Í morgun fór bréf frá Framsýn til þingmanna Norðausturskjördæmis þar sem kallað er eftir stuðningi við að koma aftur á áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Líkt og er með nokkra aðra áfangastaði á Íslandi er kallað eftir ríkisstuðningi við flugið sem er forsendan fyrir því að hægt verði að hefja aftur flug til Húsavíkur, sjá bréfið:
Ágætu þingmenn
Framsýn hefur lengi barist fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur, því miður lagðist flugið af 1. apríl 2024 þar sem ríkisstyrkur var ekki lengur til staðar sem er forsendan fyrir því að hægt sé að halda úti flugi milli þessara áfangastaða líkt og er með nokkra aðra áfangastaði á Íslandi sem flogið er til. Áður hafði Flugfélagið Ernir verið í góðu samstarfi við heimamenn um að halda úti flugsamgöngum milli þessara áætlunarstaða frá árinu 2012. Fyrr á þessu ári bauð Vegagerðin út flug til Húsavíkur, tilboðið gerir ráð fyrir flugi til Húsavíkur í aðeins þrjá mánuði á ári í þrjú ár, des-jan-feb. Þrátt fyrir útboðið hefur ekki verið gengið frá samningi við það flugfélag sem bauð í leiðina, Reykjavík-Húsavík-Reykjavík. Hvað tefur er ekki vitað og veldur áhyggjum heimamanna. Forsvarsmenn Framsýnar og sveitarfélagsins Norðurþings funduðu á dögunum með innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur sem tók gestunum vel frá Húsavík. Sagði hún málið til skoðunar í ráðuneytinu, hjá Vegagerðinni og þá væru fjárlögin til umræðu á þingi sem mörkuðu í hvað peningarnir færu. Á fundinum með Svandísi var farið yfir mikilvægi þess að flugsamgöngum til Húsavíkur verði komið á aftur. Horft væri til þess að stuðningurinn verði á ársgrundvelli eða að lágmarki í sex mánuði enda verði flugið rekið á rekstrarlegum forsendum yfir sumarmánuðina. Í ljósi þess hvað málið er mikilvægt fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum, það er allt frá Raufarhöfn, biðlar Framsýn til þingmanna kjördæmisins um að koma að verkefninu að fullum krafti. Reyndar er það forsendan fyrir því að hægt verði að tryggja flug til Húsavíkur á ársgrundvelli. Ekki skemmir fyrir að formaður Fjárlaganefndar Alþingis er þingmaður Norðausturkjördæmis. Forsvarsmenn Framsýnar eru reiðubúnir að mæta á fundi með þingmönnum kjördæmisins til að ræða málið frekar, þá eru þingmennirnir ávallt velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Framsýn kallar eftir afstöðu þingmanna kjördæmisins til málsins. Vinsamlegast hafið samband vanti ykkur frekari upplýsingar.
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson