Vilji til að ná samkomulagi

Eins og kunnugt er hefur Framsýn og Þingiðn krafist þess að gerður verði kjarasamningur um störf félagsmanna sem koma til með að starfa í verksmiðju PCC á Bakka. Forsvarsmenn PCC hafa ekki verið sammála því að gera samning og kom ágreiningurinn upp á fjölmennum íbúafundi á Húsavík í vikunni sem haldinn var til að fara yfir stöðu framkvæmda við Húsavíkurhöfn, Bakka, á Þeistareykjum og varðandi línulögnina frá Kröflu að verksmiðju PCC á Bakka.

Fulltrúar stéttarfélaganna og PCC hittust daginn eftir og fóru yfir ágreining aðila. Niðurstaðan var að aðilar ætla að vinna áfram í málinu með það að markmiði að báðir aðilar geti vonandi sæst á niðurstöðuna.

Ályktað um starfsöryggi fiskvinnslufólks

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi, fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu miklar umræður um yfirlýsingar forsvarsmanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem hótaði því í fjölmiðlum að til greina kæmi að flytja vinnslu á fiski úr landi. Eftir umræður um málið var stjórn Framsýnar sammála um að senda frá sér ályktun um málið sem er svohljóðandi:

„Framsýn stéttarfélag harmar málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem með hótunum hafa boðað að fyrirtæki í fiskvinnslu séu með til skoðunar að flytja starfsemina úr landi. Það er forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa í mörgum tilfellum greitt sér himin háar arðgreiðslur á undanförnum árum. Nú þegar árar ekki eins vel er stefnan tekin á útlönd með auðlindina sem er sameiginleg eign íslensku þjóðarinnar.

Þessar glórulausu yfirlýsingar koma í kjölfar verkfalls sjómanna sem kostaði fiskvinnslufólk víða um land atvinnumissi og verulegt tekjutap.

 Fiskvinnslufyrirtækin halda áfram að ögra byggðarlögunum í landinu með því að boða frekari flutning á störfum milli landshluta og/eða byggðalaga.

Alþingi getur ekki lengur setið aðgerðarlaust hjá við þessar aðstæður. Yfirlýsingar sem þessar kalla á tafalausar aðgerðir og  endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni með það að markmiði að tryggja að handhafar kvótans geti ekki komist upp með svona vinnubrögð.“

 

 

 

Breytingar á greiðslum í lífeyrissjóði

Rétt er að vekja athygli á því að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum hækkar úr 8,5% í 10% þann 1. júlí 2017. Framlag starfsmanna verður áfram það sama eða 4%. Frekari upplýsingar um þessar breytingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Samheldni starfsmanna í baráttu um byggðakvóta

Formaður Framsýnar gerði sér ferð til Raufarhafnar fyrir helgina til að eiga fund með forsvarsmönnum og starfsmönnum fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er óánægja með að fyrirtækið hafi ekki fengið hlutdeild í sérstökum byggðakvóta sem fór til Raufarhafnar. Í heildina komu 500 tonn af byggðakvóta til Raufarhafnar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Þrátt fyrir alvarleika málsins var að sögn formanns Framsýnar ánægjulegt að koma í heimsókn á vinnustaðinn. Greinilegt væri að mikil samheldni væri meðal starfsmanna sem stæðu heilshugar að baki eigendum fyrirtækisins sem telja að gengið hafi verið fram hjá þeim við úthlutun kvótans. Þá liggur fyrir að fiskvinnslunni verður lokað í vor þar sem ekki fékkst byggðakvóti til vinnslu með þeim heimildum sem fyrirtækið á sem er um 500 tonn. Starfsmenn koma því til með að missa vinnuna í vor en um 10 starfsmenn hafa verið við störf í vetur. Málið verður til umræðu á fundi stjórnar Framsýnar síðar í vikunni auk þess sem formaður Framsýnar hefur óskað eftir að málið verði tekið upp á fundi stjórnar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem haldinn verður síðar í dag.

sjomenn0217 030

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar fundaði með forsvarsmönnum fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar á Raufarhöfn fyrir helgina. Mikil óánægja er meðal starfsmanna og forsvarsmanna fyrirtækisins að fyrirtækis skyldi ekki fá hlutdeild í byggðakvóta sem var úthlutað til Raufarhafnar. Starfsmönnum hefur verið sagt upp og láta þeir af störfum í vor.

