða grein um framtíð flugsamgangna um Húsavíkurflugvöll á þann magnaða fréttavef, vikubladid.is sem full ástæða er til að lesa:

Mál málanna í allri umræðu á Norðurlandi um þessar mundir er boðuð sameining Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Miðað við alla þessa umræðu þarf ekki mikið ímyndunarafl til að komast að þeirri niðurstöðu að sameiningarplön mennta- og barnamálaráðherra fái ekki jákvæðan hljómgrunn.

Nemendur skólanna hafa staðið í mótmælum, hagaðilar, bæjarfulltrúar og þingmenn hafa ruðst fram á ritvöllinn til að koma á framfæri áhyggjum sínum af málinu, já og hreinlega til að mótmæla þeim. Nú síðast þingflokksformaður Framsóknar, Ingibjörg Isaksen sem skorar á samflokksmann sinn, háttvirtan ráðherra menntamála um að endurskoða vinnuna og markmið sameiningarinnar.

Þögla mál landshlutans

Annað mál í landhlutanum hefur verið heldur fyrirferðarminna í opinberri umræðu, þó alvarleiki þessi sé talsverður fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar.

Í Vikublaðinu sem kemur út í dag er rætt við Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar, stéttarfélags um framtíð áætlunarflugs um Húsavíkurflugvöll. Komið hefur fram að flugfélagið Ernir muni hætta áætlunarflugi á milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðamót ef ekki komi loforð um breyttar forsendur fyrir þann tíma.

Ég ætla ekki að fara rekja það í lögnu máli hvaða forsendur það séu, en í stuttu máli kallar flugfélagið eftir ríkisaðstoð líkt og á öðrum sambærilegum flugleiðum í innanlandsflugi.

Fundað fyrir luktum dyrum

Það sem mér þykir undarlegast við þetta mál er hvað það fær litla umræðu. Téður formaður Framsýnar, hefur vissulega haft hátt um framtíð Húsavíkurflugsins um árabil og barist fyrir tilvist þess. Eins og fram kemur í fréttinni sem ég vísaði til, kallaði hann á mánudag til fundar stjórnendur flugfélagsins og fulltrúa Norðurþings og Þingeyjarsveitar til að ræða stöðuna og leita leiða fluginu til bjargar. Síðar sama dag hann fundaði rafrænt ásamt sömu fulltrúum og nokkrum þingmönnum kjördæmisins. Þá hefur hann einnig vakið athygli forsætisráðherra á málinu.

Tíminn færist hættulega nálægt mánaðamótum en ekki ratar þetta mál inn í opinbera umræðu. Það er með ólíkindum að eini talsmaður þessara samgönguleiðar sé formaður stéttarfélags á svæðinu. Að minnsta kosti sá eini sem hefur hátt.

Hvar eru skoðanapistlarnir?

 Ég hef ekki dottið um aðsendar greinar frá sveitarstjórnarfulltrúum, þeir kannski kláruðu kvótann í aðdraganda kosninga, þá vantaði aldeilis ekki hugðarefnin. Þetta mál virðist heldur ekki vekja áhuga hjá þingmönnum kjördæmisins, þeir sjá kannski bara í hyllingum aukna umferð um Vaðlaheiðargöng?

Ég heimsótti vefsíðu Samtaka sveitarfélaga & atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), þar fann ég enga yfirlýsingu eða áskorun til stjórnvalda.  Ég fann þær heldur ekki á vef Markaðsstofu Norðurlands en eflaust hafa þær tapast í öllum færslunum um Akureyrarflugvöll. Á Fjasbókarsíðu Húsavíkurstofu er að vísu hlekkur á frétt um yfirvofandi endalok áætlunarflugsins. Aðrir hagaðilar í ferðaþjónustu, fyrirtækjaeigendur og stjórnendur hafa lítið ef nokkuð haft sig í frammi.

Hreyfiafl samfélagsins

Umræðan um sameiningardrauma mennta- og barnamálaráðherra hefur leitt mig á þann stað að það kæmi mér ekkert á óvart þó hann verði gerður afturreka með þessar hugmyndir sína. Svo sterk hefur andstaðan verið.

Og hvað kennir það okkur? Jú, einmitt það að opinber umræða um mikilvæg málefni er eitt öflugasta hreyfiafl nútímasamfélags sem við höfum.

