Kveður eftir rúmlega 20 ára stjórnarformennsku

Framhaldsaðalfundur Þekkingarnets Þingeyinga fór fram í morgun. Þau tíðindi urðu að Aðalsteinn Árni sem jafnframt er formaður Framsýnar gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnunarstarfa fyrir Þekkingarnetið en hann hefur lengi setið í stjórn setursins fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.

Aðalsteinn hefur verið formaður stjórnar ÞÞ frá stofnun þess árið 2003, áður var hann í stjórn Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga. Hann var leystur út með gjöfum um leið og honum voru þökkuð vel unninn störf í þágu Þekkingarnets Þingeyinga af stjórnarmönnum og forstöðumanni Óla Halldórssyni. Aðalsteinn þakkaði fyrir sig og óskaði ÞÞ velfarnaðar í störfum sínum í þágu samfélagsins.

Þekkingarnet Þingeyinga er símenntunar-, háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfar á grunni tveggja stofnana er sameinaðar voru árið 2006. Annars vegar er um að ræða símenntunarmiðstöðina Fræðslumiðstöð Þingeyinga og hins vegar háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfaði undir nafni Þekkingarseturs Þingeyinga fram að sameiningunni. Símenntunarstarfsemin hófst árið 1999 um svipað leyti og aðrar símenntunarstöðvar á landinu hófu starfsemi. Háskólanáms- og rannsóknahlutinn fór hins vegar af stað árið 2003 samhliða Náttúrustofu Norðausturlands, sem starfar undir sama þaki og höfuðstöðvar Þekkingarnetsins á Húsavík við höfnina.

Deila á