 

ÉG VEIT ÞÚ KEMUR

Karlakórinn Hreimur stóð fyrir vorfagnaði á Ýdölum síðasta laugardagskvöld og var fullt út úr dyrum. Að venju var um að ræða frábæra skemmtun og hefur kórinn sjaldan eða aldrei verið betri en um þessar mundir. Stjórnandi kórsins er Steinþór Þráinsson og undirleikari Steinunn Halldórsdóttir. Tveir stórsöngvarar komu fljúgandi norður til að krydda upp á kvöldið. Það voru þau Gissur Páll Gissurarson og Margrét Eir. Fagnaðarstjóri kvöldsins klikkaði ekki, Viðar Guðmundsson bóndi á Ströndum. Ekki má gleyma stórbrotnu veislukaffi en styrkja þurfti veisluborðin sérstaklega svo þau gæfu sig ekki undan þungum hnallþórum og öðrum kræsingum. Eftir frábæra kvöldstund tóku félagarnir Frímann og Hafliði við og spiluðu eins og enginn væri morgundagurinn fram eftir nóttu. Ekki fer sögum að því hvenær dansleiknum lauk um nóttina. Takk fyrir frábæra skemmtun.

20170325_20583520170325_22304020170325_22320220170325_21003520170325_23495020170325_231744_001

Málþing um stöðuna á vinnumarkaði heppnaðist vel

Í gær var fundur um stöðuna á vinnumarkaði hér á svæðinu haldinn í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Tæplega 40 manns sóttu fundinn sem tókst með miklum ágætum.

Nokkur erindi voru flutt á fundinum. Í framhaldi af þeim voru pallborðsumræður. Aðalsteinn Árni Baldursson setti fundinn. Flytjendur erinda voru Aðalsteinn J. Halldórsson frá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslu, Einar Erlingsson frá Landsvirkjun, Unnsteinn Ingason frá Narfastöðum, Guðrún Tryggvadóttir frá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Í pallborði tóku þátt Aðalsteinn Á. Baldursson, Kristján Þór Magnússon, Guðrún Tryggvadóttir, Unnsteinn Ingason og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ. Fundarstjóri var Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Viðbrögð gesta hafa verið góð eftir og sumir hafa haft á orði að ýmislegt hafi komið sér á óvart í máli þeirra sem töluðu á fundinum og pallborðinu þar á eftir.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á meðan fundi stóð.

IMG_2273 IMG_2270 IMG_2260 IMG_2250 IMG_2249 IMG_2226 IMG_2227 IMG_2229 IMG_2235 IMG_2239 IMG_2242 IMG_2215 IMG_2213 IMG_2209 IMG_2291 IMG_2289 IMG_2287IMG_2245 IMG_2247 IMG_2258IMG_2223 IMG_2228 IMG_2231IMG_2301 IMG_2204

Þingeyingum fjölgar

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga birtir athyglisverða greiningu á mannfjöldaþróun á sínu starfssvæði. Greiningin byggir á nýútkomnum tölum Hagstofu Íslands.
Ánægjulegt er að lesa að Þingeyingum hefur fjölgað talsvert og raunar umfram landsmeðaltal. Langt er síðan slíkt gerðist. Hinsvegar virðist vera sem svo að þorri fjölgunarinnar sé til kominn vegna framkvæmdanna á Bakka þar sem dreifbýli í Norðurþingi er sá hluti svæðisins sem á stærstan hluta fjölgunarinnar, en framkvæmdasvæðið á Bakka telst til dreifbýlis. Ennfremur má sjá óvenjulega mikla fjölgun á Húsavík ef miðað er við síðustu ár.
Hér eru á ferðinni ánægjulegar fréttir sem vonandi er vísir að því sem koma skal.

Sumarferðin – fyrstir koma, fyrstir fá

Sumarferð stéttarfélaganna verður að þessu sinni helgarferð og nú við höldum austur á land, nánar tiltekið á Borgarfjörð eystri. Farið verður frá Húsavík snemma morguns þann 19. ágúst og komið til baka seinnipart sunnudagsins 20. ágúst. Við munum gista í uppbúnum rúmum hóteli og þar er morgunmatur innifalinn. Grillað verður í boði Framsýnar á laugardagskvöldið, en að öðru leiti nestar fólk sig sjálft.