Því skora ég á kjörna fulltrúa í sveitarfélögunum austan Vaðlaheiðar og þingmenn kjördæmisins að láta í sér heyra um hvað þeim finnst um endalok áætlunarflug frá Húsavík og framtíð Húsavíkurflugvallar; eða skiptir þessi samgönguleið íbúanna á svæðinu ykkur engu máli?

Það getur vel verið að þið hafið skrifað einhverja tölvupósta á bak við tjöldin en til að koma hreyfingu á hlutina þarf að setja þrýsting á ríkið fyrir opnum tjöldum og skapa umræðu; kveikja í íbúum sem mæta á á kjörstað. Og ef þið teljið þetta mál ekki vera nógu mikilvægt, þá er líka alveg sjálfsagt að þið segið kjósendum hug ykkar í málinu. Klukkan tifar.

Höfundur er áhugamaður um umræðu mikilvægra málefna

Framsýn skorar á Erni að viðhalda áætlunarflugi til Húsavíkur

Á dögunum fór þessi yfirlýsing frá Framsýn til stjórnenda Flugfélagsins Ernis:

„Framsýn hefur komið að því með Erni að byggja upp flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur með samkomulagi milli félagsins og flugfélagsins. Eins og kunnugt er hefur Framsýn fjárfest í flugkóðum með staðgreiðslu/magnkaupum gegn því að fá kóðana á sérkjörum. Samstarf aðila hefur verið með miklum ágætum og verið báðum til hagsbóta. Með þessum pósti vill Framsýn hvetja stjórnendur flugfélagsins til þess að viðhalda áfram flugi á flugleiðinni Reykjavík – Húsavík.  Að mati Framsýnar á farþegum bara eftir að fjölga, þar kemur til sterk ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum og verulegur uppgangur í atvinnulífinu sem ekki er séð fyrir endann á.  Þá er Framsýn reiðubúið til frekara samstarfs um kaup á flugkóðum verði það til að efla frekar flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Húsavíkur.“

Til viðbótar má geta þess að fulltrúar Framsýnar hafa verið í stöðugu sambandi við eigendur flugfélagsins, sveitarstjórnarmenn og fjölda fólks á svæðinu frá Vaðlaheiði til Þórshafnar sem hafa miklar áhyggjur af stöðinni. Þá hefur verið fundað með þingmönnum og þeim boðið frekari kynning á málinu sem þeir hafa ekki þegið hjá Framsýn sem þekkir afar vel til málsins. Vissulega vekur athygli að þingmenn kjördæmisins telji ekki ástæðu til að tjá sig um málið sem er gríðarlegt atvinnu- og byggðamál á Norðurlandi eystra. Hugsanlega telja þeir mikilvægara að koma í veg fyrir samruna MA og VMA.

Aðalsteinn J. til starfa hjá stéttarfélögunum

Fulltrúaráð stéttarfélaganna hefur ákveðið að ráða Aðalstein J. Halldórsson sem þjónustufulltrúa stéttarfélaganna frá og með 1. nóvember 2023. Aðalsteinn starfaði áður hjá félögunum frá árinu 2016 til ársins 2020. Frá þeim tíma hefur hann verið í afleysingum hjá félögunum. Um leið og við bjóðum Aðalstein velkominn til starfa þökkum við öðrum umsækjendum fyrir sýndan áhuga á starfinu. Sjö umsóknir bárust um starfið. Á meðfylgjandi myndum má sjá Fulltrúaráð stéttarfélaganna með Aðalsteini þegar gengið var frá ráðningunni.

The council of representatives for Framsýn, Þingiðn and STH have decided to hire Aðalsteinn J. Halldórsson in the position of an office representative for the office of the unions in Húsavík. Aðalsteinn will start working on November 1st, 2023. Aðalsteinn has previously worked for the unions in 2016 to 2020. Since then he has been working as a substitute for the unions. We welcome Aðalsteinn to work and at the same time we wish to thank all the other applicants for their interest in the position. Seven applied for the position. 

Góður fundur með ríkissáttasemjara

Ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson og samstarfsfólk hans hjá embættinu, þær Bára Hildur Jóhannsdóttir, Aldís Magnúsdóttir og Elísabet S. Ólafsdóttir funduðu með fulltrúum úr stjórnum Framsýnar, STH og Verkalýðsfélags Þórshafnar í dag á Fosshótel Húsavík. Gestirnir fóru yfir hlutverk og starfsemi embættis ríkissáttasemjara sem hefur á að skipa litlu en öflugu teymi starfsfólks. Auk þess kölluðu þau eftir helstu áherslum félaganna varðandi kjaramálaumhverfið og komandi samningavetur. Fundurinn var vinsamlegur og góður í alla staði.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um samráð skipafélaga 

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) telur samráð Eimskips og Samskipa eins og því er lýst í málsgögnum Samkeppniseftirlitsins til marks um sjúklegt hugarfar spillingar og græðgi. Algjört virðingarleysi stjórnenda þessara fyrirtækja fyrir samkeppnislögum og hagsmunum almennings er enn ein staðfesting þess að íslenskt viðskipta- og fjármálalíf glímir við djúpstæðan siðferðisvanda sem stöðugt grefur undan trausti í samfélaginu. 