Borgarfjörður eystri er nyrstur hinna eiginlegu Austfjarða. Þangað er tæplega 70 km. akstur frá Egilsstöðum, um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriður. Borgarfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð og þá sérstaklega fyrir sérstæðan fjallahring. Sunnan fjarðar er ljóst líparít allsráðandi eins og í Staðarfjalli, en fyrir botni fjarðarins og norðan hans er blágrýti (basalt) mest áberandi og þá einkum í Dyrfjöllum. Inn af firðinum gengur um 10 km langur dalur, vel gróinn og nokkuð breiður. Eftir honum rennur Fjarðará. Þorpið Bakkagerði stendur við fjarðarbotninn.

Það er margt að skoða á þessum fallega stað og við munum njóta leiðsagnar staðkunnugra um svæðið. Fararstjóri verður Ósk Helgadóttir. Ferðakostnaður pr. mann í sumarferðina er aðeins 20.000-. Takmarkaður fjöldi verður í þessa ferð þannig að við biðjum áhugasama að skrá sig sem allra fyrst, eða fyrir 30. apríl. Höfum í huga, fyrstir koma, fyrstir fá.

Hvetja ASÍ til að taka upp til umræðu málefni eftirlaunafólks og öryrkja

 

Framsýn sendi um helgina frá sér bréf til forseta ASÍ þar sem félagið beinir þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp til umræðu á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Bæði hvað varðar almenna stöðu í þjóðfélaginu og eins gagnvart aðild þeirra að stéttarfélögum eftir starfslok á vinnumarkaði. Eins og sjá má á meðfylgjandi bréfi kallar Framsýn eftir umræðu um stöðu þessara hópa. Sjá bréfið:

 

Alþýðusamband Íslands
Hr. Gylfi Arnbjörnsson
Guðrúnartúni 1
105 Reykjavík 

Húsavík 19. mars 2017

Varðar stöðu aldraðra og öryrkja

Framsýn, stéttarfélag vill beina þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Fyrir liggur að stór hluti þessa fólks var eða er greiðandi í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands.  Mikilvægt er að Alþýðusambandið standi vörð um réttindi og réttindabaráttu þessa fjölmenna hóps og berjist fyrir þeirra baráttumálum í samráði við þeirra hagsmunasamtök.

Það segir töluvert um stöðu þessara hópa að fjölmennasti fundur sem Framsýn hefur staðið fyrir á síðustu árum var laugardaginn 4. mars 2017 þegar félagið stóð fyrir baráttufundi um málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík. Um 130 gestir komu á fundinn og baráttuandinn sveif þar yfir vötnum.

Jafnframt telur Framsýn mikilvægt að Alþýðusambandið stuðli að því að aðildarfélög sambandsins samræmi reglur varðandi réttindi þessara  hópa innan stéttarfélaganna, það er öryrkja og eftirlaunafólks. Í dag er það þannig að réttindin eru mjög mismunandi milli félaganna. Sé ekki vilji til þess að samræma reglurnar milli félaganna er ekki síður mikilvægt að taka þessi mál upp til umræðu og kalla eftir viðhorfi stéttarfélaganna varðandi stöðu þeirra félagsmanna sem lokið hafa störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

Framsýn óskar eftir skriflegu svari frá Alþýðusambandi Íslands við þessu erindi þar sem félagið hefur ákveðið að taka málefni þessara hópa upp á næsta aðalfundi félagsins með það að markmiði að tryggja sem best stöðu þessara hópa innan félagsins. Standi ekki til að taka þessi mál almennt upp á vegum Alþýðusambandsins mun félagið klára þessa vinnu í heimahéraði með hagsmuni eftirlaunafólks og öryrkja að leiðarljósi.

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

_____________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Mikael Torfason í Silfrinu

Rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Mikael Torfason var gestur í Silfrinu í gær, 19. mars. Tilefni viðtalsins við Mikael eru útvarpsþættir sem hann er að gera um þessar mundir sem fjalla um fátækt á Íslandi. Mikael fór mikinn í máli sínu og sagði meðal annars að lágmarkslaun og örorkubætur væru skammarlega lág á Íslandi. Viðtalið má nálgast með því að smella hér.

Starfsgetumat, nýfrjálshyggja og félagslegt réttlæti

Eftir Steindór J. Erlingsson

Reglulega berast fréttir af mikilli fjölgun öryrkja. Ríkisstjórnin hyggst bregðast við þróuninni með því að setja á starfsgetumat, sem miðar að því að draga úr nýgengi örorku og koma sem flestum þeirra sem nú þegar eru á örorkubótum aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta er í sjálfu sér verðugt markmið, en mikilvægt er að félagslegt réttlæti verði innbyggt í kerfisbreytinguna svo hún bitni ekki illa á þeim sem metnir verða vinnuhæfir. Í þessari grein ætla ég að fjalla um íslensku tillögurnar, reynslu tveggja annarra landa af starfsgetumatinu og hvaða þýðingu það getur haft fyrir íslenska öryrkja.

Starfsgetumat á Íslandi

Undanfarin misseri hefur starfsgetumat af og til borðið á góma í fjölmiðlum hér á landi. Talsmenn hugmyndarinnar varpa henni yfirleitt fram sem allsherjarlausn á vanda öryrkja. Umræðan um þessa róttæku breytingu á högum öryrkja á Íslandi hefur hins vegar verið frekar yfirborðskennd. Þetta má berlega sjá í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar sem lögð var fram í febrúar á síðasta ári.

Í skýrslunni er lagt til að samhliða starfsgetumatinu verði teknir upp tveir bótaflokkar, annars vegar fyrir þá sem hafa verulega skerta starfsgetu (26-50%) og hins vegar fyrir þá sem hafa litla sem enga starfsgetu (0-25%). Þeir sem lenda í fyrri flokknum fá hlutabætur. Allir sem koma nýir inn í kerfið þurfa að undirgangast starfsgetumat, ásamt þeim sem þurfa að endurnýja örorkumatið. Tveir hópar verða undanþegnir, þeir sem eru með varanlegt örorkumat og þeir sem eru 55 ára og eldri.

Þegar horft er á þessar tillögur vakna eðlilega ýmsar spurningar. Það er t.a.m. ekki hægt að lesa út úr skýrslunni á hverju matið verður byggt eða hversu stíft það verður. Ekkert mat er heldur lagt á hversu margir, sem teljast 75% öryrkjar í núverandi kerfi, verða áfram 75% öryrkjar, falla niður í flokk 50-74% öryrkja eða detta alveg út úr kerfinu. Það eina sem skýrslan segir um þetta er „að dæmi geta orðið um að einstaklingar, sem fengið hafi 75% örorkumat samkvæmt gildandi matskerfi sem gert er á læknisfræðilegum grundvelli, fái ekki greiðslur samkvæmt nýja kerfinu.“

Einnig er mikilvægt að huga að því hvernig þeim öryrkjum muni vegna á vinnumarkaðinum sem falla niður um bótaflokk eða detta út úr kerfinu. Nefndin bregst við þessum áhyggjum með því að benda „á mikilvægi þess að sveigjanleiki og hlutastörf séu til staðar fyrir einstaklinga sem ekki hafa fulla starfsgetu og því mikilvægt að tilskipanir ESB um bann við mismunun á vinnumarkaði verði innleiddar í lög á Íslandi.“ Í þessu sambandi er bent á að vinnuveitendur gegni mikilvægu hlutverki, án þess að það sé skilgreint nánar. Það lítur því út fyrir að ekki eigi að leggja neinar beinar skyldur á íslensk fyrirtæki þegar starfsgetumatið verður innleitt.

Starfsgetumat í Bretlandi og Hollandi

Einn alvarlegur annmarki hefur verið á umræðunni um starfsgetumat hér á landi. Ekkert hefur borið á umfjöllun um reynslu annarra landa af þessari kerfisbreytingu, hvorki í áðurnefndri skýrslu, skýrslu ÖBÍ Virkt samfélag (maí 2016) né fjölmiðlum. Í grein, sem birtist í byrjun mars í Fréttatímanum, reyndi ég að gera bragarbót á þessu. Þar kemur fram að ýmis lönd innan OECD hafa tekið upp starfsgetumat. Þar má nefna Bretland, Holland Ástralíu, Noreg, Svíþjóð og Þýskaland. Í greininni er lögð sérstök áhersla á fyrstu tvö löndin.