Miðstjórn fordæmir framgöngu stjórnenda skipafélaganna tveggja sem fól í sér stórfellt verðsamráð og var í raun samsæri gegn almenningi í landinu. Engum blöðum er um að fletta að þessi ólögmæta og siðlausa framkoma hækkaði innflutningskostnað íslenskra fyrirtækja sem venju samkvæmt veltu auknum kostnaði út í verðlag.  

Þannig var það almenningur í landinu sem greiddi kostnaðinn við samráð þessara fyrirtækja. Það er að sönnu nöturlegt að það verður sami almenningur sem greiða mun sektina sem lögð var á Samskip, 4,2 milljarða króna, þar sem fyrirtækið mun nú þurfa að bæta sér upp „tapið” og venju samkvæmt verður það ekki gert með lægri arðsemiskröfum, lækkun ofurlauna eða uppsögnum þeirra sem skipulögðu samsærið og ollu tjóninu.  

Miðstjórn telur sýnt að siðvæðing mun ekki að óbreyttu eiga sér stað í ranni íslenskra stórfyrirtækja eða í fjármálalífinu. Stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við framkomnum upplýsingum og þeirri afstöðu til almennings og samfélags sem þær lýsa. Þörf er á lagabreytingum til að verja fólkið í landinu gegn siðleysingjum og þeim samfélagslegu spellvirkjum sem þeir vinna og tryggja að þeir og þeir sem raunverulega stýra og bera ábyrgð á gjörðum þeirra sæti persónulegri ábyrgð að lögum. 

Miðstjórn bendir einnig á að siðleysi samráðs og græðgi setur svartan blett á íslenskt viðskiptalíf og þar með á fyrirtæki sem aldrei hafa beitt svo ósvífnum vinnubrögðum. Samfélagslegi skaðinn er ekki síst fólginn í því trausti sem glatast og þeim grunsemdum sem vakna þegar upplýst er um athæfi sem þetta. Sú spurning er áleitin hvernig forystufólk í íslensku viðskipta- og atvinnulífi bregst við þessum nýjasta áfellisdómi. Tæpast verður því trúað að það hyggist leiða hjá sér þetta síðasta högg sem trúverðugleiki þess hefur orðið fyrir.  

Námsstyrkir í boði fyrir félagsmenn Framsýnar 

Félagsmenn Framsýnar eiga rétt á námsstyrkjum úr þeim starfsmenntasjóðum sem þeir eiga aðild að í gegnum kjarasamninga félagsins. Þannig getur fullgildur félagsmaður fengið allt að 130.000 krónur á ári í námsstyrk. Ef styrkur er ekki nýttur í þrjú ár samfellt geta félagsmenn sótt um uppsafnaðan rétt eða allt að 390.000 krónur fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt reglum sjóðanna. Eins eiga félagsmenn í dýru námi kost á að sækja um viðbótarstyrk í sérstakan fræðslusjóð Framsýnar. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Framsýnar, undir fræðslumál (https://framsyn.is/fraedslumal-2/). Einnig er hægt að fá upplýsingar á skrifstofu stéttarfélaganna. 

Fundað með Íslandsbanka

Fyrir helgina óskuðu forsvarsmenn Íslandsbanka eftir fundi með Framsýn um áframhaldandi bankaviðskipti. Framsýn og önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa mörg undanfarin ár verið í viðskiptum við Íslandsbanka. Frá bankanum komu Jón Guðni Ómarsson bankastjóri, Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri og Margrét Hólm Valsdóttir útibústjóri Íslandsbanka á Húsavík. Frá Framsýn tóku þátt í fundinum Aðalsteinn Árni formaður félagsins og Elísabet Gunnarsdóttir fjármálastjóri. Þá var formaður Þingiðnar einnig á svæðinu en félagið er meðeigandi með Framsýn í Hrunabúð sem er fasteignafélag í eigu þessara tveggja stéttarfélaga. Eins og kunnugt er hefur verið óróleiki í kringum Íslandsbanka vegna þeirra lögbrota sem framin voru við sölu á hlutum ríkisins í bankanum í marsmánuði 2022.  Hvað það varðar ályktaði Alþýðusambandið nýlega um málið og gerði alvarlegar athugasemdir við gjörninginn. Fulltrúar Framsýnar komu sínum skoðunum, varðandi söluna á bréfunum í bankanum, vel á framfæri við gestina frá Íslandsbanka. Framsýn tekur heilshugar undir með Alþýðusambandinu varðandi alvarleika málsins.