Bretland og Holland eiga það sameiginlegt að starfsgetumatið er stíft (sjá myndir 1 og 3 í FT-grein) og að allir öryrkjar voru skikkaðir í matið. Það er hins vegar einn grundvallar munur á löndunum. Meðan breskir öryrkjar, sem metnir eru vinnuhæfir samkvæmt starfsgetumati, þurfa alfarið á treysta á tilskipun ESB um bann við mismunun á vinnumarkaði, eru ríkar skyldur lagðar á hollensk fyrirtæki. Til marks um þetta segja fræðimenn (grein 1 og 2) að árangurinn þar í landi byggist á því að vinnuveitendur eru hvattir til þess að eyða meiri tíma og orku í hvatningu og endurhæfingu eftir að örorka er orðin staðreynd. Enn fremur bera hollensk fyrirtæki alfarið ábyrgð á örorkugreiðslum starfsmanna sinna fyrstu árin.

Einnig er rétt að geta þess að ólíkt Bretum, þá hafa Hollendingar tvo bótaflokka, fulla örorka og hlutfallslega örorku (sjá mynd 3 í FT-grein). Það virðist því nokkuð ljóst að íslensku skýrsluhöfundarnir hafi horft til Hollands varðandi bótaflokkana. Þeir virðast hins vegar ekki hafa fylgt fordæmi þeirra þegar kemur að ábyrgð fyrirtækja og virðast, eins og Bretar, ætla að treysta alfarið á tilskipun ESB, þ.e. ef Alþingi samþykkir hana.

Eftir stendur spurningin hvernig einstaklingum í þessum löndum, sem metnir eru vinnuhæfir eftir starfsgetumat, gengur að fá vinnu. Samkvæmt hollenskri rannsókn er erfitt að leggja mat á hvort þær konur sem dottið hafa niður um bótaflokk eða út úr bótakerfinu eftir starfsgetumat fái vinnu. Kerfisbreytingin hefur hins vegar líklega stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku karla sem búa við slæmt heilsufar, en á sama tíma hefur fjöldi þeirra karla sem hvorki hafa atvinnu né örorkubætur aukist.

Önnur rannsókn varpar frekara ljósi á ástandið í Hollandi, auk Danmerkur og Bretlands. Þar er fjallað um atvinnumöguleika þeirra einstaklinga sem eru 50 ára eða eldri þegar þeir voru metnir hæfir til þess að vinna. Í löndunum þremur er ekkert sem bendir til þess að möguleiki þessa fólks til atvinnuþátttöku aukist. Það eru hins vegar vísbendingar um að þessir einstaklingar flytjist af örorkubótum yfir á atvinnuleysisbætur.

Staðan í Bretlandi er vægast sagt afleit. Í nýrri rannsókn segir að ekki sé að jafnaði hægt að tengja starfsgetumatið við aukinn flutning einstaklinga með langvarandi heilsufarsvanda út í atvinnulífið. Það tengdist hins vegar flutningi fólks með geðraskanir frá því að vera öryrkjar yfir í atvinnuleysi. Önnur rannsókn, eftir sömu höfunda, tengir starfsgetumatið við aukningu á sjálfsvígum, geðheilbrigðisvandamálum og ávísunum þunglyndislyfja. Ákvæði í breskum lögum sem banna mismunum á vinnumarkaði virðast því í lítið hjálpa breskum öryrkjum.

Starfsgetumat og nýfrjálshyggja

Ástandið í Bretlandi kemur ekki á óvart þegar horft er á úttekt þriggja fræðimanna á tilraunum Breta, Ástrala og Bandaríkjamanna til þess að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Þar kemur fram að stefnumótun þessara landa einblíni fyrst og fremst á nálganir nýfrjálshyggjunnar og skyggi þar með á félagslegar nálganir sem miða að því að yfirvinna kerfislægar hindranir sem öryrkjar standa frammi fyrir.

Eins og fram kemur í íslenskri rannsókn (myndir 2 og 3) eiga þessi þrjú lönd, ásamt Kanada og Nýja-Sjálandi, það sameiginlegt að þar ríkir sterk einstaklingshyggjuhefð. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru áhrif einstaklingshyggjunnar miklu minni. Þetta gæti skýrt af hverju Norðmenn settu á laggirnar óumdeilt starfsgetumatskerfi árið 2008. Raunar búa þeir við svo örlátt velferðarkerfi að þeim hefur gengið illa að fækka öryrkjum. Holland, Finnland og Írland mynda hóp sem er þarna mitt á milli. Þetta gæti mögulega skýrt af hverju Hollendingar gleymdu ekki, þó þeir búi við stíft starfsgetumatskerfi, að leggja skyldur á herðar fyrirtækjum landsins.

Hvar stöndum við Íslendingar með tilliti til einstaklingshyggjunnar? Við tilheyrum hópi hinna enskumælandi einstaklingshyggjulanda. Þó það teljist til félagslegs réttlætis að undanskilja þá sem eru með varanlegt örorkumat og þá sem eru 55 ára og eldri, þá þarf ekki að koma á óvart, í ljósi rannsóknarinnar, að íslensku skýrsluhöfundarnir virðast að öðru leyti ætla fylgja áherslum nýfrjálshyggjunnar eftir. Það þýðir að í stað þess að deila ábyrgðinni á kerfisbreytingunni með íslenskum fyrirtækjum og samfélaginu í breiðari skilningi, virðist hún öll eiga að hvíla á herðum öryrkja. Við þessu þarf að sporna.

Niðurlag

Ég tel brýnt að verkalýðshreyfingin leggi öryrkjum lið í baráttunni sem er framundan, enda litast íslensku starfsgetumatstillögurnar af því mikla félagslega óréttlæti sem einkennir nýfrjálshyggjuna. Ef farið verður að tillögum nefndarinnar gætum við á endanum staðið frammi fyrir þeim birta raunveruleika sem breskir öryrkjar upplifa. Enn er ekki komið í ljós hvort frumvarp um starfsgetumat verður lagt fram á þessu þingi. Þrátt fyrir það tel ég brýnt að fá sem allra fyrst svör við þessum spurningum:

  1. Hvað er gert ráð fyrir að margir 75% öryrkjar muni missa bætur?
  2. Hvað er gert ráð fyrir að margir 75% öryrkjar verði metnir 50% öryrkjar?
  3. Hver er áætluð atvinnuþátttaka þeirra sem missa alfarið bætur?
  4. Hver er áætluð atvinnuþátttaka þeirra sem fá 50% örorku?
  5. Hvað er gert ráð fyrir að margir einstaklingar úr báðum hópum muni að loknum atvinnuleysisbótum enda á framfærslu sveitafélagsins?

Vonandi getur verkalýðshreyfingin hjálpað öryrkjum að þrýsta á stjórnvöld til þess að fá svör við þessum mikilvægu spurningum.

Höfundur er öryrki og vísindasagnfræðingur

Setið við skriftir – Fréttabréf væntanlegt

Helgin hjá starfsmönnum Skrifstofu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fer í að skrifa og ganga frá Fréttabréfi sem er væntanlegt til lesenda síðar í þessum mánuði. Að venju verður blaðið fullt af fróðleik og upplýsingum úr starfi stéttarfélaganna sem aldrei hefur verið eins öflugt og um þessar mundir. Starfi félaganna síðustu vikurnar verður gerð góð skil auk þess sem skrifað verður um orlofskosti félaganna sumarið 2017 sem verða sambærilegir milli ára auk þess sem sagt verður frá ævintýraferð í Borgarfjörð eystri sem félagsmönnum stendur til boða ásamt gestum undir leiðsögn Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar sem klikkar ekki sem fararstjóri. Til viðbótar má geta þess að hún er ættuð að austan og þekkir því vel til á Austurlandinu. Þá má geta þess að ákveðið hefur verið að hafa sama verð á orlofshúsunum til félagsmanna milli ára eða kr. 26.000.

leeds0317 068

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður Framsýnar tók sér frí um síðustu helgi og fór í heimsókn til Leeds á Englandi. Þar hitti hann meðal annars félaga sinn og fyrrum  landsliðsmarkmann Englands, Robert Green. Hann á tólf landsleiki fyrir England á ferilskránni, þess má geta að hann byrjaði sem fyrsti markmaður Englands á HM 2010. Nú er alvaran hins vegar tekin við og formaðurinn kominn heim og sestur við skriftir enda mikilvægt að koma Fréttabréfi stéttarfélaganna út á næstu dögum.