Framsýn varar við vaxtahækkunum og afkomukreppu verkafólks

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar síðdegis í dag. Meðal þess sem var til umræðu á fundinum voru endalausar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands.

Ljóst er að hækkanirnar hitta ekki síst láglaunafólk illa fyrir. Mikil reiði kom fram á fundinum með stöðu mála. Eftir kröftugar umræður samþykkti fundurinn samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun þar sem stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og getuleysi stjórnvalda er mótmælt harðlega:

Ályktun
stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar vegna vaxtahækkana og afkomukreppu

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðugum stýrivaxtahækkunum Seðlabanka Íslands og telur stjórnvöld sýna fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart versnandi afkomu fólksins í landinu.

Framsýn vekur athygli á að verðbólga fer nú hjaðnandi sökum lækkandi húsnæðisverðs, minna hækkana á erlendum aðföngum og styrkingar krónunnar. Þrátt fyrir þetta telur Seðlabankinn þörf á að hækka stýrivexti enn einu sinni og leggja enn auknar byrðar á heimilin í landinu sem hafa mátt þola mikla kaupmáttarskerðingu sökum hækkandi greiðslubyrði lána og mikilla hækkana á innlendri vöru og þjónustu.

Enn á ný vekur athygli algjört áhugaleysi stjórnvalda gagnvart afkomu almennings. Verður tæpast önnur ályktun dregin en að ráðamenn séu í engum tengslum við fólkið í landinu enda njóta þeir sérkjara í flestum efnum.

Framsýn telur enga þörf á frekari stýrivaxtahækkunum sem nú þegar hafa fært herkostnaðinn af baráttu við verðbólguna á heimilin í landinu. Ljóst er að það er í verkahring stjórnvalda að milda áhrifin með  sértækum aðgerðum.  Í því efni sem flestum öðrum kjósa íslenskir ráðamenn að skila auðu og varpa ábyrgðinni yfir  á Seðlabankann.

Þetta reiptog stjórnvalda og Seðlabanka bitnar fyrst og fremst á almenningi sem sér fram á enn frekari lífskjararýrnun vegna áhugaleysis og vanhæfni þess fólks sem kosið hefur verið til að stýra þjóðarbúinu. Líkt og jafnan eru það heimilin í landinu sem verða fyrir þyngsta högginu og enn fer því fjarri að áhrif fyrri vaxtahækkana hafi komið fram.

Framsýn telur ríkisstjórnina sýna þess merki að innri átök hafi svipt hana getu til að bregðast við því ófremdarástandi sem þensla, verðbólga og vaxtahækkanir skapa og verður til þess að dýpka enn þá afkomukreppu sem þjakar launafólk í landinu.“

Fundað með lögreglunni um eftirlit á vinnumarkaði

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar áttu á dögunum fund með lögreglunni á Norðurlandi eystra er varðar vinnustaðaeftirlit og eftirlit með löglegu vinnuafli á félagssvæði stéttarfélaganna. Lögregluþjónarnir Sigurður og Ólafur Hjörtur funduðu með fulltrúum stéttarfélaganna en þeir koma að landamæraeftirliti er tengist millilandaflugi um flugvöllinn á Akureyri og skipaumferð milli landa til og frá höfnum frá Siglufirði til Þórshafnar á Langanesi. Hvað vinnustaðaeftirlitið varðar hefur lögreglan sérstaklega verið að huga að því, að þeir sem koma hingað til lands í atvinnuleit, séu löglegir í vinnumarkaði auk þess að koma að öðrum verkefnum er lúta að málefnum erlendra aðila á starfssvæði lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Fulltrúar stéttarfélaganna gerðu lögreglunni grein fyrir stöðunni á svæðinu hvað vinnustaðaeftirlit varðar og miðluðu upplýsingum til þeirra varðandi brotastarfsemi á svæðinu.