Hnyklum vöðvana með Framsýn

Örn Jóhannsson flutti góða tölu á baráttufundi Framsýnar um málefni eldra fólks sem haldinn var á Fosshótel Húsavík á dögunum. Fjölmenni tók þátt í fundinum.  Hann kom víða við og taldi eldri borgara ekki búa við virðingu eða réttlæti í þessu þjóðfélagi. Hann sendi okkur þessa grein í kjölfarið sem við birtum hér:

Heimskreppan mikla 1930-1940, þá hrundu útflutningstekjur okkar  Íslendinga niður um 25%. En ungur þingmaður Héðinn Valdimarsson þá formaður Dagsbrúnar og þingmaður Alþýðuflokksins bar fram tillögu á Alþingi um byggingu félagslegra íbúða. Á árunum 1930-1935 voru byggðar 100 tveggja og þriggja herbergja íbúðir við Hringbraut í Reykjavík. Íbúðir með baði og rafmagnseldavélum og þótti þá íhaldinu nóg um lúxusinn  Það ríkti ekkert góðæri þá, það orð var ekki til og engin fjármálafyrirtæki með okurvexti. Í miðri kreppunni blésu sunnan vindar og fólk hafði trú á sjálfum sér og landinu sínu. Landinu var stjórnað af Framsóknarflokknum hinum gamla með stuðningi Alþýðuflokksins og við komumst í gegnum kreppuna með samvinnu þessara þá góðu flokka. Þetta sýnir okkur að við getum þetta en í dag ef við hendum þessu rotna bananalýðveldi fyrir björg og stöðvum lekann í ríkissjóði undir stjórn sjálfgræðgisstefnunnar kennda við Engeyinga. Það er mál að linni þessum leka vinavæðingar. Við þurfum líka að losa okkur við forseta ASÍ, hann beinlínis vinnur gegn verkalýðnum t.d. með svonefndu SALEK ósamkomulagi, maðurinn hlustar ekki á raddir láglaunastéttarinnar að ég tali nú ekki um raddir eftirlaunafólks og öryrkja. Það er náttúrlega með ólíkindum að verkalýðshreyfingin kjósi ekki menn til forystu úr eigin ranni, fólk sem hefur reynslu af  almennum störfum verkalýðs og raunveruleg kynni á kjörum þess. Menn eins og Benidikt Davíðsson, Guðmund Jaka, Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson. Á þeim tíma var reisn yfir okkar samtökum. Það var mikill gleðidagur hjá mér laugardaginn 4.mars s.l. þegar Framsýn okkar verkalýðsfélag hélt opinn glæsilegan fund undir slagorðinu Grái Herinn Hnyklar Vöðvana að Fosshótel Húsavík. Hjá mér sem öldruðum öryrkja kviknaði vonarneisti um að við værum búinn að eignast sterkan stuðningsmann og góðan og ég efast ekki um að Framsýn stéttarfélag Þingeyinga eigi eftir að reynast okkur vel í okkar baráttu fyrir bættum kjörum. Munum að SAMEINUÐ STÖNDUM VIÐ EN SUNDRUÐ FÖLLUM VIÐ.

Örn Byström Einarsstöðum Reykjadal

 

Nýir kauptaxtar komnir út

Þann 1. maí næstkomandi hækka laun um 4,5%. Þar af leiðandi mun allir kauptaxtar hækka. Þeir kauptaxtar eru nú komnir út og eru hér á heimasíðunni undir Kaup og kjör. Einnig er hægt að nálgast þá með því að smella hér.

Einnig eru á sama stað fáanlegir taxtarnir hjá þeim sem vinna samkvæmt sérsamning Framsýnar.

Framkvæmdir langt komnar

Framkvæmdir á efri hæð Skrifstofu stéttarfélaganna eru langt komnar. Málarar eru langt komnir, flísalagnir eru hafnar og uppsetning innréttinga og hurða að hefjast. Reiknað er með því að teppalagning hefjist eftir helgina.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru í gær og núna í morgunsárið.IMG_2202 IMG_2201 IMG_2200 IMG_2199 IMG_2198 IMG_2197 IMG_2196

Málþing um vinnumarkaðsmál

Fimmtudaginn 23. mars mun verða fundur um stöðuna á vinnumarkaði í fundarsal stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26. Nokkrar framsögur verða á fundinum og pallborðsumræður að þeim loknum. Nánar má lesa um fundinn á auglýsingunni hér að ofan.

Allir velkomnir og við hvetjum sem flesta til að mæta.

,,,menn verða að þora að þora sagði framkvæmdastjóri Norðursiglingar á góðum fundi um atvinnumál,,,

Framsýn stóð fyrir áhugaverðum fundi í gær um atvinnumál. Gestur fundarins var Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík.

Guðbjartur fór yfir starfsemi fyrirtækisins sem hefur vaxið hratt á undanförum árum. Guðbjartur spáði því að svo yrði áfram enda almennt mikil vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi. Norðursigling væri þegar með öfluga starfsemi á Húsavík auk þess sem fyrirtækið væri að prófa sig áfram með starfsemi á Grænlandi, Noregi og á Hjalteyri við Eyjafjörð hluta úr ári. Með þessari útrás væri Norðursigling að dreifa áhættunni í rekstrinum. Hann nefndi þó nokkrar ógnanir við hvalaskoðun frá Húsavík s.s. fækkun hvala í flóanum, utanaðkomandi samkeppni, gengisþróun, breytt hegðun ferðamanna, náttúruhamfarir og breytingar á lögum og reglugerðum.

Norðursigling ehf, var stofnuð af tveimur bræðrum, Herði og Árna Sigurbjarnarsonum árið 1995. Frá upphafi hefur fyrirtækið verið byggt upp með sjálfbærni og strandmenningu að leiðarljósi, síðan eru liðin rúmlega 20 ár. Í dag telur skipafloti félagsins 10 skip þar af 4 skútur. Mikil vöxtur hefur orðið til þess að fyrirtækið hefur tekið stakkaskiptum á liðnum árum. Á árinu 2016 var starfsmannafjöldi í heildina með mötuneyti Gamla bauks á Bakka yfir 150 starfsmenn. Þá má geta þess að fyrirtækið breytist úr því að vera stórt fjölskyldufyrirtæki í hlutafélag í lok árs 2015 þegar Eldey ehf. gerðist hluthafi í fyrirtækinu. Fyrirtækið breytist úr því að vera Norðursigling ehf. í Norðursigling hf. Að sjálfsögðu er alltaf ánægjulegt þegar fjárfestar sjá tækifæri í því að fjarfesta í innviðum samfélagsins á Húsavík enda sé markmiðið að efla starfsemina á svæðinu.

Á fundinum í gær komu fram mikið af athyglisverðum upplýsingum.

nordursigling0317 023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvalaskoðun frá Húsavík hefur stóraukist frá árinu 1995 þegar um 1.500 gestir fóru í hvalaskoðun. Á síðasta ári fóru hins vegar um 110.500 gestir í hvalaskoðun, sjá meðfylgjandi súlurit:

nordursigling0317 014

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innan samstæðu Norðursiglingar hf. eru eftirfarandi fyrirtæki:

nordursigling0317 016

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þá hafa orðið breytingar á eigendum Norðursiglingar hf. sem eru um þessar mundir:

nordursigling0317 018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirtækið hefur staðið fyrir miklum fjárfestingum:

nordursigling0317 019

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í starfsemi samstæðu Norðursiglingar hf:

nordursigling0317 020

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Starfsmannafjöldinn hefur aukist og aukist ár frá ári. Ein villa er í tölunni, hjá Húsavíkurslipp ehf. störfuðu 15 starfsmenn árinu 2016 og 6 á árinu 2013. Guðbjartur lagði áherslu á að gott starfsfólk væri ekki síst lykillinn að uppgangi fyrirtækisins á liðnum árum:

nordursigling0317 037

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjóböðin, sóknartækifæri. Fram kom að framkvæmdir hefjast við sjóböðin á Húsavíkurhöfða í lok þessa mánaðar eða í byrjun þess næsta. Norðursigling er hluthafi í verkefninu. Búist er við 100.000 gestum á fyrsta ári og heildarkostnaður við fyrsta áfanga verði um 500 til 600 milljónir. Áætlanir gera ráð fyrir að sjóböðin verði opnuð vorið 2018.

nordursigling0317 041

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Guðbjartur lagði mikið upp úr mikilvægi þess að hafa gott starfsfólk við störf hjá fyrirtækinu.

nordursigling0317 001

 

 

 

 

 

 

 

 

 

nordursigling0317 045

 

 

 

 

 

 

 

 

 

nordursigling0317 029

 

 

 

 

 

 

 

 

 

nordursigling0317 027

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir framsögu Guðbjarts urðu líflegar umræður um starfsemi Norðursiglingar og almennt uppbyggingu á ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Menn voru sammála um eins og einn ágætur fundarmaður orðaði það ,,við erum með perlufesti af náttúruperlum,, Fundarmenn voru sammála um að Þingeyingar hefðu forskot á flesta aðra landshluta þegar kæmi að áhugaverðum stöðum til að skoða. Í lok fundar þakkaði formaður Framsýnar Guðbjarti fyrir áhugavert erindi og fundarmönnum fyrir komuna og áhugaverðar umræður um atvinnumál.