Fundurinn var bæði gagnlegur og upplýsandi fyrir báða aðila. Niðurstaða fundarins var að efla samstarf lögreglunnar og stéttarfélaganna á þessu sviði er tengist því að menn starfi löglega á Íslandi.  Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar lögreglunnar með formönnum stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar auk Kristjáns Inga sem komið hefur að vinnustaðaeftirliti fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.

Fjölmörg mál á dagskrá stjórnar og trúnaðarráðs

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman næstkomandi mánudag kl. 17:00. Mörg mál eru á dagskrá fundarins. Dagskráin er eftirfarandi:

Stjórnar og trúnaðarráðsfundur verður haldinn mánudaginn 4. september kl. 17:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kvennaráðstefna 28.-29. sept.
  4. Kjarasamningur starfsmanna sveitarfélaga
  5. Framtíð flugs til Húsavíkur
  6. Samgöngumál
  7. Fundur með Húsavíkurstofu
  8. Fundur með SSNE
  9. Fundur með forsvarsmönnum Íslandsbanka
  10. Fundur með lögreglunni
  11. Stýrivaxtahækkanir Seðlabankastjóra Íslands
  12. Þing LÍV 19.-20. okt.
  13. Þing SGS 25.-27. okt.
  14. Þing SSÍ 9.-10. nóv.
  15. Fulltrúaráðsfundur AN 22. sept.
  16. Starfsdagar starfsmanna stéttarfélaga
  17. Formannafundur SGS
  18. Ungliðafundur á vegum ASÍ
  19. Kjör trúnaðarmanns hjá Norðursiglingu
  20. Ástandið í atvinnumálum á félagssvæðinu
  21. Vinnustaðaeftirlit
  22. Málefni starfsmanna Hvamms/Þingeyjarsveitar
    1. Breytingar á sérkjarasamningi Hvamms
    1. Breytingar á sérkjarasamningi Þingeyjarsveitar
  23. Þorrasalir
    1. Málning utanhúss
    1. Rafhleðslukerfið
    1. Málning á íbúðum
  24. Hrútadagurinn Raufarhöfn
  25. Erindi frá félagsmanni
  26. Samkomulag við Securitas hf.
  27. Önnur mál

Vilt þú vera þingfulltrúi Framsýnar á þingi SGS?

Næsta reglulega þing Starfsgreinasambands Íslands fer fram í Reykjavík í haust, það er á Hótel Natura 25. – 27. október. Framsýn á rétt á 8 þingfulltrúum en þingið stendur yfir í þrjá daga. Félagið hefur aldrei áður átt eins marga fulltrúa á þingi sambandsins eins og í ár.

Þingsetning verður kl. 15:00 miðvikudaginn 25. október og dagskráin klárast upp úr hádegi föstudaginn 27. október. Framsýn mun ganga frá sínum fulltrúum á þingið næstkomandi mánudag, það er 4. september. Þá mun stjórn og trúnaðarráð félagsins koma saman og klára málið. Áhugasamir eru beðnir um að senda formanni félagsins, Aðalsteini Árna Baldurssyni póst á netfangið kuti@framsyn.is. Greiðandi félagsmenn í Framsýn eru gjaldgengir á þingið. Rétt er að taka fram að Framsýn greiðir allan kostnað þingfulltrúa er viðkemur þinginu sem og vinnutap. Formaður félagsins veitir frekari upplýsingar.

ASÍ hættir viðskiptum við Íslandsbanka

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna þeirra lögbrota sem framin voru við sölu á hlutum ríkisins í fyrirtækinu í marsmánuði 2022. Ákvörðun þessi var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ miðvikudaginn 16. ágúst sl.  

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), átti í gær, mánudaginn 21. ágúst, fund með Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka, og gerði honum grein fyrir ákvörðun miðstjórnar.  

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands:  

„Afstaða miðstjórnar var alveg skýr á fundinum í síðustu viku. Alvarleg lögbrot voru framin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Framhjá slíkum trúnaðarbresti er ekki hægt að horfa og miðstjórn var einhuga um að slíta þessu viðskiptasambandi. Með þessu móti lætur Alþýðusambandið í ljós þá eindregnu afstöðu að ólöglegt fyrirkomulag sölu á hlutum í Íslandsbanka hafi verið ásetningur en ekki „mistök“. Nú hefur þessari afstöðu verið komið á framfæri við fólkið í landinu, stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja.”  

Lesa nánar á vef ASÍ:

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/asi-haettir-vidskiptum-vid-islandsbanka/